Þegar hver könnunin á fætur annarri sýnir gríðarlegan stuðning við íslensku Píratana er ekki úr vegi að líta til Svíþjóðar þar sem hreyfingin varð til árið 2006. Flokkarnir eru ekki að fullu sambærilegir þótt þar megi auðvitað finna ákveðin hugmyndafræðileg líkindi. Ber þar helst að nefna áhersluna á borgarleg réttindi og rétt einstaklinga til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi auk tækifæra sem felast í nýju upplýsingasamfélagi. Grunnstefnu Pírata á Íslandi má lesa hér en henni svipar mjög til stefnu sænska systurflokksins. Hins vegar er saga sænsku Píratanna ágætis áminning um þau vandamál sem fylgja tímabundinni velgengni og baráttu flokksmanna um stöður og stefnu.
Skrautlegur stofnandi vakti umtal
Þann 1. janúar árið 2006 tilkynnti Rickard Falkvinge á spjallborði að hann hefði stofnað nýja síðu á léninu www.piratpartiet.se. Innleggið var nafnlaust og hann hefur sjálfur lýst því hversu sáttur hann var eftir fyrstu heimsóknina á síðuna. Hann grunaði aldrei að nokkrum dögum síðar yrði hann kominn í heimsfréttirnar, hvað þá að milljónir manna myndu skoða síðuna á nokkrum dögum. Þann 15. febrúar hafði flokkurinn verið formlega skráður sem stjórnmálaflokkur og í kjölfar aðgerða gegn deilisíðunni Pirate Bay fjölgaði flokksmönnum ört. Í kosningunum í september árið 2006 fékk flokkurinn um 35 þúsund atkvæði, 0,63 prósent af heildinni.
Flokkurinn hélt hins vegar áfram að vaxa og barátta gegn auknu eftirliti og frelsi á netinu fékk mikinn hljómgrunn. Í Skólakosningunum árið 2009 fékk flokkurinn 19,1 prósent atkvæða í Evrópuþingskosningum og var því orðinn stærsti flokkur Svíþjóðar hjá þessum aldurshópi. Skólakosningar fara fram í efri bekkjum grunnskóla og menntaskólum og hafa engin raunveruleg áhrif, en eiga að kynna börn og unglinga fyrir stjórnmálum og rökræðum um málefni líðandi stundar. Eins og á Íslandi virðist málflutningur Pírata ná sérstaklega vel til þessa hóps. Það sýndi sig svo í kosningum til Evrópuþingsins sama ár að meðbyrinn var mikill. Píratar fengu 7,1 prósent atkvæða og einn þingmann á Evrópuþinginu. Við breytingar í kjölfar Lissabon-sáttmálans bættist svo einn Pírati við í desember 2009.
Hinn umdeildi stofnandi Pírata-hreyfingarinnar, Rickard Falkvinge.
Vonbrigðin mikil í þingkosningum 2010
Píratar fóru með gríðarlegar væntingar inn í kosningabaráttuna árið 2010. Niðurstaðan olli þó miklum vonbrigðum því flokkurinn hlaut aðeins 0,65 prósent atkvæða, litlu fleiri en fjórum árum áður. Þetta þýddi meðal annars að flokkurinn fékk ekki opinberan fjárstuðning. Reyndar voru kosningarnar árið 2010 minnisstæðar að öðru leyti því það ár náðu Svíþjóðardemókratar inn á þing í fyrsta sinn. Enda litaðist kosningabaráttan af umræðu um innflytjendur og öryggismál á meðan að áherslur Pírata fengu ekki mikla athygli fjölmiðla. Erfitt er að segja nákvæmlega hvers vegna Pírötum gekk ekki betur í þingkosningunum. Að einhverju leyti má rekja það til takmarkaðrar fjölmiðlaumfjöllunar, en í Svíþjóð er venjan að flokkar sem ekki eru taldir eiga möguleika á þingsætum fá takmarkaðan tíma í sjónvarpi og eru ekki með í umræðuþáttum. Einnig hefur verið bent á að fólk kjósi öðru vísi í Evrópuþingkosningum en þingkosningum, að þar leyfi fólk sér að taka ákvörðun á öðrum forsendum en þegar kosið er um skatta, menntun og heilbrigðismál.
Pírötum var legið á hálsi fyrir að hafa óraunhæfar skoðanir á ýmsum málum, sagt var að þeir lifðu í sýndarheimi netsins og hefðu engin svör við hefðbundnum pólitískum spurningum.
Hins vegar verður ekki litið framhjá því að Falkvinge hafði vakið athygli fyrir vægast sagt óhefðbundna framkomu. Í desember árið 2008 skrifaði hann á bloggsíðuna sína að hann væri nánast gjaldþrota og gæti ekki starfað áfram fyrir flokkinn nema hann fengi stuðning. Pírataflokkurinn hafði ekki efni á því að hafa starfsmann í vinnu og því lifði formaðurinn á framlögum frá almenningi næstu mánuði sem yfirleitt námu á milli 20 og 100 krónum sænskum frá hverjum og einum. Í maí árið 2009 skrifaði hann svo á Facebook síðuna sína að hann væri að leita að konum til að sofa hjá á kosningaferðalagi um Svíþjóð. Líklega er óhætt að segja að þetta sé ekki hefðbundið innlegg frá flokksformanni, en í raun er ekkert við það að athuga að einhleypt fólk segi opinberlega að það sé að leita sér að félagsskap. Hvort það sé klókt er svo annað mál.
