Pólland breiðir út faðminn fyrir þau sem Rússar hrekja á brott
Stöðugur straumur úkraínsks flóttafólks er enn yfir landamærin til Póllands. Sum segjast þó vita að Pólland geti ekki hýst mikið fleiri og ætla sér að halda lengra til vesturs. Blaðamaður Kjarnans heimsótti landamærabæinn Medyka á dögunum.
Ein helsta landamærastöðin á milli Póllands og Úkraínu er í bænum Medyka, sem liggur á milli pólska bæjarins Przemysl og úkraínsku borgarinnar Lviv. Hálfgert hamfaraástand ríkti á landamærunum fyrstu dagana og vikurnar eftir að innrás Rússa hófst. Það var lítið sem tók við þeim stríða straumi fólks sem yfir landamærin kom og flutningar fólks frá Medyka og öðrum bæjum voru að nokkru leyti í höndum einstaklinga, íbúa Póllands og annarra Evrópuríkja, sem þustu af stað og sóttu fólk á sínum einkabílum niður að landamærunum.
Auk þess vantaði sárlega nauðsynlegan varning fyrir fólk sem var að koma yfir landamærin, margt hvert eftir erfitt ferðalag þvert yfir Úkraínu. Það var brýn þörf fyrir hreinlætisvörur, bleyjur og barnamat, einna helst. Þegar blaðamaður Kjarnans kom til Medyka fyrir síðustu helgi var staðan þó orðin allt önnur.
Janek, rúmlega tvítugur pólskur námsmaður, sjálfboðaliði og rússneskumælandi túlkur, sem var blaðamanni innan handar í för suður að landamærunum, hafði verið þar einungis viku fyrr að túlka fyrir flóttafólk.
Hann sagði að þá hefði ringulreiðin verið mun meiri, viðvera alþjóðlegra hjálparsamtaka minni og fólkið sem streymdi inn í Pólland að auki mun fleira. „Ég er mjög ánægður að sjá með hvernig skipulagið hérna er orðið,“ sagði Janek.
Þar sem fólk kemur fótgangandi yfir landamærin er búið að koma upp tjöldum hjálparsamtaka til beggja handa meðfram um 200 metra löngum gangstíg. Þykkur matarilmur lá yfir öllu svæðinu. Bæði læknar og sálfræðingar á vegum hjálparsamtaka eru til taks, fyrir þá sem á þurfa að halda. Pólsk símafyrirtæki gefa SIM-kort með ókeypis gagnamagni.
Blaðamaður Kjarnans ræddi við nokkra einstaklinga sem höfðu verið að koma yfir landamærin eftir að hafa komið með rútum frá borginni Lviv. Þau höfðu þurft að bíða í nokkra klukkutíma í biðröðum Úkraínumegin landamæranna eftir því að komast í gegn og voru fegin að vera komin yfir og ánægð með móttökurnar.
Ákvað að koma sér frá Tsjernihív áður en allar leiðir lokuðust
Blaðamaður ræddi við tvær ungar konur sem áttu það sameiginlegt að vera á leið frá Úkraínu til þess að sinna vinnu sinni frá öðrum stöðum. Anya er viðskiptafræðingur frá Tsjernihív, norðan við Kyiv. Heimahérað hennar hefur verið vettvangur töluverðra átaka undanfarnar vikur og Anya ákvað að koma sér í burtu á meðan það væri enn mögulegt.
„Ég fór til Lviv fyrir um fjórum dögum og eftir það var brú sem tengir Tsjernihív við Kyiv sprengd upp. Svo ég komst í burtu. Við erum bara með þrjár brýr sem tengja okkur við Kyiv og tvær hafa þegar verið sprengdar og það er bara ein lestarstöð og hún er ekki lengur virk. Það er ekki lengur hægt að komast með lest í burtu,“ segir Anya, sem er á leið til Berlínar.
„Ég er búin að vera að starfa í fjarvinnu fyrir fyrirtæki sem er með skrifstofur í Berlín. Þau buðu mér að koma þangað og vinna,“ segir Anya, sem er viðskiptafræðingur og starfar við greiningar.
Hún nefnir að henni þyki það ansi kaldhæðnislegt að vera nú á leið til Berlínar sem flóttamaður, en hún hafði ætlað sér að fara til borgarinnar í ferðalag annað hvort í lok febrúar eða mars. En svo hófst innrásin og allir draumar um ferðalög og eðlilegt líf hurfu eins og hendi væri veifa.
