Sæbraut verði 1+1 vegur á löngum kafla í meira en tvö ár
Til að byggja Sæbrautarstokk þarf að grafa níu metra ofan í jörðina á rúmlega þrjátíu metra breiðum og kílómetralöngum kafla, þar af um fimm metra beint ofan í klöpp. Áætlað er að það þurfi 50-70 tonn af sprengiefni í framkvæmdina, sem á að taka yfir tvö ár. Samkvæmt tillögu að framkvæmdaáætlun er vonast til að hægt verði að hleypa umferð á stokkinn sem 2+2 veg í upphafi árs 2027.
Gert er ráð fyrir því að um 250 ársverk verði unnin á nærri þriggja ára tímabili við byggingu Sæbrautarstokks, samkvæmt því sem fram kemur í matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum sem Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa skilað inn til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar.
Verkís vann matsáætlunina, sem hægt er að gera athugasemdir við til 5. ágúst næstkomandi.
Sæbrautarstokkurinn á að verða um kílómetra langur, frá Vesturlandsvegi og norður fyrir Kleppsmýrarveg. Samkvæmt tillögu að áfangaskiptingu verkframkvæmda sem sett er fram í matsáætluninni stendur til að framkvæmdir hefjist í september 2024 og standi allt fram í júlí árið 2027.
Sæbrautarstokkurinn er ein framkvæmdanna í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem kynnt var við undirritun hans árið 2019 átti verkið að hefjast í fyrra og ljúka á þessu ári.
Grafa þarf níu metra niður
Þorra framkvæmdartímans verður umferðin um Sæbrautina á 1+1 vegi á þessum kílómetralanga kafla, en til stendur að grafa fyrir stokknum í nokkrum áföngum. Fyrst stendur til að grafa eystri akbraut Sæbrautar alla leið niður á klöpp og byggja brú fyrir gangandi og hjólandi umferð sunnan stokksins, við slaufugatnamótin stóru á Vesturlandsveginum.
Nokkrar byggingar sem standa við austurhlið Sæbrautarinnar í dag „eiga að víkja vegna breytts skipulags“ samkvæmt því sem segir í skýrslunni og má ætla að þær þurfi að víkja samfara framkvæmdunum sem eru áætlaðar í fyrsta áfanga.
Í öðrum áfanga á að flytja umferðina á bráðabirgðaveg sem lagður verður ofan á klöppina á eystri hluta Sæbrautarinnar. Á þessu stigi verður hafist verður handa við að grafa fyrir vestari hluta stokksins.
Í þriðja áfanga verksins á svo að fullgera vestari hluta stokksins, auk þess sem tímabundin brú verður byggð fyrir umferð gangandi og hjólandi nokkru sunnar við Skeiðarvog.
Í fjórða áfanga verður svo umferð bíla flutt í vestari hluta stokksins og gatnamót byggð upp við Kleppsmýrarveg. Á þessu tímabili framkvæmdanna verður sprengt og grafið fyrir eystri hluta stokksins og hann fullgerður.
Það er svo ekki fyrr en í fimmta áfanga verksins sem bílaumferð verður komin á báða hluta stokksins á 2+2 vegi. Áætlað er að það verði í janúar 2027, eins og tillögur að framkvæmdaáætlun líta út.
Framkvæmdum á svo að ljúka síðla árs 2027 og þá á yfirborð stokksins að vera frágengið.
Þurfa 50-70 tonn af sprengiefni
Í matsáætluninni segir að almennt þurfi að grafa sig niður um 9 metra til þess að koma fyrir vegstokki. Áætlað er að á þessum kafla Sæbrautarinnar verði um fjórir metrar af níu laus gröftur, en svo taki við um fimm metrar af klöpp. Enn er þó unnið að frekari jarðvegsrannsóknum á svæðinu.
Í skýrslunni segir að gert sé ráð fyrir því að hluti klapparinnar verði losaður með fleygun, en hluti með sprengingum. Áætlað magn sprengisefnis sem þarf er á bilinu 50-70 tonn.
Fram kemur í matsskýrslunni að lofthæðin í stokknum eigi að verða um 6,5 metrar, en heildarbreiddin stokksins verði almennt um 30 metrar, en þó nokkru meira við rampa að og frá Kleppsmýrarvegi og Skeiðarvogi. Breidd stokksins á botni graftar verður almennt um 34 metrar.
Alls er ráð fyrir að losa þurfi 332.000 rúmmetra af jarðvegsefni á framkvæmdatímanum, en áætlanir gera ráð fyrir því að umframefnið verði keyrt á losunarstaði við framkvæmdasvæðið – „t.d. í Sundahöfn, Bryggjuhverfi eða Sundabraut háð stöðu þeirra framkvæmda á framkvæmdatíma.“
Samgöngutengingar, ný byggð og útivistarsvæði ofan á stokknum
Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar fram til ársins 2024 kemur fram að meginmarkmið með gerð stokka sé að bæta umhverfisgæðin í aðliggjandi byggð og tengja betur saman hverfi sem eru nú aðskilin með umferðarþungum stofnbrautum. Sæbrautarstokkurinn mun einnig greiða götu Borgarlínunnar, sem á að þvera núverandi legu Sæbrautarinnar.
Ofan á stokknum og á svæðunum sem í dag fara undir veghelgunarsvæði Sæbrautarinnar verður einnig hægt að skipuleggja nýja byggð, útivistarsvæði og fleira. Borgaryfirvöld í Reykjavík völdu í febrúar síðastliðnum eina tillögu um skipulag ofan á stokknum, frá Arkís og fleirum, til þess að vinna áfram með í kjölfarið á því að ráðist var í hugmyndaleit, þar sem fimm teymi settu fram tillögur sínar að skipulagi í kringum stokkinn.
Tillögur teymanna fimm gerðu allar ráð fyrir því að ofan á stokknum og til hliðar við hann gæti orðið talsvert mikið magn bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæðis eða umfangsmikil græn svæði, auk tengistöðvar fyrir Borgarlínu, sem á að verða þungamiðja í nýrri Vogabyggð.
Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar misritaðist að verkfræðistofan Efla hefði unnið matsáætlunina sem hér er til umfjöllunar. Hið rétta er að Verkís vann matsáætlunina.
Lestu meira
-
10. janúar 2023Myndu að „sjálfsögðu ekki“ sætta sig við verulegar tafir á Axarvegi
-
9. janúar 2023Þegar það snjóaði inn um anddyri Íslands
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
20. desember 2022Eysteinn Þórir hreppti Hríseyjarferjuna
-
20. desember 2022Ríkið leggur 15 milljarða króna Keldnalandið inn í Betri samgöngur
-
17. desember 2022Bjarni tók upp hanskann fyrir almenningssamgöngur
-
17. desember 2022Samgöngur á landi – í hinu stóra samhengi orku- og auðlindadrifins skattkerfis
-
8. desember 2022Betri samgöngur fá 900 milljónir úr ríkissjóði vegna tafa á flýti- og umferðargjöldum