Niðurstöður sveitarstjórnakosninga eru iðulega taldar vísbending um hvernig vindarnir blása í landsmálapólitíkinni. Einskonar pólitísk loftvog. Gott gengi í sveitarstjórnakosningum blæs vindi í segl viðkomandi flokks en slakt gengi veldur áhyggjum.
Síðastliðinn þriðjudag, 16. nóvember fóru fram sveitarstjórnakosningar í Danmörku. Í aðdraganda kosninganna var ekki mikið fjallað um áherslur og baráttumál einstakra flokka og frambjóðenda vítt og breitt um landið. Allt slíkt hvarf í skugga umfjöllunar um minkamálið svonefnda og ákvarðana stjórnvalda í því máli. Minkamálið verður ekki rakið hér en það snýst um þá ákvörðun stjórnvalda, 3. nóvember í fyrra, að fyrirskipa aflífun danska minkastofnsins, 15 til 17 milljónum dýra, á öllum búum landsins. Rannsókn vegna þessa máls stendur nú yfir, hún er mjög yfirgripsmikil og fjölmargir embættis – og stjórnmálamenn mega sæta löngum yfirheyrslum rannsóknarnefndarinnar. Tilgangurinn er að komast að því hver bar ábyrgð á, og tók ákvörðun um, að slá minkastofninn af og hvort ráðherrar, og þá hvaða ráðherrar, hafi vitað að sú ákvörðun styddist ekki við lög.
Flokkur Jafnaðarmanna, Socialdemokratiet, undir forystu Mette Frederiksen tók við völdum eftir þingkosningarnar árið 2019. Stjórnin er minnihlutastjórn, eins og algengt hefur verið í Danmörku en nýtur stuðnings flokka úr rauðu blokkinni svonefndu, þ.e. flokka á miðju og vinstri væng danskra stjórnmála. Jafnaðarmannaflokkurinn er stærsti flokkurinn á danska þinginu, Folketinget, og ennfremur í sveitarstjórnum í landinu.
Spá um fylgistap Jafnaðarmanna rættist
Skoðanakannanir fyrir kosningarnar 16. nóvember sýndu talsvert fylgistap Jafnaðarmanna. Ekki síst í stærstu borgum landsins, Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum og Álaborg. Stjórnmálaskýrendur nefndu einkum tvær ástæður. Í fyrsta lagi havaríið í kringum minkamálið, ekki hvað síst tengt sms skilaboðum sem eytt hafði verið úr síma forsætisráðherrans. Í öðru lagi töldu stjórnmálaskýrendur að sú ákvörðun að flytja fjölda starfa frá stórum þéttbýlisstöðum út í dreifbýlið ylli fylgistapi Jafnaðarmanna í stærstu borgunum. Þótt ráðherrar ríkisstjórnarinnar, með Mette Frederiksen forsætisráðherra í broddi fylkingar, helltu sér í kosningabaráttuna síðustu dagana hrökk það ekki til. Spár og skoðanakannanir gengu eftir, Jafnaðarmenn töpuðu umtalsverðu fylgi.
Höggið var þyngst í Kaupmannahöfn þar sem flokkurinn tapaði rúmum 10 prósentustigum, fékk 17.3% og er ekki lengur stærsti flokkurinn í höfuðborginni. Einingarlistinn fékk flest atkvæði kjósenda í Kaupmannahöfn (24.6%) en Jafnaðarmenn héldu þó yfirborgarstjóraembættinu, en í borginni eru 7 borgarstjórar. Meirihluti flokka í borgarstjórn Kaupmannahafnar vildi ekki styðja fulltrúa Einingarlistans í embætti yfirborgarstjóra og ákváðu þess í stað að styðja Sophie Hæstorp Andersen. Jafnaðarmannaflokkurinn fékk 28.4% atkvæða á landsvísu tapaði 4 prósentustigum frá kosningunum 2017. ,,Vonbrigði en varnarsigur“ sagði einn ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Hrunadans Danska þjóðarflokksins
Það hefur ekki blásið byrlega fyrir Danska þjóðarflokkinn á síðustu árum. Flokkurinn fékk herfilega útreið í þingkosningunum 2019, tapaði 21 þingmanni, stóð eftir með 16 fulltrúa á þinginu. Í kjölfarið fóru að heyrast raddir sem lýstu efasemdum um formanninn Kristian Thulesen Dahl. Hann hafði tekið við formennskunni af Piu Kjærsgaard árið 2012, og í kjölfarið tók fylgi flokksins stökk upp á við.
Hrunadansi flokksins lauk ekki með kosningaúrslitunum 2019, úrslit sveitarstjórnarkosninganna í síðustu viku voru rothögg, eins og stjórnmálaskýrandi dagblaðsins Politiken komst að orði. Flokkurinn tapaði helmingi fylgisins í kosingunum í síðustu viku og stóð eftir með 4.1% atkvæða á landsvísu.
Formaðurinn hættir
Þegar úrslit sveitarstjórnakosninganna urðu ljós lýsti Kristian Thulesen Dahl yfir að hann óskaði eftir að boðað yrði til fundar í flokksstjórninni og þar yrði kosinn nýr formaður. Tilkynnti jafnframt að þar yrði hann ekki í kjöri. Samkvæmt reglum flokksins skal halda slíkan fund innan tveggja mánaða frá því að ákvörðun þar að lútandi hefur verið tekin. Yfirlýsing Kristian Thulesen Dahl þótti mikil tíðindi í dönskum stjórnmálum, þótt hún hafi ekki beinlínis komið á óvart. Á fundi flokkstjórnar Danska þjóðarflokksins í gær, laugardag, var ákveðið að nýr formaður skuli kosinn 23. janúar næstkomandi.
Ljón í veginum
Hjá dönskum stjórnmálaflokkum er algengast að einhver erfðaprins, eða prinsessa bíði á hliðarlínunni þegar til formannsskipta kemur. Ástandið í Danska þjóðarflokknum er hinsvegar nokkuð sérkennilegt hvað þetta varðar. Lengi hefur legið í loftinu, og rætt um, að Morten Messerschmidt, sem er varaformaður flokksins, myndi taka við formennskunni þegar að því kæmi að Kristian Thulesen Dahl stigi til hliðar. En, það er hinsvegar ljón í vegi Morten Messerschmidt. Það ljón er dómur sem hann hlaut í Bæjarrétti (sem er lægsta dómstig) fyrr á þessu ári, fyrir að hafa misfarið með fé úr sjóðum Evrópusambandsins. Um það mál var fjallað ítarlega í fréttaskýringu hér í Kjarnanum 8. ágúst sl.
Morten Messerschmidt áfrýjaði dómi Bæjarréttar en líklegt er talið að dómur Landsréttar verði kveðinn upp í febrúar á næsta ári. Eins og fram kom framar í þessum pistli hefur nú verið ákveðið að nýr formaður Danska þjóðaflokksins verði kosinn 23. janúar. Sú ákvörðun kemur líkast til í veg fyrir að Morten Messerschmidt geti boðið sig fram til embættis formanns Danska þjóðarflokksins.
Hvaða formannskostir eru í boði?
Þessari spurningu velta margir fyrir sér. Svarið liggur ekki í augum uppi. Nokkrir möguleikar hafa heyrst nefndir. Einn er sá að Pia Kjærsgaard, stofnandi og fyrrverandi formaður flokksins verði einskonar „millibilsformaður“. Hún hefur reyndar sagt að formennskuskeiði hennar sé lokið, en danskir stjórnmálaskýrendur segja ekki alltaf mikið að marka slíkar yfirlýsingar. Annar möguleiki sem nefndur var sá að fresta formannskjörinu, með sérstakri samþykkt, til vors. Þá yrði væntanlega komin niðurstaða í mál Morten Messerschmidt. Sú hugmynd var slegin af á fundinum í gær. Innan raða Danska þjóðarflokksins hefur talsvert verið rætt um að fá Inger Støjberg fyrrverandi ráðherra innflytjendamála (í stjórn Venstre) til liðs við flokkinn. Hún er þingmaður utan flokka.
Einn hængur er á þessari hugmynd: embættisfærslur Inger Støjberg, vegna málefna hælisleitenda og flóttafólks í stjórnartíð Venstre eru nú fyrir Landsdómi (Rigsret) og verði hún fundin sek er útilokað að hún geti orðið formaður Danska þjóðarflokksins. Líklegt er að dómur falli fyrir áramót og verði Inger Støjberg sýknuð er aldrei að vita hvað hún gerir.
En eru ekki fleiri möguleg formannsefni innan Danska þjóðarflokksins kann nú einhver að spyrja. Svarið við þeirri spurningu er að innan flokksins eru ekki augljósir valkostir. Nafn Peter Kofod er þó iðulega nefnt þegar rætt er um „framtíðarleiðtoga“ flokksins. Hann er 31 árs og situr á Evrópuþinginu.
Hann hafði lýst sig fylgjandi því að formannskjöri Danska þjóðarflokksins verði frestað til vors, með þeim rökum að þá verði niðurstaða komin í mál þeirra Morten Messerschmidt og Inger Støjberg. Peter Kofod hefur í viðtölum síðustu daga ekki útilokað að hann bjóði sig fram til formanns, en framboðsfrestur er til 7. janúar.
Ljóst er að nýs formanns bíða erfið verkefni við endurreisn flokksins.
Íhaldsflokkurinn
Eftir nokkur mögur ár er fylgi Íhaldsflokksins (Det konservative Folkeparti) á uppleið. Flokkurinn fékk 15.2% greiddra atkvæða í sveitarstjórnakosningunum sl. þriðjudag, bætti við sig 6.4 prósentustigum frá kosningunum 2017. Í þingkosningunum 2019 tvöfaldaði flokkurinn fylgi sitt og hefur nú 12 þingmenn. Formaðurinn Søren Pape Poulsen, sem tók við formennskunni árið 2014 nýtur vinsælda, hann var dómsmálaráðherra á árunum 2016 til 2019.
Það skyggði aðeins á gleðina að flokkurinn mátti sjá á eftir borgarstjóraembættinu á Friðriksbergi í hendur Jafnaðarmanna, í fyrsta skipti í 112 ár.
Venstre hélt sjó
Það hefur gengið á ýmsu hjá Venstre (sem skilgreinir sig sem hægri-miðjuflokk) að undanförnu. Jakob Ellemann-Jensen tók við formannsembættinu eftir að Lars Løkke Rasmussen og Kristian Jensen sögðu af sér formennsku og varaformennsku í lok ágúst 2019. Lars Løkke sagði sig síðar úr flokknum, það gerði líka Inger Støjberg. Formaðurinn Jakob Ellemann hefur sætt talsverðri gagnrýni og flokknum var ekki spáð góðu gengi í nýafstöðnum sveitarstjórnakosningum. Danskir stjórnmálaskýrendur segja að Venstre megi sæmilega una við úrslitin. Flokkurinn er næst stærsti flokkur landsins, fékk í heildina 21.2% atkvæða, 1.9 prósentustigum minna en í kosningunum 2017.
Í lokin má geta þess að af tæplega 100 borgarstjórum í Danmörku er rétt um fimmtungur konur.