Í hrjóstrugri náttúru hárra fjallaskarða Himalayafjallanna á landamærum Indlands og Kína gerðist nokkuð óvenjulegt síðastliðið sumar. Í annars friðsælli og ósnertri náttúru voru þar menn að ráðast á hvorn annan með naglaspýtum, kylfum, steinum og járnpípum sem varð til þess að 24 létu lífið. Mennirnir voru kínverskir og indverskir hermenn.
Deilurnar áttu sér stað við svæði sem nefnist Ladakh. Um 270 þúsund manns búa á svæðinu sem er um 59 þúsund ferkílómetrar. Ladakh teygir sig hátt í Himalayafjöllin og hefur menningarlega tengingu við Tíbet, en á tíbetsku þýðir Ladakh einmitt „land hinna háu fjallaskarða.“
Átökin áttu sér stað í dal við Galwan ána á svæði sem er afar erfitt yfirferðar. Á svæðinu ríkir vopnahlé og því má ekki nota skotvopn, efnavopn né sprengjur innan við tvo kílómetra frá svæðinu. Því brutu hermennirnir í raun ekki samninginn um vopnahlé þegar þeir notuðu naglaspýtur og kylfur í átökunum þar sem að minnsta kosti 4 kínverskir hermenn og 20 indverskir létu lífið.
Norðurhluti Ladakh sem kallast Aksai Chin og er undir yfirráðum Kína, Indland gerir hins vegar kröfu til svæðisins sem hluta af Ladakh. Aksai Chin fór undir stjórn Kína þegar kommúnistar tóku yfir Tíbet árið 1950 en mikilvægur vegur frá Tíbet til annars héraðs í Kína, Xinjiang, fer í gegnum svæðið. Bæði ríkin krefjast yfirráða á svæðinu og eru ekki líkleg til þess að vilja gefa nokkuð eftir í þeim málum. Indland og Kína hafa áður þónokkrum sinnum barist um svæðið, til að mynda árin 1962, 1967 og 1975.
Hröð hernaðaruppbygging
Bæði Indland og Kína hafa staðið að mikilli uppbyggingu á svæðinu á síðastliðnum árum. Indland hefur til að mynda byggt upp um 5.000 kílómetra af vegum sem tengja Ladakh betur við aðra hluta Indlands. Það sér Kína sem ógn vegna þess að það auðveldar hernað á svæðinu. Kínversk stjórnvöld hafa jafnframt ásakað indverska hermenn um að hafa farið yfir á kínverskt landsvæði. Indversk stjórnvöld telja hins vegar að kínverski herinn hafi fært sig sunnar á Galwan ánni en áður sem gerir kínverska hernum kleift að fylgjast með umferð Indverja um svæðið. Því er ljóst að mikið er um fingrabendingar á milli ríkjanna tveggja.
Hernaðaruppbyggingin á svæðinu var afar hröð í kjölfarið. Kínversk stjórnvöld byggðu upp hersvæði sem olli því að indversk stjórnvöld gerðu slíkt hið sama. Því juku kínversk stjórnvöld við hernaðarlega viðveru sína og í kjölfarið gerðu indversk stjórnvöld það líka og svo koll af kolli.
Gervihnattamyndir frá maí til hausts 2020 sýna mikla hernaðaruppbyggingu á svæðinu. Stórir skriðdrekar, stórskotaliðstæki, og önnur tæki til hernaðar birtust skyndilega á myndunum.
Hluti af stærri deilu
En hvers vegna berjast tvö fjölmennustu ríki heims um þetta hrjóstruga landsvæði? Átökin eru hluti af stærri deilu Indlands og Kína. Þær snúast ekki eingöngu um línur á korti á Ladakh svæðinu, heldur eru aðrir hagsmunir í húfi - til að mynda hvað varðar aðgengi að vatni. Kína stefnir til að mynda á að byggja gígantíska vatnsaflsvirkjun á Yarlung Tsangpo ánni sem flæðir frá Tíbet til Indlands þar sem áin er þekkt undir nafninu Brahmaputra. Það myndi takmarka aðgengi Indlands að vatni úr ánni til muna. Stefnt er á að uppbygging virkjunarinnar hefjist síðar á þessu ári.
Deilurnar tengjast einnig hinu stóra innviða- og fjárfestingaverkefni kínverskra stjórnvalda, Belti og braut. Belti og braut er afar umdeilt og eru Bandaríkin eflaust það ríki sem er opinberlega hvað mest mótfallið verkefninu. Bæði fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, og fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, hafa gagnrýnt framtakið og sagt það varpa ríkjum í skuldagildru.