Barnaklámsumræða skaðaði flokkinn
í kosningabaráttunni 2010 sagði Falkvinge í viðtali að endurskoða þyrfti lög sem meðal annars fjölluðu um vörslu barnakláms. Í viðtali við sænska útvarpið sagði hann að tjáningar- og upplýsingafrelsið þyrfti að verja og þess vegna ætti ekki að refsa fólki fyrir að vera með myndir eða texta í tölvunni sem skilgreina mætti sem barnaklám. Viðbrögðin við yfirlýsingunni voru gríðarleg og kom gagnrýnin meðal annars innan úr flokki Pírata. Enda dró formaðurinn í land degi síðar og lýsti því yfir að hann hefði haft rangt fyrir sér, banna þyrfti fólki að skoða myndir þar sem brotið væri á börnum. Ástæðan fyrir því að hann vakti athygli á lögunum var hins vegar Mangamálið svo kallað en í því var sænsku þýðandi ákærður fyrir vörslu barnakláms vegna japanskra teiknimyndasagna sem hann þýddi yfir á sænsku. Málið vakti gríðarlega athygli og sænsku blaðamannasamtökin gagnrýndu ákæruna harðlega. Í kjölfar yfirlýsinga Falkvinge kom formaður samtakanna meðal annars fram og tók undir að endurskoða þyrfti barnaklámslögin.
Skaðinn var hins vegar orðinn. Pírötum var legið á hálsi fyrir að hafa óraunhæfar skoðanir á ýmsum málum, sagt var að þeir lifðu í sýndarheimi netsins og hefðu engin svör við hefðbundnum pólitískum spurningum. Þann 1. janúar 2011, nákvæmlega 5 árum eftir að hann stofnaði flokkinn, hætti Falkvinge sem formaður og við honum tók Anna Troberg. Henni hefur hins vegar hvorki tekist að ná sömu hæðum og forveri sinn né að sameina flokksmenn í baráttunni.
Biðu afhroð í kosningum árið 2014
Píratar stóðu sig vel á Evrópuþinginu þótt starf þeirra hafi líklega farið framhjá flestum. Þeir hafa barist mjög ötullega gegn öllum tilraunum til að takmarka upplýsingafrelsi almennings og heimildum stórfyrirtækja til að stýra netumferð. Þrátt fyrir þetta fengu þeir lítinn hljómgrunn þegar kosið var 2014. Píratar fengu aðeins 2,2 prósent af atkvæðunum og misstu bæði sæti sín á Evrópuþinginu.
Í kjölfarið birti Amelia Andersdotter bloggfærslu þar sem hún gagnrýndi flokksforustuna harðlega. Amelia hafði setið á Evrópuþinginu fyrir Pírata en sagði að flokkurinn hefði villst af leið og að pólitísk stefna flokksins væri óljós. Hún spáði kosningaósigri í þingkosningum um haustið enda kom það á daginn. Flokkurinn hlaut aðeins 0,43 prósent atkvæða, en það sem meira er þá var nánast engin umræða um flokkinn eða stefnumál hans fyrir kosningarnar. Formaðurinn sagði af sér og ný stjórn tók við í byrjun árs 2015.
Amelia Andersdotter, sem átti sæti á Evrópuþinginu fyri hönd sænskra Pírata.
Geta íslenskir Píratar búist við sömu þróun?
Í dag er ekkert sem bendir til þess að Píratar í Svíþjóð nái viðlíka árangri og íslenskir félagar þeirra. Um leið og stofnandinn hvarf á braut virðist sem illa hafi gengið að sameinast um áherslur og einstaklinga með tilhlýðandi innri átökum og deilum. Líklega er Skólakosninginn árið 2014 ágætis vísbending en þar fengu Píratar 8,39 prósent í Evrópuþingkosningum en aðeins 1,98 prósent í þingkosningum. Unga fólkið virðist því ekki lengur líta á Pírata sem raunverulegan valkost.
Þar sem höfundur þessa pistils er stjórnmálafræðingur er líklega rétt að bjóða upp á greiningu á stöðu íslenskra Pírata. Stóra spurningin er auðvitað hvort fylgi þeirra í skoðanakönnunum sé dæmigert óánægjufylgi sem aldrei skili sér í kosningum? Eina rétta svarið er auðvitað: Kannski, það fer eftir ýmsu. Í því ljósi er rétt að minnast Besta flokksins, en ákaflega fáir trúðu því að fylgi í skoðanakönnunum myndi skila sér í kosningum. Annað kom þó á daginn og því er full ástæða fyrir flokkana að taka nýlegar kannanir alvarlega. Fylgið dreifist ekki á stjórnarandstöðuna heldur leitar á einn flokk – flokk sem leggur höfuðáherslu á að almenningur eigi að ráða meiru en hann gerir í dag. Það er varla tilviljun.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, þykir hafa staðið sig vel að undanförnu og margir þakka vasklegri framgöngu hans fylgisaukningu Pírata hér á landi.