„Landsframleiðla er framleiðsla á allri vöru og þjónustu innan ákveðins landsvæðis yfir ákveðið tímabil. Við notum gjaldmiðil, krónur á Íslandi, til þess að mæla landsframleiðsluna.“ Svona útskýrði Sigríður Benedíktsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, fyrirbærið landsframleiðslu í síðasta þætti af Ferð til fjár á RÚV.
Að fengnu leyfi frá Helga Seljan, fréttamanni og öðrum umsjónarmanni þáttanna, þá fór Sigríður með jöfnuna sem skýrir hvernig landsframleiðslan er reiknuð. „Við leggjum þá saman allt það sem einstaklingar neyta, allt það sem ríkið neytir og alla fjárfestingu. Til þess að ná saman öllu sem við framleiðum innan landsvæðisins þá bætum við einnig öllum útflutningi við en drögum frá allt það sem við fluttum inn, því við neyttum þess en framleiddum það ekki,“ sagði Sigríður. Formúlan lítur þá svona út:
Verg landsframleiðsla = einkaneysla + samneysla + fjárfesting + útflutningur – innflutningur.
Mælikvarði á hagsæld
En hvers vegna er svona oft litið til landsframleiðslunnar, bæði í fréttum og umræðum um efnahagsmál?
„Ástæðan hvers vegna við notum landsframleiðslu svona mikið er sú að hún er ákveðinn mælikvarði á hagsæld. Því meira sem við framleiðum af vöru og þjónustu, því mun meira getum við neytt. Þar af leiðandi notum við breytinguna á landsframleiðslu sem mælikvarða til að sjá breytingu á okkar hagsæld,“ skýrir Sigríður og á þar við hagvöxt, það er breytingu á landsframleiðslu milli ára.
„Það er mikilvægt að vita að hagvöxtur mælir bara breytinguna á magninu á vöru og þjónustu en ekki verðinu. Við erum að horfa á hversu mikið við framleiðum af vörum og þjónustu innan ákveðins hagsvæðis á ákveðnum tíma, og miðum það við ákveðinn tíma áður. Þetta þýðir einfaldlega að ef verðbólga er fimm prósent en landsframleiðsla eykst um tíu prósent, þá má segja að hagsæld hafi í raun aukist um fimm prósent.“
3,5% hagvöxtur árið 2013
Með öðrum orðum þá er tekið tillit til almennra verðlagsbreytinga, verðbólgunnar svokölluðu, þegar hagvöxtur er reiknaður. Þá er landsframleiðsla hvers árs færð á fast verðlag. Í tölum Hagstofunnar er miðað við árið 2005 og í töflunni hér að neðan má bæði sjá hvernig landsframleiðslan hefur breyst á föstu verðlagi og hvernig hún hefur breyst á verðlagi hvers árs (þegar ekki er tekið tillit til verðbólgunnar).
Til dæmis nam landsframleiðsla árið 2013 um 1.873 milljörðum króna, samanborið við 1.774 milljarða árið 2012. Aukningin var 5,6 prósent milli ára. Sé tekið tillit til verðbólgunnar, og stærðirnar færðar á fast verðlag, þá kemur í ljós að hagvöxturinn var jákvæður 3,5 prósent árið 2013. Taflan hér að neðan sýnir hagvöxt hvers árs, frá aldamótum til 2013.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 19. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.