Í október 2020 var greint frá því að útgerðarfélagið Bergur-Huginn, að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar, hefði keypt útgerðarfélagið Berg ehf. í Vestmannaeyjum. Við þau kaup fluttust 0,36 prósent af heildarkvóta yfirstandandi fiskveiðiárs yfir til Bergs-Hugins. Þegar kaupin voru opinberuð var ekki sagt frá því hvert kaupverðið var. Í ársreikningi Síldarvinnslunnar, sem birtur hefur verið á heimasíðu félagsins í aðdraganda skráningar hennar á íslenskan hlutabréfamarkað, er kaupverðið hins vegar tilgreint. Það var tæpir 4,9 milljarðar króna.
Þar er einnig greint frá því að Síldarvinnslan hafi gengið frá kaupum á 12,4 prósent hlut í útgerðinni Runólfi Hallfreðssyni ehf. í byrjun aprílmánaðar 2021 og er það félag nú að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar. Kaupverðið er ekki gefið upp.
Verðmætasta eign Síldarvinnslunnar eru aflaheimildir sem hún hefur til ráðstöfunar. Síldarvinnslan hélt sjálf beint á 5,34 prósent alls úthlutaðs kvóta á Íslandi í september í fyrra. Þær aflaheimildir eru metnar á 121 milljón dali í ársreikningi samstæðunnar
Þær sem eru í eru metna á 227,1 milljón dala í ársreikningi samstæðunnar, eða 28,8 milljarða króna.
Til viðbótar heldur Bergur-Huginn á 1,68 prósent af heildarkvóta sem hefur verið úthlutað og Runólfur Hallfreðsson heldur á 0,65 prósent. Samanlagt heldur Síldarvinnslusamstæðan því á 7,67 prósent af úthlutuðum fiskveiðiheimildum.
Mögulega tengdir aðilar halda á 19 prósent af kvótanum
Hluthafar Síldarvinnslunnar eru sem stendur 281 talsins en tíu stærstu hluthafar félagsins fara með tæplega 99 prósent hlutafjár í félaginu. Þar af fara þrír eigendur: Samherji (44,64 prósent), Kjálkanes (34,23 prósent) og Eignarhaldsfélagið Snæfugl (5,29 prósent) með 84,16 prósent eignarhlut.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í byrjun apríl að Samkeppniseftirlitið sé þeirrar skoðunar að veruleg tengsl séu milli þessara þriggja stóru hluthafa í Síldarvinnslunni. Þrír af fimm stjórnarmönnum samstæðunnar eru skipaðir af þessum tveimur félögum eða eru tengdir eigendum þeirra. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru því vísbendingar um yfirráð Samherja yfir Síldarvinnslunni.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,3 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,7 prósent kvótans.
Gjögur, í eigu sömu aðilar og eiga Kjálkanes, heldur svo á 2,30 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum.
Samanlagt heldur þessi blokk, að þeim aflaheimildum sem Síldarvinnslan hefur yfirráð yfir, því á tæplega 19 prósent af úthlutuðum aflaheimildum á Íslandi.
Það er langt yfir þeim tólf prósentum sem landslög segja til um að tengdir aðilar megi halda á hverju sinni.
Metið á næstum 100 milljarða
Fyrir dyrum er skráning Síldarvinnslunnar á hlutabréfamarkað. Almennt hlutafjárútboð í félaginu mun fara fram daganna 10. til 12. maí næstkomandi og þar stendur til að selja 26 til 29 prósent hlut í félaginu.
Í útboðinu verður miðað við að heildarvirði Síldarvinnslunnar sé á bilinu 93,5 til 99 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur fengið hjá aðilum sem hafa séð kynningar á útboðinu.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í febrúar að búast mætti við því að markaðsvirði Síldarvinnslunnar yrði í kringum 100 milljarða króna.
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Síldarvinnslan er skráð á markaði. Hún var skráð í Kauphöll um áratugaskeið frá 1994 til 2004. En félagið er töluvert öðruvísi, og mun stærra, nú en það var þá.
Ef útboðsgengið mun á endanum verða í efri mörkum, og miða við að heildarvirði Síldarvinnslunnar sé 99 milljarðar króna, eru þeir hluthafar sem selja hluti að fara að fá 28,7 milljarða króna í sinn hlut fyrir það hlutafé sem þeir selja.
Búist er við að Samherji og Kjálkanes muni selja mest af því sem selt verður, jafnvel allt. Lífeyrissjóðir eru taldir líklegastir til að kaupa stærstan hluta þess sem selt verður.