Mynd: Rauði krossinn/Facebook

Örlög hraðtískuflíka frá Shein: Frá Kína til Íslands til Þýskalands

Fötum frá Shein á að skila í fatasöfnunargáma Rauða krossins þó svo að Rauði krossinn vilji ekki sjá föt frá kínverska hraðtískurisanum í verslunum sínum. Örlög fatnaðs frá Shein sem skilað er í fatagáma hér á landi ráðast hjá endurvinnsluaðila í Þýskalandi.

Kjóll sem keyptur er á 700 íslenskar krónur hjá kín­verska net­versl­un­ar­ris­anum Shein, og er ef til vill bara not­aður í örfá skipti, endar hjá end­ur­vinnslu­að­ila í Þýska­landi. Það er að segja, ef honum er skilað í fata­söfn­un­ar­gám Rauða kross­ins.

Rauði kross­inn sendi frá sér til­kynn­ingu í byrjun mán­að­ar­ins þar sem greint var frá því að héðan í frá verði allt gert til að forð­ast að vörur frá Shein endi í fata­versl­unum Rauða kross­ins. Flíkum frá Shein á samt sem áður að skila í fata­söfn­un­ar­gáma Rauða kross­ins.

Björg Kjart­ans­dótt­ir, sviðs­stjóri fjár­öfl­un­ar- og kynn­ing­ar­sviðs hjá Rauða kross­in­um, segir að með ákvörð­un­inni vilji Rauði kross­inn koma í veg fyrir að föt sem kunni að inni­halda skað­leg efni endi hjá skjól­stæð­ingum sem félagið úthlutar fötum til eða til við­skipta­vina versl­ana Rauða kross­ins.

Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri fjáröflunar- og kynningarsviðs hjá Rauða krossinum. Mynd: Rauði krossinn

„En það er aldrei hægt að tryggja það. Við vitum hins vegar að það geta farið föt inn í búðir okkar sem áttu ekki að enda þar. En ábyrgðin stendur á end­anum hjá neyt­and­an­um, hvernig föt hann velur sér,“ segir Björg í sam­tali við Kjarn­ann.

„Við hugsum það þannig að við viljum gera það sem við getum til að minnka umferð af þessum fötum hér á landi til okkar skjól­stæð­inga og við­skipta­vina. Það er fyrst og fremst ástæð­an.“

Skað­leg efni í flíkum frá kín­verskum hrað­tískurisa

Ákvörðun Rauða kross­ins var tekin í kjöl­far frétta um eit­ur­efni í fötum frá kín­verska tískuris­anum Shein. Kjarn­inn sagði frá því í lok októ­ber að hringrás­ar­versl­unin Hringekj­an, þar sem bása­leigj­endum gefst kostur á að selja notuð föt, hefur tekið allar vörur frá Shein úr end­ur­sölu vegna magns eit­ur­efna í flík­um.

Shein er kín­verskt fata­­fyr­ir­tæki sem hefur vaxið gríð­­ar­­lega á und­an­­förnum árum og er í dag eitt stærsta tísku­vöru­­fyr­ir­tæki í heimi. Með til­­komu Shein er hrað­inn í tísku­­straumum orð­inn svo mik­ill að hefð­bundnu hrað­­tísku­­fyr­ir­tækin eins og H&M og Zara blikna í sam­an­­burði. Hrað­inn gerir það að verkum að gæðin eru lítil sem eng­in. Dæmi eru um að fötin séu aðeins notuð í eitt skipti, mög­u­­lega til að ná góðri mynd á Instagram, áður en þau enda í rusl­inu.

Í ítar­legri frétta­skýr­ingu um Shein í Kjarn­anum í sumar vís­aði Rakel Guð­munds­dóttir í rann­sóknir sem sýnt hafa að vörur frá Shein inni­halda skað­leg efni. Af þeim vörum sem rann­sak­aðar voru inn­­i­hélt ein vara af hverjum fimm umtals­vert magn eit­­­ur­efna, meðal ann­­­ars blý, PFAS og þalöt. Shein hefur sótt í sig veðrið í net­verslun á Íslandi og er með átta pró­sent hlut­deild í net­verslun Íslend­inga á fatn­aði í erlendum net­versl­unum.

Allur textíll á að fara í fat­söfn­un­ar­gámana

Þó svo að Rauði kross­inn vilji ekki að föt frá Shein endi í versl­unum Rauða kross­ins eða hjá skjól­stæð­ingum sem þiggja fata­út­hlut­anir frá félag­inu á fatn­aður frá Shein samt sem áður að fara í fata­söfn­un­ar­gáma Rauða kross­ins. Starfs­fólk Rauða kross­ins fer í gegnum fatn­að­inn og gerir sitt besta til að koma í veg fyrir að föt frá Shein endi í versl­unum Rauða kross­ins eða hjá skjól­stæð­ing­um.

„Við tökum á móti öllum textíl. Við hvetjum fólk ein­dregið til að setja allan textíl í gámana,“ segir Björg, sem hvetur fólk jafn­framt til að setja textíl­inn í glæran poka ef það get­ur. „Þá getum við séð hvað er í pok­anum og sent það strax í end­ur­vinnslu.“

Aðeins fimm pró­sent textíls end­ur­nýttur hér á landi

End­ur­vinnsla á textíl á Íslandi er ekki á for­ræði Sorpu heldur er hún alfarið í höndum Rauða kross­ins. Allur textíll úr grennd­ar­gámum og frá mót­töku­stöðvum Sorpu fer í flokk­un­ar­stöð Rauða kross­ins. „Allt sem endar í búðum hjá Rauða kross­inum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu fer í gegnum þessa flokk­un­ar­mið­stöð hjá okk­ur. Það fer í gegnum for­flokk­un, svo fer það í gegnum fínni flokkun og svo er því pakkað og sent í búð­irnar okk­ar,“ segir Björg.

Árlega safn­ast á bil­inu tvö til þrjú þús­und tonn af fatn­aði í söfn­un­ar­gáma Rauða kross­ins. Aðeins fimm pró­sent af því, um 100-150 tonn á ári, fer til skjól­stæð­inga Rauða kross­ins eða í versl­an­ir. Restin fer til flokk­un­ar­að­ila í Brem­er­haven í Þýska­landi en sá háttur hefur verið hafður á í tugi ára að sögn Bjarg­ar.

Endurvinnsla á textíl á Íslandi er alfarið í höndum Rauða krossins. Fatnaður frá Shein er ekki velkominn í verslanir Rauða krossins vegna eiturefna en er sendur til endurvinnsluaðila í Þýskalandi líkt og 95% alls textíls sem skilað er í fatasöfnunargáma.
Mynd: Erla María Markúsdóttir

Í Brem­er­haven er hver ein­asta flík hand­flokkuð en flokk­arnir skipta hund­ruð­um. „60 pró­sent af því sem kemur til þeirra er hægt að nýta aft­ur. Annað er tætt niður eða fer í gegnum end­ur­vinnslu. Ein­göngu níu pró­sent er ekki hægt að nýta,“ segir Björg.

Metið í Þýska­landi hvort föt eru end­urunnin eða tætt niður

Fatn­aður frá Shein, sem kom alla leið frá Kína til Íslands, er því sendur áfram til Brem­er­haven þar sem örlög hans ráð­ast. Föt frá Shein fara því mögu­lega áfram í end­ur­vinnslu þrátt fyrir að rann­sóknir sýna að fatn­að­ur­inn inni­haldi skað­leg efni.

„Þau eru ekki endi­lega með­höndluð þannig að þau eru tætt nið­ur. Ef að þau telja að hægt sé að nýta flík­ina aftur þá eru þau ekki að með­höndla hana þannig að hún fer í tæt­ingu. En reyndin er hins vegar sú að þessi föt hafa þá til­hneig­ingu að þau end­ast fremur stutt. Það er flókn­ara að end­ur­vinna föt sem eru úr miklum gervi­þræði, en hvort að það sé nákvæm­lega þessi fram­leið­andi, Shein, sem þau eru að tæta, ég get ekki svarað því,“ segir Björg.

Aukin sala en einnig auk­inn kostn­aður

Í til­kynn­ingu Rauða kross­ins frá því í byrjun nóv­em­ber segir að ákvörðun varð­andi hvernig gengið verður frá fatn­aði frá Shein verði tekin í sam­ráði við Sorpu. Gunnar Dofri Ólafs­son, sam­­skipta- og við­­skipta­­þró­un­­ar­­stjóri Sorpu, segir stöð­una eftir sam­tal við Rauða kross­inn í raun vera óbreytta, það er: Sorpa er þjón­ustu­að­ili fyrir Rauða kross­inn þar sem fata­söfn­un­ar­gámar eru á mót­töku­stöðvum Sorpu en Rauði kross­inn sinnir áfram þessum hluta úrgangs­mála.

Dregið hefur úr fata­sóun Íslend­inga síð­ustu fimm ár eftir öran vöxt fimm árin þar á und­an. Í fyrra henti hver íbúi að með­al­tali 11,5 kílóum af textíl og skóm yfir árið, sem er 3,5 kílóum minna en árið 2016 þegar fata­sóun náði hápunkti. Á sama tíma hefur sala í versl­unum Rauða kross­ins auk­ist jafnt og þétt en kostn­aður við end­ur­vinnslu textíls auk­ist gríð­ar­lega.

