Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er sá forstjóri fyrirtækis sem er að meirihluta í eigu ríkisins sem er með hæstu launin. Alls var hún með 5,7 milljónir króna í laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóð í fyrra en ríkið á 65 prósent hlut í Íslandsbanka. Heildarlaun Birnu hækkuðu um 14 prósent milli ára, að mestu vegna sérstakrar greiðslu fyrir yfirvinnu sem hún fékk í tengslum við undirbúning hlutafjárútboðs og skráningar Íslandsbanka á markað í fyrrasumar.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, sem er nánast að öllu leyti í eigu ríkisins, kom þar á eftir með 4,5 milljónir króna í laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóð í fyrra sem er 7,7 prósent meira en hún hafði árið 2020.
Þriðji launahæsti ríkisforstjórinn var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, með tæplega 3,6 milljónir króna á mánuði en laun hans hækkuðu um þrjú prósent milli ára. Fjórði ríkisforstjórinn sem er með laun, hlunnindi og mótframlag yfir þremur og hálfri milljón krónum á mánuði er Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. Hann var með 3,5 milljónir króna á mánuði í fyrra sem er nánast sama upphæð og hann fékk að meðaltali á mánuði árið áður.
Þetta má lesa úr ársreikningum þeirra ríkisfyrirtækja sem hafa þegar skilað ársreikningi vegna ársins 2021.
Eitt stórt fyrirtæki í opinberri eigu annarra stjórnvalda en ríkisins, Orkuveita Reykjavíkur, hefur líka skilað inn ársreikningi. Bjarni Bjarnason, forstjóri hennar, var með rúmlega 3,2 milljónir króna á mánuði í heildargreiðslur í fyrra sem er 21,4 prósent meira en hann hafði á árinu 2020. Enginn forstjóri fyrirtækis í opinberri eigu hækkaði hlutfallslega jafn mikið í launum og Bjarni á síðasta ári en Reykjavíkurborg er langstærsti eigandi Orkuveitunnar. Í áréttingu sem birt var á vef fyrirtækisins fyrr í þessum mánuði kom fram að Bjarni hefði fengið eingreiðslu upp á þrjár milljónir króna á síðasta ári. Að frádreginni þeirri greiðslu hafi laun Bjarna ekki hækkað umfram vísitöluhækkanir síðastliðinn tvö ár.
Nokkur fyrirtæki í opinberri eigu hafa ekki skilað inn ársreikningi enn sem komið er, enda ekki með skráða fjármálagjörninga á markaði sem krefst þess af þeim. Má þar nefna RÚV, Íslandspóst, Hörpu og Orkubú Vestfjarða.
Enginn átti að vera með hærri laun en forsætisráðherra
Lögum um kjararáð var breytt í ágúst 2009. Þá ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, í kjölfar hrunsins og þeirra aðhaldsaðgerða sem ríkissjóður þurfti að grípa til, að kjararáð myndi einnig „ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.“
Samkvæmt lögunum átti kjararáð að gæta þess að „ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.“
Meginreglan var sú að föst laun allra forstjóra fyrirtækja í eigu ríkisins þurfi að vera lægri en laun forsætisráðherra.
Ný lög um kjararáð, sem færðu launaákvörðunarvald frá ráðinu til stjórna opinberu fyrirtækjanna, tóku gildi í byrjun júlí 2017. Í kjölfarið hækkuðu laun margra ríkisforstjóra verulega.
Þrátt fyrir miklar hækkanir ráðherra eru þeir langt á eftir forstjórum
Laun þingmanna landsins hækkuðu í fyrrasumar, um 6,2 prósent, og eru orðin 1.285.411 krónur á mánuði. Frá miðju ári 2016 hafa laun þeirra hækkað um rúmlega 80 prósent.
Grunnlaun forsætisráðherra mið af þingfarakaupi en ofan á það leggst álagsgreiðsla upp á 1.074.642 krónur. Samtals eru laun Katrínar Jakobsdóttur því 2.360.053 krónur á mánuði. Aðrir ráðherrar fá lægri álagsgreiðslu ofan á þingfarakaupið en eru samt sem áður með 2.131.788 krónur í mánaðarlaun.
Laun ráðherra hafa hækkað skarpt, og langt umfram almenna launaþróun, á undanförnum árum. Snemmsumars 2016 voru almennir ráðherrar með 1.257.425 krónur í mánaðarlaun og hafa því hækkað um 874.363 krónur síðan þá, eða um 70 prósent. Hækkun ráðherralaunanna nemur rúmlega 150 prósent af miðgildi heildartekna á Íslandi.
Samt eru sex þeirra forstjóra fyrirtækja sem eru að meirihluta í opinberri eigu sem fjallað er um hér að ofan með umtalsvert hærri laun en forsætisráðherra. Sá sem hæstu launin hefur, bankastjóri Landsbankans, er með rúmlega tvöföld ráðherralaun.