Stóri bróðir má fylgjast með

Hvað má hið opinbera í Danmörku ganga langt í eftirliti sínu með borgurunum? Um þetta var tekist á í réttarhöldum sem staðið hafa í þrjú ár en niðurstöðunnar hafa margir beðið með óþreyju. Hún liggur nú fyrir, dómur var kveðinn upp sl. miðvikudag.

Stóri bróðir
Stóri bróðir
Auglýsing

Árið 2007 tók gildi ný tilskipun í Danmörku. Með henni var sú skylda lögð á herðar síma- og netþjónustufyrirtækja að varðveita, í eitt ár, upplýsingar um símhringingar, símtöl og samskipti viðskiptavina sinna. Ennfremur í gegnum hvaða símamastur samskiptin færu.

Tilskipunin í Danmörku tengdist nýtilkominni tilskipun Evrópusambandsins í kjölfar hryðjuverka í Lundúnum og Madrid. Tilskipunin þótti ganga mjög langt varðandi heimildir til að fylgjast með borgurunum. Peter Hustinx, þáverandi yfirmaður gagnaverndar hjá ESB, sagði tilskipunina veita stjórnvöldum rýmri heimildir, en áður hefðu þekkst hjá sambandinu, til að fylgjast með borgurunum.

Óljós mörk

Áðurnefndur Peter Hustinx var ekki einn um þá skoðun að heimildirnar til að fylgjast með borgurunum væru rúmar. Fjölmargir, þar á meðal lögfræðingar og mannréttindasamtök, bentu á að með þessari tilskipun væri stjórnvöldum færð óeðlilega mikil völd. Sömuleiðis væri margt óljóst varðandi notkun stjórnvalda á þeim gögnum og mörgum spurningum ósvarað.

Auglýsing

Í tilskipuninni var ekki tilgreint hvenær heimilt væri að nota upplýsingar. Er það eingöngu þegar brýn nauðsyn krefur, til dæmis þegar öryggi landsins og borgaranna er í húfi? Má lögreglan nota gögnin til að komast að ferðum manns sem grunaður er um að hafa stolið reiðhjóli, eða brotist inn í geymslu og stolið einhverju smálegu?

Þrír dómar

Þótt margir hefðu gagnrýnt tilskipun Evrópusambandsins og fljótlega hefðu heyrst raddir um að hún bryti í bága við mannréttindalög varð nokkur bið á að kærur vegna hennar bærust Evrópudómstólnum. Til þessa dags hefur dómstóllinn kveðið upp þrjá dóma varðandi tilskipunina. Sá fyrsti var kveðinn upp árið 2014. Dómstólinn úrskurðaði tilskipunina ólöglega, sagði hana alvarlegt inngrip í einkalíf borgaranna. Nefndi sömuleiðis að í tilskipuninni væri ekki tekið fram að það mætti aðeins notast við upplýsingar símafyrirtækjanna þegar brýna nauðsyn bæri til.

Dönsk stjórnvöld töldu þennan dóm hafa lítil áhrif á framkvæmdina í Danmörku. Einungis yrði að breyta dönskum sérreglum sem settar höfðu verið um eftirlit með internetinu. Allt annað stæðist tilskipunina, að mati danska dómsmálaráðuneytisins.

Tele2/Watson dómurinn

Í desember árið 2016 kvað Evrópudómstóllinn upp annan dóm. Sá hefur gengið undir nafninu Tele2/Watson dómurinn. Þar var því slegið föstu að takmarkalaust eftirlit, án ákveðins tilgangs væri ólöglegt. Søren Pape Poulsen, þáverandi dómsmálaráðherra Dana, sagði á fundi þingnefndar, nokkrum mánuðum síðar, að breyta þyrfti dönskum reglum. Nánari útfærsla á þeim breytingum lá ekki fyrir og ráðherrann sagði að nú yrðu teknar upp viðræður við Evrópusambandið, og símafyrirtækin, en notast yrði við gömlu reglurnar þangað til nýjar reglur Evrópusambandsins, sem væru væntanlegar, myndu líta dagsins ljós.

Nýju ESB reglurnar birtust aldrei en í danska dómsmálaráðuneytinu var brátt farið að vísa til þess að nýir dómar væru væntanlegir, frá Evrópudómstólnum, og þarmeð yrði óvissu um framkvæmd tilskipunarinnar væntanlega eytt.

Fjarskiptafyrirtækin Telia, Telenor, TDC, Duka, 3 eru stór á dönskum markaði.

Þriðji dómurinn

Í október 2020 kvað Evrópudómstóllinn upp dóm, þann þriðja vegna tilskipunarinnar sem, vel að merkja, var þá fimmtán ára gömul. Í þeim dómi var slegið úr og í, að mati sérfræðinga dönsku fjölmiðlanna. Þar var víðtækt og óheft eftirlit, eins og það sem Danir höfðu heimilað, dæmt ólöglegt. En, hinsvegar voru jafnframt í dómnum tilgreind fjölmörg dæmi þar sem beita mætti víðtæku eftirliti. Einkum og sérílagi þegar um væri að ræða ógnun við þjóðaröryggi.

Þetta var himnasending í hendur danskra stjórnvalda (orðalag stjórnmálaskýranda Berlingske) og danska dómsmálaráðuneytið benti strax á að Danir hefðu árum saman búið við mikla hryðjuverkaógn. Nick Hækkerup dómsmálaráðherra viðurkenndi jafnframt að ýmsu þyrfti að breyta, eftirlit með venjulegri glæpastarfsemi, eins og það var orðað, félli til dæmis ekki undir skilgreininguna um ógnun við þjóðaröryggi.

Eitt í orði, annað á borði

Þótt dómsmálaráðherrann hafi lýst yfir að símafyrirtækjunum sé ekki lengur skylt, og í raun óheimilt, að varðveita allar upplýsingar um notkun viðskiptavina mælti hann samt sem áður með því að fyrirtækin héldu óbreyttu verklagi, sem sé að geyma allar upplýsingar, þangað til nýjar verklagsreglur líti dagsins ljós.

Andstæðingar eftirlits höfðuðu mál

Samtök sem barist hafa gegn skráningu símanotkunar (Foreningen imod Ulovlig Logning) höfðuðu árið 2018 mál gegn danska dómsmálaráðuneytinu í því skyni að fá ákvörðunum stjórnvalda um skráningu og símanotkun einstaklinga hnekkt. Samtökin höfðu safnað fé til að standa straum af málarekstrinum. Julie Bak- Larsen lögmaður samtakanna sagði í viðtölum við fjölmiðla að nauðsynlegt væri að fá á hreint hvaða lög og reglur gildi.

Dómsmálaráðherrar, bæði núverandi og fyrrverandi, hafi viðurkennt að Danir fylgi ekki úrskurðum Evrópudómstólsins en drepi málinu á dreif. Lögmaðurinn sagði að dómsmálaráðherra hefði átt að bregðast við árið 2014, þegar fyrsti dómurinn kom. Það gerði hann ekki. Sama var upp á teningnum árið 2016 og 2020.

Ríkið vann í undirrétti

Julie Bak- Larsen sagði það óboðlegt að mörg ár tæki að fá niðurstöðu í dómsmáli. Skömmu eftir dómsuppkvaðningu Evrópudómstólsins í október í fyrra var tilkynnt að Eystri-Landsréttur myndi 30. júní kveða upp úrskurð sinn í máli Samtaka gegn skráningu símanotkunar gegn dómsmálaráðuneytinu. Það gekk eftir. Þá voru liðin þrjú ár og mánuði betur síðan málið var höfðað.

Eystri-Landsréttur við Bredgade í Kaupmannahöfn Mynd: Wiki Commons/Anne-Sophie Ofrim

Skemmst er frá því að segja að niðurstaðan var ríkinu í hag. Í niðurstöðunni (120 blaðsíðum) kemur meðal annars fram að ekki sé hefð fyrir því að úrskurða tilskipun (bekendtgørelse) ógilda.

Lögmaður stefnendanna sagði dómsniðurstöðuna vonbrigði. Helene Qvist- Petersen lögmaður hjá ráðgjafastofunni Justita sagði miður að dómstóllinn hefði ekki talað skýrt. „Það er afleitt að hafa reglur og lög sem gilda, en er ekki fylgt í reynd.“

Samtökin gegn ólöglegri skráningu símanotkunar hafa lýst yfir að þau muni áfrýja málinu til Hæstaréttar. Hvort heimild fæst til þess að fá málið tekið fyrir þar hefur ekki verið tilkynnt.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir fyrri hluta þessa árs hafa verið viðburðaríkan.
5,4 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi
Hagnaður bankans jókst umtalsvert á öðrum ársfjórðungi, og í raun á fyrri hluta ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Útlán bankans hafa aukist um 8,2 prósent það sem af er ári vegna umsvifa í húsnæðislánum.
Kjarninn 28. júlí 2021
Benedikt Gíslason er forstjóri Arion banka og segir hann reksturinn ganga mjög vel.
Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi
Bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2021 og arðsemi eigin fjár var 16,3 prósent.
Kjarninn 28. júlí 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Brunar lestin?
Kjarninn 28. júlí 2021
Stór hluti fólksfjölgunar hér á landi er tilkominn vegna fólksflutninga.
Færri Íslendingar flutt af landi brott í faraldri
Samsetning brottfluttra og aðfluttra hefur breyst töluvert í kórónuveirufaraldri. Í fyrra fluttu 506 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því og hefur fjöldinn ekki verið meiri síðan 1987.
Kjarninn 28. júlí 2021
Fjármálastöðugleikanefnd SÍ
Hafa áhyggjur af þróun á fasteignamarkaði
Þróunin á húsnæðismarkaði var meðal þess sem var rætt á síðasta fundi fjármálastöðugleikanefndar en meirihluti nefndarmanna taldi hana benda til vaxandi ójafnvægis.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar