Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, var með tæplega 1,5 milljónir króna í laun og lífeyrisgreiðslur fyrir að sinna starfi stjórnarformanns Kviku banka, og fyrir að sitja í undirnefndum stjórnar, á árinu 2021. Í fyrra fékk hann alls 17,5 milljónir króna fyrir þau störf en fékk 11,7 milljónir króna fyrir þau árið áður. Þess ber þó að gera að Sigurður var fyrst kjörinn í stjórn Kviku banka á aðalfundi hans í lok mars 2020 og sat því ekki í stjórn allt það ár. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins frá miðju ári 2017 en starfaði þar áður um nokkurra ára skeið sem framkvæmdastjóri á eignastýringarsviði Kviku banka.
Þetta kemur fram í ársreikningi Kviku banka.
Samtök iðnaðarins birta ekki ársreikning með upplýsingum um launakjör framkvæmdastjóra en samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar í fyrra, sem sýndi laun á árinu 2020, var Sigurður með 3,3 milljónir króna í tekjur að meðaltali á mánuði. Gera má ráð fyrir að þær tekjur hafi aukist umtalsvert í fyrra í ljósi þess að hann sat allt árið sem stjórnarformaður Kviku banka og vegna þess að greiðslur fyrir það starf hækkuðu milli ára.
Mikið gekk á í rekstri félagsins í fyrra en Kvika, TM og Lykill sameinuðust í mars í fyrra. Heildareignir samstæðunnar jukust um 100 prósent milli ára og voru 246 milljarðar króna um síðustu áramót. Hagnaður fyrir skatta var 10,5 milljarðar króna.
Sex með meira en milljón á mánuði
Einungis tveir stjórnarformenn voru með hærri mánaðartekjur en Sigurður á síðasta ári: Arnar Þór Másson sem tók við sem stjórnarformaður Marel, langstærsta félags Kauphallar Íslands, á árinu var með um 1,9 milljónir króna á mánuði og Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka, var með um 1,7 milljónir króna á mánuði fyrir að sinna stjórnarformennsku og störfum fyrir undirnefndir stjórnar.
Um er að ræða aukastarf sem fólk tekur að sér samhliða öðrum störfum eða annarri stjórnarsetu. Í engu tilfelli er stjórnarformennska í skráðu félagi það eina sem viðkomandi gerir.
Launaskrið hjá forstjórum skráðra félaga
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að meðallaun forstjóra þeirra 20 félaga sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallar Íslands á síðasta ári hafi verið rúmlega 5,6 milljónir króna. Það er um 8,5 prósent hærri laun en þeir voru með að meðaltali árið 2020, þegar þau voru tæplega 5,2 milljónir króna. Alls hækkuðu laun þeirra að meðaltali um 444 þúsund krónur.
Um er að ræða laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóði. Vert er að taka fram að tvö skráð félög hafa ekki birt ársuppgjör sín. Síldarvinnslan birti ekki fyrr en um miðja þessa viku og því miðuðu laun forstjóra hennar í samantekt Kjarnans við þau laun sem hann hafði á árinu 2020 og Hagar hafa öðruvísi uppgjörsár en önnur skráð félög, sem hefst 1. mars. Því miðuðu laun forstjóra Haga við uppgjörsárið 2020/2021.
Samkvæmt samantekt Kjarnans hækkuðu 15 forstjórar í launum á síðasta ári, fjórir lækkuðu og, líkt og áður sagði, þá hefur eitt félag ekki skilað ársuppgjöri með upplýsingum um kjör forstjóra.
Til samanburðar má nefna að regluleg laun launafólks í fullu starfi voru að meðaltali 670 þúsund krónur á mánuði árið 2020 og um helmingur launafólks var með laun á bilinu 480 til 749 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands. Tíundi hver launamaður var með regluleg laun undir 400 þúsund krónur á mánuði, en lágmarkslaun á Íslandi í fyrra voru 351 þúsund krónur. Laun forstjóra skráðra félaga hækkuðu því um ein lágmarkslaun og 93 þúsund krónum betur á síðasta ári að meðaltali og voru næstum sextánföld lágmarkslaun. Þá á eftir að taka tillit til kaupaukagreiðslna og áunninna kauprétta.