Hún sér ekki fyrir sér að ílengjast í Berlín. Spurð hvort hún hyggist snúa aftur til Úkraínu er stríðinu linnir svarar hún:
„Auðvitað! Við þurfum að endurbyggja bæina okkar og ég vil taka þátt í því.“
Rússarnir brenndu allt sem hún átti
Anastasía er um þrítugt og kemur frá Karkív. Hún er búin að missa flestar sínar veraldlegu eigur vegna innrásarinnar. „Rússarnir eyðilögðu íbúðina mína. Hún brann og við misstum allt sem við áttum. Þeir brenndu líka bílinn minn. En ég er með áætlun. Ég er í vinnu í Karkív og þau eru að færa okkur til Eistlands.“
Hún var ein á ferð, eins og svo margar ungar konur sem streymdu yfir landamærin, en sagðist reyndar hafa eignast vinkonu í rútunni að landamærunum. „Ég er bara búin að þekkja hana í um það bil fimm mínútur. En við erum samt vinkonur,“ segir hún og hlær.
Anastasía sagði ferð sína þvert yfir Úkraínu og til Lviv hafa gengið vel, það hefði þó verið gríðarlega mikið af fólki í lestinni, mun fleiri en henni væri ætlað að bera. En góður andi.
Eiginmaður hennar varð eftir í Úkraínu og tekur þátt í baráttunni gegn innrásarliði Rússa.
„Hann er hermaður. Ég bara bið þess að hann lifi þetta af,“ segir Anastasía.
Fjölskylda og hundur á leið til Þýskalands
Blaðamaður ræddi með aðstoð túlks við fjölskyldu frá Odessa, þrjár systur á miðjum aldri ásamt börnum. Dóttir einnar konunnar, með lítinn hund í fanginu, hafði orð fyrir fjölskyldunni til að byrja með og útskýrði að þau væru einungis fyrst að yfirgefa Úkraínu núna þar sem þau hefðu lítið við að vera.
Hún sjálf sagðist vinna við að dreifa barnamat fyrir heildsölufyrirtæki og að hún hefði ekki farið úr landi fyrr en nú, þar sem hún vildi halda þeirri vinnu gangandi eins lengi og hægt væri. En nú eru sendingar af barnamatnum hættar að berast til borgarinar. Og engin vinna í boði.
Spurð hvort enn væru mörg ungabörn í Odessa sagðist hún vona ekki, þar sem það væri ekki mikill matur til skiptanna fyrir yngstu börnin. „En sjálfboðaliðar reyna að hjálpa til, þeir fara í vöruhús og aka þaðan mat til mæðra sem ekki geta fætt börnin sín,“ segir hún.
Fjölskyldan var þreytt eftir langt og strangt ferðalag frá Odessa, en lestarferðin til Lviv hafði tekið heila sextán tíma og þaðan héldu þau beint áfram för sinni að landamærunum. Næst var stefnan sett þvert yfir Pólland, til Þýskalands.
„Við vitum að það er ekki lengur neitt pláss í Póllandi, og Þjóðverjar eru mjög hjálpsamir,“ sagði ein systranna. Hún sagðist vilja koma á framfæri þakklæti til Pólverja.
„Pólverjar eru hetjur, við erum svo þakklát, við kyssum fætur ykkar,“ sagði hún.
Skóli orðinn að birgðastöð
Í landamærabænum Medyka hefur eðlilegt líf heimamanna umturnast á undanförnum vikum. Blaðamaður hélt þangað frá Varsjá ásamt tveimur sjálfboðaliðum með skottið fullt af varningi.
„Ef við ætlum að fara á annað borð þá verðum við að fylla bílinn. Nota allt plássið, annað er bara heimskulegt,“ sagði Gaspard, 24 ára gamall Parísarbúi, sem er búinn að vera við sjálfboðaliðastörf í Póllandi og vesturhluta Úkraínu undanfarnar vikur.
Aðallega voru þetta bleyjur, svefnpokar og barnamatur, sem Gaspard hlóð í skottið. Áður en haldið var að landamærastöðinni afhenti hann sendinguna í birgðastöð sem búið er að koma upp í grunnskólanum í Medyka, í samstarfi ýmissa hjálparsamtaka, slökkviliðsins og héraðsyfirvalda.
Í porti á bak við skólann var fullt af vörum og inni í íþróttasal var enn meira af allskyns varningi. Mat, lyfjum og lækningavörum. Mariusz, sjálfboðaliði sem stýrði aðgerðum á svæðinu, sagði að vörurnar væru að mestu á leiðinni yfir til Úkraínu.
„Svona 90 til 95 prósent fer beint yfir landamærin,“ sagði Mariusz, en þörfin fyrir hjálpargögn á landamærunum sjálfum hafði farið þverrandi frá því sem var í upphafi. Vörubílar aka þess í stað nær stöðugt með varning til Lviv í Úkraínu, hvaðan varningnum er svo dreift víðar um landið með lestum og vörubílum.
„Nú höfum við nóg hér,“ sagði Mariusz og sagði svo við blaðamann að það sem helst væri farið að vanta handan landamæranna væri matur, endingargóður matur til þess að senda til austurhluta Úkraínu.
„Pasta, dósamatur, þurrmjólk fyrir börnin,“ sagði Mariusz, áður en hann rauk í burtu til þess að taka á móti næstu sendingu.
Lesa meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna