Reynslumiklir oddvitar hverfa á braut og fylgi Miðflokks dvínar

Framboðslistar stærstu flokkanna í Norðausturkjördæmi munu sumir hverjir hafa nýja ásýnd í kosningunum í haust, en reynslumiklir þingmenn fara ekki fram að nýju. Fylgi Miðflokksins í kjördæmi formannsins er mun minna nú en árið 2017.

Steingrímur J. Sigfússon á forsetastóli. Hann er einn þriggja oddvita í Norðausturkjördæmi sem fara ekki fram að nýju.
Steingrímur J. Sigfússon á forsetastóli. Hann er einn þriggja oddvita í Norðausturkjördæmi sem fara ekki fram að nýju.
Auglýsing

Norðausturkjördæmi teygir sig frá Tröllaskaga suðaustur að sveitarfélagamörkum Múlaþings og Hornafjarðar. Í forsetakosningunum í fyrra voru tæp 11,8 prósent kjósenda á kjörskrá í kjördæminu – tæplega 29.700 manns.

Innan við hálft ár er til næstu þing­­kosn­­inga, sem eiga að fara fram 25. sept­­em­ber næst­kom­andi. Stjórn­­­mála­­flokk­­arnir eru í óðaönn við að ákveða hvaða ein­stak­l­ingar verði í fram­­boði fyrir þá.

Þegar er ljóst að nokkur endurnýjun mun verða á þingliði kjördæmisins, en oddvitar þriggja af þeim fimm flokkum sem eiga í dag fulltrúa í Norðausturkjördæmi munu ekki fara fram að nýju.

Á landsvísu er staðan þannig, og hefur verið í nokkurn tíma sam­­kvæmt könn­un­um, að flókið gæti orðið að mynda starf­hæfa rík­­is­­stjórn eftir kosningar. Stjórn­­­ar­­flokk­­arnir hafa allir tapað fylgi, stærstu stjórn­­­ar­and­­stöð­u­­flokk­­arnir ekki bætt næg­i­­lega miklu við sig til að gera afger­andi kröfu á stjórn­­­ar­­myndun og nýir flokkar sem hafa ekki átt sæti á Alþingi áður eru að banka á dyrn­­ar. Ekki er úti­­lokað að flokk­­arnir á þingi verði níu tals­ins eftir að atkvæði hausts­ins verða tal­in, og hafa þá aldrei verið fleiri.

Kjarn­inn fékk gögn frá MMR úr könn­unum fyr­ir­tæk­is­ins á fylgi stjórn­­­mála­­flokka síð­­­ustu þrjá mán­uði. Á meðal þeirra upp­­lýs­inga sem þar er að finna er fylgi flokka eftir land­­svæð­­um. Tölur MMR miða þó ekki við kjör­­dæmi í öllum til­­vikum og því gefa þær fyrst og síð­­­ast vís­bend­ingu um hver staða stjórn­­­mála­­flokk­anna er í hverju kjör­­dæmi fyrir sig.

Undanfarna daga hefur Kjarninn fjallað um stöðu framboðsmála og fylgi við flokkana í Reykjavík, Kraganum og Norðvesturkjördæmi. Nú er komið að Norðausturkjördæmi, þar sem fimm flokkar eiga tvo fulltrúa hver á þingi sem sakir standa.

Sjálfstæðisflokkur leitar arftaka Kristjáns Þórs

Niðurstaða 2017 - 4.787 atkvæði - 20,3 prósent

Sjálfstæðisflokkurinn mun fara með nýja forystu inn í kosningabaráttuna. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og oddviti flokksins í kjördæminu frá því árið 2007 gaf það út fyrir skemmstu að hann hygðist ekki bjóða sig fram til þings að nýju.

Kristján Þór Júlíusson er að hætta á þingi. Mynd: Bára Huld Beck.

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður, sem skipað hefur annað sæti á Kristjáni Þór í undanförnum kosningum, sækist eftir því að taka við oddvitasætinu. Gauti Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar í Múlaþingi og fyrrverandi bæjarstjóri á Djúpavogi hefur einnig boðað að hann sækist eftir efsta sæti á lista. Fjölmörg fleiri nöfn hafa verið nefnd til sögunnar varðandi efsta sætið hjá flokknum, en enginn hefur enn viljað kannast við að ætla sér að blanda sér í oddvitaslag við þá Njál Trausta og Gauta.

Miðað við kannanir MMR það sem af er ári má ætla að hver sem verður efstur á lista hjá Sjálfstæðisflokki verði einnig fyrsti þingmaður kjördæmisins, en flokkurinn mælist með tæplega 24 prósenta fylgi á Norðurlandi og rúmlega 25 prósenta fylgi á Austurlandi það sem af er ári, nokkrum prósentustigum meira en í sambærilegum könnunum MMR fyrir kosningarnar árið 2017.

Óli leiðir Vinstri græn

Niðurstaða 2017 - 4.699 atkvæði - 19,9 prósent

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og einn stofnenda VG ætlar að hætta á þingi eftir að hafa setið þar óslitið frá 1983. Um miðjan febrúar varð ljóst að Óli Halldórsson sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi myndi taka við oddvitasætinu af Steingrími.

Sú niðurstaða forvals var töluvert högg fyrir þingflokksformanninn Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, sem verið hefur í öðru sæti á framboðslista VG í Norðausturkjördæmi í undanförnum kosningum. Hún sagðist þurfa að hugsa sig um hvort hún tæki annað sætið á listanum, en ákvað síðan að gera það. Þriðja sæti listans skipar Jódís Skúladóttir, bæjarfulltrúi í Múlaþingi.

Óli og Bjarkey leiða lista Vinstri grænna.

Norðausturkjördæmi hefur allt frá stofnun Vinstri grænna verið eitt sterkasta vígi flokksins á landsvísu og það verður áhugavert að sjá hvort það hafi eitthvað að gera með persónufylgi Steingríms.

Nýjustu mælingar MMR á Norðurlandi, þar sem þorri kjósenda kjördæmisins býr, það sem af er ári mæla flokkinn á svipuðu róli og hann var fyrir kosningarnar 2017, eða með um 15 prósent fylgi. Þegar talið var upp úr kjörkössunum haustið 2017 var fylgið þó nærri 20 prósent í kjördæminu,

Miðflokkur Sigmundar virðist dala á Norðurlandi

Niðurstaða 2017 - 4.388 atkvæði - 18,6 prósent

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stofnandi Miðflokksins er oddviti flokksins í kjördæminu og ekki hefur heyrst að það komi til með að breytast. Hann var áður oddviti Framsóknarflokksins í kjördæminu og hefur töluvert persónufylgi, sem sést kannski best á því að flokkurinn skákaði Framsóknarflokknum þar árið 2017.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er oddviti Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.

Lítið hefur almennt heyrst af framboðsmálum Miðflokksins en þó hefur verið sagt frá því að Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður, sem skipaði annað sæti listans í Norðausturkjördæmi árið 2017, gæti fengið samkeppni um það sæti frá Þorgrími Sigmundssyni varaþingmanni úr Skútustaðahreppi sem var í þriðja sæti listans árið 2017.

Auglýsing

Fylgi flokksins á Norðurlandi er þó á allt öðrum stað en það var í aðdragandanna kosninga árið 2017, samkvæmt mælingum MMR, en á Austurlandi mælist fylgið enn fremur mikið. Flokkurinn er samkvæmt mælingum MMR með um 8 prósent fylgi á Norðurlandi en hátt í 16 prósenta fylgi á Austurlandi. Í tveimur mælingum MMR fyrir kosningarnar 2017 var fylgið um eða yfir 20 prósent í báðum landshlutum – í góðum takti við kjörfylgið.

Endurnýjun hjá Framsókn?

Niðurstaða 2017 - 3.386 atkvæði - 14,3 prósent

Oddviti listans í síðustu kosningum var Þórunn Egilsdóttir, en hún þurfti að segja skilið við þingstörfin vegna erfiðra veikinda. Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður sóttist eftir oddvitasætinu í kjölfarið, en það gerði einnig Ingibjörg Ólöf Ísaksen, bæjarfulltrúi flokksins á Akureyri.

Póstkosningu flokksins lauk 31. mars en ekki er búið að birta niðurstöður hennar, enda var síðasti dagur marsmánaðar síðasti dagurinn til þess að póstleggja atkvæðin og atkvæðin liggja mögulega enn í einhverjum dreifingarmiðstöðvum Íslandspósts. Búist er við að niðurstaða verði kynnt upp úr miðjum mánuði.

Jón Björn Hákonarson, ritari flokksins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð, sóttist eftir 2. sæti á lista, rétt eins og Þórarinn Ingi Pétursson bóndi og varaþingmaður í Grýtubakkahreppi, sem setið hefur talsvert á þingi þetta kjörtímabilið í fjarveru Þórunnar, og Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps.

Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður. Mynd: Bára Huld Beck.

Framsókn hefur löngum átt sterkt vígi á Austurlandi og þaðan komu einmitt báðir þingmenn flokksins í síðustu kosningum, Þórunn frá Vopnafirði og Líneik frá Fáskrúðsfirði. Í nýjustu mælingum MMR er flokkurinn með hátt í 23 prósent fylgi í landshlutanum.

Fylgið á Norðurlandi er þó töluvert lægra en í öðrum landshlutum á landsbyggðinni – einungis rúm 13 prósent. Það er svipuð staða og árið 2017 er niðurstaða flokksins, 14,3 prósent, varð sú versta sem Framsóknarflokkurinn hefur fengið í Norðausturkjördæmi.

Hver verður með Loga á lista Samfylkingar?

Niðurstaða 2017 - 3.275 atkvæði - 13,9 prósent

Engar líkur eru á öðru en að Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Akureyringur leiði lista flokksins í Norðausturkjördæmi til kosninga í haust. Spurningin hvað Samfylkingu varðar er hver verði með honum á listanum. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður ætlar ekki að gefa kost á sér að nýju og óljóst er hver hreppir annað sætið á listanum.

Logi Einarsson formaður Samfylkingar.

Samfylkingin mælist í nýjustu könnunum MMR með umtalsvert meira fylgi á Norðurlandi en fyrir kosningarnar 2017, eða tæp 18 prósent. Í sambærilegum könnunum MMR fyrir tæpum fjórum árum var fylgið í landshlutanum að mælast í tæpum 10 prósentustigum. Á Austurlandi hafa hartnær 13 prósent þeirra sem taka afstöðu sagst ætla að kjósa Samfylkinguna – fyrir kosningarnar 2017 voru það rúm 8 prósent.

Einar reynir aftur við þingsæti fyrir Pírata

Niðurstaða 2017 - 1.295 atkvæði - 5,5 prósent

Ein­ar Brynj­ólfs­son, fram­halds­skóla­kenn­ari og fyrr­ver­andi þingmaður Pírata, mun leiða Pírata í Norðaust­ur­kjör­dæmi, en hann varð hlutskarpastur í prófkjöri sem fram fór í mars. Hrafndís Bára Einarsdóttir verður í öðru sæti listans.

Einar Brynjólfsson leiðir Pírata á ný.

Einar var kjörinn á þingi fyrir Pírata árið 2016 en náði ekki kjöri á ný árið 2017 þegar kosið var á ný. Meðaltalsfylgi Pírata á Norðurlandi úr síðustu könnunum MMR er tæp 9 prósent, en tæp 6 prósent á Austurlandi.

Flokkur fólksins

Niðurstaða 2017 - 1.005 atkvæði 4,3 prósent

Lítið hefur heyrst af framboðsmálum Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi. Kjarninn fékk þær upplýsingar frá flokknum fyrir helgi að ekki væri enn komið að því að kynna oddvita flokksins.

Það er þó alveg ljóst að Halldór Gunnarsson fyrrverandi sóknarprestur í Holti, sem leiddi flokkinn árið 2017, gerir það ekki á ný. Hann sagði sig úr flokknum eftir Klausturmálið og hvatti fólk til þess að snúa baki við Flokki fólksins, eins og tveir þingmenn flokksins höfðu þegar gert – og ganga í Miðflokkinn.

Á vef flokksins hefur verið kunngjört að þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Tommi á Hamborgarabúllunni (Tómas Andrés Tómasson) muni fara í framboð fyrir flokkinn.

Fylgi flokksins á bæði Norðurlandi og Austurlandi er samkvæmt síðustu könnunum MMR í takti við kjörfylgið 2017, eða á milli 4-6 prósent.

Enginn kjósandi Viðreisnar fannst fyrir austan

Niðurstaða 2017 - 495 atkvæði - 2,1 prósent

Viðreisn er þessa dagana að „afhjúpa“ oddvita sína í kjördæmum vítt og breitt um landið. Enn sem komið er hafa þó engin tíðindi borist úr Norðausturkjördæmi og lítið heyrst af væntanlegri uppstillingu flokksins þar.

Eins og rakið var í umfjöllun Kjarnans um kjördæmin á höfuðborgarsvæðinu eru þó fleiri um oddvitasætin þar en mögulegt er að stilla upp í raunhæf þingsæti fyrir flokkinn á suðvesturhorninu. Það er því aldrei að vita nema Viðreisn færi kjósendum í Norðaustri sendingu að sunnan.

En oddvitasæti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi er ólíklega ávísun á þingsæti. Flokkurinn var með 2,1 prósent í síðustu kosningum og í nýjustu mælingum MMR fer hann ekki yfir 4 prósenta meðalfylgi á Norðurlandi. Á Austurlandi, þar sem svarendur eru tæplega 100 talsins, fannst ekki einn einasti kjósandi Viðreisnar í síðustu könnunum MMR.

Benedikt Jóhannesson, þá formaður Viðreisnar, náði kjöri fyrir flokkinn í Norðausturkjördæmi árið 2016 og varð fjármálaráðherra í kjölfarið. Hann leiddi flokkinn áfram í kjördæminu árið 2017 en náði ekki 500 atkvæðum í hús.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistar hafa ekkert opinberað um framboðsmál sín fyrir komandi kosningar. Á Norðurlandi og Austurlandi mælist flokkurinn með á bilinu 4-5 prósenta fylgi.

Þingmenn Norðausturkjördæmis

Kjör­dæma­kjörnir

Krist­ján Þór Júl­í­us­son (D)

Stein­grímur J. Sig­fús­son (V)

Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son (M)

Þór­unn Egils­dóttir (B)

Logi Ein­ars­son (S)

Njáll Trausti Frið­berts­son (D)

Bjarkey Olsen Gunn­ars­dóttir (V)

Anna Kol­brún Árna­dóttir (M)

Líneik Anna Sæv­ars­dóttir (B)

Upp­bót­ar­þing­maður

Albertína Frið­björg Elí­as­dóttir (S)

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til að bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent