Hetja á einni nóttu
Hinn 44 ára gamli Volodímír Zelenskí, lögfræðingur og þekktur grínisti í heimalandi sínu Úkraínu, sem lék eitt sinn forseta í vinsælum sjónvarpsþáttum og tók svo við því embætti í raunveruleikanum, hefur hlotið lof og dáð fyrir hugrekki sitt og föðurlandsást. „Ég þarf skotfæri, ekki far,“ sagði hann er Bandaríkjamenn buðust til að flytja hann burt úr hinni stríðshrjáðu Úkraínu. Staðfesta hans og tilfinningaríkt símtal hans frá Kænugarði á neyðarfund Evrópusambandsins, sló fast á strengi vesturveldanna sem settu í kjölfarið sögulegar þvinganir á Rússland og ákveðið að senda forsetanum hergögn. „Þetta var ákaflega, ákaflega tilfinningaríkt,“ sagði embættismaður ESB sem heyrði símtal Zelenskí sem fékk tárin til að streyma hjá fundargestum. Forsetinn sagði m.a. að mögulega væri þetta í síðasta sinn sem viðstaddir myndu sjá hann á lífi.
Vildi verða sáttasemjari
Eitt af stefnumálum hans í stóli forseta var að sættast við Rússa. Það var verulegur hiti í samskiptum ríkjanna árið sem hann náði kjöri, 2019. Rússar höfðu innlimað Krímskaga árið 2014 og um 15 þúsund manns höfðu fallið í þeim átökum.
En Zelenskí komst ekki langt á þeirri braut. Hann náði reyndar að semja um fangaskipti en slegið var á sáttarhönd hans er hann neitaði að fara að kröfum Pútíns um að draga sig frá vesturveldunum á hinu pólitíska sviði. Halla sér ekki upp að erkifjendum Rússa, Bandaríkjamönnum. Það var hann ekki tilbúinn að gera.
Óvinsæll í aðdraganda stríðsins
En Zelenskí var ekki endilega hátt skrifaður hjá leiðtogum vesturveldanna eða löndum sínum áður. Hann hafði verið gagnrýndur fyrir að taka ekki harðar á spillingu í landinu og einnig fyrir að gera lítið úr hótunum Rússa í garð Úkraínu áður en af innrásinni varð.
Hann gagnrýndi m.a. Joe Biden forseta Bandaríkjanna fyrir stöðugar viðvaranir hans um að Rússar hyggðu á innrás. Sagði hann orð Bidens ótímabær og að þau gætu valdið skelfingu meðal Úkraínumanna.
Þá vildu um 60 prósent Úkraínumanna ekki að hann biði sig fram til forseta á ný. Nú er komið allt annað hljóð í landa hans og yfir 90 prósent þeirra styðja hann.
Hið „fullkomna símtal“
Zelenskí vakti fyrst athygli á alþjóðavísu í valdatíð Donalds Trump. Trump hringdi í hann árið 2019 og bað hann að grafa upp eitthvað misjafnt á Joe Biden og son hans. Þetta var í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna. Trump sagði þetta hafa verið „fullkomið símtal“ sem seinna varð til þess að fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákærði hann fyrir embættisafglöp, fyrir að hafa notað stöðu sína sem forseti í persónulegum tilgangi og hóta því að draga úr fjárstuðningi til hermála í Úkraínu.
Zelenskí neitaði að gagnrýna símtal Trumps og sagðist ekki vilja skipta sér af innanríkispólitík annarra ríkja.
Gyðingur verður sameiningartákn
Er herir Pútíns forseta Rússlands hófu innrásina í Úkraínu sagðist Zelenskí vera „skotmark númer eitt“. Hann var þar með orðinn „Úkraínumaður númer eitt“ í augum heimsbyggðarinnar. Í ljósi sögunnar er gríðarlegur stuðningur við hann í heimalandinu einstakur og í raun nokkuð óvenjulegur.
Hann ólst upp í Sovétríkjunum í rússnesku mælandi borginni Kryvyi Rih í austurhluta Úkraínu. Andrúmsloft Sovéttímans mótaði hann. Hann er af gyðingaættum og var fjölskyldan að einhverju leyti utangarðs jafnvel þótt þau væru hámenntuð, móðir hans verkfræðingur og faðir hans stærðfræðingur. Á hans heimaslóðum var fjandsemi í garð gyðinga mikil. Fjöldamorð þýskra nasista og aðskilnaðarhópa í Sovétríkjunum á gyðingum í Babi Yar árið 1941, er mörgum enn ofarlega í huga. Tæplega 34 þúsund gyðingar voru drepnir á aðeins tveimur dögum.
Zelenskí sagðist í viðtali árið 2020 vera kominn af „dæmigerðri sovéskri gyðingafjölskyldu“ og að flestir gyðingar í Sovétríkjunum hefðu ekki verið sérstaklega trúræknir.Í fréttaskýringu The Atlantic um málið segir að þessi orð beri það ef til vill fyrst og fremst með sér að trúrækni var ekki möguleg. Bænahús gyðinga voru sem dæmi að mestu lokuð þar til í lok níunda áratugar síðustu aldar.
Allt frá áttunda áratugnum og til þess tíunda yfirgáfu um 1,5 milljónir gyðinga Sovétríkin. Zelenskí og fjölskylda hans voru í minnihluta þeirra gyðinga sem ákváðu að verða um kyrrt.
Sovétríkin liðust í sundur, Úkraína varð sjálfstætt ríki og gyðingar gátu farið að iðka trú sína. Úr þessu breytta andrúmslofti spratt forsetaefnið Zelenskí. Fyrst í hlutverki gyðings sem varð forseti í sjónvarpsþætti og svo sem einmitt það sama í raun og veru eftir stórsigur í kosningum árið 2019.
Nú þegar Zelenskí er orðinn sameiningartákn Úkraínumanna finnst gyðingum í landinu, sem í gegnum tíðina hafa sætt ofsóknum, þeir loks tilheyra.
Ósvikinn þjóðarleiðtogi
Zelenskí er fjölskyldumaður. Hann giftist arkitektinum Olenu árið 2003 og saman eiga þau sautján ára dóttur og níu ára son. Sjálfur er hann nú staddur í Kænugarði og segist hvergi ætla að fara. Hann hefur svo bætt því við að fjölskyldan sé enn í Úkraínu. Að hún sé ekki á flótta líkt og tugþúsundir annarra.
„Stríðið hefur breytt hinum fyrrverandi grínista úr afdalalegum stjórnmálamanni með ranghugmyndir um mikilleika sinn í ósvikinn þjóðarleiðtoga,“ skrifar Melinda Haring, sérfræðingur í utanríkismálum Evrasíu-ríkja.
Þótt hægt sé að gagnrýna hann fyrir að fara ekki hraðar í umbætur heima fyrir og styrkja landamæri Úkraínu að Rússlandi með öllum ráðum síðustu mánuði hefur hann sýnt „gríðarlegt hugrekki“, neitað að sitja í skjóli í skotbyrgi heldur verið sýnilegur og farið um vígvelli með hermönnum sínum. „Hann hefur sýnt staðfasta föðurlandsást sem fáir áttu líklega von á frá rússneskumælandi Austur-Úkraínumanni,“ skrifaði Haring enn fremur.
Undir þessa skoðun hafa margir tekið síðustu daga. Staðfesta Zelenskís þykir aðdáunarverð.