Rekstur RÚV hefur ekki verið sjálfbær frá því að fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007. Alls nemur tap umfram hagnað 813 milljónum króna á því tímabili, og er þar gert ráð fyrir þeim tekjum sem RÚV hefur af útvarpsgjaldi sem landsmönnum er skylt að greiða. Samt sem áður gera áætlanir RÚV, sem fyrirtækið vinnur eftir, ráð fyrir því að það fái hærra útvarpsgjald en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins, að lán vegna lífeyrisskuldbindinga hverfi úr efnahag RÚV og að sala á byggingarétti á lóð fyrirtækisins gangi eftir. Gangi allar þessar forsendur ekki eftir er rekstur RÚV eins og fyrirtækið er rekið í dag ósjálfbær.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu nefndar sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra skipaði 7. maí síðastliðinn til að greina þróun á starfsemi RÚV ohf. frá stofnun, þann 1. apríl 2007, og fram til dagsins í dag. Tilefnið var að afla þar með skýringa á þeirri þungu rekstrarstöðu sem RÚV er í ídag. Í nefndinni sitja Eyþór Arnalds, sem er formaður hennar, Guðrún Ögmundsdóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Svanbjörn Thoroddsen hjá KPMG.
Skýrslan var gerð opinber í dag. Þar eru einnig sett fram nokkur stór álitamál, meðal annars hvort RÚV eigi að vera á auglýsingamarkaði og hvort RÚV sé best til þess fallið að ná fram markmiðum ríkisins sem snúa að íslenskri menningu, tungu og lýðræðisumræðu.
RÚV hefur gert athugasemd við ýmis atriði í skýrslunni og hefur birt fréttatilkynningu á heimasíðu sinni þar sem þau atriði eru talin upp. Á meðal þess sem þar kemur fram er sá tölulegi samanburður "sem nefndin gerir á milli RÚV og 365. Margoft hefur komið fram að slíkur samanburður er illmögulegur vegna ólíks eðlis almannaþjónustumiðla og einkamiðla. Þá er í skýrslunni stuðst við óopinberar og óstaðfestar tölur úr rekstri einkafyrirtækis í samkeppnisrekstri. Ef styðjast ætti við upplýsingar úr rekstri 365, gefnar upp af stjórnendum þess fyrirtækis, þá þyrfti að vera hægt sannreyna þær tölur með gegnsæjum hætti".
Endurskoða verður þjónustuhlutverkið
Nefndin gerir umfangsmiklar athugasemdir við rekstur RÚV frá því að fyrirtækinu var breytt í opinbert hlutafélag árið 2007. Helstu niðurstöður nefndarinnar eru að rekstur RÚV frá stofnun hefur ekki verið sjálfbær og sé það raunar ekki enn. Gjöld hafa verið meiri en tekjur á tímabilinu í heild og hefur hallarekstur verið fjármagnaður með auknu ríkisframlagi, lántökum og frestun afborgana lána. Taprekstur hefur verið á helmingi þeirra ára sem liðin eru frá stofnun RÚV og tap umfram hagnað er samtals 813 milljónir króna.
Nefndin telur mikilvægt að endurskoða þjónustuhlutverk RÚV í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á neytendahegðun, sem koma meðal annars fram í miklum samdrætti í áhorfi á hefðbundna sjónvarpsdagskrá, sérstaklega hjá ungu fólki. Í skýrslunni er birt skýringarmynd þar sem kemur fram að heildaráhorf fólks á Íslandi á aldrinum 18-49 ára á sjónvarp dróst saman á árunum 2009-2015 um tæp 36 prósent í heild og var samdrátturinn í áhorfi á línulega dagskrá 47 prósent. Alls hefur áhorf á sjónvarp minnkað um 28 prósent frá árinu 2009 og hjá RÚV hefur samdrátturinn verið tæp 18 prósent. Samdráttur í áhorfi á fréttir 2009 – 2015 var tæp 17 prósent og enn meiri í aldurshópnum 18-49 ára, eða 32 prósent.
Þá telur nefndin mikilvægt að gerður verði nýr þjónustusamningur milli ríkisins og RÚV þar sem sú þjónusta sem RÚV ber að sinna er skilgreind og tiltekið hvaða fjármunir eigi að koma fyrir þá þjónustu út samningstímann.
Hvorki best né ódýrasta lausnin
Í skýrslu nefndarinnar er einnig sett fram hörð gagnrýni á samning upp á fjóra milljarða króna sem RÚV gerði við Vodafone um uppbyggingu stafræns dreifikerfis árið 2013, og er til 15 ára. Ákvörðunin um dreifisamninginn er sögð hafa verið „dýrkeypt“. Það dreifikerfi þykir vera með verulega takmarkaða möguleika, enda býður tæknin ekki upp á gagnvirkni, ekki internet og er „hvorki besta né ódýrasta lausnin“. Í skýrslunni segir að hægt hefði verið að ljúka ljósleiðaravæðingu alls Íslands fyrir sömu fjárhæð og RÚV greiddi til Vodafone fyrir uppbyggingu stafræna dreifikerfisins.
Vodafone sendi síðdegis frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar um samninginn í skýrslunni. Þar segir að Vodafone hafi fengið staðfest hjá Kauphöll Íslands að upplýsingagjöf félagsins er hvorki til skoðunar né rannsóknar þar. Þar segir einnig að nauðsynlegt sé að taka fram "að fyrrnefndur samningur kveður á um töluvert fleira en einungis uppbyggingu og rekstur stafræns dreifikerfis sjónvarps. Vodafone sér ennfremur um rekstur langbylgjurása RÚV og rekur tæplega 200 FM senda um allt land.
Í tilefni af umræðu um meinta úrelta tækni skal tekið fram að DVB-T/T2 tæknin er útbreiddasta og mest nýtta sjónvarpsdreifileið á landi í heiminum í dag, sér í lagi hjá fjölmiðlum í almannaeigu enda gerir hún ekki kröfu til viðbótar kostnaðar hjá notendum. DVB-T2 staðallinn var upphaflega útfærður árið 2008. Fyrsta DVB-T2 kerfið fór í loftið í Bretlandi árið 2010 og fjölgar enn stöðugt þeim löndum sem nýta sér DVB-T2 tæknina. Útboð RÚV árið 2012 setti skilyrði um 99,8 prósent dreifingu með DVB tækni og allir þátttakendur útboðsins buðu miðað við þær forsendur".
Reksturinn ósjálfbær
Nefndin veltir einnig upp nokkrum mikilvægum álitamálum í skýrslunni. Á meðal þeirra er sú spurning hvort ohf. rekstrarformið sé heppilegt fyrir starfsemi RÚV þar sem reynslan sýnir að félagið er ekki rekið með takmarkaðri ábyrgð þegar ávallt er gert ráð fyrir að ríkissjóður rétti af fjárhag félagsins.
Annað stórt álitamál sé hvort hvort RÚV sé best til þess fallið að ná fram markmiðum ríkisins sem snúa að íslenskri menningu, tungu og lýðræðisumræðu, séstaklega þar sem innan við 60 prósent af fjármagni sem RÚV eyðir fari í dagskrárgerð.
Í skýrslunni segir berum orðum að þær áætlanir sem RÚV vinni nú eftir geri ráð fyrir ýmsu sem sé ekki orðið að veruleika. Þ.e. hærra útvarpsgjaldi en er í fjárlagafrumvarpi, að milljarða króna lífeyrissjóðsskuldbinding hverfi úr efnahag og sölu byggingaréttar. Gangi þessar forsendur ekki allar eftir er rekstur RÚV ósjálfbær.
Nefndin var saman rekstur útvarps og sjónvarps hjá RÚV annars vegar og 365 miðlum, stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtækis landsins, hins vegar. Þar kemur fram að tekjur 365 miðla vegna áskrifta og auglýsingasölu hafi verið 3,9 milljarðar króna í fyrra. Á sama tíma var RÚV með 5,4 milljarða króna í tekjur vegna ríkisframlags og auglýsingatekna. Rekstrargjöld RÚV voru um 1,9 milljörðum krónum hærri en gjöld 365 og þegar einungis var horft til dagskrár- og framleiðslukostnaðar er munurinn sláandi.
Hjá 365 miðlum fara tveir milljarðar króna á ári í dagskrár- og framleiðslukostnað en hjá RÚV er sá kostnaður 3,9 milljarðar króna. Munurinn er 1,9 milljarðar króna. Samt sem áður sendu 365 miðlar út 1.681 klukkustundir. af innlendu efni árið 2014 á meðan að RÚV sendi út 1.948 klukkustundir. 365 miðlar senda því út 14 prósent minna af innlendu efni á ári fyrir helming þess kostnaðar sem fer í dagskrár- og framleiðslukostnað hjá RÚV.