Mynd: Pexels

Forstjórarnir með 5,6 milljónir á mánuði að meðaltali í fyrra – Sextánföld lágmarkslaun

Forstjórar skráðra félaga á Íslandi héldu áfram að hækka í launum í fyrra, nú um að minnsta kosti 8,5 prósent að meðaltali. Hækkun á milli ára er vel umfram ein lágmarkslaun. Þá á eftir að taka tillit til kaupauka og kauprétta á hlutabréfum, sem hækka heildargreiðslur til sumra forstjóra umtalsvert.

Með­al­laun for­stjóra þeirra 20 félaga sem skráð eru á aðal­markað Kaup­hallar Íslands á síð­asta ári voru rúm­lega 5,6 millj­ónir króna. Það er um 8,5 pró­sent hærri laun en þeir voru með að með­al­tali árið 2020, þegar þau voru tæp­lega 5,2 millj­ónir króna. Alls hækk­uðu laun þeirra að með­al­tali um 444 þús­und krón­ur.

Þetta má lesa úr árs­reikn­ingum skráðra félaga sem hafa birst hver af öðrum und­an­far­ið. Sú breyt­ing er gerð á sam­an­tekt Kjarn­ans nú frá fyrri árum að í öllum til­fellum er mót­fram­lag í líf­eyr­is­sjóði nú talið með auk hlunn­inda og launa, enda til­tekið með skýrum hætti í öllum árs­reikn­ingum fyrir síð­asta ár. Vert er að taka fram að tvö skráð félög hafa ekki birt árs­upp­gjör sín. Síld­ar­vinnslan birti ekki fyrr en í næstu viku og því miða laun for­stjóra hennar í þess­ari sam­an­tekt við þau laun sem hann hafði á árinu 2020 og Hagar hafa öðru­vísi upp­gjörsár en önnur skráð félög, sem hefst 1. mars. Því miða laun Haga við upp­gjörsárið 2020/2021. 

Sam­kvæmt sam­an­tekt Kjarn­ans hækk­uðu 15 for­stjórar í launum á síð­asta ári, fjórir lækk­uðu og, líkt og áður sagði, þá hefur eitt félag ekki skilað árs­upp­gjöri með upp­lýs­ingum um kjör for­stjóra. 

Til sam­an­­burðar má nefna að reglu­leg laun launa­fólks í fullu starfi voru að með­al­tali 670 þús­und krónur á mán­uði árið 2020 og um helm­ingur launa­fólks var með laun á bil­inu 480 til 749 þús­und krónur á mán­uði, sam­kvæmt sam­an­tekt Hag­stofu Íslands. Tíundi hver launa­maður var með reglu­leg laun undir 400 þús­und krónur á mán­uði, en lág­marks­laun á Íslandi í fyrra voru 351 þús­und krón­ur. Laun for­stjóra skráðra félaga hækk­uðu því um ein lág­marks­laun og 93 þús­und krónum betur á síð­asta ári að með­al­tali og voru næstum sext­án­föld lág­marks­laun. Þá á eftir að taka til­lit til kaupauka­greiðslna og áunn­inna kaup­rétta. 

Mik­ill gangur á mark­aði vegna aðgerða yfir­valda

Síð­asta ár var sér­stakt að mörgu leyti. Kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn geis­aði með til­heyr­andi áhrifum og aðgerðir Seðla­banka og stjórn­valda til að draga úr nei­kvæðum efna­hags­legum afleið­ingum hans voru enn í fullri virkni. Í þeim fólst meðal ann­ars að stýri­vextir voru lækk­aðir mikið og sveiflu­jöfn­un­ar­auki var afnum­inn um tíma til að auka fram­boð af ódýru láns­fé. 

Fyrir vikið hefur eigna­verð rokið upp, þar á meðal virði hluta­bréfa. 

Þannig hækk­­uðu bréf í öllum félögum sem skráð eru á aðal­­­markað á árinu 2021. Úrvals­­vísi­tala Kaup­hall­­ar­innar hækk­­aði um þriðj­ung á síð­­asta ári, sam­an­­borið við 20,5 pró­­sent á árinu 2020.

Mest hækk­­uðu þau hjá Arion banka á síð­asta ári, alls um 100,5 pró­­sent, en minnst hjá Mar­el, stærsta skráða félagi lands­ins og því eina sem er í umfangs­­miklum alþjóð­­legum vaxtafasa, en bréf þess hækk­­uðu um 10,9 pró­­sent. Bréf Marel eru líka skráð á mark­aði í Holland­i. 

Tvö félög voru skráð á aðal­markað í fyrra, Íslands­banki og Síld­ar­vinnsl­an.  Mark­aðsvirði skráðra hluta­bréfa var í árs­lok 2.556 millj­arð­ar  króna sam­an­borið við 1.563 millj­arða króna í lok árs 2020, sem er um 64 pró­sent hækkun milli ára.

For­stjóri stærsta félags­ins með hæstu launin

Nokkur félög í íslensku kaup­höll­inni gera upp í öðrum myntum en íslenskri krónu. Til að gæta sam­ræmis þá eru öll laun for­stjóra reiknuð á árs­loka­gengi þess gjald­mið­ils sem við­kom­andi félög gera upp í. Inni í launum eru laun, hlunn­indi og mót­fram­lag í líf­eyr­is­sjóði en fyrir utan þær greiðslur eru sumir for­stjórar með kaup­rétti af hluta­bréfum sem geta í sumum til­fellum verið mun meira virði en þær pen­inga­greiðslur sem þeir fá. 

Sá for­stjóri sem var með hæstu launin var, líkt og und­an­farin ár, Árni Oddur Þórð­ar­son, for­stjóri Mar­el. Laun hans voru um 13 millj­ónir króna á mán­uði í fyrra að með­al­tali og lækk­uðu um tíu pró­sent milli ára. Til við­­bótar við þessi laun þá vann Árni Oddur sér inn umtals­verða kaup­rétti sem metnir voru á 363 þús­und evr­­­ur, um 53,6 millj­­ónir króna, á síð­­asta ári.

Hækk­uðu um helm­ing í launum

Nokkrir for­stjórar hækk­uðu dug­lega í launum á síð­asta ári. Hlut­falls­lega hækk­uðu laun Heið­ars Guð­jóns­son­ar, for­stjóra Sýn­ar, mest eða um 51,4 pró­sent. Heiðar var með 5,3 millj­ónir króna að með­al­tali á mán­uði í laun en Sýn skil­aði hagn­aði í fyrra, eftir að hafa skilað tapi árin 2019 og 2020. Hagn­að­ur­inn var þó að öllu leyti til­kom­inn vegna eigna­sölu. Án hennar hefði verið tap á rekstri Sýnar á árinu 2021.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair Group, hækk­aði um næstum 48 pró­sent í launum og var með 6,9 millj­ónir króna að með­al­tali á mán­uði í laun, hlunn­indi og mót­fram­lag í líf­eyr­is­sjóð. 

Icelandair Group hefur gefið það út að launa­hækkun Boga Nils megi meðal ann­ars rekja til þess að launa­lækkun sem hann tók á sig í kjöl­far þess að kór­ónu­veiru­kreppan skall á. Icelandair Group hefur tapað næstum 80 millj­örðum króna á fjórum árum, farið í tvær hluta­fjár­aukn­ingar sem hafa þynnt út fyrri hlut­hafa um meira en 80 pró­sent á skömmum tíma, fengið meira fjár­magn úr rík­is­sjóði en nokkuð annað fyr­ir­tæki til að takast á við kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn og átt í fyr­ir­ferða­miklum vinnu­mark­aðserjum við lyk­il­stéttir til að lækka laun þeirra og auka vinnu­fram­lag. Í dag fer fram aðal­fundur Icelandair Group þar sem tekin verður fyrir til­laga stjórnar félags­ins um að setja á fót hvata­­­kerfi fyrir fram­­­kvæmda­­­stjórn félags­­­ins og valda lyk­il­­­starfs­­­menn. Sam­­­kvæmt til­­­lögu stjórn­­­ar­innar snýst kerfið um að hóp­­­ur­inn muni geta fengið allt af 25 pró­­­sent af árs­­­launum sínum í bónus í formi kaup­réttar á hlutum í Icelandair Group. Fyr­ir­hugað er að gefa út 250 milljón hluti í ár vegna kerf­is­ins og alls 900 milljón hluti á þriggja ára tíma­bili. Miðað við mark­aðsvirði Icelandair Group í dag er virði þeirra hluta sem greiða á út sem kaupauka um tveir millj­­­arðar króna. Hægt verður að inn­­­­­leysa umrædda kaup­rétti að þremur árum liðn­­­­­um.

Líf­eyr­is­sjóð­ur­inn Gildi, einn stærsti hlut­hafi Icelandair Group, hefur þegar gefið það út að hann muni greiða atkvæði gegn til­lög­unn­i. 

Banka­stjórar vel haldnir

Bónus­kerfin eru þó komin í gagnið víða í íslensku atvinnu­lífi, til dæmis hjá Arion banka. Þar hafa verið inn­leidd bæði kaupauka- og kaup­rétt­ar­kerfi fyrir alla fast­ráðna starfs­menn. Lyk­il­stjórn­endur fá svo hærri kaupauka en aðr­ir. 

Á meðal þeirra er Bene­dikt Gísla­son, banka­stjóri Arion banka. Hann var með rúm­lega 5,8 millj­ónir króna á mán­uði að með­al­tali í laun, hlunn­indi og mót­fram­lag í líf­eyr­is­sjóð í fyrra sem var 6,6 pró­sent meira en hann fékk árið 2020. Hann fékk auk þess kaupauka upp á 17,5 millj­ónir króna í formi hluta­bréfa auk þess sem hann getur keypt hluta­bréf í bank­anum fyrir 1,5 millj­ónir króna á ári á gengi sem er um helm­ingur mark­aðs­gengi bank­ans sam­kvæmt kaup­rétt­ar­á­ætlun Arion banka. 

Íslandsbanki var skráður á markað í fyrra. Samhliða varð Birna Einarsdóttir fyrsta konan til að stýra skráðu félagi á Íslandi frá sumrinu 2016.
Mynd: Nasdaq Iceland

Hinir banka­stjór­arnir í Kaup­höll­inni eru heldur ekki á flæðiskeri stadd­ir. Birna Ein­ars­dótt­ir, banka­stjóri Íslands­banka og eina konan sem stýrir skráðu félagi á Íslandi, var með 5,7 millj­ónir króna á mán­uði að með­al­tali, meðal ann­ars vegna þess að hún fékk sér­staka álags­greiðslu í tengslum við skrán­ingu bank­ans á mark­að. Mar­inó Örn Tryggva­son, for­stjóri Kviku, hækk­aði um 23,3 pró­sent í launum milli ára og var með 5,3 millj­ónir króna í laun, hlunn­indi og mót­fram­lag að með­al­tali á mán­uði.

Allir nema einn með yfir fjórar millj­ónir á mán­uði

Ein­ungis einn for­stjóri var með laun undir fjórum millj­ónum krónum á mán­uði að með­al­tali, Garðar Hannes Frið­jóns­son, for­stjóri fast­eigna­fé­lags­ins Ein­ar. Það mun­aði þó ekki miklu þar sem með­al­tals­laun hans á síð­asta ári voru 3,95 millj­ónir króna á mán­uð­i. 

Alls ell­efu for­stjórar voru með yfir fimm millj­ónir króna á mán­uði í laun, hlunn­indi og mót­fram­lag í líf­eyr­is­sjóði. Næstur á eftir Árna Oddi kom Árni Pétur Jóns­son, sem stýrði Skelj­ungi í fyrra, með sjö millj­ónir króna á mán­uði. Laun, hlunn­indi og mót­fram­lag hækk­uðu um meira en þriðj­ung á árinu 2021.  Árni Pétur sagði starfi sínu lausu fyrr á þessu ári og eftir að honum barst tölvu­póstur frá yrrum sam­­­starfs­­­konu hans í öðru fyr­ir­tæki, þar sem hann var yfir­­­­­maður hennar fyrir um 17 árum síð­­­­­an. Í til­kynn­ingu sem Árni Pétur sendi frá sér vegna þessa sagði: „Þar greinir hún frá því að í dag upp­­­lifi hún sam­­­skipti okkar á þessum tíma með þeim hætti að ég hafi gengið yfir ákveðin mörk.“ 

Skelj­ungur hagn­að­ist um 6,9 millj­arða króna í fyrra en nær allur sá hagn­aður var vegna eigna­sölu. Til stendur að breyta nafni félags­ins í Skel fjár­fest­inga­fé­lag á kom­andi aðal­fund­i. 

Orri Hauks­son, for­stjóri Sím­ans, hækk­aði líka dug­lega í launum og var með tæp­lega 6,4 millj­ónir króna á mán­uði að með­al­tali í fyrra, að teknu til­liti til líf­eyr­is­greiðslna. Það er 16,5 pró­sent meira en árið áður. Sím­inn hagn­að­ist um 5,2 millj­arða króna á árinu 2021, sem var umtals­vert meira en árið áður.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar