svnbrimklukka.jpg

Virði útgerða sem skráðar eru á markað hefur aukist um 142 milljarða á tíu mánuðum

Eignarhlutur þeirra fámennu hópa sem eiga um eða yfir helmingshlut í Síldarvinnslunni og Brim hefur samanlagt hækkað um næstum 80 milljarða króna í virði frá því í maí í fyrra. Stærstu hluti þeirra verðmæta hefur runnið til Samherja og Guðmundur Kristjánssonar. Virði bréfa í þessum tveimur af stærstu útgerðarfélögum landsins, þeim einu sem skráð eru á markað, tóku kipp eftir að stærsta loðnukvóta í næstum tvo áratugi var úthlutað skömmu eftir kosningar í haust.

Fyrir rúmum tíu mán­uðum lauk hluta­fjár­út­boði Síld­ar­vinnsl­unnar og í lok maí 2021 voru við­skipti með bréf félags­ins, sem er eitt stærsta útgerð­ar­fyr­ir­tæki lands­ins, tekin til við­skipta í Kaup­höll. Við það voru tvö útgerð­ar­fyr­ir­tæki skráð á markað hér­lend­is, en fyrir var Brim sem hefur verið á mark­aði frá 2014.

Fyrir vikið geta almenn­ingur og fag­fjár­festar keypt hluti í þessum útgerðum sem stendur ekki til boða í öðrum fyr­ir­ferða­miklum sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækjum hér­lend­is. 

Í dag eiga líf­eyr­is­sjóðir lands­ins sam­an­lagt að minnsta kosti tæp­lega 19 pró­sent beinan hlut í Síld­ar­vinnsl­unni sem met­inn er á tæp­lega 32 millj­arða króna. Líf­eyr­is­sjóð­irnir eiga sömu­leiðis að minnsta kosti sam­an­lagðan 33,4 pró­sent hlut í Brimi sem er met­inn á 59 millj­arða króna. Þarna er um að ræða eign almenn­ings í gegnum líf­eyr­is­sjóða­kerf­ið. En mest eiga hópar tengdra útgerð­ar­manna, sem halda á um eða yfir helm­ings hluta­fjár í félög­unum tveim­ur.

Eign­ar­hlutir í þessum einu tveimur útgerð­ar­fyr­ir­tækjum lands­ins sem skráð eru á markað hafa hækkað gríð­ar­lega í verði á síð­ustu tíu mán­uð­um. Mark­aðsvirði Síld­ar­vinnsl­unnar hefur auk­ist um 67 pró­sent, eða 67,7 millj­arða króna, og var i lok dags á þriðju­dag 169 millj­arðar króna. Mark­aðsvirði Brims hefur á sama tíma­bili auk­ist um 75 pró­sent, eða 74 millj­arða króna, og var í lok dags á þriðju­dag 176,7 millj­arðar króna. 

Sam­an­lagt mark­aðsvirði þess­ara tveggja útgerð­ar­fyr­ir­tækja var því 345,7 millj­arðar króna. 

Loðnu­kvóti lyk­il­at­riði

Brim er það íslenska útgerð­ar­fyr­ir­tæki sem heldur á mestum kvóta. Í síð­ustu sam­an­tekt Fiski­stofu fór Brim yfir tólf pró­sent lög­bundið hámark og þurfti að selja frá sér afla­heim­ildir í kjöl­far­ið. Þær voru seldar til stærsta eig­anda Brims, Útgerð­ar­fé­lags Reykja­vík­ur, og Brim heldur nú á rétt undir tólf pró­sent af úthlut­uðum kvóta. Síld­ar­vinnslan er í þriðja sæti yfir það útgerð­ar­fyr­ir­tæki sem heldur á hæstri hlut­deild af kvóta, eða 9,41 pró­sent hans. Sam­an­lagt halda þessi tvö skráðu fyr­ir­tæki sam­tals á um 21,4 pró­sent af öllum afla­heim­ildum lands­ins. Að­ilar þeim tengdir halda svo á tölu­verðum hluta til við­bótar líkt og lesa má um hér að neð­an.

