Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur ekki rétt að fallast á tillögur Bílgreinasambandsins, Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) um að framlengja ákveðnar skattaívilnanir vegna tengiltvinnbíla. Kostnaður ríkissjóðs vegna áframhaldandi ívilnana, sem eru ekki taldar kostnaðarskilvirkar, sé gróflega áætlaður um 20 milljarðar króna. Þeim fjármunum sé betur varið í aðrar stuðningsaðgerðir við orkuskipti í vegasamgöngum.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem ráðuneytið hefur sent Alþingi með samantekt um umsagnir sem bárust um bandorm vegna fjárlagafrumvarps ársins 2022 og viðbrögð þess við þeim.
Í bandorminum – frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum vegna fjárlagafrumvarps næsta árs – er lagt til að gistináttaskattur, sérstakt gjald sem leggst ofan á hverja selda einingu næturgistingar, verði ekki innheimtur fyrr en árið 2024.
Hagsmunasamtökin þrjú sendu inn sameiginlega umsögn við bandorminn, en þar kom fram að virðisaukaskattsívilnun vegna tengiltvinnbíla, sem ganga bæði fyrir rafmagni og jarðefnaeldsneyti, myndi helmingast um komandi áramót, úr 960 í 480 þúsund krónur. Þá munu ívilnanirnar sennilega falla niður snemma á næsta ári þegar viðmiði um 15 þúsund slíkar bifreiðar hérlendis verður náð, en fjöldinn var kominn upp í 13.226 þann 7. desember síðastliðinn. Til samanburðar var fjöldi rafmagnsbíla á sama tíma um tíu þúsund.
Á meðal félaga í Bílgreinasambandinu eru bílaumboð, á meðal félaga í SAF eru bílaleigufyrirtæki og á meðal félaga í SVÞ eru stærstu olíufélög á Íslandi, sem byggja stærstan hluta veltu sinnar á sölu á jarðefnaeldsneyti.
Hlutfallið hæst í Garðabæ og á Seltjarnarnesi
Virðisaukaskattur hefur verið felldur niður, upp að vissu marki, vegna innflutnings á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbílum frá því um mitt ár 2012. Frá upphafi nema þessar ívilnanir 21,1 milljarði króna. Af þeirri upphæð hafa 11,4 milljarðar króna fallið til vegna tengiltvinnbíla, þar af 3,5 milljarðar króna í ár.
Tillögur hafa verið lagðar fram á Alþingi um að afnema skattafslátt vegna tengiltvinnbíla, en breytingum hefur tvívegis áður verið frestað. Í desember 2019 ákvað efnahags- og viðskiptanefnd að taka undir sjónarmið bílainnflytjenda og Grænnar orku og fresta niðurfellingu afsláttarins. Þá var ákveðið að fresta því að ívilnanir vegna tengiltvinnbíla yrðu felldar niður við lok árs 2020, og þess í stað yrðu þær lækkaðar í áðurnefndum skrefum.
Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að rafmagns- og tengiltvinnbílum hafi fjölgað mikið á skömmum tíma, og að það sé merki um að orkuskipti í samgöngum séu komin á fullt skrið. Hlutdeild þeirra jókst úr 22 prósent allra bíla árið 2019 í 46 prósent í fyrra og 56 prósent það sem af er þessu ári. „Í fólksbílaflota landsmanna eru rafmagns- og tengiltvinnbílar nú tíu prósent, þar af sex prósent tengiltvinnbílar og fjögur prósent rafmagnsbílar. Á höfuðborgarsvæðinu í heild er hlutfallið ellefu prósent og á landsbyggðinni er það fimm prósent. Þegar einstök sveitarfélög eru skoðuð má sjá að hæsta hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbíla er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi eða um 16 prósent.“
Tengiltvinnbílarnir helsta hindrun Norðmanna
Ísland hefur sett sér markmið um að ná kolefnishlutleysi og fullkomnum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040. Gangi það eftir mun Ísland væntanlega verða fyrst allra ríkja óháð jarðefnaeldsneyti.
Í minnisblaðinu segir að til að ná settum markmiðum þurfi aðgerðir stjórnvalda að vera markvissar. „Sé litið til Noregs þar sem hraðast hefur gengið að ná upp hlutdeild rafbíla beinast VSK-ívilnanir eingöngu að hreinorkubílum. Í norska fjárlagafrumvarpinu 2022 eru lagðar til fjölþættar breytingar til að ljúka orkuskiptunum og auka tekjur ríkisins af ökutækjum á ný. Þar er m.a. lagt til að öllum stuðningi við tengiltvinnbíla, sem felast m.a. í lægri bifreiðagjöldum, verði hætt og stefnt að því að allir nýskráðir bílar verði hreinorkubílar árið 2025. Ein helsta hindrunin fyrir því að Noregur nái markmiðum sínum um að allar nýjar fólksbifreiðar og léttar sendibifreiðar verði hreinorkubifreiðar árið 2025 er fjöldi tengiltvinnbíla sem hefur aukist þar í landi síðustu ár. Vegna þessa er það markmið norskra stjórnvalda að draga til muna úr skattalegum hvötum fyrir tengiltvinnbifreiðar, segir fiármálaráðherra Noregs í október 2021.“
Með því að ívilna einungis hreinum rafmagnsbílum verði þeir mun hagkvæmari kostur fyrir þá sem vilja fara í orkuskipti.
„Óskilvirk aðgerð sem orki tvímælis“
Árið 2020 ákvað Alþingi, eftir tillögu efnahags- og viðskiptanefndar þar um, að ganga enn lengra við að hvetja bílaleigur til orkuskipta. Var það gert með því að tryggja leigunum rétt til afsláttar af vörugjöldum sem lögð eru á bifreiðar við innflutning gegn skuldbindingu um að hlutur rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða nemi 15 prósent af heildarinnkaupum þeirra árið 2021 og 25 prósent 2022.
Þetta var gert á þeim grundvelli að bílaleigur kaupi inn stóran hluta allar nýskráðra bifreiða hérlendis, selji þær svo á almennum markaði eftir tiltekin tíma og hafi því veruleg áhrif á þróun og samsetningu bílaflotans á Íslandi.
Tekjutap ígildi fórnaðra möguleika
Á grundvelli alls framangreinds, og þess gífurlega kostnaðar sem tillögur hagsmunasamtakanna þriggja um áframhaldandi ívilnanir fyrir tengiltvinnbíla á greiðslu virðisaukaskatts myndu hafa í för með sér fyrir ríkissjóð, sem ráðuneytið áætlar gróflega að séu um 20 milljarðar króna, er það niðurstaða þess að ekki sé rétt að framlengja ívilnanirnar.
Að mati ráðuneytisins yrði aðgerðin einfaldlega ekki kostnaðarskilvirk aðgerð í loftlagsmálum enda séu ívilnanir fyrir tengiltvinnbíla „dýr aðgerð í krónum talin í samanburði við aðrar stuðningsaðgerðir við orkuskipti í vegasamgöngum.“ Tekjutap ríkisins vegna ívilnana sé ígildi fórnaðra möguleika á að veita framlög til annarra aðgerða að sama markmiði, svo sem hleðsluinnviða, rafvæðingar hafna eða annars.