Indversk stjórnvöld eru einnig mjög gagnrýnin á verkefnið. Með verkefninu stefna kínversk stjórnvöld á að auka vegasamgöngur sínar til nærliggjandi landa, til að mynda Myanmar, Bangladesh og Pakistan. Jafnframt ætla þau sér að styrkja siglingaleiðir sínar um Indlandshaf til muna og hafa komið upp höfn í Sri Lanka og Gwadar höfn í Pakistan sem hluta af þeirri leið. Pakistan er nefninlega annar hlekkur í deilunni.
Efnahagssamband eða hernaðarbandalag?
Kína og Pakistan hafa á síðustu árum styrkt efnahagslegt samband sitt. Samkvæmt grein The New York Times hefur Kína fjárfest 62 milljörðum dollara í Pakistan undir formerkjum Beltis og brautar sem hefur styrkt samband ríkjanna til muna.
Í gegnum Belti og braut er áætlað að „Efnahagsgátt“ [e. Economic Corridor] Kína og Pakistan muni tengja Gwadar höfnina sem er við Arabíuhaf við lestarteina allt norður til Kína. Vonast er til að vöruviðskipti á milli ríkjanna muni aukast til muna. Það myndi þó líka tryggja aðgengi Kína að Arabíuhafi og auðvelda aðgengi að Indlandshafi.
Mikill skortur hefur verið á fjárfestingum í Pakistan, sérstaklega þegar kemur að innviðum.
Samkvæmt upplýsingum sem blaðamenn the New York Times hafa undir höndunum, liggur fyrir samningur um hernaðarviðskipti á milli Pakistans og Kína. Í samningnum stendur að Kína muni kaupa herþotur, radarsjár og annan hervarning framleiddan í Pakistan fyrir kínverska herinn. En Kína selur Pakistan jafnframt hervarning. Til að jafna leikinn gagnvart Kína og Pakistan stefnir Indland á að kaupa herdróna frá Bandaríkjunum fyrir þrjá milljarða Bandaríkjadali.
Enn bætist í hópinn
Í þennan dans á milli Indlands, Kína og Pakistans bætast svo við Japan, Ástralía og Bandaríkin. Saman mynda Indland með þeim síðarnefndu ríkjum Hin fjóru eða Fjórgengið [e. Quad] sem hefur verið kallað „Nató Indó-Kyrrahafsins“.
Um er að ræða óformlegan öryggisvettvang ríkjanna fjórra. Þau funda reglulega um öryggismál og hvernig þau geti styrkt samband sitt og vegið á móti auknum völdum Kína.
Ófyrirséðar afleiðingar
En snúum okkur aftur að Ladakh. Í kjölfar átakanna á landamærunum var gerð risastór netárás á borgina Mumbai í Indlandi sem varð til þess að rafmagn fór af borginni, lestir stöðvuðust og hlutabréfamarkaðurinn lokaðist tímabundið. Spítalar þurftu að nýta sér neyðarrafala í miðjum COVID-19 faraldri.
Samkvæmt indverskum yfirvöldum var netárásin framkvæmd af kínverskum aðilum og er kínverski herinn sérstaklega nefndur í því samhengi.
Enn gætir vantrausts
Eftir að hafa reynt í tíu skipti að semja um að draga hermenn frá landamærunum náðist loks samkomulag í febrúar síðastliðnum. Bæði ríki hafa því fjarlægt hermenn sína frá svæðinu. Enn er þó deilt um nákvæma staðsetningu landamæranna.
Í kjölfar þess ræddu utanríkisráðherrar ríkjanna tveggja í fyrsta sinn í síma í um fimm mánuði. Samkvæmt tilkynningu frá kínverska utanríkisráðuneytinu sagði Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, í símtali sínu við Subrahmanyam Jaishinkar, utanríkisráðherra Indlands, að bæði ríki þyrftu að vinna saman til að koma á stjórnun á landamærunum og byggja upp traust að nýju. Jaishinkar sagði að samskipti ríkjanna hefðu skaðast til muna á síðastliðnu ári.
Samskiptin hafa vissulega skaðast. Í kjölfar átakanna á landamærunum sem og netárásarinnar hafa indversk stjórnvöld reynt að koma í veg fyrir kínverskar fjárfestingar í landinu og bannað notkun meira en 200 kínverskra forrita, til að mynda TikTok og WeChat. Svo má ekki gleyma fyrirhugaðri vatnsaflsvirkjun kínverskra stjórnvalda á Yarlung Tsangpo ánni.
Leiðtogar Kína og Indlands, Xi Jinping og Narendra Modi, eru báðir mjög þjóðernissinnaðir og vilja hvorugir virðast lúffa fyrir hinum. Því er ljóst að þrátt fyrir að hermennirnir hafi verið fjarlægðir þá gæti enn mikils vantrausts á milli ríkjanna tveggja.
Kínverska ríkisfréttastöðin CCTV deildi eftirfarandi myndbandi um átökin.