Langvarandi hitabylgjur sem oft fylgja miklir þurrkar eru kjöraðstæður fyrir gróðurelda en með loftslagsbreytingum og hækkandi hita skapast slíkar aðstæður oftar og þar af leiðandi hafa gróður- og skógareldar ekki bara orðið algengari heldur einnig vara þeir lengur og eru orðnir erfiðari við að eiga. Slökkviliðsmenn um víða veröld hafa þurft að glíma við elda af þessu tagi af miklum móð í sumar en aldrei áður hefur umfang gróðurelda verið jafn mikið í júlímánuði og í ár.
Þessum eldum fylgir líka mikil losun gróðurhúsalofttegunda. Þann fjórða ágúst tilkynnti evrópska loftslagsrannsóknarstofnunin (CAM) að frá júní hefðu 505 megatonn af koldíoxíði losnað út í andrúmsloftið vegna gróðurelda, til samanburðar losar mannkynið um 80-falt meira af koldíoxíði á ári hverju, um 40 gígatonn. Losunin frá gróðureldum á þessu tímabili er nú þegar orðin meiri en hún var allt árið í fyrra en þá nam losunin 450 megatonnum.
Reykur frá Síberíu á norðurpólnum
Á norðurpólnum sjást nú í fyrsta sinn merki skógarelda. Reykur frá skógum sem nú brenna í Síberíu hefur teygt sig alla leið á pólinn. Á síðustu árum hafa skógareldar logað reglulega í Síberíu sem rússneskir veðurfræðingar og umhverfisverndarsinnar segja að sé vegna loftslagsbreytinga og ónógs fjármagns til verndunar og viðhalds skóga.
Eldarnir loga í Yakútíu, sem er austarlega í Rússlandi, en þar hefur mælst óvenjuhár hiti að undanförnu og þurrkar hafa verið miklir. Svæðið er afskekkt sem gerir slökkvistarf erfitt. Eldarnir brenna á svæði sem er um 34 þúsund ferkílómetrar að stærð, sem er rúmlega þriðjungur af flatarmáli Íslands en talið er að um 14 þúsund ferkílómetrar af skógi vöxnu landi hafi brunnið það sem af er ári.
Skógareldar loga enn í Grikklandi
Frá þriðja ágúst hafa eldar logað á eyjunni Evia, næststærstu eyju Grikklands en hún er skammt norðaustan við höfuðborgina Aþenu. Norðurhluti eyjunnar hefur að stórum hluta brunnið en hundruð slökkviliðsmanna hafa reynt að bjarga því sem hægt er að bjarga. Aðstoð hefur borist frá öðrum löndum en samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum voru í gær hátt í 900 slökkviliðsmenn að störfum, sem komu meðal annars frá Úkraínu, Rúmeníu, Serbíu, Slóvakíu og Póllandi. Stjórnvöld hafa einbeitt sér að því að forða manntjóni en þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín.
Síðustu vikurnar hafa Grikkir glímt við skógarelda víðar í landinu en þar hefur versta hitabylgja í áratugi nýlega gengið yfir, hitinn náði til að mynda 47 gráðum í norðurhluta landsins fyrir viku. Eldarnir eru ekki einungis bundnir við eyjuna Evia, fyrr í mánuðinum þurftu íbúar í norðurhluta Aþenu að forða sér undan eldum.
Handan Eyjahafsins hafa einnig orðið miklar hamfarir vegna skógarelda. Í það minnsta átta hafa látist í miklum eldum í suðurhluta Tyrklands. Eldarnir hafa helst brunnið í grennd við strandbæi sem eru vinsælir sumardvalarstaðir.
Suðurhluti Ítalíu fékk sinn skerf af gróðureldum í seinni hluta júlí. Sikiley og Sardinía voru þau svæði sem verst fóru út úr eldunum. Ítalíudeild alþjóðlegu umhverfissamtakanna WWF segja 20 þúsund hektara, um 200 ferkílómetra, hafa orðið eldinum að bráð á Sardiníu.
Sunnan Miðjarðarhafsins brenna skógar einnig. Frá því á mánudag hafa slökkviliðsmenn barist við elda sem loga víða í Alsír. Samkvæmt upplýsingum frá þarlendum yfirvöldum hafa að minnsta kosti sjö almennir borgara látist í eldunum og 25 hermenn sem unnið hafa við hjálparstarf.
Skógar hafa logað frá því í vor í Kanada
Í Norður-Ameríku hafa skógar brunnið síðan í vor. Enn eru mánuðir eftir af skógareldatímabilinu í Kanada en frá því í vor hafa um 5800 ferkílómetrar af skógum brunnið í Bresku Kólumbíu. Þar féllu hitamet þrjá daga í röð í lok júní en hitinn þar náði 49,6 gráðum þann 29. júní. Á annað hundrað lést í hitabylgjunni.
Slökkviliðsmenn í Kaliforníu hafa glímt við einn mesta skógareld sem sögur fara af í ríkinu í um mánuð. Dixie eldurinn svokallaði hefur brunnið á tæplega 5000 ferkílómetra svæði. Fjögurra er saknað og þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín.
Hætta á vítahring
Svona mætti lengi telja og upptalningin hér að ofan er langt frá því að vera tæmandi yfir þá gróðurelda sem logað hafa á síðustu tveimur mánuðum. Þessi mikla ákefð gróðurelda er skýr birtingarmynd loftslagsbreytinga, en það sem meira er, þeir stuðla líka að loftslagsbreytingum því í eldunum losnar gífurlegt magn gróðurhúsalofttegunda, líkt og áður kom fram.
Með auknum gróðureldum eykst nefnilega losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið. Þá geta gróðureldar á jafn stóru svæði og þeir sem gengiði hafa yfir Síberíu, samhliða hækkun hitastigs á norðurhveli afþýtt freðmýrar og þar með losað mikið magn bæði koldíoxíðs og metans út í andrúmsloftið. Haldi hitinn því áfram að hækka gætu freðmýrar farið að þiðna í meira mæli og þar með skapast ákveðinn vítahringur.