Skýrsla um umsvif útgerða í ótengdum rekstri sýnir ekki umsvif útgerða í ótengdum rekstri
Skýrsla sem Kristján Þór Júlíusson skilaði til Alþingis í dag, átta mánuðum eftir að beiðni um gerð hennar var samþykkt, átti að fjalla um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi. Skýrslan sýnir þó hvorki krosseignartengsl eða ítök útgerðarfélaganna í einstökum fyrirtækjum. Fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar segir niðurstöðuna hlægilega.
Í desember 2020 lögðu 20 þingmenn, 18 úr stjórnarandstöðu og tveir þingmenn Vinstri grænna, fram beiðni um að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, myndi láti gera skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi. Fyrsti flutningsmaður málsins var Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Þingmennirnir vildu að ráðherrann myndi láta taka saman fjárfestingar útgerðarfélaganna, dótturfélaga þeirra og félaga þeim tengdum í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu tíu árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2019. Í beiðninni var sérstaklega farið fram á að í skýrslunni yrðu raunverulegir eigendur þeirra félaga sem yrði til umfjöllunar tilgreindir og gerð samantekt á eignarhlut 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi byggt á framangreindum gögnum.
Beiðnin var samþykkt 18. desember með 57 atkvæðum þeirra þingmanna sem voru viðstaddir atkvæðagreiðslu um hana. Samkvæmt þingskapalögum hefur ráðherra tíu vikur til að vinna slíka skýrslu eftir að beiðni þess efnis er samþykkt. Sá frestur rann út í mars.
Skýrslan var birt í dag, 25. ágúst, rúmum átta mánuðum eftir að beðið var um hana. Hanna Katrín segir hana ekki svara að neinu leyti því sem hún átti að svara. Hún spyr hvað stjórnvöld séu að fela.
Átti að vera tilbúin í maí
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið leitaði til Skattsins um að gera skýrsluna í byrjun febrúar 2021. Í bréfi sem Skatturinn sendi til ráðuneytisins nokkrum dögum síðar, þann 17. febrúar, sagði að embættið hefði ekki mannafla til að vinna svo umfangsmikið greiningarverkefni. Að því þyrftu að koma aðilar með sérþekkingu á ársreikningsskilum. Um leið var því nánar lýst hvernig gögn embættisins gætu nýst við vinnsluna og boðinn aðgangur að gögnum.
Á meðal þess sem Skatturinn taldi sig ekki ráða við var tímaramminn sem óskað var eftir upplýsingum um. Þ.e. upplýsingar sem teygðu sig tíu ár aftur í tímann. Þess í stað var ákveðið að skýrslan næði yfir tímabilið 2016-2019, eða fimm ár, og var það gert í samráði við þá þingmenn sem óskuðu eftir skýrslunni. Stefna átti að því að skýrslan yrði tilbúin í maí.
Það stóðst ekki.
Hlutafjáreign ekki listuð upp
Skatturinn vann skýrsluna með þeim hætti að farið var yfir innsenda ársreikninga útgerðarfélaganna fyrir reikningsárin 2016-2019, tengdra eignarhaldsfélaga, dótturfélaga og dótturfélaga tengdra eignarhaldsfélaga.
Í skýrslunni, sem var birt í dag, kemur fram að þessi hlutafjáreign sé ekki listuð upp í henni en sérstaklega tekið fram að „stór hluti umræddra félaga starfar í sjávarútvegi, matvælavinnslu eða tengdum greinum, s.s. fiskvinnslu, þjónustu við sjávarútveg, markaðsstarf eða nýsköpun.“
Því birtir skýrslan ekki upplýsingar um raunverulegt eignarhald eigenda 20 stærsta útgerðarfyrirtækja í þeim fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum, líkt og þeir þingmenn sem óskuðu eftir skýrslunni fóru fram á, og Alþingi samþykkti.
Auk þess byggja þær upplýsingar sem Skatturinn tók saman á bókfærðu virði eigna, sem byggir á upprunalegu kostnaðarverði sem greitt var fyrir þær eignir. Til að útskýra hvað það þýðir þá er kvótinn sem útgerðarfyrirtæki landsins nýta metinn á um 1.200 milljarða króna miðað við síðustu gerðu viðskipti með hann. Bókfært virði hans er hins vegar margfalt lægra, eða á því verði sem hver útgerð keypti kvótann á.
Skýrslan er því samantekt á allt öðrum hlutum en óskað var eftir.
Í skýrslunni segir enda á einum stað að hafa verði „fyrirvara um ályktanir sem kunna að verða dregnar af þeim tölulegu gögnum, um bókfært virði fjárfestingar, sem skýrslan byggir á.“
Fyndin niðurstaða
Síðan fylgir yfirlit yfir hvert bókfært virði fjárfestinga útgerðarfélaga, tengdra eignarhaldsfélaga, dótturfélaga og dótturfélaga tengdra eignarhaldsfélaga 20 stærstu útgerðarfyrirtækja landsins í öðrum félögum en útgerðarfélögum er.
Niðurstaða skýrslunnar er að 20 stærstu útgerðir landsins hafi, beint eða í gegnum tengd eignarhaldsfélög og dótturfélög, átt bókfærða eignarhluti í öðrum félögum en útgerðarfélögum upp á 176,7 milljarða króna í árslok 2019. Sú eign var bókfærð á 137,9 milljarða króna árið 2016.
Ekki er tilgreint með neinum hætti um hvaða eignir er að ræða.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar og fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar, segir að skýrslan sé sannarlega ekki það sem beðið var um. Hún viti ekki hvort hún eigi að hlægja eða gráta þegar hún les skýrsluna. „Ég hallast frekar að því að hlægja. Það er eitthvað fyndið við að þetta skuli verða niðurstaðan. Að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að fara þessa leið til að forðast að umbeðnar upplýsingar kæmust fyrir augu almennings fyrir kosningar.
Hanna Katrín segir að þær tölur sem settar eru fram í skýrslunni sýni ekki krosseignartengsl eða ítök útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi. „Þetta varpar fyrst og fremst fram þeirri spurningu: hvað er verið að fela?“
Með sýnileg ítök víða
Frá hruni og út árið 2018 batnaði eiginfjárstaða útgerða landsins, samkvæmt Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte, um 376 milljarða króna. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um að minnsta kosti 479,2 milljarða króna frá hruni. Til samanburðar greiddu útgerðirnar 4,9 milljarða króna í veiðigjöld á síðasta ári fyrir afnot sín að fiskveiðiauðlindinni.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um aukin ítök stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins í óskyldum geirum á undanförnum árum, en ítök þeirra hafa aukist hratt samhliða mikilli arðsemi í greininni.
Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, hefur til að mynda verið ráðandi í Eimskip og á stóran hlut í Jarðborunum.
Þá er SVN eignafélag, sem er að uppistöðu í eigu Samherja og Kjálkaness (félags í eigu þeirra sem eiga útgerðarfyrirtækið Gjögur, meðal annars Björgólfs Jóhannssonar), langstærsti eigandi Sjóvá með 14,55 prósent eignarhlut. Björgólfur er stjórnarformaður Sjóvá.
Samherji átti lengi vel stóran hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, en lánaði Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, til að kaupa þann hlut af sér. Eyþór hefur ekki endurgreitt það lán.
Kaupfélag Skagfirðinga, Hvalur hf., Stálskip og Ísfélag Vestmannaeyja eru dæmi um önnur félög í útgerð, eða sem voru í útgerð en hafa selt sig út úr henni, sem eru afar umsvifamikil í íslensku viðskiptalífi.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars