Innan við hálft ár er til næstu þingkosninga, sem fara fram 25. september næstkomandi. Stjórnmálaflokkarnir eru í óða önn við að ákveða hvaða einstaklingar verði í framboði fyrir þá og hvaða megináherslur verða settar á oddinn til að hvetja sem flesta kjósendur til að setja X við þá.
Heilt yfir er staðan þannig, og hefur verið í nokkurn tíma samkvæmt könnunum, að flókið gæti orðið að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Stjórnarflokkarnir hafa allir tapað fylgi, stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir ekki bætt nægilega miklu við sig til að gera afgerandi kröfu á stjórnarmyndun og nýir flokkar sem hafa ekki átt sæti á Alþingi áður eru að banka á dyrnar. Ekki er útilokað að flokkarnir á þingi verði níu talsins eftir að atkvæði haustsins verða talin, og hafa þá aldrei verið fleiri.
Kjarninn fékk gögn frá MMR úr könnunum fyrirtækisins á fylgi stjórnmálaflokka síðustu þrjá mánuði. Á meðal þeirra upplýsinga sem þar er að finna er fylgi þeirra eftir landsvæðum. Tölur MMR miða þó ekki við kjördæmi í öllum tilvikum og því gefa þær fyrst og síðast vísbendingu um hver staða stjórnmálaflokkanna er í hverju kjördæmi fyrir sig.
Næstu daga mun Kjarninn fjalla um stöðu mála á hverju landsvæði fyrir sig. Næst á dagskrá er fjölmennasta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi.
Sjálfstæðisflokkurinn
Niðurstaða 2017 - 17.216 - 30,9 prósent
Sjálfstæðisflokkurinn er feykilega sterkur í Kraganum. Þetta er kjördæmi flokksformannsins til 12 ára, Bjarna Benediktssonar, og í síðustu kosningum og árið 2017 fékk flokkurinn 30,9 prósent atkvæða þar sem skilaði fjórum kjördæmakjörnum þingmönnum. Yfirburðir flokksins í kjördæminu voru slíkir að tveir fyrstu þingmenn þess koma báðir úr Sjálfstæðisflokknum.
Það er þröngt á þingi hjá Sjálfstæðisflokknum í Kraganum. Í síðustu tveimur kosningum var Bryndís Haraldsdóttir í öðru sæti á lista flokksins þrátt fyrir að hafa lent í fimmts sæti í síðasta prófkjöri hans (hún sóttist eftir fjórða) sem haldið var 2016. Það var gert til að jafna hlut kvenna en prófkjörið skilaði fjórum körlum í fjögur efstu sætin. Við breytinguna færðist Jón Gunnarsson, ritari flokksins, niður í þriðja sætið, Óli Björn Kárason í það fjórða og Vilhjálmur Bjarnason í það fimmta. Það dugði Vilhjálmi til að komast inn 2016 en ekki 2017.
Öll fimm ætla sér aftur á þing. Vilhjálmur tilkynnti framboð sitt með blaðagrein í Morgunblaðinu í janúar og sagðist stefna eins ofarlega og kostur væri „því það virðist regla fremur en undantekning að skáka mér til á listanum“.
Þá hafa verið sögusagnir um að Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, ætli að reyna fyrir sér í prófkjöri og að hann horfi mögulega til Suðvesturkjördæmis í þeim efnum. Þá er víða vilji innan flokksins að fjölga konum í forystu hans í þessu lykilkjördæmi.
Ljóst er að ekki verður pláss fyrir alla sem vilja komast að hjá Sjálfstæðisflokknum.
Vinstri græn
Niðurstaða 2017 - 7.591 - 13,6 prósent
Vinstri græn náðu þeim árangri 2017 að verða næst stærsti flokkurinn í Kraganum og fá tvo kjördæmakjörna þingmenn. Þá leiddi Rósa Björk Brynjólfsdóttir lista flokksins og Ólafur Þór Gunnarsson sat í öðru sæti. Rósa Björk ákvað hins vegar að styðja ekki myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki og varð því strax að nokkurskonar olnbogabarni innan þingflokks Vinstri grænna eftir síðustu kosningar. Það leiddi á endanum til þess að hún yfirgaf flokkinn og hefur nú gengið til liðs við Samfylkinguna, þar sem hún verður í framboði í Reykjavík.
Meðalfylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu var um 18 prósent árið 2017. Það mælist nú verulega minna samkvæmt meðaltali síðustu þriggja kannanna MMR, eða um 11,8 prósent. Enginn flokkur hefur dalað jafn mikið á kjörtímabilinu í fylgi eins og Vinstri græn. Leiða má að því líkum að mjög erfitt verið fyrir Vinstri græn að ná tveimur kjördæmakjörnum mönnum inn í Kraganum að óbreyttu.