Aðspurð hvort það sé of umfangs­mikið verk­efni fyrir Rauða kross­inn að sjá alfarið um end­ur­vinnslu textíls segir Björg: „Þetta er kannski ekki spurn­ing um það heldur er spurn­ing hvort þetta sé arð­bært? Í dag þurfum við að hugsa hlut­ina öðru­vísi, þetta er ekki að borga sig með þeim hætti sem við getum sagt að það gerði til dæmis árið 2016 eða 2017.“

Björg segir að meðal verk­efna hjá Rauða kross­inum í þessum efnum er að horfast í augu við breytta tíma. „Við búum yfir mik­illi þekk­ingu, ára­tug­a­reynslu, við byrj­uðum að safna fötum í seinni heims­styrj­öld­inni. En það sem hefur gerst er að magnið er orðið svo mikið og það þýðir það að við erum að fram­leiða svo mik­ið, mik­ið, mikið meira af fötum en við höfum gert fyrir tíu árum síð­an, hvað þá tutt­ugu. Það er orðin meiri sam­keppni á milli ódýrs fatn­aðar og end­urunn­ins fatn­að­ar.“

Stað­reyndin er sú, að mati Bjarg­ar, að á meðan fram­leiðsla á fatn­aði er jafn mikil eins og hún er núna mun end­urunn­inn fatn­aður eiga undir högg að sækja, sama hversu mikið umhverf­is­vit­und eykst.

„Við erum að glíma við svo gríð­ar­legt magn af ódýrum föt­um. Það þýðir að við erum að fá lægra greitt fyrir end­urunnin föt, greiðslur frá end­ur­vinnslu­að­ilum erlendis hafa lækkað mark­tækt síðan 2016.“

27 pró­sent sölu­aukn­ing í versl­unum Rauða kross­ins á þremur árum

Vit­und­ar­vakn­ing um umhverf­is­mál hefur orðið á Íslandi á und­an­förnum árum og sést meðal ann­ars í sölu­aukn­ingu í versl­unum Rauða kross­ins. „Við erum að sjá bestu sölu­tölur á þessu ári sam­an­borið við síð­ustu ár, allt frá 2013 erum við með met­mán­uði í sölu.“ Björg segir nokkuð snúið að bera söl­una í ár saman við sölu síð­ustu ár, þar spili áhrif kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins inn í þar sem versl­an­irnar voru lok­aðar í langan tíma.

„Við sjáum hins vegar skýr merki um auk­inn áhuga á end­ur­nýt­ingu í búð­unum okk­ar. Ef við berum saman það sem af er ári 2022 við sama tíma á síð­asta ári, þá er aukn­ingin 17 pró­sent en ef við berum saman það sem af er ári 2022 við sama tíma­bil 2019 þá er sölu­aukn­ingin 27 pró­sent.“

Tíma­bært að end­ur­skoða end­ur­vinnslu­ferlið

Þó salan hafi auk­ist í krónum talið hefur kostn­að­ur­inn við útflutn­ing fatn­aðs til end­ur­vinnslu auk­ist gríð­ar­lega á móti. „Kostn­að­ur­inn við að gera það kleift að selja í búð­unum hefur auk­ist á sama tíma alveg gríð­ar­lega mik­ið.“

Björg segir að kostn­að­ur­inn við að flytja þús­undir tonna af fatn­aði úr landi árlega sé kom­inn á það stig að end­ur­skoða þurfi ferlið í sam­ráði við þá sem koma að mála­flokkn­um, það er Sorpu og Umhverf­is­stofn­un, auk þess sem hún kallar eftir frek­ari aðkomu stjórn­valda.

Björg segir stöð­una ekki komna á það stig að verði að senda fatnað út. „En við þurfum að skoða hvernig við gerum það öðru­vísi.“

„Það er dýr­ara að flytja á milli landa til end­ur­vinnslu­að­ila og það er það sem ég þarf að skoða núna, hvernig ég geri það öðru­vísi. Þetta er ekki eitt­hvað sem er bara gert á Íslandi, Rauði kross­inn um allan heim er að safna föt­um, ann­ars vegar til að gefa skjól­stæð­ingum sínum og hins vegar til sölu í fjár­öfl­un­ar­skyni. En við erum ekki end­ur­sölu­að­ili. Þess vegna þarf þetta sam­tal, um að við horfum fram á breyt­ingar í þessum geira, að eiga sér stað.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnErla María Markúsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar