Vandfundin er sú matvöru-, flugvallar- eða sælgætisverslun, að minnsta kosti í hinum vestræna heimi, sem ekki hefur til sölu hið svissneska Toblerone, jafnvel allt frá ,,mini“ stykkjum (í poka) upp í 500 gramma stykki. Sama hver stærðin er, lögunin er ætíð sú sama: þríhyrningur sem minnir á myndina sem prýðir umbúðirnar, Matterhorn.
Daniel Peter, og mjólkursúkkulaðið
Á árunum fyrir aldamótin 1900 naut mjólkursúkkulaði vaxandi vinsælda, en það var þá tiltölulega nýleg uppfinning þótt súkkulaði sem slíkt væri miklu eldra.
Svisslendingurinn Daniel Peter, sem var fæddur 1836, hafði kornungur stofnað kertaverksmiðju en sneri sér brátt að súkkulaðiframleiðslu. Hann gerði ýmsar tilraunir með að blanda mjólk saman við súkkulaðið, til að breyta áferðinni og ná fram hinu eftirsótta sætubragði. Daniel tókst með þessari aðferð að búa til bragðgott súkkulaði en eitt vandamál skaut upp kollinum; súkkulaðið vildi mygla. Daniel Peter kenndi vatninu í mjólkinni um og setti sig í samband við Henri Nestlé sem framleiddi barnamat. Hann hafði frétt að Henri Nestlé hafði fundið upp aðferð til framleiða mjólkurduft (þurrmjólk) með sérstakri suðuaðferð og ná vatninu úr mjólkinni. Daniel Peter samdi við Henri Nestlé um kaup á mjólkurdufti til að nota í súkkulaðið. Árið 1875, eftir áralangar tilraunir setti Daniel Peter mjólkursúkkulaði á markaðinn en hélt áfram tilraunum sínum við að betrumbæta framleiðsluna. Árið 1887 var til fyrirtækið Gala Peter sem seldi úrvals mjólkursúkkulaði einsog það var kallað í auglýsingum. Þá höfðu þeir Daniel Peter og Henri Nestlé hafið formlega samvinnu, sú samvinna var grunnurinn að stórfyrirtækinu Nestlé, sem flestir þekkja.
Á þessum árum, kringum aldamótin 1900, varð svissneskt mjólkursúkkulaði þekkt um víða veröld og varð fyrirmynd framleiðenda í mörgum löndum.
Emil Baumann og Theodor Tobler
Árið 1907 var Svisslendingurinn Emil Baumann (1880 – dánarár óljóst) einu sinni sem oftar, að dunda sér við að búa til súkkulaði í eldhúsinu heima hjá sér í Bern. Emil hafði veitt því athygli að súkkulaði naut vaxandi vinsælda, ekki síst hið svokallaða mjólkursúkkulaði. Þótt nokkrir stórir sælgætisframleiðendur væru þegar til staðar í Sviss þóttist Emil viss um að pláss væri fyrir fleiri. En til þess að „slá í gegn“ þyrfti eitthvað sem væri öðruvísi en það sem fyrir væri á markaðnum. Emil gerði ýmsar tilraunir og dag einn prófaði hann að bæta í súkkulaðið hunangi, möndlum og núggat. Emil þótti blandan góð en hann vissi að það væri ekki nóg, varan yrði að vekja athygli. Emil hafði samband við Theodor Tobler (1876-1941) frænda sinn, sem líka bjó í Bern og bað hann að koma og smakka á súkkulaðinu. Faðir Theodors, Johann Jacob Tobler, sem lést árið 1905 hafði verið sælgætisgerðarmaður og Theodor vissi því heilmikið um slíkar vörur. Honum þótti súkkulaðiblanda Emils góð en var sammála því að til þess að ný vara vekti athygli dygði gott bragð ekki, eitt og sér. Þeir frændur urðu sammála um að stofna fyrirtæki og framleiða súkkulaði eftir uppskriftinni sem Emil hafði sett saman.
Var fyrirmyndin fjall eða ballettdansarar?
Theodor Tobler stakk upp á að þetta nýja súkkulaði yrði ekki selt í plötum, eins og lang algengast var heldur yrði það, og umbúðirnar, einskonar þríhyrningur. Í hverjum pakka yrðu samhangandi þríhyrningar, sem auðvelt væri að brjóta í sundur. Emil þótti þetta góð hugmynd, hann bjó til formin til að „steypa“ súkkulaðið í og Theodor tók að sér að hanna umbúðirnar, sem hafa nær ekkert breyst frá upphafi. Óhætt er að segja að hugmynd Theodors hafi heppnast vel, Toblerone er öðruvísi en annað súkkulaði, sker sig úr.
Það er trú margra að fjallið Matterhorn á landamærum Sviss og Ítalíu sé fyrirmyndin að þríhyrningsbitunum. Á umbúðunum er nefnilega mynd af tindinum og ef að er gáð sjást útlínur bjarnar sem hluti fjallsins. En ekki er öruggt að þetta sé tilfellið. Sonur Theodors sagði hinsvegar frá því í viðtali að hugmyndina að þríhyrningnum hefði faðir sinn fengið eftir að hann sá ballettsýningu í París. Í lokaatriði sýningarinnar myndaði dansflokkurinn píramída sem Theodor Tobler þótti einstaklega glæsilegur. Líklega fæst aldrei úr því skorið hvort þessar tilgátur eigi við rök að styðjast. Rétt er að geta þess að í upphafi var ekki mynd af Matterhorn á umbúðunum, hún kom fyrst síðar. Og björninn sem sést í fjallinu er kannski vísun í Bern, heimabæ Toblerone, sem stundum er nefnd Bjarnaborgin. Björninn er sömuleiðis að finna í skjaldarmerki borgarinnar.
Nafnið Toblerone
Þríhyrnt eða flatar plötur, súkkulaði verður að heita eitthvað. Þeir félagar Emil og Theodor voru sammála um að nafnið á þríhyrningssúkkulaðinu þyrfti að vera einfalt og grípandi. Og eftir að hafa rætt fram og til baka um málið urðu þeir sammála um að súkkulaðið skyldi heita Toblerone. Nafnið er samsett úr eftirnafni Theodors og hluta ítalska orðsins torrone, sem er sérstök gerð hunangs. Toblerone.
Árið 1909 fengu þeir frændur skráð einkaleyfi á notkun nafnsins og samsetningu súkkulaðsins.
Margar stærðir og mismunandi gerðir, en alltaf þríhyrnt
Í upphafi var einungis ein gerð af Toblerone í boði, 100 gramma stykki og uppskriftin sem Emil Baumann setti saman árið 1907. Síðar komu fleiri stærðir, enn síðar dökkt súkkulaði og einnig hvítt. Umbúðirnar um þessi „tilbrigði“ voru og eru í mismunandi litum, en formið og letrið alltaf hið sama.
Þekkt um allan heim
Hafi þeir frændurnir Emil Baumann og Theodor gert sér vonir um að þríhyrningssúkkulaðið myndi „slá í gegn“ hafa þær vonir sannarlega ræst.
Skrifari þessa pistils sá sagt frá því í erlendum netmiðli að á síðasta ári hefðu verið framleiddir sjö milljarðar Toblerone stanga, eins og það var orðað. Þar kom líka fram að Toblerone væri selt í að minnsta kosti 120 löndum.
Árið 2008, þegar hundrað ár voru liðin frá því að Toblerone kom á markaðinn, voru mikil hátíðahöld í Sviss. Talið er að meira en hálf milljón íbúa landsins hafi tekið þátt í skemmtunum og uppákomum af ýmsu tagi. Haldnar voru keppnir um byggingu turna úr Toblerone umbúðum og í flugstöðvum landsins voru haldnar sýningar um sögu þríhyrningssúkkulaðsins. Þáverandi borgarstjóri í Bern, Alexander Cheppet, líkti í hátíðarræðu uppfinningunni Toblerone við afstæðiskenningu Albert Einstein. Og uppskar kröftugt lófatak viðstaddra.
Verður ekki lengur „Toblerone of Switzerland“
Svisslendingar eru hreyknir af landi sínu og standa vörð um allt sem svissneskt er. Ströngum lögum varðandi höfundarrétt og allt sem hann varðar er fylgt eftir. Ekki er til dæmis leyfilegt að merkja vörur, eða gefa til kynna að þær séu svissneskar nema þær séu að öllu leyti framleiddar þar í landi.
Og þetta leiðir til þess að nú eru breytingar framundan varðandi Toblerone. Á pökkunum sem nú eru í búðum stendur stórum stöfum Toblerone og fyrir neðan, með minna letri, of Switzerland. Frá og með ársbyrjun 2023 kemur ný merking á pakkana, Toblerone heitið verður vitaskuld áfram en í stað of Switzerland, mun standa á pökkunum að Toblerone sé upprunnið, eða frá, Schweiz. Hvernig þetta verður nákvæmlega orðað hefur ekki verið gert opinbert. Og ástæðan fyrir þessari breytingu? Jú, núverandi eigandi Toblerone, Mondelez (áður Kraft Foods) hefur ákveðið að reisa verksmiðju í Slóvakíu. Toblerone verður þó áfram framleitt í Bern en það breytir engu, þessi tvö orð, of Switzerland, mega ekki vera á pökkunum eftir næstu áramót.
Í lokin má geta þess, þótt það sé eiginlega utan umfjöllunarefnis þessa pistils, að Toblerone rataði eitt sinn nokkuð óvænt inn í sænsk stjórnmál. Haustið 1995 greindi sænska dagblaðið Expressen frá því að Mona Sahlin hefði til eigin innkaupa notað greiðslukort, sem eingöngu skyldi notað vegna starfsins, en ekki einkanotkunar. Mona Sahlin var á þessum tíma staðgengill, og talinn líklegur arftaki Ingvars Carlsons forsætisráðherra. Upphæðin sem um var að ræða var rúmlega 50 þúsund sænskar krónur sem jafngildir í dag 665 þúsund íslenskum krónum. Mona Sahlin dró sig tímabundið út úr stjórnmálum en sneri eftir að saksóknari úrskurðaði að notkun greiðslukortsins gæti ekki talist lögbrot. Mona Sahlin endurgreiddi upphæðina alla og sekt að auk. Meðal þess sem Mona Sahlin hafði keypt og borgað með umræddu korti var Toblerone súkkulaði. Svíar kölluðu, og kalla þetta enn, Toblerone málið.