Fjármála- og efnahagsráðuneytið er með til skoðunar breytingar á fjárfestingaheimildum lífeyrissjóða landsins. Á meðal þess sem verið er að skoða eru auknar heimildir sjóðanna til fjárfestinga í nýsköpun til að auka framleiðni hagkerfisins. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2016, sem lagt var fram fyrr í þessum mánuði, og sagt að aukning slíkra heimilda gætu reynst nauðsynlegar.
Lífeyrissjóðir hafa haft takmarkaða heimild til að fjárfesta með beinum hætti í nýsköpun og sprotastarfsemi hérlendis. Slíkir fjárfestingu fylgir enda meiri áhætta en hefðbundnum fjárfestingum sjóðanna,enda mun fleiri nýsköpunar- og sprotafyrirtæki sem ná ekki að lifa af en þau sem það gera. Hins vegar gæti verið mikill ávinningur fólgin í því að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum sem ná árangri og festa sig í sessi.
Auk þess skiptir máli að auka framleiðni í íslenska hagkerfinu og það er fyrst og síðast gert með auknum stuðningi við nýsköpun. Því skiptir máli að stærstu stofnanafjárfestar á Íslandi, lífeyrissjóðir landsmanna, geti komið að slíkri fjárfestingu.
Auka þarf framleiðni
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar segir að til skoðunar sé að auka heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga í nýsköpun. Það sé undirstaða aukinnar framleiðni í hagkerfinu og gæti því reynst nauðsynlegt. „Ef fram fer sem horfir og hægja fer á fólksfjölgun verður framleiðsluhlutfallið óhagstætt, þ.e. lífeyrisþegar verða fleiri en hópur vinnandi fólks á sama tíma. Þá falla þau verðmæti sem standa eiga undir lífeyrisgreiðslum því aðeins til, að framleiðni hagkerfisins hafi vaxið á fjárfestingartímanum. Þó að þetta vandamál sé gjarnan tengt við gegnumstreymiskerfi, þar sem óttast er að skattgreiðslur framtíðarinnar nægi ekki til að standa undir sífellt stækkandi hópi ellilífeyrisþega, á sjóðstreymiskerfið sem þekkist hér á landi einnig við þennan vanda að etja. Þar þurfa fjárfestingar framtíðarinnar að standa undir þessum stækkandi hópi.“
Síðasta sumar var tekið skref í átt að auka þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnunarumhverfi minni fyrirtækja. Fyrir þá breytingu, sem tók gildi 1. júlí 2015, máttu lífeyrissjóðir fjárfesta allt að 20 prósent af hreinni eign sinni í óskráðum bréfum, þar á meðal á markaðstorgi fjármálagerninga. Nú má fjárfesta allt að 5 prósent af hreinni eign á markaðstorgi fjármálagerninga auk 20 prósent í óskráðum bréfum.
Vilja auðvelda skráningu á First North
Þá er fjármála- og efnahagsráðuneytið að móta löggjöf sem auðveldar fyrirtækjum sem eru á síðari stigum nýsköpunar að skrá sig á hlutabréfamarkaðinn First North og sækja sér fjármagn þar. Skráning á First North er mun ódýrari en skráning á aðalmarkað Kauphallarinnar en kostnaður við skráningu þar getur samt sem áður verið meiri en minni nýsköpunarfyrirtæki ráða við, sérstaklega vegna kostnaðar við gerð skráningarlýsingar. Auk þess mega eingöngu fjármálafyrirtæki hafa umsjón með töku fjármálagerninga til viðskipta sem takmarkar samkeppni á þeim markaði. Í nágrannalöndum okkar væri ekki gerð sams konar krafa.
Mun ódýrara er að skrá sig á First North markaðinn en aðalmarkað Kauphallarinnar. Það hentar því minni fyrirtækjum mun betur.
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar segir að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi sent bréf til Kauphallarinnar 2. júlí síðastliðinn. Það hafi komið fram að ráðuneytið teldi rétt að færa umhverfi á verðbréfamarkaði hvað þessi atriði varðar nær því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum og það yrði gert með aðstoð Fjármálaeftirlitsins. „Ráðuneytið mun horfa til þessa við mótun löggjafar á næstu misserum“.
Þegar hafa þrír rekstraraðilar sjóða lokið fjármögnun á sjóðum sem ætlaðir eru til fjárfestinga í nýsköpunar- og fjárfestingafyrirtækjum. Alls er heildarumfang þess fjár sem sjóðirnir þrír (Frumtak 2, Eyrir Sprotar og Brunnur) ætla að fjárfesta fyrir 11,5 milljarðar króna. Stærð fjárfestinga er á bilinu 50 til 625 milljónir króna.