Fyrir rúmri viku tilkynnti Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur um væntanlegan samning við Bandaríkjastjórn. Samningurinn snýr að samvinnu herja landanna og heimild Bandaríkjahers til að hafa hermenn og búnað á danskri grund, um lengri eða skemmri tíma. Vinna við þetta samkomulag er á byrjunarreit og nokkur tími í að það verði frágengið. Meira um það síðar í þessum pistli, fyrst skriðdrekar.
Strangir kúrar
Á tíunda áratug síðustu aldar, eftir lok kalda stríðsins, hófst það sem danskir hernaðarsérfræðingar hafa kalla „langtíma megrunarkúr“. Einn orðaði það svo að herinn væri eins og svissneskur ostur „virðist vera prýðilegur biti en er svo lítið annað en göt“. Danski herinn var ekki sá eini sem var í langa megrunarkúrnum, margar þjóðir skáru árum saman verulega niður í fjárveitingum til hermála, þrátt fyrir að forsvarsmenn NATO vöruðu ítrekað við niðurskurðinum. Í viðtali við dagblaðið Berlingske 9. apríl 2015 sagði Anders Fogh Rasmussen, sem hafði hálfu ári fyrr látið af störfum sem framkvæmdastjóri NATO, að Bandaríkin gætu ekki endalaust dregið hestinn, eins og hann komst að orði. Þegar Anders Fogh lét þessi orð falla var í gildi fimm ára samkomulag (forsvarsforlig) sem danska þingið, Folketinget, hafði gert og átti að gilda til ársloka 2017. Þar var gert ráð fyrir árlegum niðurskurði í fjárveitingum til hersins. Við undirbúning næstu „fimm ára áætlunar“ lýstu margir þingmenn áhyggjum vegna hersins, og samkomulag náðist um að frá og með ársbyrjun 2018 skyldu árlegar fjárveitingar til hersins auknar.
Tækjakosturinn kominn til ára sinna
Í umfjöllun eins dönsku dagblaðanna árið 2015 kom fram að ökutækjafloti hersins væri orðinn „hálfgerður fornbílaklúbbur“.
Yngsti hluti flotans, flutningabílarnir voru, og eru, frá árunum í kringum 1990. Herinn réði (árið 2015) yfir 65 brynvörðum bílum, kallaðir PMV, þeir eru frá sjöunda áratug síðustu aldar, þá voru einungis 5 þeirra nokkurn veginn í lagi. Á bílana hafði verið sett mikil og þung brynvörn sem þeir voru ekki gerðir fyrir að bera og bilanatíðnin því há.
Árið 2015 átti danski herinn 24 skriðdreka, þeir voru allir sömu gerðar, Haubits M109. Einungis 6 skriðdrekanna voru gangfærir, hinir stóðu í skemmum hersins. Byssurnar á þessum 6, sem töldust í lagi, voru svo gamaldags að þær voru vart nothæfar. Miðunarbúnaðurinn svo ónákvæmur að mjög ólíklegt væri að kúla myndi hitta skotmarkið. Herinn átti líka árið 2015 nokkra gamla brynvarða Leopard „létta skriðdreka“. Á heræfingu sem haldin var í Póllandi árið 2014 biluðu nær allir Leopard drekarnir. Flestir , venjulegir“ bílar hersins voru líka orðnir gamlir og kröfðust mikils viðhalds. Mörgum stjórnmálamönnum var brugðið þegar þeir lásu áðurnefnda umfjöllun og lýstu flestir yfir að þeir hefðu ekki gert sér grein fyrir að ástandið væri svona bágborið, og bættu við að ekki yrði við þetta unað.
Pöntuðu 44 nýja skriðdreka
Árið 2019 pantaði danski herinn 44 nýja skriðdreka af gerðinni Leopard A7. Þeir eru þýskir, framleiddir hjá fyrirtækinu Krauss-Maffei Wegmann. Skriðdrekar eru ekki lagervara, og þá þarf að panta með löngum fyrirvara. Danski herinn hefur nú fengið afhenta 32, þá 12 sem upp á vantar á herinn að fá á þessu ári og því næsta. Nýju drekunum fylgir verksmiðjuábyrgð en henni fylgja skilyrði. Afleiðing þessarar ábyrgðarklásúlu í kaupsamningnum er ástæða þess að stór hluti skriðdrekaflotans er úr leik, í bili að minnsta kosti.
Seinagangur og skrifræði
Í nýrri grein í danska veftímaritinu OLFI er fjallað um nýju skriðdrekana og birtar frásagnir hermanna sem þekkja vel til, en koma ekki fram undir nafni. Hermennirnir lýsa ótrúlegum seinagangi og skrifræði sem hefur orðið til þess að stundum hafa einungis örfáir skriðdrekar verið „ökuhæfir“. Ef eitthvað bilar, skiptir ekki máli hvort bilunin er smávægileg eða alvarleg, ber að tilkynna bilunina til innkaupadeildar hersins. Tilkynningin getur svo beðið lon og don þar áður en hún er send áfram til framleiðandans, sem svo þarf að senda fulltrúa til að meta bilunina og kveða upp úr með hvort bilunin sé innan ábyrgðar eða ekki. Einn viðmælenda OLFI sagði að á einum drekanna hefði brotnað loftnet, einskonar auka loftnet. Það var tilkynnt en í millitíðinni, meðan beðið var eftir fulltrúa framleiðandans, bilaði mælir í stjórnborði drekans. Þegar maðurinn frá framleiðandanum kom skoðaði hann bara loftnetið, sem tók hann svo 10 mínútur að skipta um, en hann hafði ekki fengið fyrirmæli um að skoða mælinn (tilkynningin enn í bunkanum í innkaupadeildinni) og þar við sat. Þessi umræddi dreki var úr leik í rúma fjóra mánuði. Flestar þeirra bilana sem verða í nýju drekunum geta viðgerðarmenn hersins lagað en mega ekki. Þetta breytist þegar ábyrgðin fellur úr gildi og viðgerðarmenn hersins annast viðgerðirnar. Þegar greinin í OLFI birtist voru 14 drekar ökufærir af þeim 32 sem herinn hefur fengið afhenta.
Samstarfssamningur
Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils greindi Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur nýlega frá fyrirhuguðum samstarfssamningi við Bandaríkin, um varnarmál. Samningurinn er eingöngu milli Danmerkur og Bandaríkjanna, það er utan við NATO. Á fréttamannafundinum þar sem greint var frá samkomulaginu voru sömuleiðis Morten Bødskov varnarmálaráðherra og Jeppe Kofod utanríkisráðherra. Fram kom að undirbúningur sé á byrjunarreit og tengist á engan hátt Úkraínudeilunni.
Frumkvæði Bandaríkjamanna
Á áðurnefndum fréttamannafundi kom fram að frumkvæðið að samstarfssamningnum kom frá Bandaríkjamönnum. Mette Frederiksen sagði Dani reiðubúna að taka aukinn þátt í að tryggja öryggi Evrópu og þar væri hlutverk Bandaríkjanna í senn mikilvægt og nauðsynlegt.
Mikil breyting og andstaða Rússa
Fyrir 70 árum mörkuðu dönsk stjórnvöld þá stefnu að aldrei skyldi erlendur her vera á danskri grund, að Grænlandi undanskildu. Mette Frederiksen sagði þennan samstarfssamning sem nú er í undirbúningi mikla breytingu. „Við gerum þetta vegna þess að við lifum á breytingatímum. Við þurfum, og erum, tilbúin til að fara nýjar leiðir til að tryggja öryggi þjóðar okkar. Aukin viðvera Bandaríkjamanna hér í Danmörku styrkir samvinnuna á hernaðarsviðinu.“
Samningnum sem nú er í undirbúningi, svipar samkvæmt lýsingum danska forsætisráðherrans til samninga sem Bandaríkjamenn hafa gert við nokkur önnur NATO ríki, meðal annars Noreg og Eystrasaltsríkin. Þar geta Bandaríkjamenn komið og farið eins og þeim sýnist og bandarísk stjórnvöld hafa lögsögu yfir löndum sínum, hermönnum það er að segja, þótt þeir dveljist í öðrum löndum.
Rússar hafa harðlega gagnrýnt hinn fyrirhugaða samning og það er einkum eitt sem er þeim þyrnir í augum. Borgundarhólmur. „Ef Danir heimila Bandaríkjamönnum að koma upp einhverskonar aðstöðu á Borgundarhólmi verða Rússar að meta hvaða afleiðingar það hefur á samskipti Dana og Rússa“ sagði sendiherra Rússa í Danmörku í viðtali við dagblaðið Berlingske. Það yrði, að mati sendiherrans, klárt brot á samkomulagi Dana og Rússa frá árinu 1946 sem gert var þegar rússneski herinn fór frá Borgundarhómi. Morten Bødskov varnarmálaráðherra Danmerkur sagði aðspurður ekki útiloka að bandarískur her gæti fengið einhverskonar aðstöðu á Borgundarhólmi „það ákveðum við en ekki Rússar.“
Engin kjarnorkuvopn
Á fréttamannafundinum áðurnefnda sagði Morten Bødskov að varðandi eitt atriði í væntanlegu samkomulagi myndu dönsk stjórnvöld setja skilyrði sem ekki yrði hvikað frá: ef Bandaríkjamenn segja að þeir vilji fá leyfi til að koma fyrir kjarnorkuvopnum hér í Danmörku, þá er svarið nei. Það gildir líka um bandarísk herskip sem koma til hafnar í Danmörku.
Að mörgu er að hyggja
Samningur eins og sá sem nú er í undirbúningi milli Danmerkur og Bandaríkjanna er flókinn. Þar koma til fjölmörg lagaleg álitamál, samningurinn verður að rúmast innan dönsku stjórnarskrárinnar. Danska þingið verður sömuleiðis að vera upplýst um öll atriði svo fátt eitt sé nefnt. Það virðist því ljóst að tíminn fram að undirritun samningsins verði fremur talinn í mánuðum en vikum.