Þrjú sækjast eftir að fylla oddvitaskarð Rósu. Þar ber fyrst að nefna Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og varaformann flokksins. Ólafur Þór vill líka taka skrefið upp á við á listanum og þá sækist Una Hildardóttir, núverandi varaþingmaður, líka eftir oddvitasætinu. Alls hafa níu einstaklingar gefið kost á sér í forvali um fimm efstu sæti flokksins. Þar vekur mesta athygli endurkoma Kolbrúnar Halldórsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, inn á hið pólitíska svið, en hún sækist eftir öðru sæti listans.
Samfylkingin
Niðurstaða 2017 - 6.771 - 12,1 prósent
Staða Samfylkingarinnar í Kraganum var á pari við heildarfylgi flokksins á landsvísu fyrir þremur og hálfu ári, sem skilaði einum þingmanni, rithöfundinum Guðmundi Andra Thorssyni. Fylgi flokksins mælist nú 15,6 prósent á öllu höfuðborgarsvæðinu samkvæmt síðustu þremur könnunum MMR en hefur verið að dala. Það gæti þó leitt til þess að Samfylkingin næði inn tveimur þingmönnum í Kraganum.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir tilkynnti í janúar að hún vildi leiða lista nýja flokks síns í Kraganum í næstu kosningum. Þremur vikum síðar var hún hætt við og ákvað þess í stað að þiggja annað sætið á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði Rósa Björk að hún hafi hringt „ótal símtöl í lykilfólk í kjördæminu og félaga í flokknum, almenna kjósendur en ekki síður við fólk sem var tilbúið að ganga til liðs við Samfylkinguna. Það er skemmst frá því að segja að mér var afar vel tekið, sem gladdi mig mjög. En eftir því sem á leið rann upp fyrir mér að harðasti kjarninn sem myndaði uppstillingarnefndina í Kraganum væri ekki líklegur til að bjóða konu sem væri svo nýlega gengin í flokkinn oddvitasætið. Þessi reynsla síðustu vikurnar hefur kennt mér margt. Ýmislegt gerðist sem ég vil gleyma sem fyrst en annað fer inn á reynslubankann og nýtist vel í næstu skref í stjórnmálunum“
Stóra ástæðan fyrir þessari kúvendingu Rósu Bjarkar var þó ekki nefnd á nafn, en hún er Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þórunn sat á þingi fyrir Samfylkinguna á árunum 1999 til 2011 og var umhverfisráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem sat við völd frá 2007-2009. Eftir að hún lét af þingmennsku var hún um skeið aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, þáverandi formanns flokksins og gerðist síðar framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Síðustu ár hefur hún verið formaður BHM.
Miðflokkurinn
Niðurstaða 2017 - 5.282 - 9,5 prósent
Miðflokkurinn náði fínum árangri í Kraganum í síðustu kosningum, þeim fyrstu sem flokkurinn tók þátt í, og fékk kjördæmakjörinn þingmann. Þar var um að ræða Gunnar Braga Sveinsson, sem hefur verið í stjórnmálum lengi og var um tíma utanríkisráðherra. Hann fylgdi Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þegar sá síðarnefndi stofnaði Miðflokkinn í aðdraganda kosninganna 2017 og tók auk þess þá óvæntu ákvörðun að færa sig úr Norðvesturkjördæmi, þar sem hann hafði verið þangað til, og yfir á mölina.
Nokkuð ljóst er að Gunnar Bragi, sem var varaformaður Miðflokksins þangað til að það embætti var lagt niður seint á síðasta ári og er núna staðgengill Sigmundar Davíðs ef hann forfallast, mun verða oddviti Miðflokksins í kjördæminu að óbreyttu.
Staða Miðflokksins á höfuðborgarsvæðinu er þó ekkert sérstök. Meðalfylgið á svæðinu öllu var um átta prósent fyrir þremur og hálfu ári en er nú 6,9 prósent, samkvæmt meðaltali síðustu þriggja kannana MMR.
Þá er ljóst að margir innan flokksins hafa áhyggjur af því að Gunnar Bragi verði áfram í forystu flokksins vegna hlutverks hans í Klausturmálinu svokallaða. Einn þeirra sem hafa viðrað þær skoðanir er Halldór Gunnarsson frá Holti, sem skrifaði grein í Morgunblaðið í lok nóvember í fyrra þar sem hann sagði að skoðanakannanir sýndu að konur kjósi síst flokkinn. „Næstum án undantekningar heyri ég eiginkonur manna hliðhollra Miðflokknum segja við mig: Ég kýs ekki Miðflokkinn ef Gunnar Bragi Sveinsson býður sig fram. Þegar ég spyr um ástæður er svarið það sama, sem ég þarf ekki að endursegja, því allir virðast sammála um ástæðuna.“
Viðreisn
Niðurstaða 2017 - 5.277 - 9,5 prósent
Einungis fimm atkvæðum munaði á Viðreisn og Miðflokknum í kosningunum 2017. Líklega er erfitt að finna ólíkari flokka í framboði á Íslandi í dag. Þeir eru nánast ekki sammála um neitt. Viðreisn er samt sem áður með tvo þingmenn í kjördæminu, formanninn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Jón Steindór Valdimarsson sem náði inn sem uppbótarþingmaður.
Staða flokksins hefur batnað á kjörtímabilinu, en fylgið á höfuðborgarsvæðinu mælist 12,1 prósent. Raunhæfar væntingar eru því til þess að Viðreisn geti náð inn tveimur kjördæmakjörnum þingmönnum í haust.
Stillt verður upp á lista flokksins og að óbreyttu ætti sama tvíeyki að leiða listann og gerði það síðast.
Píratar
Niðurstaða 2017 - 4.641 - 8,3 prósent
Píratar náðu einum kjördæmakjörnum þingmanni inn í Suðvesturkjördæmi fyrir þremur og hálfu ári síðan, Jóni Þór Ólafssyni. Hann hefur hins vegar ákveðið að hætta þingmennsku og verða ekki í framboði næst.
Þau vistaskipti leiddu til þess að líkast til sýnilegasti þingmaður flokksins, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, ákvað að að flytja sig úr oddvitasæti í Reykjavík og yfir í Kragann. Í stöðuuppfærslu sem hún birti í janúar vegna þessa sagði Þórhildur Sunna að Píratar þurfi að komast í ríkisstjórn. „Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að bæta samfélagið mitt og undirbúa það fyrir framtíðina. Það tilkynnist því hér með að ég sækist eftir endurkjöri og býð mig fram í prófkjöri Pírata. Í ljósi þess að ég er flutt á mínar gömlu æskuslóðir í Mosfellsbænum þykir mér rétt að færa mig um set og bjóða fram krafta mína til þess að leiða lista Pírata í Suðvesturkjördæmi.“
Höfuðborgarsvæðið er langsterkasta vígi Pírata. Þeir mælast nú með 14,1 prósent fylgi þar heilt yfir samkvæmt síðustu þremur könnunum MMR. Það er nokkuð yfir meðalfylgi þeirra á svæðinu í síðustu kosningum, sem var 11,1 prósent. Það ætti því að vera raunhæft markmið hjá flokknum að stefna á tvo þingmenn í Kraganum.
Í næsta sæti á eftir Þórhildi Sunnu í kjördæminu situr Gísli Rafn Ólafsson.
Framsóknarflokkurinn
Niðurstaða 2017 - 4.425 - 7,9 prósent
Willum Þór Þórsson mun leiða Framsókn áfram í Suðvesturkjördæmi. Hann tilkynnti um framboð í liðinni viku og það þá ljóst fyrir að hann ætti oddvitasætið öruggt ef hann hefði áhuga á að framlengja þingferil sinn, en Willum hefur setið á þingi frá árinu 2013, með smá hléi eftir að hafa dottið út í kosningunum 2016.
Sögusagnir eru um að reynt sé að fá Millu Ósk Magnúsdóttur, aðstoðarmann Lilju Alfreðsdóttur, til að taka slaginn í Kraganum og setjast í annað sætið á lista flokksins þar á eftir Willum.
Willum tjáði sig um þetta í hlaðvarpinu Arnarhóli í nóvember síðastliðnum þegar fylgi flokksins á svæðinu var enn minna, eða 5,9 prósent.
Willum sagði þar að Framsóknarflokknum hafi ekki tekist að tala nægilega skýrt fyrir borgaralegum málefnum. Það sjáist til að mynda á því að flokkurinn náði ekki inn manni í síðustu borgarstjórnarkosningum, þegar hann fékk 3,2 prósent atkvæða. Hann er með sitthvorn fulltrúann í sveitarstjórnum Kópavogs og Hafnarfjarðar og einungis tvo af 35 þingmönnum höfuðborgarsvæðisins.
Að sögn Willums þarf flokkurinn að horfast í augu við þessa þróun og breyta henni. „Við þurfum að virkja ungt fólk. Ég held að Framsóknarflokkurinn eigi að geta höfðað til ungs fólks og við erum með mjög flott ungt fólk núna í grasrótinni sem ég bind miklar vonir við að takist að safna ungu fólki sem að takist þetta.“
Flokkur fólksins
Niðurstaða 2017 - 3.616 - 6,5 prósent
Annar þingmaður Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, kemur úr Kraganum og náði inn árið 2017 sem uppbótarþingmaður. Hann mun leiða lista flokksins að nýju í haust.
Meðalfylgi Flokks fólksins var um 7,3 prósent á höfuðborgarsvæðinu í síðustu kosningum en mælist 4,0 prósent að meðaltali í síðustu þremur könnunum MMR. Það er því brekka framundan hjá Flokki fólksins miðað við þá stöðu.
Sósíalistaflokkur Íslands mun bjóða fram til Alþingis í fyrsta sinn í haust. Fylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu öllu mælist 4,3 prósent að meðaltali úr þremur síðustu könnunum MMR. Hann hefur ekki kynnt lista sína í kjördæminu og lítið spurst út um hverjir verði þar á fleti.
Alls segjast 1,7 prósent höfuðborgarbúa að þeir myndu kjósa annað en þá níu flokka sem hafa hér verið nefndir. Tveir aðrir flokkar hafa tilkynnt um framboð. Þeir eru Landsflokkurinn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn.