Starfshópur um happdrætti og fjárhættuspil sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði í apríl 2021, hefur skilað tillögum til Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, nærri einu og hálfu ári eftir að hópurinn átti fyrst að skila tillögum.
Hópurinn var skipaður eftir að umræða um fjárhættuspil sem tekjuöflunarleið Happdrættis Háskóla Íslands og þar með háskólans varð áberandi í samfélagsumræðunni, og ekki í fyrsta sinn. Hópurinn átti upphaflega að skila tillögum í júní 2021 en var veittur ótilgreindur frestur þegar ljóst var að það myndi ekki nást. Klofningur var í starfshópnum og neituðu sérleyfishafar á happdrættismarkaði að skrifa undir skýrslu hópsins og skiluðu inn séráliti.
Hlutverk starfshópsins var að kanna mögulegar réttarbætur á sviði happdrættismála og var hópnum ætlað að gera tillögur til ráðherra um breytingar á lögum og reglugerðum um happdrætti, teljist þær nauðsynlegar, og eftir atvikum að greina fjárþörf til þess að tryggja að mögulegar breytingar geti átt sér stað.
Ellefu skipuðu hópinn. Þau eru:
- Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og jafnframt formaður, án tilnefningar,
- Fanney Óskarsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu réttinda einstaklinga, án tilnefningar,
- Sveinn M. Bragason, sérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar, án tilnefningar,
- Auður Cela Sigrúnardóttir, starfsmaður Íslandsspila, tilnefnd af Íslandsspilum,
- Lárus Blöndal, lögmaður og forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, tilnefndur af Getspá/Getraunum,
- Guðni Bergsson, lögmaður og formaður Knattspyrnusambands Íslands, tilnefndur af Getspá/Getraunum,
- Anna Lilja Ragnarsdóttir, löglærður fulltrúi hjá sýslumannsembættinu á Höfn, tilnefnd af sýslumanninum á Suðurlandi,
- Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri, tilnefndur af happdrætti SÍBS,
- Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri, tilnefnd af happdrætti HHÍ,
- Sigurður Ágúst Sigurðsson, forstjóri, tilnefndur af happdrætti DAS.
- Alma Björk Hafsteinsdóttir, fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi, tilnefnd af Samtökum áhugafólks um spilafíkn.
Sérleyfishafar á happdrættismarkaði reyndu að taka yfir vinnu hópsins
Sex þeirra sem skipa starfshópinn starfa hjá happdrættisfyrirtækjum sem eru sérleyfishafar á happdrættismarkaði og hafa því ákveðinna hagsmuna að gæta. Þessir hagsmunaaðilar eru Íslandsspil, Happdrætti Háskóla Íslands, Happdrætti SÍBS, Happdrætti DAS, Getspá og Getraunir.
Við vinnu hópsins myndaðist klofningur milli hagsmunaaðilanna og annarra í starfshópnum og neituðu hagsmunaaðilarnir að standa að skýrslu starfshópsins og skiluðu séráliti. Samkvæmt heimildum Kjarnans reyndu aðilarnir að nýta meirihluta sinn í nefndinni til að gera sérálitið að aðalskýrslu starfshópsins en það gekk ekki eftir.
Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) skiluðu einnig inn séráliti. Alma Björk Hafsteinsdóttir, formaður samtakanna, gagnrýndi strax í upphafi vinnu starfshópsins að honum hafi ekki verið ætlað að fjalla um þá kröfu samtakanna að spilakössum verði lokað til frambúðar.
Alma segir í samtali við Kjarnann að sérálitinu hafi meðal annars verið skilað inn þar sem hugmyndir og óskir hennar um gesti og álitsgjafa hafi fengið dræmar undirtektir. „Enginn af þeim gestum sem við óskuðum eftir voru kallaðir til. Enginn,“ segir Alma. Meðal þeirra sem SÁS lagði til að kæmu fyrir hópinn eru Natasha Schüll, dósent við New York háskóla, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á sviði spilavíta og spilakassa. SÁS óskaði einnig eftir að fá Ögmund Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, á fund starfshópsins en hann talaði fyrir endurskoðun á lögum og reglugerðum sem gilda um starfsemi sem stuðlar að spilafíkn í ráðherratíð sinni. Auk þess óskaði SÁS eftir að fá fulltrúa frá landlæknisembættinu og Neytendasamtökunum en ekki var orðið við þeirri beiðni.
Alma gagnrýnir einnig að heilbrigðisráðuenytið hafi ekki átt fulltrúa í starfshópnum. „Það þarf að kortleggja markaðinn en það er ekki hægt án þess að taka tillit til lýðheilsusjónarmiða. Það sem ég átta mig ekki á og við reynum að koma til skila í okkar áliti er að það er engin eftirspurn eftir erlendri veðmálastarfsemi á Íslandi. Það er enginn að kalla eftir því opinberlega. Einu aðilarnir sem eru stöðugt að tönnlast á þessari starfsemi eru rekstraraðilar á happdrættismarkaði á Íslandi í dag, enginn annar,“ segir Alma.
Engin áform um spilavíti í tillögum eða sérálitum
Skýrsla starfshópsins, auk sérálitanna er nú komin til dómsmálaráðherra, sem honum verður falið að meta.
Tillögur hópsins hafa ekki verið gerðar opinberar en samkvæmt heimildum Kjarnans er ekkert þar að finna um tillögur að sérleyfishöfum verði veitt leyfi til að reka spilavíti líkt og Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri HHÍ, lagði til í minnisblaði sem hún sendi formanni starfshópsins í maí, þegar drög að tillögum starfshópsins höfðu verið kynntar.
Breski miðillinn Times Higher Education, sem fjallar sérstaklega um málefni háskóla, greindi frá innihaldi minnisblaðsins í síðustu viku, þar sem kemur meðal annars fram að HHÍ leggur fram tillögu um að núverandi sérleyfishöfum skjávéla og söfnunarkassa verði heimilt að opna spilavíti. Í minnisblaðinu er þó notast við annað orðalag en spilavíti og lagt til að leyfi verði veitt til að opna „spilahöll (Casínó)“.
Um tillögu er að ræða og rétt er að taka fram að formleg beiðni um leyfi til að opna spilavíti hefur ekki borist dómsmálaráðuneytinu og ljóst er að beiðnin er ekki hluti af tillögum starfshópsins sem nú hefur skilað tillögum til ráðherra.