Matvælaráðuneytið hefur gert samning við Samkeppniseftirlitið um að tryggja því fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin geti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Samhliða er stefnt að auknu samstarfi stofnana á þessu sviði. Auk eftirlitsins er þar um að ræða Fiskistofu, Skattinn og Seðlabanka Íslands.
Samkeppniseftirlitið sendi frá sér tilkynningu í dag vegna athugunarinnar þar sem segir að að yfirsýni og þekking á stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi hafi mikla þýðingu jafnt fyrir eftirlið og áðurnefndar stofnanir. „Samhliða athuguninni er því stefnt að auknu samstarfi þessara stofnana, en í því felst að umgjörð um eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi verði styrkt, rutt verði úr vegi mögulegum hindrunum í samstarfi hlutaðeigandi stofnana og skilvirkni í stjórnsýslu á þessu sviði aukin.“
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins vegna málsins segir að markmið kortlagningarinnar sé að stuðla að gagnsæi í eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja ásamt upplýstri stefnumótun stjórnvalda um regluumgjörð sjávarútvegs og breytingar á henni. Einnig á vinnan að stuðla að því að farið sé að lögum og reglum á þessu sviði og eftirlitsstofnanir geti sinnt hlutverki sínu.
Kortlagningin verður sett fram í sérstakri skýrslu sem á að afhenda Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í síðasta lagi á 31. desember 2023, eða eftir tæpa 14 mánuði. Skýrslan á því að nýtast ráðuneytinu í umfangsmikilli stefnumótunarvinnu um sjávarútveg sem nú stendur yfir.
Í athuguninni felst upplýsingasöfnun og kortlagning eignatengsla sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa fengið úthlutað ákveðnu umfangi aflaheimilda og áhrifavaldi eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjum.
Djúpstæð tilfinning um óréttlæti
Svandís skipaði í maí á þessu ári eina fjölmennustu nefnd Íslandssögunnar til að „greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi“. Í starfshópum, verkefnastjórn og samráðsnefnd sitja á fimmta tug einstaklinga. Nefndin á að starfa út næsta ár. Vinnan við kortlagningu á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi er hluti af þeirri vinnu.
Þegar tilkynnt var um skipun hópsins var haft eftir Svandísi að í sjávarútvegi ríki djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. „Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt. Markmiðið með þessari vinnu er því hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag.“
Telur vísbendingar til staðar
Samkeppniseftirlitið hefur áður kannað möguleg sameiginleg yfirráð aðila sem hafa ekki verið skilgreindir sem tengdir í sjávarútvegi.
Í lok febrúar 2021 birti eftirlitið ákvörðun vegna samruna dótturfélags Síldarvinnslunnar og útgerðarfélagsins Bergs. Þótt eftirlitið hafi ekki gert athugasemd við þann samruna eftir skoðun sína á honum var þar birt það frummat Samkeppniseftirlitsins „að til staðar séu vísbendingar um yfirráð Samherja eða sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni og að þær vísbendingar hafi styrkst frá því að Samkeppniseftirlitið fjallaði um slík möguleg yfirráð í ákvörðun nr. 10/2013.“
Í kjölfarið var kallað eftir frekari upplýsingum og sjónarmiðum frá aðilum og fylgst með eignarhaldsbreytingum sem urðu í tengslum við skráningu Síldarvinnslunnar á markað í fyrra. Enn sem komið er hefur hins vegar hefur ekki verið tekin ákvörðun um frekari formlega rannsókn.
Samherjablokkin með næstum fjórðung aflaheimilda
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur.
Að mati eftirlitsins voru veruleg tengsl milli stórra hluthafa í Síldarvinnslunni og þrír af fimm stjórnarmönnum í Síldarvinnslunni á þeim tíma voru skipaðir af eða tengdir Samherja og Kjálkanesi. Einn þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Gjögur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes, hélt á 2,5 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, héldu því samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta í nóvember í fyrra. Í sumar bættist 2,16 prósent kvóti Vísis við og samanlagður úthlutaður kvóti til Samherja og mögulegra tengdra aðila fór upp í 24,3 prósent, eða næstum fjórðung allra úthlutaðra aflaheimilda á Íslandi.
Tíu útgerðir með 67 prósent kvótans
Mikil samþjöppun hefur átt sér heilt yfir stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins með samanlagt á 53 prósent af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að það hlutfall væri komið upp í rúmlega 67 prósent. Samþjöppunin jókst svo enn í sumar við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi, sem enn eru þó ekki að fullu frágengin þar sem þau eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Í tilkynningu matvælaráðuneytisins vegna kortlagningar stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi sem birt var í dag segir skýrslan sem skila á muni ekki fjalla um ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins eða annarra eftirlitsstofnana um frekari athuganir eða íhlutun á grundvelli starfsheimilda eða starfsskyldna samkvæmt hlutaðeigandi lögum. „Hún mun hins vegar nýtast Samkeppniseftirlitinu, Fiskistofu, Skattinum og Seðlabanka Íslands við þekkingaruppbyggingu og við beitingu lagafyrirmæla á viðkomandi sviði. Við vinnslu skýrslunnar er stefnt að því að mótuð verði upplýsingatækniumgjörð sem nýtist við frekari kortlagningu og eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi almennt.“