Sprengja við Stjórnarráðið, skotgöt á bíl borgarstjóra og menn sem vildu ráðast gegn Alþingi
Lögreglan hefur um hríð haft miklar áhyggjur af auknu ofbeldi í garð stjórnmálamanna á Íslandi. Íslensk þjóð vaknaði upp við þann veruleika í gær að hópur manna hafði verið handtekinn vegna gruns um að þeir ætluðu að fremja fjöldamorð, hryðjuverk, þar sem Alþingi var á meðal skotmarka. Það hefur tvívegis gerst á síðasta rúma áratug að einhver hefur beitt sprengju eða skotvopni á eigur eða vinnustað háttsettra stjórnmálamanna. Í báðum þeim málum voru menn hnepptir í gæsluvarðhald, en þeim svo sleppt og á endanum ekki ákærðir. Kjarninn rifjar upp þessi mál.
31. janúar 2012
Í janúar 2012 ákvað þá rúmlega sjötugur maður, S. Valentínus Vagnsson, að koma fyrir sprengju við heimili Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra Íslands. Hann fann hins vegar ekki út hvar hún ætti heima og ákvað þess í stað að koma sprengjunni fyrir við stjórnarráðið. Þennan sama morgun hafði ríkisstjórn Íslands fundað í Stjórnarráðinu.
Tilraun Valentínusar var klaufaleg, hin heimagerða sprengja var kassi með kókflösku sem hafði verið fyllt af etanóli og og sprakk ekki eins og sprengjumaðurinn ætlaði. Stóru svæði í kringum Stjórnarráðið var hins vegar lokað eftir að hún sprakk og gerð var sprengjuleit í ýmsum ríkisstofnunum. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar var auk þess kölluð til. Ríkisstjórnarfundur sem fyrirhugaður var þennan morgun í Stjórnarráðinu fór þó fram eins og ekkert hefði í skorist.
Þau skilaboð sem sprengjumaðurinn Valentínus vildi senda, samkvæmt umfjöllun um málið í Reykjavík Vikublaði í febrúar 2015, voru eftirfarandi: Ísland dragi til baka Evrópusambandsumsóknina, hætti þátttöku í Schengen, kvótakerfinu verði breytt og EES-samningurinn endurskoðaður.
Það tók nokkrar vikur að hafa upp á Valentínusi. Lýst var eftir hinum klaufalega sprengjumanni, sem þá var orðinn þjóðþekktur eftir að tilburðirnir náðust á myndband og dreifðust á samfélagsmiðlum, með röngum upplýsingum um aldur, hæð og þyngd (hann var sagður á fimmtugsaldri, feitlaginn og lágvaxinn). Á Valentínusardaginn 2012 var Valentínus loks færður til yfirheyrslu, svaf eina nótt í fangaklefa og játaði síðan á sig verknaðinn.
Málið hafði hins vegar enga eftirmála fyrir Valentínus. Hann var ekki ákærður og hlaut engan dóm.
22.-23. janúar 2021
Þann 28. janúar 2021 greindi Kjarninn frá því að byssukúlur hefðu fundist í bíl í eigu fjölskyldu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, vikuna á undan.
Dagur sagði í viðtali við RÚV í kjölfarið að það væri „höggvið ansi nærri manni þegar heimilið er annars vegar, því þar býr ekki bara ég heldur fjölskylda mín og krakkarnir.“
Borgarstjórinn sagðist í viðtalinu hafa tekið eftir skotgötum á fjölskyldubifreiðinni laugardaginn 23. janúar, er hann var að ganga inn í bílinn. Lögregla hafi síðan fengið bílinn í hendur, tekið hann til rannsóknar og fundið kúlur inni í hurðinni. Á svipuðum tíma, aðfaranótt 22. janúar, var einnig skotið á skrifstofu Samfylkingarinnar með þeim afleiðingum að rúður brotnuðu.
Dagur sagði enn fremur í viðtalinu að ekki lægi nákvæmlega ljóst fyrir hvenær skotið var á bílinn eða hvort bíllinn hefði þá staðið fyrir utan heimili hans. Þessir hlutir væru á meðal þess sem lögregla væri að rannsaka.
