Sænsk stjórnvöld hafa þungar áhyggjur af síauknum fjölda þeirra sem árlega látast, eða særast alvarlega, af völdum skotvopna. Og átökum þar sem skotvopn koma við sögu. Og þær áhyggjur eru ekki ástæðulausar, Svíar skera sig úr meðal ríkja Evrópu í þessum efnum.
Í Svíþjóð er hlutfall þeirra sem látast eftir að hafa orðið fyrir skoti 4 dauðsföll á hverja milljón íbúa en meðaltalið í Evrópu er 1,6 á hverja milljón íbúa. Mismunurinn er sláandi. Tölurnar eru byggðar á rannsókn sænsku stofnunarinnar, Brå, sem vinnur að því að draga úr glæpum og afbrotum. Svíþjóð trónir nú á toppi þeirra ríkja þar sem flest ungmenni (undantekningalítið karlmenn) á aldrinum 20-29 ára látast eftir að hafa orðið fyrir skoti. Í þessum aldurshópi í Svíþjóð hefur hlutfallið aukist ár frá ári frá síðustu aldamótum og er nú 18 á hverja milljón íbúa en er frá 0 upp í 4 í flestum öðrum Evrópulöndum. Í Hollandi, sem er næstefst í þessum hópi, er hlutfallið 6 á hverja milljón íbúa.
Ástæðurnar uppgjör í undirheimum
Að sögn Klöru Hradilova Selin sem hafði umsjón með rannsókn Brå er skýringu þessarar miklu aukningar í Svíþjóð að stærstum hluta að finna í uppgjöri glæpagengja þar sem tekist er á um „eiturlyfjamarkaðinn“ þar sem miklir fjármunir eru í húfi. „Slík átök eru ekki einskorðuð við Svíþjóð en hafa einhverra hluta vegna ekki haft sömu áhrif í öðrum löndum í Evrópu,“ sagði Klara Hradilova Selin í viðtali.
Nú um stundir er Stokkhólmur sú borg í Svíþjóð þar sem skotárásir eru tíðastar, á tímabili tróndi Gautaborg á þessum toppi en í Malmö þar sem átök af þessu tagi voru mjög tíð hefur þeim fækkað. Dagblaðið Sydsvenskan greindi nýlega frá því að í Malmö hafi skotárásir náð hámarki árið 2017, það ár voru þær samtals 65 talsins. Árið 2020 voru slíkar árásir 20 talsins. Þetta er mikil breyting þótt lögreglu og borgaryfirvöldum þyki að enn betur þurfi að gera. Ástæðu þessarar fækkunar í Malmö telja yfirvöld að þakka megi verkefninu „Sluta skjut“ sem sett var á laggirnar árið 2018.
Ólíkt í Svíþjóð og Danmörku
Í rannsóknarskýrslu Brå kemur fram að í Danmörku fjölgaði þeim sem létust eða særðust alvarlega á árunum 2012 til 2015, en fækkaði síðan. Í tölum danska dómsmálaráðuneytisins kom fram að um það bil 10 prósent dauðsfalla af völdum skotvopna átti sér stað í heimi glæpagengjanna. Í öðrum löndum Evrópu voru tölurnar svipaðar. Í Svíþjóð var þessi tala langtum hærri, 25 prósent. Sjö af hverjum tíu morðum af völdum skotvopna í Svíþjóð eiga sér stað í stórborgunum Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö. Flestar í Stokkhólmi. Skotárásir í stórborgunum tengjast iðulega hefnd, að gjalda líku líkt. Slíkt er ekki einskorðað við Svíþjóð.
Ekki heldur sú staðreynd að skotárásir eiga sér oftast stað í hverfum sem yfirvöld skilgreina sem viðkvæm ( lág laun, atvinnuleysi, blönduð þjóðerni) og ólögleg sala vopna fer fram.
Sænsk stjórnvöld horfa til Danmerkur
Þegar Magdalena Andersson (sósíaldemókrati) varð forsætisráðherra Svíþjóðar, í nóvember á síðasta ári, lýsti hún því yfir að eitt helsta baráttumál hennar yrði barátta gegn glæpagengjum og svokölluðum sérsamfélögum sem þrifist hafa til hliðar við samfélagið og hafa önnur viðmið og lögmál en samfélagið að öðru leyti. Í þessum efnum hafa sænsk stjórnvöld horft yfir sundið til Danmerkur, einkum til starfsemi sem gengur undir nafninu SSP (Skole, Social forvaltning og Politi). SSP er ekki nýtt af nálinni en hefur verið eflt til muna á síðustu árum. Starfsemi SSP byggir á samstarfi, skóla, félagsmálayfirvalda og lögreglu. Allt miðast við að fyrirbyggja og draga úr afbrotum ungmenna undir 18 ára aldri.
Sænskir ráðherrar í námsferð
Á þriðjudaginn í liðinni viku (21. júní) fóru tveir sænskir ráðherrar í námsferð (orðalag annars ráðherrans) til Danmerkur. Þetta voru þau Lena Hallengren félagsmálaráðherra og Anders Ygeman ráðherra innflytjendamála. Þau hittu embættismenn, starfsfólk félagsmálastofnana og ýmsa fleiri. Sænsku ráðherrarnir sem vörðu öllum deginum í námsferðina sögðu að Svíar hefðu gert eitt og annað til að draga úr glæpastarfsemi. „Við höfum á síðustu 10 – 15 árum einbeitt okkur að harðari refsingum en hins vegar ekki gert nægilega mikið til að uppræta samfélög einstakra hópa (parallelsamfundene). Til að berjast gegn glæpagengjum verðum við að berjast gegn kynþáttaaðskilnaði. Þarna höfum við sofið á verðinum,“ sagði Anders Ygman.
Verða að berjast gegn kynþáttaaðskilnaði
Sænsku ráðherrarnir greindu frá því að þar í landi hefðu refsingar verði hertar í tíð núverandi ríkisstjórnar. Refsing fyrir að eiga óskráð og ólögleg vopn er nú tveggja ára fangelsi. Þetta hefur leitt til þess að mun fleiri en áður sitja nú inni og það hefur mikil áhrif. „Vitneskjan um refsinguna fyrir að eiga ólöglegt vopn hefur mikil áhrif,“ sagði Lena Hallengren.
„Við höfum á síðustu 10 – 15 árum einbeitt okkur að refsingum en hins vegar ekki gert nægilega mikið til að uppræta samfélög einstakra hópa (parallelsamfundene). Til að berjast gegn glæpagengjum verðum við að berjast gegn kynþáttaaðskilnaði. Þarna höfum við sofið á verðinum,“ sagði Anders Ygeman. Og bætti við „fyrirbyggjandi aðgerðir skipta mestu, þegar litið er til lengri tíma“.
Lærdómsrík ferð
Sænsku ráðherrarnir voru sammála um að námsferðin hefði verið lærdómsrík og nefndu einkum SSP. Þeir voru líka á einu máli um að uppræting kynþáttaaðskilnaðar og hinna svokölluðu hliðarsamfélaga væri mjög sterkt vopn í upprætingu glæpa og ofbeldis. „Þarna eigum við Svíar margt ólært og það hefur námsferðin sannfært okkur um, enn betur en áður.“