Greiðsla slitabúa föllnu bankanna á stöðugleikaframlagi skilar ríkissjóði töluvert lægri upphæð í beinum fjárhagslegum ávinningi en greiðsla stöðugleikaskatts myndi gera. Stjórnvöld hins vegar að lausn sem grundvölluð er á greiðslu stöðugleikaskilyrða „verði varanlegri og með meiri ábata fyrir hagkerfið í heild“. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 sem Bjarni Benediktsson,fjármála- og efnhagsráðherra, lagði fram fyrr í þessum mánuði.
Þegar áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta var kynnt í byrjun júní kom fram að tekjur ríkissjóðs af 39 prósent stöðugleikaskatti á allar eignir slitabúa Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans yrðu allt að 850 milljarðar króna án nýtingu frádráttarliða.
Áður en áætlunin var kynnt höfðu stærstu kröfuhafar slitabúanna þriggja hins vegar náð samkomulagi við stjórnvöld um að mæta ákveðnum stöðugleikaskilyrðum og greiða stöðugleikaframlag til þess að sleppa við álagningu skattsins. Til þess að það verði mögulegt þurfa búin að klára gerð nauðasamninga fyrir áramót.
Samkvæmt útreikningum Kjarnans mun sameiginlegt stöðugleikaframlag slitabúanna þriggja vera frá 330 til 380 milljarðar króna. Þau „spara“ sér því allt að 520 milljarða króna með því að mæta þeim frekar en að greiða stöðugleikaskatt.
Ýmsir hafa gagnrýnt þessa leið. Þar á meðal eru Indefence-hópurinn. Þau telja kröfuhafa vera að fá afslátt sem þeir eigi engan rétt á. Hópurinn hefur auk þess gagnrýnt Seðlabankinn hafi ekki staðið við loforð um opið og gagnsætt ferli við afnám hafta. Í bréfi sem hann sendi seðlabankastjóra, og RÚV greindi frá í vikunni, krefst hann þess að stöðugleikaskilyrði slitabúa föllnu bankanna verði birt strax.
Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, tók undir þessa gagnrýni og sagði kröfuna sjálfsagða.
Nær sömu markmiðum og stöðugleikaskattur
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er fjallað um losun hafta. Þar segir að uppfylling stöðugleikaskilyrða og greiðsla stöðugleikaframlags myndi ná sömu markmiðum um takmörkun áhættu við losun fjármagnshafta en með öðrum hætti, t.d. með álagningu stöðugleikaskatts. „Beinn fjárhagslegur ávinningur ríkissjóðs yrði líklega nokkuð minni en ef búin myndu öll greiða stöðugleikaskatt. Hins vegar myndi lausn á grundvelli þess að slitabúin uppfylli stöðugleikaskilyrðin verða varanlegri og með meiri ábata fyrir hagkerfið í heild.“
Þá segir að ráðstöfun tekna af stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlagi skuli vera í samræmi við markmið um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Sérstaklega er tilgreint að fjármunirnir verði nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs „en þess skal þó gætt að ekki verði óæskileg áhrif á peningamagn í umferð eða önnur þensluhvetjandi áhrif við þær greiðslur,“ segir í frumvarpinu.
Kröfuhafar búnir að greina stöðuna á Íslandi fyrir mörgum árum
Kjarninn greindi frá því í vikunni að endurheimtir kröfuhafa öllnu bankanna, þegar þeir eru búnir að greiða umsamið stöðugleikaframlag til ríkissjóðs, verða betri en þeir hafa reiknað með að þær yrðu á undanförnum árum. Kröfuhafar Glitnis munu til að mynda fá allt að 33 prósent af nafnvirði krafna sinna miðað við núverandi eignarstöðu búsins og áætlað stöðugleikaframlag. Miðað við verð á markaði með skuldabréf Glitnis hafa áætlaðar endurheimtir oftast nær verið á bilinu 25-30 prósent, eða lægri en það sem kröfuhafarnir reikna nú með að fá. Endurheimtir kröfuhafa Kaupþings og Landsbankans verða einnig við efri mörk þess sem þeir hafa talið að þær yrðu á undanförnum tæpu sjö árum.
Miðað við það verð sem hefur verið á kröfum á föllnu bankana virðast kröfuhafar þeirra því hafa áætlað nokkuð vel fyrir mörgum árum síðan hver niðurstaðan yrði þegar greitt yrði úr búunum, og hversu stóran hluta eigna sinna þeir þyrftu að gefa eftir til að ógna ekki efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika hérlendis.