Sárafáar athugasemdir bárust við skipulag 735 íbúða hverfis í Hafnarfirði
Á tæplega 33 þúsund fermetra svæði ofan við Suðurhöfnina í Hafnarfirði er verið að skipuleggja byggingu alls 735 íbúða í 25 stakstæðum fjölbýlishúsum. Fáar athugasemdir bárust við deiliskipulagstillögu reitsins á athugasemdatíma og einungis tvær frá almennum borgurum í bænum. Þær voru báðar afar jákvæðar, og vonast eftir því að uppbyggingu yrði hrundið af stað sem fyrst.
Fáar athugasemdir bárust Hafnarfjarðarbæ vegna auglýsingar á nýju deiliskipulagi Óseyrarhverfis, sem til stendur að byggist upp ofan við Suðurhöfnina í Hafnarfirði. Á reitnum er í dag atvinnuhúsnæði á nokkrum lóðum, en gert er ráð fyrir að öll húsin víki og allt að 735 íbúðir verði byggðar í 25 fjölbýlishúsum, sem verði á bilinu þriggja til sex hæða há.
Einungis tvær athugasemdir bárust við skipulagið frá almennum borgurum í bænum og voru þær samhljóma. Í þeim var lýst yfir ánægju með nýtt deiliskipulag hverfisins. „Það er löngu tímabært að hanna hverfið að nýju til prýði fyrir bæinn. Vonandi verður hafist handa sem allra fyrst,“ sagði í athugasemdum íbúanna, sem eru nágrannar í Suðurbænum í Hafnarfirði.
Skipulagssvæðið sem um ræðir afmarkast af Hvaleyrarbraut, Fornubúðum, Óseyrarbraut og Stapagötu, en inni á þessu svæði eru meðal annars í dag tvö bílaverkstæði, siglingavöruverslun, fiskbúð og ýmis léttur iðnaður annar.
Hafnarfjarðarbær hélt opinn kynningarfund um deiliskipulagið 30. júní, en frestur til þess að senda inn athugasemdir rann út 22. júlí. Kjarninn fékk athugasemdir um skipulagið afhentar eftir að þær voru kynntar kjörnum fulltrúum á fundi skipulagsráðs bæjarins í þarsíðustu viku.
Uppbygging mikils fjölda íbúða á þessum slóðum er hluti af frekari umbreytingu sem Hafnarfjarðarbær er með í pípunum á svæðinu við Flensborgarhöfn/Suðurhöfn, sem virða má fyrir sér í myndbandi hér að neðan, sem unnið var í tengslum við samþykkt rammaskipulags svæðisins árið 2020.
Leyfilegt hámarksbyggingarmagn ofanjarðar eru 68.428 fermetrar og við bætist að heimild er fyrir því að byggja bílakjallara undir öllum reitnum, sem gæti orðið alls 32.823 fermetrar. Heildarbyggingarmagnið er því yfir 101 þúsund fermetrar, samkvæmt tillögunni.
Einn lóðarhafi vill aukið nýtingarhlutfall á sinni lóð
Eigandi einnar fasteignar inni á skipulagssvæðinu skilaði inn umsögn til Hafnarfjarðarbæjar, en það var forsvarsmaður félagsins Sýningaljós ehf. sem á fasteign að Hvaleyrarbraut 12, um 1.500 fermetra atvinnu- og iðnaðarhúsnæði.
Athugasemd lóðarhafans snýr fyrst og fremst að fyrirhuguðu nýtingarhlutfalli lóðarinnar, en samkvæmt deiliskipulagstillögunni á nýtingarhlutfallið á lóð hans að verða 1,44, sem er það lægsta á reitnum öllum, en meðal nýtingarhlutfall í skipulaginu ofanjarðar er 2,08.
Heilt yfir er nýtingarhlutfallið í skipulaginu þó 3,1 að meðtöldum risavöxnum bílakjallaranum, sem heimild er fyrir. Að nýtingarhlutfallið sé 3,1 þýðir að byggingarfermetrar á reitnum geta orðið rúmlega þrefalt fleiri en fermetratala uppbyggingarsvæðisins.
„Ástæða þess að nýtingarhlutfall á lóð umbjóðanda míns er mun lægra en meðaltalið er sú að um helmingur af lóðinni er tekinn undir torg í stað byggingar. Þetta getur umbjóðandi minn ekki sætt sig við enda er þá ekki gætt jafnræðis milli núverandi lóðarhafa á reitnum,“ segir í umsögninni frá Sýningarljósum, sem lögmannsstofa skrifaði fyrir hönd lóðarhafans. Þar er einnig farið fram á að nýtingarhlutfallið á lóðinni verði aukið, að minnsta kosti upp í meðalnýtingarhlutfall reitsins og því lýst yfir að ef tillagan verði samþykkt óbreytt áskilji lóðarhafinn sér rétt til þess að fá tillögunni hnekkt, eða gera kröfur á hendur bænum um skaðabætur eða innlausn eigna.
Búa eigi til eina lóð úr svæðinu ef bílakjallari á að vera samtengdur
Embættismaður sem fæst við fasteignaskráningu hjá Hafnarfjarðarbæ gerði athugasemd við skipulagið, þar sem fram kemur að ef kvöð eigi að vera um almennan gegnumakstur bílakjallara allra lóðanna, eins og skipulagstillaga gerir ráð fyrir, væri réttast að búa til eina stóra lóð úr svæðinu.