Árásirnar voru í kjölfarið fordæmdar þverpólitískt. Svona næstum því. Ólafur Guðmundsson, þá varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lét þau orð falla í athugasemdakerfi Vísis eftir að málið kom upp að borgarstjóri ætti að byrja á sjálfum sér, byltingin væri „komin heim“ og því ætti borgarstjórinn bara að taka. Hann var látinn gjalda orða sinna og gert að víkja úr þremur ráðum borgarinnar.
Þann 30. janúar var maður um sextugt úrskurðaður í gæsluvarðhald í tvo daga, til 1. febrúar, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins. Gæsluvarðhaldið var síðar framlengt.
Fréttablaðið greindi skömmu síðar frá því að maðurinn sem grunaður var um að hafa skotið á bíl Dags heiti Hallur Gunnar Erlingsson. Hann er fyrrverandi lögreglumaður sem var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum árið 2003.
Málið gegn Halli Gunnari var fellt niður þegar leið á árið 2021. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins var það gert þar sem ekki þótt grundvöllur til að halda rannsókninni áfram. Hallur Gunnar hafði verið handtekinn eftir að myndum úr eftirlitsmyndavélum í nærliggjandi götum við heimili borgarstjóra var aflað. Hvorki þær né önnur sönnunargögn voru þó talin duga til sakfellis og maðurinn neitaði ávallt sök.
Fréttablaðið sagði að niðurfellingin tæki eingöngu til meintra hegningarlagabrota, „það er rannsókn á ofbeldi eða hótunum gegn opinberum starfsmanni, hættubroti og eignaspjöllum, en ekki til meintra brota mannsins á vopnalögum, þar á meðal um meðferð og innflutning vopna og skotvopnaburð á almannafæri.“
21. september 2022
21. september 2022 handtók sérsveit ríkislögreglustjóra fjóra menn í umfangsmiklum aðgerðum, annars vegar í Holtasmára í Kópavogi og hins vegar í iðnaðarhúsnæði í Mosfellsbæ. Um tíma tóku um 50 lögreglumenn þátt í þeim. Mennirnir fjórir eru grunaðir um að hafa staðið að undirbúningi hryðjuverka. Tveir þeirra, báðir 28 ára gamlir, hafa verið úrskurðaðir í gæsluhald. Annar þeirra í eina viku en hinn í tvær vikur. Hinum tveimur var sleppt skömmu eftir handtöku. Rannsókn lögreglu snýst meðal annars um að kanna hvort mennirnir tengist norrænum öfgasamtökum.
Fjórmenningarnir höfðu verið til rannsóknar vikum saman. Þeir eru grunaðir um að hafa framleitt skotvopn með þrívíddarprentum og safnað að sér umtalsverðu magni af hefðbundnari skotvopnum. Á meðal þeirra vopna sem fundust á þeim stöðum sem leitað var voru skammbyssur og hríðskotabyssur, en skotvopnin skiptu tugum og skotfærin sem mennirnir höfðu undir höndum þúsundum. Sum vopnin voru hálfsjálfvirk.
Á upplýsingafundi lögreglunnar á fimmtudag kom fram að árásirnar hefðu átt að beinast að Alþingi og lögreglu. Morgunblaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum að mennirnir hafi sýnt árshátíð lögreglumanna, sem halda á í næstu viku, sérstakan áhuga. Í blaðinu kom einnig fram að á meðal þess sem hafi fundist við húsleit lögreglu hafi verið þjóðernisofstækisáróður. Á meðal ætlaðra fyrirmynda mannanna hafi verið Anders Behring Breivik, sem myrti 77 einstaklinga í Osló og Útey árið 2011.
Í hádegisfréttum RÚV í dag var greint frá því að mennirnir tveir sem eru í gæsluvarðhaldi hafi rætt sín á milli um að fremja fjöldamorð og nefnt lögreglumenn, Alþingi og fleira í því samhengi. Þetta hafi komið fram í síma- og tölvugögnum sem fundist hafi. Annar mannanna losnaði úr gæsluvarðhaldi degi áður en hann var handtekinn. Ástæða þess var grunur um vopnalagabrot fyrr á þessu ári.
Samkvæmt almennum hegningarlögum á að refsa fyrir hryðjuverk með allt að ævilöngu fangelsi.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars