Seðlabanki Íslands er búinn að samþykkja tilögur Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans um stöðugleikaframlag. Það þýðir að nauðasamningar þeirra ógna ekki greiðslujöfnuði og fjármálastöðugleika að mati bankans og því ættu slitabúin að fá undanþágu frá fjármagnshöftum til að ljúka slitum sínum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Mikill spenna hefur verið í loftinu undanfarnar vikur eftir að ljóst var að uppgjör slitabúanna var ekki að ganga jafn smurt og lagt var upp með. Upphaflega höfðu stjórnvöld, með fyrirvara, samþykkt tilboð allra þeirra um stöðugleikaframlög og talið að þau mættu svokölluðum stöðugleikaskilyrðum, sem vernda eiga greiðslujöfnuð og fjármálastöðugleika. Í afhendingu stöðugleikaframlaga felst, í einföldu máli, að slitabú föllnu bankanna afhenda íslenskum stjórnvöldum töluvert magn eigna til að mega greiða það sem eftir er út til kröfuhafa sinna. Virði þeirra framlaga, umreiknuð í krónur, eru mörg hundruð milljarðar króna.
Ljóst hefur verið í nokkurn tíma að Seðlabankinn var langt kominn með greiningu sína. Upphaflega ætlaði hann að birta hana opinberlega snemma í október, en hætti skyndilega við það. Á þeim tíma hermdu heimildir Kjarnans að Seðlabankinn teldi að bæði Kaupþing og gamli Landsbankinn væru að uppfylla stöðugleikaskilyrðin með tillögum sínum, en að Glitnir þyrfti að breyta sínu framlagi.
Það kom á daginn í síðustu viku þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér tilkynningu um miðja nótt. Í henni stóð að Glitnir hefði breytt framlagi sínu til að standast skilyrðin. Stærsta breytingin var sú að slitabúið færir íslenska ríkinu allt hlutafé í Íslandsbanka, einum af þremur stærstu viðskiptabönkum landsins.
Lengri frestur kemur til greina
Seðlabankinn virðist loks hafa lokið við mat sitt á áhrifum slita búanna á greiðslujöfnuð á síðustu dögum. Matið var kynnt fyrir fjármála- og efnahagsráðherra í byrjun viku og hann kynnti niðurstöðurnar síðan á ríkisstjórnarfundi í gær. Í dag verður matið kynnt efnahags- og viðskiptanefnd, þingflokkum og loks almenningi á blaðamannafundi.
Bjarni Benediktsson lét hafa eftir sér í gær að hann hafi rætt þann möguleika við efnahags- og viðskiptanefnd að veita slitabúunum lengri frest en þeir hafa nú samkvæmt lögum til að ljúka slitunum. Samkvæmt áætlun sem kynnt var í byrjun júní áttu búin að ljúka slitum sínum með greiðslu stöðugleikaframlags og samþykkt nauðasamnings fyrir árslok. Tækist það ekki myndi falla á 39 prósent stöðugleikaskattur á allar eignir þeirra. Hann átti að geta skilað allt að 850 milljörðum króna til ríkisins, samkvæmt kynningunni.
Ljóst er að slitabúin eru að brenna inni á tíma. Bæði Kaupþing og gamli Landsbankinn hafa boðað kröfuhafa sína á fundi síðari hluta nóvembermánaðar til að greiða atkvæði um nauðasamninginn og búist er við því að Glitnis geri slíkt hið sama strax í dag. Þegar slíkt samþykki kröfuhafa liggur fyrir ,en það er búist við því að það fáist, verður að leggja nauðasamninginn fyrir dómstóla til samþykktar.
Titringur í stjórnmálunum
Það hefur ekki bara gætt titrings í herbúðum kröfuhafa undanfarnar vikur. Sá titringur hefur einnig náð inn í íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag. Margir hafa lýst efasemdarröddum um hvort ætluð stöðugleikaframlög nái því markmiði sínu að verja íslenskan almenning fyrir áhrifum slitana. Þar hafa farið fremst í flokki InDefence-hópurinn sem hefur sagt talsverða áhættu á því að svigrúm til að aflétta höftum á almenning verði lítið næstu árin, að stöðugleikaskilyrðin séu ódýr leið fyrir kröfuhafa slitabúa föllnu bankanna úr gjaldeyrishöftum og að greiðsla stöðugleikaskilyrða muni skerða lífskjör almennings. Þessi skoðun hefur einnig náð inn í raðir stjórnmálaflokkanna, bæði þeirra sem sitja í stjórn og þeirra sem sitja í stjórnarandstöðu.
Seðlabankinn hefur hafnað þessari greiningu InDefence til þessa en ekki viljað birta mat sitt á greiðslujöfnuði því til stuðnings. Auk þess hefur komið fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að samkomulag tryggi skaðleysi ríkisins gagnvart kröfuhöfum og komi í veg fyrir að þeir láti reyna á álagningu stöðugleikaskatts fyrir dómstólum. Skiptar skoðanir eru um her niðurstaða slíkra dómsmála yrðu en þau myndu hið minnsta tefja áætlun um losun hafta á almenning.