Schengen er samstarf 26 Evrópuríkja um afnám eftirlits með fólki á innri landamærum ríkjanna. Jafnframt kveður samningurinn á um samstarf lögreglu- og tollayfirvalda – og hert eftirlit á ytri landamærum ríkjanna sem standa að samkomulaginu.
Um leið og þátttaka Íslands í Schengen tryggir íslenskum borgurum hindrunarlausa för um nánast öll ríki EES opnast landamærin til Evrópu. Það getur skapað ákveðin vandamál þar sem fólk sem telja má óæskilegt á greiðari leið til landsins. Á móti kemur að eftirlit á ytri landamærum svæðisins er hert til muna, m.a. með auknum og greiðari aðgangi að upplýsingum um meinta brotamenn.
Hér verður látið hjá líða að ræða hvort og hvernig samningurinn vegur að fullveldinu enda er það flókið mál með margar hliðar sem lítið hefur borið á í umræðunni. Mest áberandi er umræðan að Ísland ætti að hætta, eða að minnsta kosti draga úr þátttöku í Schengen sem kalli einungis á flæði óæskilegs fólks til landsins, afbrotamanna með tilheyrandi aukinni glæpastarfsemi – en er það svo?
Hvernig virkar Schengen og hvers vegna fór Ísland inn í samstarfið?
Ljóst er að aðstæður á meginlandi Evrópu, með þeim samruna sem þar hefur orðið, kalla á frjálsar ferðir fólks milli ríkja. Hugsanlega er erfitt fyrir eyþjóðina Íslendinga að setja sig í þessi spor en hagræðið sem hlýst af Schengen-samstarfinu er umtalsvert. Auðvelt er að gera sér í hugarlund hversu þungt það væri í vöfum ef sinna þyrfti eftirliti á landamærum milli ríkja um gervalla Evrópu.
Þetta krefst aukins samstarfs lögreglu meðal ríkjanna. Stór þáttur í því er rekstur á miðlægum gagnabanka – SIS grunni – sem til dæmis hefur að geyma upplýsingar um eftirlýsta einstaklinga sem óskað er eftir handtöku á vegna gruns um afbrot, eða til að afplána fangelsisrefsingu. Kerfið geymir einnig upplýsingar um týnda einstaklinga, þá sem stefna á fyrir dóm svo og þá sem ekki eiga aðgang vísan að Schengen-svæðinu. Einnig eru þar upplýsingar um stolna muni eins og bifreiðar, skotvopn og skilríki.
Stór þáttur í Schengen-samstarfinu er rekstur á miðlægum gagnabanka – SIS grunni – sem til dæmis hefur að geyma upplýsingar um eftirlýsta einstaklinga sem óskað er eftir handtöku á vegna gruns um afbrot, eða til að afplána fangelsisrefsingu.
Aðild að Schengen stóreykur jafnframt möguleika á milliríkjasamvinnu gegn aukinni alþjóðlegri glæpastarfsemi. Geta lögregluyfirvöld þannig fengið heimild, sem þó er háð ströngum skilyrðum, til að elta og handtaka meinta brotamenn yfir landamæri.
En hvað þá með Ísland? Við erum hér á eyju þar sem nánast allir fara um einn og sama flugvöllinn, hvers vegna fóru Íslendingar inn í Schengen? Ástæðan var að miklu leyti varðveisla hins norræna vegabréfasambands sem hefur verið við lýði í áratugi og er talinn einn þýðingarmesti ávinningur norræns samstarfs. Þar sem Danir, Finnar og Svíar voru þátttakendur í Schengen í gegnum ESB og Norðmenn voru á leið inn, þótti ekki stætt á öðru en Íslendingar fylgdu þeim að málum.
Hefðu Íslendingar ekki verið með þyrftu íslenskir ríkisborgarar að fara í gegnum vegabréfaeftirlit á landamærum Schengen-ríkjanna, þ.á.m. Norðurlandanna, með tilheyrandi fyrirhöfn og biðröðum á flugvöllum. Þetta kann að vera léttvægt í augum einhverra en er mikilvægara en virðast má í fyrstu.
Er Schengen ávísun á frjálst flæði afbrotamanna og aukna glæpastarfsemi?
Óheft koma afbrotamanna með aukinni skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi er eitt af því sem hefur verið nefnt sem ástæða fyrir úrsögn úr Schengen. Þessi skoðun virðist ekki vera á rökum reist því samkvæmt skýrslu innanríkisráðherra til Alþingis frá árinu 2012 er ekki hægt að sjá að samhengi sé á milli veru Íslands í Schengen og aukningar á skipulagðri glæpastarfsemi.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra þekkir vel til Schengen-samstarfsins og gagnrýnir ummæli um að ekki sé unnt að hafa eftirlit með – og gera bakgrunnsrannsóknir á þeim sem koma til landsins. Björn bendir á þá mikilvægu staðreynd að um 98% allra sem koma til Íslands fari um Keflavíkurflugvöll og lögregla hafi aðgang að öllum farþegaskrám, sem hægt sé að bera saman við Schengen-gagnagrunninn.
98% allra sem koma til Íslands fara um Keflavíkurflugvöll og lögregla hefur aðgang að öllum farþegaskrám, sem hægt sé að bera saman við Schengen-gagnagrunninn.
En hvað felst raunverulega í landamæraeftirliti? Þar segir vegabréf, landamæraverði í raun ekki neitt nema hægt sé að fletta einstaklingi upp í gagnagrunni til að bera saman upplýsingar—eins og þeim sem Schengen býr yfir.
Upptaka landamæraeftirlits og úrsögn úr Schengen myndi þýða að lögreglan nyti ekki lengur aðgangs að þessu öfluga upplýsingakerfi og þyrfti að styðjast eingöngu við takmarkaðan gagnabanka Interpol. Þá myndi reyna enn frekar á greiðan aðgang að upplýsingum um þá einstaklinga sem telja mætti grunsamlega sem yrði þess í stað mun torveldari.
Núverandi kerfi gefur möguleika á að bregðast við og gera viðeigandi ráðstafanir áður en farþegar sem taldir eru grunsamlegir koma til landsins. Yfirvöldum er jafnframt heimilt að loka landamærum og taka upp tímabundið eftirlit þegar allsherjarreglu eða þjóðaröryggi er talið vera ógnað, að hámarki 30 dögum. Íslensk stjórnvöld hafa tvívegis beitt þessari heimild í skamman tíma og vörðuðu bæði tilvik komu meðlima Hells Angels hingað til lands.
Ólíkum hlutum ruglað saman – vandamálin hverfa ekki
Mikilvægt er að árétta að Schengen-samstarfið tekur einungis til frjálsra ferða yfir landamæri innan aðildarríkja samstarfsins. Úrsögn úr Schengen myndi engu breyta um fjölda útlendinga í landinu því réttindi fólks innan ESB/EES til búsetu og dvalar haldast óbreytt vegna ákvæða fjórfrelsisins svokallaða.
Jafnframt ber að hafa í huga að ekki er sjálfgefið að afbrotamenn finnist við landamæraeftirlit, því fólk ber slíkt ekki utan á sér né heldur er það skráð í vegabréf þess. Auk þess er afbrotamönnum ekki bannað að ferðast á meðan þeir eru ekki eftirlýstir – og ekki voru mörg tilvik þar sem afbrotamenn voru stöðvaðir við komuna til Íslands, áður en Schengen kom til.
Að sama skapi virðist gæta misskilnings þegar ruglað er saman vegabréfaskoðun og tolleftirliti því ekkert í Schengen-samningnum hindrar íslensk yfirvöld að sinna tollgæslu eins og þurfa þykir, hvað sem Schengen-aðild líður.
Þegar Schengen-aðild er gagnrýnd á fólk einnig til að rugla saman mismunandi hlutum. Fundið er að veru fólks hér sem kemur frá ESB/EES svæðinu til að setjast hér að—en þar geta auðvitað slæðst með afbrotamenn. Þessir einstaklingar eiga allir búseturétt hér burt séð frá Schengen-aðild, hinir meintu afbrotamenn einnig á meðan þeir eru ekki eftirlýstir. Í sömu andrá eru nefndir hælisleitendur sem hér koma og vilja raunverulega setjast hér að – en einnig þeir sem ætla sér ekki að setjast hér að heldur nota Ísland sem viðkomustað til að komast vestur um haf.
Þetta er bagalegt því þegar vandamál koma upp, t.a.m. hungurverkföll, tilraunir til að komast ólöglega úr landi með skipum eða önnur afbrot, er skuldinni stundum skellt á Schengen-aðildina. Á það hefur hins vegar verið bent að þessi vandamál hverfa ekki þó Ísland hætti aðild að Schengen. Málið snýst einfaldlega um hvernig íslensk yfirvöld vilja tryggja öryggi innan landamæra sinna og hvaða ráðum þau beita til þess. Sú gæsla yrði ekki auðveldari stæði Ísland utan Schengen, að öllum líkindum erfiðari.
Einnig hefur Schengen-samstarfið verið gagnrýnt vegna þess kostnaðar sem íslenska ríkið hefur þurft að leggja út í. Þó ekki hafi farið fram útreikningar á því hver sá kostnaður er nákvæmlega er ljóst hann hyrfi ekki við úrsögn úr samstarfinu, heldur myndi færast til, því taka þyrfti upp annars konar starfsemi við landamæraeftirlit, mögulega kostnaðarsamari.
Ljóst er að hin opnu landamæri vegna Schengen-samstarfsins hafa einhverja galla. Hins vegar er einnig ljóst að eðli landamæraeftirlits hefur breyst og hefðbundið vegabréfaeftirlit kemur ekki í veg fyrir að skipulögð glæpastarfsemi aukist, eins og í Bretlandi sem stendur fyrir utan Schengen. Að framansögðu virðist niðurstaðan því vera afgerandi, að kostir Schengen-aðildar séu fleiri og vegi þyngra en gallarnir.