„Að láta lóðirnar standa eins og þær eru og með bílakjallara þar sem hægt er að aka á milli lóða/eigna, þýðir að kostnaðarmatið verður aldrei rétt og eignarhald bílastæðakjallara yrði mjög flókið,“ segir í athugasemd fasteignaskráningar bæjarins, þar sem bent er á að dæmi séu um að lóðir með sameiginlegum bílakjallara hafi verið sameinaðar, t.d. í Skuggahverfinu í Reykjavík og svo lóðin með stóra sameiginlega bílakjallaranum undir Hörpu/Hafnartorgi.
„Ef bílakjallari á að flæða á milli lóða, þá þarf að sameina allar lóðirnar í eina lóð og gera eignaskiptayfirlýsingu þar sem kemur fram hvað hver og einn eigandi á í byggingarrétti á lóð þ.e. % eða fermetra,“ segir í umsögninni.
HS Veitur spyrja hver hafi heimilað að spennistöð verði rifin
HS Veitur sendu frá sér athugasemdir við skipulagið, en fyrirtækið nefnir í umsögninni að við fyrri aðalskipulagsbreytingar hjá bænum árið 2020, sem deiliskipulag Óseyrarhverfisins samræmist, hafi HS Veitur bent á að fyrirtækið væri með spennistöðvar í rekstri innan skipulagssvæðisins og að óskað hefði verið eftir góðri samvinnu við bæjaryfirvöld.
Engin svör hafa hins vegar borist síðan, að sögn HS Veitna, og segir fyrirtækið að ekkert samband hafi verið haft samband við fyrirtækið þrátt fyrir að það eigi og reki spennistöð við innan skipulagssvæðisins við Óseyrarbraut 5A og sé með lóðarleigusamning undir hana fram til ársins 2087. Fyrirtækið virðist svo undrandi á því að talað sé um húsnæðið sem hýsir spennistöðina sem „byggingu sem megi víkja“ í auglýstu deiliskipulagi og spyr fyrirtækið einfaldlega: „Hvaðan koma þær heimildir?“
Þá segja HS Veitur að það muni þurfa 3-4 spennistöðvar til þess að anna raforkuþörf hverfisins sem til stendur að byggja á þessum reit, en að ekki sé að sjá að gert sé ráð fyrir neinum spennistöðvum í byggingunum né lóðarreitum undir spennistöðvar.
Einnig segir fyrirtækið að ekki sé tekið tillit til veitulagna og færslu háspennustrengja í auglýstum deiliskipulagstillögum og mælir með því að kostnaður við að færa hvoru tveggja fari á lóðarhafa í hinu nýja Óseyrarhverfi.
Fjögur megintorg, níu inngarðar og vistgata á reitnum
Deiliskipulagstillaga reitsins, sem auglýst var, gerir sem áður segir ráð fyrir yfir sjöhundruð íbúðum í alls 25 fjölbýlishúsum. Heimild er til þess að byggja bílakjallara undir öllum reitnum, jafnvel á tveimur hæðum.
Innan reitsins munu húsin standa stakstæð og dreifast nokkuð óreglulega um svæðið. Segir í tillögunni að þar sé horft til eldra byggðamynstur í Hafnarfirði. Engar umferðargötur verða innan reitsins, en aðkoma neyðarbíla er hugsuð um vistgötu sem á að skera reitinn frá austri til vesturs og verður aðalgönguleiðin um svæðið. Fjórar minni gönguleiðir skera svo reitinn frá norðri til suðurs, en fjögur megintorg eiga að verða á svæðinu samkvæmt skipulagstillögunni, auk níu minni inngarða.
„Til að skapa sem best skjól fyrir verstu vindáttunum sem eru austan og suðaustanátt, er sérstaklega horft til uppbrots garðrýma og stíga sem liggja eftir þessum áttum, sem hjálpar til við að bjróta vindinn. Áþekk hæð bygginga á öllum reitnum þar sem enginn bygging sker sig úr í hæð, er auk þess með til að veita vindi yfir svæðið í stað þess að fanga hann og beina niður í garðrýmin,“ segir einnig í skipulagstillögunni.
Innan reitsins munu húsin standa stakstæð, og segir í tillögunni að þar sé horft til eldra byggðamynstur í Hafnarfirði. Engar umferðargötur verða innan reitsins, en aðkoma neyðarbíla er hugsuð um vistgötu sem á að skera reitinn frá austri til vesturs og verður aðalgönguleiðin um svæðið. Fjórar minni gönguleiðir skera svo reitinn frá norðri til suðurs, en fjögur megintorg eiga að verða á svæðinu samkvæmt skipulagstillögunni, auk níu minni inngarða.
„Til að skapa sem best skjól fyrir verstu vindáttunum sem eru austan og suðaustanátt, er sérstaklega horft til uppbrots garðrýma og stíga sem liggja eftir þessum áttum, sem hjálpar til við að brjóta vindinn. Áþekk hæð bygginga á öllum reitnum þar sem enginn bygging sker sig úr í hæð, er auk þess með til að veita vindi yfir svæðið í stað þess að fanga hann og beina niður í garðrýmin,“ segir einnig í skipulagstillögunni.
Lesa meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu