Þriggja vikna mótmælum kanadískra vörubílstjóra í höfuðborg landsins, Ottawa, lauk um helgina, eftir að ríkisstjórnin setti neyðarlög og óeirðarlögregla réðst í umfangsmiklar fjöldahandtökur, haldlagningu á bifreiðum og frystingar á bankareikningum á grundvelli þeirra.
Meirihluti Kanadabúa var andvígur mótmælunum, sem leiddu til þess að samgöngur voru í lamasessi í borginni. Hins vegar hafa stjórnarandstæðingar gagnrýnt viðbrögð stjórnvalda við þeim, en samkvæmt þeim voru aðgerðir lögreglu yfirgengilegar.
Lokað á samgöngur
Fyrir þremur vikum síðan hófu bílstjórarnir, sem mótmæltu skyldubólusetningum þeirra sem fara um landamærin við Bandaríkin, að stífla helstu samgönguæðar Ottawa. Samkvæmt umfjöllun Financial Times hafa þau svo undið upp á sig og snúast þau nú um andstöðu gegn sitjandi stjórnvöldum.
Á þessum 24 dögum sem mótmælin stóðu yfir höfðu bílstjórarnir sett sér upp aðstöðu á miðjum götum í miðbæ borgarinnar, en þar mátti meðal annars finna útieldhús, tjöld, leiksvæði fyrir börn og svið. Framan af skipti lögreglan sér ekki að ástandinu, en samkvæmt BBC fengu þátttakendur mótmælanna að flauta bílum sínum, kveikja á sírenum og skjóta flugeldum á loft óáreittir.
Tengsl við kynþáttahyggju
Mótmælendurnir hafa fengið milljónir Bandaríkjadala í fjárhagslegan stuðning frá hægrisinnuðum öfgahópum og andstæðingum bólusetninga, bæði frá Kanada og Bandaríkjunum. Einnig voru hægrisinnaðir öfgamenn á meðal mótmælenda, en Financial Times greinir frá því að að sumir þeirra veifuðu hakakrossum og Suðurríkjafána Bandaríkjanna.
Þá hefur einn skipuleggjenda mótmælanna, Kanadabúinn Pat King, einnig tekið undir málflutning öfgahópa, en fyrir tveimur árum síðan birti hann myndband af sér þar sem hann talaði um að sótt væri að hvíta kynstofninum, sem væri kominn af sterkustu ættunum.
Lítill stuðningur frá almenningi
Þrátt fyrir stuðninginn frá áðurnefndum hópum hafa mótmælin ekki verið vinsæl á meðal kanadísks almennings. Samkvæmt umfjöllun CNN hefur fjöldi skoðanakannana sýnt að meirihluti Kanadabúa sé andstæður þeim og málflutningi þeirra.
Í einni slíkri könnun, sem var framkvæmd fyrir tveimur vikum síðan og var byggð á slembiúrtaki á kanadísku þjóðinni, töldu tæplega tveir af hverjum þremur viðmælendum að mótmælin voru ógn við lýðræðið. Jafnmargir voru fylgjandi því að stjórnvöld myndu binda enda á þeim með hjálp hersins og var meirihlutinn fylgjandi því að handtaka ætti þá sem fylgja ekki fyrirmælum stjórnvalda.
Raunverulegar aðgerðir sem bíta
Fyrir viku síðan tilkynnti forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, svo að hann myndi virkja neyðarlög í fyrsta skipti í sögu landsins til að koma böndum á ástandið. Neyðarlögin gefa lögreglunni í landinu meira vald í 30 daga til að leysa upp ólöglegar samkomur, haldleggja eigur mótmælendanna og frysta bankareikninga þeirra. Samkvæmt Trudeau eru lögin mikilvæg til að tryggja öryggi og atvinnu Kanadabúa og auka traust til stofnana landsins.
Á blaðamannafundi síðasta mánudag sagði forsætisráðherrann að lögmælin væru ekki lengur lögleg, heldur ólöglegt umsátur um höfuðborgina. „Það er kominn tími á að fólk fari heim til sín,“ bætti hann við.
Á fimmtudaginn byrjuðu kanadískir bankar að frysta bankareikninga hjá einstaklingum sem voru tengdir mótmælunum, en fjármálaráðherra landsins, Chrystia Freeland, sagði að bílstjórarnir sem tækju þátt í umsátrinu gætu misst tryggingarnar sínar. „Afleiðingarnar eru raunverulegar og þær munu bíta,“ sagði hún á blaðamannafundi.
Á föstudaginn hófust svo einar stærstu lögregluaðgerðir í sögu landsins, þar sem lögreglan í Ottawa skarst í leikinn og handtók yfir 170 þátttakendur mótmælendanna, en þeirra á meðal var áðurnefndur Pat King. Þar að auki fjarlægði hún 53 farartæki til að losa um stífluna á umferðaræðum borgarinnar. Í gær sagðist löggan svo ætla að leitast við að bera kennsl á mótmælendurna og ákæra þá fyrir lögbrot, auk þess sem þeir verði beittir fjárhagslegum refsiaðgerðum.
Starfandi lögreglustjóri Ottawa, Steve Bell, sagði að aðgerðir lögreglu hefðu verið ómögulegar ef stjórnvöld hefðu ekki virkjað neyðarlögin.
Ekki einhugur um viðbrögðin
Fjöldi þingmanna kanadíska Íhaldsflokksins, sem situr í stjórnarandstöðu, gagnrýndi aðgerðir ríkisstjórnarinnar harkalega og segja þær hafa verið yfirdrifnar. Einn þeirra, Pierre Poilevre, lofsamaði vörubílstjórana og sakaði Trudeau um hefndaraðgerðir gegn þeim sem eru á móti bólusetningum.
Þá hefur Donald Trump, fyrrum forseti Bandaríkjanna, einnig mótmælt aðgerðirnar og kallað Trudeau „öfga-vinstri brjálæðing.“ Sömuleiðis hefur Repúblíkanaþingmaðurinn Ted Cruz opinberlega stutt kanadísku vörubílstjórana og Tucker Carlson, fréttaþulur á Fox-sjónvarpsstöðinni segir „harðstjórn“ ríkja í landinu.
Tímaritið The Economist gagnrýndi einnig viðbrögð Trudeau í leiðara sem birtist um helgina, en þar sagði að forsætisráðherrann hefði ekki gert nóg til að komast til móts við mótmælendurna.
Þó segir Lori Turnbull, stjórnmálafræðiprófessor í Nova Scotia og viðmælandi Financial Times, að viðbrögð Trudeau við mótmælin séu ólíkleg til að draga úr vinsældum hans. „Allir í Ottawa eru svo ánægðir með að losna við þau, en það vekur ugg ef ríkisstjórnin getur ekki verndað eigin höfuðborg,“ bætti hún við. Þrátt fyrir það sagði hún að flokkur Trudeau, Frjálslyndi flokkurinn, ætti ekki að vera of spenntur fyrir næstu kosningar.