Stóra ástæðan fyrir því að mark­aðsvirði Síld­ar­vinnsl­unnar og Brims hafa hækkað jafn mikið og raun ber vitni er úthlutun á loðnu­kvóta í fyrra­haust. Engum slíkum kvóta hafði verið úthlutað í tvö ár en Krist­ján Þór Júl­í­us­son, þáver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra sem var hættur á þingi en beið myndun nýrrar rík­is­stjórnar á ráð­herra­stóli, ákvað að úthluta stærsta kvóta sem úthlutað hafði verið í tæpa tvo ára­tugi, rúm­lega 900 þús­und tonn. Kvót­inn var síðan skertur um 34.600 tonn í febr­úar síð­ast­liðnum eftir mæl­ingar á stofn­in­um. Vænt­ingar eru til þess að loðnu­ver­tíðin muni skila útgerðum lands­ins sem stunda slíkar upp­sjáv­ar­veiðar yfir 50 millj­örðum króna í nýjar tekj­ur. 

Eitt af síðustu stóru verkum Kristjáns Þórs Júlíussonar í sjávarútvegsráðuneytinu var að undirrita reglugerð um úthlutun á stærsta lóðnukvóta sem úthlutað hefur verið í næstum 20 ár. Það gerði hann 13. október í fyrra.
Mynd: Stjórnarráðið

Þrjú fyr­ir­tækið fengu 56,5 pró­sent af þeim loðnu­kvóta sem var úthlut­að. Ísfé­lag Vest­manna­eyja, einka­fyr­ir­tæki að mestu í eigu Guð­bjargar Matth­í­as­dóttur og barna henn­ar, fékk mest, 19,99 pró­sent. Síld­ar­vinnslan og tengd félög komu þar á eftir með 18,5 pró­sent og Brim var í þriðja sæti með um 18 pró­sent. Eftir að þetta var til­kynnt rauk mark­aðsvirði skráðu félag­anna tveggja upp.

Seldu fyrir tugi millj­arða en virðið hefur hækkað um enn hærri tölu

Hluta­fjár­­út­­­boði Síld­­ar­vinnsl­unn­ar lauk 12. maí í fyrra. Alls voru til sölu 498,6 millj­­ónir hluta, alls 29,3 pró­­sent í félag­inu, en rúm­­lega tvö­­­föld eft­ir­­spurn varð eftir hlut­­um. Þeir nálægt 6.500 aðilar sem skráðu sig fyrir hlut sótt­­ust eftir að kaupa fyrir um 60 millj­­arða króna en selt var fyrir 29,7 millj­­arða króna. Útboðs­­gengi í til­­­boðs­­bók A var 58 krónur á hlut en 60 krónur á hlut í til­­­boðs­­bók B. Miðað við þetta verð er heild­­ar­virði Síld­­ar­vinnsl­unnar 101,3 millj­­arðar króna. 

Við lok dags á þriðju­dag var mark­aðsvirði félags­ins, líkt og áður sagði, 169 millj­arða króna og hafði því hækkað um 67,7 millj­arða króna á tíu mán­uð­u­m. 

Langstærstu eig­endur Síld­ar­vinnsl­unnar eru Sam­herji hf. (32,64 pró­­­sent) og Kjálka­­­nes ehf. (17,44 pró­­­sent), ­fé­lags í eigu Björg­­­­ólfs Jóhanns­­­­son­­­­ar, fyrr­ver­andi for­­­­stjóra Sam­herja, og fólks sem teng­ist honum fjöl­­­­skyld­u­­­­bönd­­­­um. Stærstu hlut­hafar eign­ar­halds­fé­lags­ins með 45 pró­senta hlut eru systk­inin Anna og Ingi Jóhann Guð­munds­börn.

Björgólfur Jóhannsson, sem var um tíma forstjóri Samherja og Þorsteinn Már Baldvinsson, sem er forstjóri Samherja, eru báðir á meðal stærstu eigenda Síldarvinnslunnar.
Mynd: Samherji

Auk þess á Eign­­­ar­halds­­­­­fé­lagið Snæfugl, sem er meðal ann­­­ars í eigu Sam­herja og Björg­­­ólfs, fjögur pró­­­sent hlut. Sam­an­lagt halda því þessir þrír aðilar á um 54,1 pró­­­sent hlut í Síld­­­ar­vinnsl­unni og skipa þrjá af fimm stjórn­­­­­ar­­­mönnum þess. Hlutur þess­ara þriggja aðila hefur því hækkað um 36,6 millj­arða króna frá því að útboðið fór fram. Beinn hlutur Sam­herja hefur hækkað um 22,1 millj­arð króna.

Þeir sem seldu eign­ar­hluti í útboð­inu í maí í fyrra voru ofan­greindir stærstu eig­endur Síld­­ar­vinnsl­unnar og helstu stjórn­­endur henn­­ar. Sam­herji fékk um 12,2 millj­­arða króna af þeirri upp­­hæð sem selt var fyrir í sinn hlut og Kjálka­­nes seldi fyrir 15,3 millj­arða króna. Eign­­ar­halds­­­fé­lagið Snæ­fugl seldi hluti fyrir einn millj­­arð króna og Síld­­ar­vinnslan fékk um 738 millj­­ónir króna fyrir þá eigin hluti hennar sem hún seldi.

Kjálka­nes seldi svo við­bót­ar­hlut í júní í fyrra fyrir alls um tvo millj­arða króna. Félagið hefur því þegar selt hluti fyrir meira en 17 millj­arða króna á síð­ustu mán­uð­um.

Brim líka rokið upp

Sama dag og hluta­fjár­út­boði í Síld­ar­vinnsl­unni lauk var mark­aðsvirði Brim, ann­ars útgerð­ar­fé­lags sem er skráð á mark­að, 102,7 millj­arðar króna. Líkt og rakið var hér að ofan hefur það síðan hækkað um 75 pró­sent og var í lok dags á þriðju­dag 176,7 millj­arðar króna. Mark­aðsvirðið hefur því auk­ist um 74 millj­arða króna. 

Langstærsti eig­andi Brim er Útgerð­­­­­­ar­­­­­­fé­lag Reykja­vík­­­­­­­­­­­ur, sem á 43,97 pró­­­­­­sent hlut í Brim beint og í gegnum dótt­­­­­­ur­­­­­­fé­lag sitt RE-13 ehf. Það félag er að upp­­i­­­­stöðu í eigu Guð­­­mundar Krist­jáns­­­son­­­ar. Hlutur Útgerð­ar­fé­lags Reykja­víkur í Brim hefur því hækkað um 32,5 millj­arða króna á tíu mán­uð­um.

Útgerð­ar­fé­lag Reykja­víkur keypti fyrst hluti í Brimi árið 2018 þegar það keypti um 34,1 pró­sent hlut Krist­jáns Lofts­­son­ar og Hall­­dórs Teits­­son­ar á 21,7 millj­arða króna. Sá hlutur hefur hækkað um 38,6 millj­arða króna í virði síðan þá, eða um 177 pró­sent.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og stærsti eigandi Brims.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Næsta árið hélt félagið eða tengdir aðilar áfram að stækka í Brimi, ýmist með kaupum á bréfum eða í gegnum hluta­fjár­aukn­ingar vegna kaupa Brims á eignum Útgerð­ar­fé­lags Reykja­vík­ur. Hjálmar átti á þeim tíma í Útgerð­ar­fé­lagi Reykja­víkur og um tíma voru félög bræðr­anna með meiri­hluta í Brimi. Þeir fram­kvæmdu hins vegar fjár­hags­legan aðskilnað á eign­ar­hlut sínum í Brimi í lok árs 2019 sem gerði það að verkum að Hjálmar fór út úr Útgerð­ar­fé­lagi Reykja­víkur en eign­að­ist KG Fisk­verkun að fullu. 

Auk þess eiga félögin KG Fisk­verkun og Stekkja­sal­ir, í eigu Hjálm­ars Krist­jáns­sonar bróður Guð­mundar og sona hans, 5,89 pró­sent hlut í Brimi og félagið á 1,79 pró­sent hlut í sjálfu sér. Bræð­urnir halda því á 49,86 pró­sent hlut í útgerð­ar­ris­anum og geta saman myndað meiri­hluta í honum ef atkvæða­vægi eigin hlutar Brims er dregið frá. Hlutur félaga Hjálm­ars í Brim er met­inn á 10,4 millj­arða króna og hefur hækkað um 4,4 millj­arða króna á tíu mán­uð­um.

Sam­an­lagt hefur hlutur bræðr­anna og sona Hjálm­ars því hækkað um næstum 43 millj­arða króna frá því í maí í fyrra. 

Stefnir í metár

Síð­asta ár, 2021, var besta ár íslenskra útgerða frá upp­hafi ef miðað er við heild­ar­afla­verð­mæti. Sam­kvæmt tölum sem Hag­stofa Íslands birti í byrjun mars var heild­ar­afla­verð­mæti íslenskra útgerða 162 millj­arðar króna miðað við fyrstu sölu og jókst um níu pró­sent milli ára. Í ljósi þess að ein­ungis var búið að veiða, landa og selja loðnu fyrir um fimmt­ung af því sem vænst er að fáist fyrir úthlut­aðan kvóta vegna yfir­stand­andi fisk­veiði­árs um síð­ustu ára­mót má vænta þess að árið 2022 verði enn betra ár fyrir útgerðir lands­ins. Veik­ing krón­unnar mun auk þess ýkja rekstr­ar­nið­ur­stöð­una en hækk­andi olíu­verð auka kostnað á mót­i. 

Þess var því beðið með nokk­urri eft­ir­vænt­ingu að skráðu útgerð­ar­fé­lögin myndu birta árs­upp­gjör sín, fyrstu birtu upp­gjör útgerða vegna árs­ins 2021. Það gerð­ist í lok febr­úar og byrjun mar­s. 

Bæði félög­in, Síld­ar­vinnslan og Brim, högn­uð­ust um rúma ell­efu millj­arða króna í fyrra. Á grund­velli þessa árang­­urs ætlar Brim að greiða hlut­höfum sínum rúm­­lega fjóra millj­­arða króna í arð vegna frammi­­stöðu síð­­asta árs og Síld­ar­vinnslan ætlar að greiða sínum 3,4 millj­arða króna. Útgerð­ar­fé­lag Reykja­víkur og félög Hjálm­ars Krist­jáns­sonar fá um tvo millj­arða króna af arð­greiðslu Brims í sinn hlut og Sam­herji, Kjálka­nes og Snæ­fugl rúm­­lega 1,8 millj­­arða króna af arð­greiðslur Síld­ar­vinnsl­unn­ar. 

Greiða meira í arð en í opin­ber gjöld

Síld­ar­vinnslan greiddi 531 millj­­ónir króna í veið­i­­­gjöld í fyrra og tæp­­lega 2,1 millj­­arð króna í tekju­skatt. Því námu sam­an­lagðar greiðslur vegna veið­i­­gjalds og tekju­skatts í rík­­is­­sjóð um 2,6 millj­­örðum króna, eða 76 pró­­sent af þeirri upp­­hæð sem til stendur að greiða hlut­höfum í arð og 23 pró­­sent af hagn­aði Síld­­ar­vinnsl­unnar vegna síð­­asta árs. 

Brim greiddi alls um 907 millj­­ónir króna í veið­i­­­gjald á árinu 2021 og tæpa þrjá millj­arða króna í tekju­skatt. Sam­tals greiddi Brim því rúm­lega 3,8 millj­arða króna í tekju­skatt og veiði­gjöld til rík­is­sjóðs, sem er lægri upp­hæð en til stendur að greiða hlut­höfum í arð og um þriðj­ungur af hagn­aði félags­ins.

Þetta er við­snún­ingur sem fyrst varð vart á árinu 2020. Þá greiddu öll sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki lands­ins í fyrsta sinn eig­endum sínum meira í arð en þau greiddu sam­tals í tekju­skatt, trygg­inga­gjald og veiði­gjald. Arð­greiðsl­urnar 2020 voru 21,5 millj­arðar króna en opin­beru gjöldin 17,4 pró­sent. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar