Stríð gegn glæpum hefur verið stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum ofarlega í huga í meira en 70 ár og reglulega fer af stað ný herferð sem miðar að því að draga úr glæpatíðni og fjölda afbrota. Óhætt er að segja að þetta stríð, sem er fyrst og síðast pólitískur frasi, hafi lengi haft óljósa merkingu og markmið. Nema að sýna með tölum reglulega að allt sé á réttri leið.
Örvæntið ekki
Í vikunni stóð borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, frammi fyrir hópi fjölmiðlafólks sem spurði í sífellu hvort borgaryfirvöld væru aftur að missa tökin á glæpum í borginni. Tölurnar sýna að morðum fjölgaði um 10,9 prósent milli ára frá 2013 til 2014, úr 174 í 193. Blasio svaraði því til að það væri engin ástæða til þess að örvænta, morðum hefði vissulega fjölgað en vonandi tækist að fækka þeim aftur og gera borgina öruggari. Tölurnar fyrir fyrstu tvo mánuði ársins sýndu áframhald í fjölgun morða, einkum vegna skotárása. Í janúar og febrúar á þessu ári voru fram 54 morð samanborið við 45 morð í sömu mánuðum í fyrra. Það er hækkun um 20 prósent sem hefur haldist áfram á árinu, eins og sést á vikulega uppfærðum opinberum skýrslum lögreglunnar. Við það tilefni lét Bill Bratton, einn af lögreglustjórum borgarinnar, hafa eftir sér að engin ástæða væri til þess að tala um að gömlu dagarnir væru að koma aftur, en áratugum saman var New York mesta glæpaborg Bandaríkjanna.
Breyting eftir 1990
Fyrir 25 árum, árið 1990, var glæpatíðni margfalt meiri í New York en hún er nú. Í raun er hún aðeins brot af því sem hún var, sé litið til tölulegra upplýsinga og skráðra glæpa. Árið 1991 var sett met, en þá voru framin 2.245 morð í borginni og yfir 100 þúsund rán. Nú, tæplega 25 árum síðar, eru morðin innan við tíu prósent af því sem þau voru og ránin um þrjú prósent af því sem áður var.
Rudy Guiliani og baráttan við fjölskyldurnar fimm
Saga glæpa í New York er ekki síst saga baráttu við skipulagða glæpastarfsemi. Fáir hafa barist af meiri krafti gegn henni en borgarstjórinn, saksóknarinn og lögfræðingurinn fyrrverandi, Rudy Guiliani. Viðspyrnan hvað glæpina varðar er oft tengt við málsóknina gegn fjölskyldunum fimm svonefndu, sem var stýrt af ítalsk-bandarískum glæpamönnum, þar sem átta háttsettir mafíuforingjar voru dæmdir í fangelsi fyrir skipulagða glæpastarfsemi, morð, mansal og rekstur leigumorðingjaþjónustu fyrir aðra þar á meðal. Málareksturinn stóð yfir frá því í febrúar 1985 til nóvember 1986, þegar honum lauk með sektardómum. Guiliani var saksóknari á þessum tíma og ávann sér virðingu fólks úr lögreglunni og hjá almenningi með framgöngu sinni og skeleggum málflutningi í dómsal.
Árangur sést
Í kosningabaráttu hans fyrir því að verða borgarstjóri í New York, árið 1993, var þessi reynsla hans eitt af helstu áherslumálum, þar sem hann hét því að gera borgina öruggari og skera upp risavaxið svart hagkerfi borgarinnar. Stefna hans, þar sem einblínt var á skipulagða glæpastarfsemi og eflingu fræðslu í skólum, skilaði miklum árangri og árið 1995 var glæpatíðni búin að minnka um nærri 60 prósent. Frá þeim tíma hefur glæpatíðnin haldið áfram að minnka, en nú er hún ekki síst rakin til meiri velmegunar í borginni að meðaltali, blöndunar milli stétta í hverfum og skólum, og minnkandi umsvifa skipulagðra glæpasamtaka, þar sem allt snýst að endingu um peninga.
Hin hliðin á teningnum
En góðar tölur um minnkandi glæpi segja ekki alla söguna. Mikil harka hefur einkennt refsingar fyrir ýmsa glæpi sem tengjast fíknefnum, og hefur föngum fjölgað gríðarlega á undanförnum áratugum. Ekki aðeins í fangelsum sem þjónusta New York borg heldur um öll Bandaríkin. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur að undanförnu vakið athygli á mikilvægi þess að ráðist verið í endurskipulagningu á fangelsisstarfi í landinu og réttarvörslukerfinu sömuleiðis. Í ræðu sem hann hélt 15. júlí síðastliðinn sagði hann það sláandi að einn af hverjum 35 svörtum karlmönnum í Bandaríkjunum væri á hverjum tíma í fangelsi. Hlutfallið væri svo einn af hverjum 88 karlmönnum sem kæmi frá Suður-Ameríku.
Þá væri fjölgun fanga í landinu á 35 árum vísbending um að ekki væri verið að fara eftir bestu þekkingu á hverjum tíma. Árið 1980 voru 500 þúsund fangar í Bandaríkjunum en nú eru þeir 2,2 milljónir, og stór hluti þeirra situr inni fyrir fíkniefnamisferli. Skilaboð Obama voru skýr; réttarkerfið er ekki eins gott að það ætti að vera.
In 1980, there were 500,000 people in American jails. Today, there are 2.2 million. Many belong. But too many are nonviolent offenders.
Auglýsing
— President Obama (@POTUS) July 14, 2015
Verður næsta stríð stríðið við réttlætið?
Stríðið gegn glæpum er endalaust og þó áhyggjurnar í New York, sem lengi vel var táknmynd glæpa og ofbeldis langt út fyrir Bandaríkin, fari vaxandi þá er raunveruleikinn allt annar og betri en hann var á árum áður. En næsta pólitíska stríð gæti orðið við réttlætið, hvorki meira né minna. Þar sem spjótin munu beinast að dæmdum glæpamönnum og því risavaxna samfélagi fanga sem hefur margfaldast að stærð á skömmum tíma.