Örlög hraðtískuflíka frá Shein: Frá Kína til Íslands til Þýskalands
Fötum frá Shein á að skila í fatasöfnunargáma Rauða krossins þó svo að Rauði krossinn vilji ekki sjá föt frá kínverska hraðtískurisanum í verslunum sínum. Örlög fatnaðs frá Shein sem skilað er í fatagáma hér á landi ráðast hjá endurvinnsluaðila í Þýskalandi.
Kjóll sem keyptur er á 700 íslenskar krónur hjá kínverska netverslunarrisanum Shein, og er ef til vill bara notaður í örfá skipti, endar hjá endurvinnsluaðila í Þýskalandi. Það er að segja, ef honum er skilað í fatasöfnunargám Rauða krossins.
Rauði krossinn sendi frá sér tilkynningu í byrjun mánaðarins þar sem greint var frá því að héðan í frá verði allt gert til að forðast að vörur frá Shein endi í fataverslunum Rauða krossins. Flíkum frá Shein á samt sem áður að skila í fatasöfnunargáma Rauða krossins.
Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri fjáröflunar- og kynningarsviðs hjá Rauða krossinum, segir að með ákvörðuninni vilji Rauði krossinn koma í veg fyrir að föt sem kunni að innihalda skaðleg efni endi hjá skjólstæðingum sem félagið úthlutar fötum til eða til viðskiptavina verslana Rauða krossins.
„En það er aldrei hægt að tryggja það. Við vitum hins vegar að það geta farið föt inn í búðir okkar sem áttu ekki að enda þar. En ábyrgðin stendur á endanum hjá neytandanum, hvernig föt hann velur sér,“ segir Björg í samtali við Kjarnann.
„Við hugsum það þannig að við viljum gera það sem við getum til að minnka umferð af þessum fötum hér á landi til okkar skjólstæðinga og viðskiptavina. Það er fyrst og fremst ástæðan.“
Skaðleg efni í flíkum frá kínverskum hraðtískurisa
Ákvörðun Rauða krossins var tekin í kjölfar frétta um eiturefni í fötum frá kínverska tískurisanum Shein. Kjarninn sagði frá því í lok október að hringrásarverslunin Hringekjan, þar sem básaleigjendum gefst kostur á að selja notuð föt, hefur tekið allar vörur frá Shein úr endursölu vegna magns eiturefna í flíkum.
Shein er kínverskt fatafyrirtæki sem hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og er í dag eitt stærsta tískuvörufyrirtæki í heimi. Með tilkomu Shein er hraðinn í tískustraumum orðinn svo mikill að hefðbundnu hraðtískufyrirtækin eins og H&M og Zara blikna í samanburði. Hraðinn gerir það að verkum að gæðin eru lítil sem engin. Dæmi eru um að fötin séu aðeins notuð í eitt skipti, mögulega til að ná góðri mynd á Instagram, áður en þau enda í ruslinu.
Í ítarlegri fréttaskýringu um Shein í Kjarnanum í sumar vísaði Rakel Guðmundsdóttir í rannsóknir sem sýnt hafa að vörur frá Shein innihalda skaðleg efni. Af þeim vörum sem rannsakaðar voru innihélt ein vara af hverjum fimm umtalsvert magn eiturefna, meðal annars blý, PFAS og þalöt. Shein hefur sótt í sig veðrið í netverslun á Íslandi og er með átta prósent hlutdeild í netverslun Íslendinga á fatnaði í erlendum netverslunum.
Allur textíll á að fara í fatsöfnunargámana
Þó svo að Rauði krossinn vilji ekki að föt frá Shein endi í verslunum Rauða krossins eða hjá skjólstæðingum sem þiggja fataúthlutanir frá félaginu á fatnaður frá Shein samt sem áður að fara í fatasöfnunargáma Rauða krossins. Starfsfólk Rauða krossins fer í gegnum fatnaðinn og gerir sitt besta til að koma í veg fyrir að föt frá Shein endi í verslunum Rauða krossins eða hjá skjólstæðingum.
„Við tökum á móti öllum textíl. Við hvetjum fólk eindregið til að setja allan textíl í gámana,“ segir Björg, sem hvetur fólk jafnframt til að setja textílinn í glæran poka ef það getur. „Þá getum við séð hvað er í pokanum og sent það strax í endurvinnslu.“
Aðeins fimm prósent textíls endurnýttur hér á landi
Endurvinnsla á textíl á Íslandi er ekki á forræði Sorpu heldur er hún alfarið í höndum Rauða krossins. Allur textíll úr grenndargámum og frá móttökustöðvum Sorpu fer í flokkunarstöð Rauða krossins. „Allt sem endar í búðum hjá Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu fer í gegnum þessa flokkunarmiðstöð hjá okkur. Það fer í gegnum forflokkun, svo fer það í gegnum fínni flokkun og svo er því pakkað og sent í búðirnar okkar,“ segir Björg.
Árlega safnast á bilinu tvö til þrjú þúsund tonn af fatnaði í söfnunargáma Rauða krossins. Aðeins fimm prósent af því, um 100-150 tonn á ári, fer til skjólstæðinga Rauða krossins eða í verslanir. Restin fer til flokkunaraðila í Bremerhaven í Þýskalandi en sá háttur hefur verið hafður á í tugi ára að sögn Bjargar.
Í Bremerhaven er hver einasta flík handflokkuð en flokkarnir skipta hundruðum. „60 prósent af því sem kemur til þeirra er hægt að nýta aftur. Annað er tætt niður eða fer í gegnum endurvinnslu. Eingöngu níu prósent er ekki hægt að nýta,“ segir Björg.
Metið í Þýskalandi hvort föt eru endurunnin eða tætt niður
Fatnaður frá Shein, sem kom alla leið frá Kína til Íslands, er því sendur áfram til Bremerhaven þar sem örlög hans ráðast. Föt frá Shein fara því mögulega áfram í endurvinnslu þrátt fyrir að rannsóknir sýna að fatnaðurinn innihaldi skaðleg efni.
„Þau eru ekki endilega meðhöndluð þannig að þau eru tætt niður. Ef að þau telja að hægt sé að nýta flíkina aftur þá eru þau ekki að meðhöndla hana þannig að hún fer í tætingu. En reyndin er hins vegar sú að þessi föt hafa þá tilhneigingu að þau endast fremur stutt. Það er flóknara að endurvinna föt sem eru úr miklum gerviþræði, en hvort að það sé nákvæmlega þessi framleiðandi, Shein, sem þau eru að tæta, ég get ekki svarað því,“ segir Björg.
Aukin sala en einnig aukinn kostnaður
Í tilkynningu Rauða krossins frá því í byrjun nóvember segir að ákvörðun varðandi hvernig gengið verður frá fatnaði frá Shein verði tekin í samráði við Sorpu. Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu, segir stöðuna eftir samtal við Rauða krossinn í raun vera óbreytta, það er: Sorpa er þjónustuaðili fyrir Rauða krossinn þar sem fatasöfnunargámar eru á móttökustöðvum Sorpu en Rauði krossinn sinnir áfram þessum hluta úrgangsmála.
Dregið hefur úr fatasóun Íslendinga síðustu fimm ár eftir öran vöxt fimm árin þar á undan. Í fyrra henti hver íbúi að meðaltali 11,5 kílóum af textíl og skóm yfir árið, sem er 3,5 kílóum minna en árið 2016 þegar fatasóun náði hápunkti. Á sama tíma hefur sala í verslunum Rauða krossins aukist jafnt og þétt en kostnaður við endurvinnslu textíls aukist gríðarlega.
Aðspurð hvort það sé of umfangsmikið verkefni fyrir Rauða krossinn að sjá alfarið um endurvinnslu textíls segir Björg: „Þetta er kannski ekki spurning um það heldur er spurning hvort þetta sé arðbært? Í dag þurfum við að hugsa hlutina öðruvísi, þetta er ekki að borga sig með þeim hætti sem við getum sagt að það gerði til dæmis árið 2016 eða 2017.“
Björg segir að meðal verkefna hjá Rauða krossinum í þessum efnum er að horfast í augu við breytta tíma. „Við búum yfir mikilli þekkingu, áratugareynslu, við byrjuðum að safna fötum í seinni heimsstyrjöldinni. En það sem hefur gerst er að magnið er orðið svo mikið og það þýðir það að við erum að framleiða svo mikið, mikið, mikið meira af fötum en við höfum gert fyrir tíu árum síðan, hvað þá tuttugu. Það er orðin meiri samkeppni á milli ódýrs fatnaðar og endurunnins fatnaðar.“
Staðreyndin er sú, að mati Bjargar, að á meðan framleiðsla á fatnaði er jafn mikil eins og hún er núna mun endurunninn fatnaður eiga undir högg að sækja, sama hversu mikið umhverfisvitund eykst.
„Við erum að glíma við svo gríðarlegt magn af ódýrum fötum. Það þýðir að við erum að fá lægra greitt fyrir endurunnin föt, greiðslur frá endurvinnsluaðilum erlendis hafa lækkað marktækt síðan 2016.“
27 prósent söluaukning í verslunum Rauða krossins á þremur árum
Vitundarvakning um umhverfismál hefur orðið á Íslandi á undanförnum árum og sést meðal annars í söluaukningu í verslunum Rauða krossins. „Við erum að sjá bestu sölutölur á þessu ári samanborið við síðustu ár, allt frá 2013 erum við með metmánuði í sölu.“ Björg segir nokkuð snúið að bera söluna í ár saman við sölu síðustu ár, þar spili áhrif kórónuveirufaraldursins inn í þar sem verslanirnar voru lokaðar í langan tíma.
„Við sjáum hins vegar skýr merki um aukinn áhuga á endurnýtingu í búðunum okkar. Ef við berum saman það sem af er ári 2022 við sama tíma á síðasta ári, þá er aukningin 17 prósent en ef við berum saman það sem af er ári 2022 við sama tímabil 2019 þá er söluaukningin 27 prósent.“
Tímabært að endurskoða endurvinnsluferlið
Þó salan hafi aukist í krónum talið hefur kostnaðurinn við útflutning fatnaðs til endurvinnslu aukist gríðarlega á móti. „Kostnaðurinn við að gera það kleift að selja í búðunum hefur aukist á sama tíma alveg gríðarlega mikið.“
Björg segir að kostnaðurinn við að flytja þúsundir tonna af fatnaði úr landi árlega sé kominn á það stig að endurskoða þurfi ferlið í samráði við þá sem koma að málaflokknum, það er Sorpu og Umhverfisstofnun, auk þess sem hún kallar eftir frekari aðkomu stjórnvalda.
Björg segir stöðuna ekki komna á það stig að verði að senda fatnað út. „En við þurfum að skoða hvernig við gerum það öðruvísi.“
„Það er dýrara að flytja á milli landa til endurvinnsluaðila og það er það sem ég þarf að skoða núna, hvernig ég geri það öðruvísi. Þetta er ekki eitthvað sem er bara gert á Íslandi, Rauði krossinn um allan heim er að safna fötum, annars vegar til að gefa skjólstæðingum sínum og hins vegar til sölu í fjáröflunarskyni. En við erum ekki endursöluaðili. Þess vegna þarf þetta samtal, um að við horfum fram á breytingar í þessum geira, að eiga sér stað.“