24. september í fyrra var opnuð í listasafninu Kunsten í Álaborg sýningin Work it Out. Undirbúningur hófst fyrir fimm árum en komst á skrið árið 2018 eftir að Kunsten fékk hugmyndaverðlaun Bikubenfonden, sem er menningarsjóður Sparisjóðsins Bikuben. Bikuben var stofnaður 1857 en menningarsjóðurinn árið 1989. Tilgangur sjóðsins hefur frá upphafi verið að styrkja ýmis konar menningarstarfsemi. Hugmyndaverðlaununum fylgir styrkur til sýningahalds, styrkurinn er mishár og fer eftir umfangi sýningar, eins og henni er lýst í umsókn.
Work it out
Work it Out er umfangsmesta sérsýning sem Kunsten hefur staðið fyrir frá upphafi en safnið var opnað árið 1972.
Safnið bauð 19 listamönnum, frá nokkrum löndum, eða samstarfshópum listamanna að taka þátt í Work it Out sýningunni. Þar skyldi athyglin beinast að vinnunni: hvað er vinna og hvers vegna vinnum við? Hvert er hlutverk einstaklingsins í vinnusamfélagi samtímans? Kórónaveiran hefur valdið ákveðinni viðhorfsbreytingu til vinnunnar, er sú breyting tímabundin? Þessum og fleiri spurningum var varpað fram í boði safnsins til listamannanna. Þeir máttu ráða hvort verkin væru ný eða hefðu verið sýnd áður. Listamönnunum var jafnframt ráðlagt að koma með, eða senda verkin tímanlega til safnsins þannig að nægur tími gæfist til að koma þeim fyrir. Vitað var að mörg verkanna yrðu stór og þess vegna nauðsynlegt að hafa tímann fyrir sér, eins og sagði í bréfi safnstjórans til listamannanna.
Umsamið var að listamennirnir myndu, hver um sig, fá greiddar 40 þúsund krónur danskar (jafngildir 800 þúsundum íslenskum) fyrir þátttöku í sýningunni. Ekki skipti máli hvort verkið hefði verið gert sérstaklega fyrir sýninguna eða verið sýnt áður. Jafnframt var umsamið að safnið myndi borga sendingarkostnað og umbúðir utan um verkin. Eins og oft vill verða voru listamennirnir misfljótir að bregðast við, sumir voru búnir að að koma verkunum til safnsins, löngu áður en til stóð að setja sýninguna upp, aðrir á seinni skipunum.
Sagðist verða seinn fyrir
Einn seinniskipamanna var Jens Haaning. Hann hafði tilkynnt safninu að sitt verk, í tveimur hlutum, myndi berast safninu þegar skammt yrði í að sýningin yrði opnuð. Hann hafði sent safninu málin á tveimur römmum sem verkið yrði í, upphenging yrði einföld ,,bara að smella römmunum á festingarnar (naglana) á veggnum“ sagði Jens Safnstjórn Kunsten tók þetta gott og gilt, listamenn hafa iðulega í mörg horn að líta og Jens Haaning með margt í gangi þessa septemberdaga í fyrra.
Meðalárslaun í Austurríki og Danmörku
Verkið sem Jens Haaning ætlaði að sýna í Álaborg var eins konar uppfærsla á verki sem hann hafði sýnt í Herning árið 2010 og vakti þar talsverða athygli. Eins og áður sagði var verkið í tveimur hlutum, tveimur misstórum römmum. Uppsetningin var sú sama í báðum tilvikum, peningaseðlar þöktu allan flötinn inni í rammanum, danskir seðlar í öðrum en evrur í hinum.
Titillinn var einfaldlega Meðalárslaun í Austurríki 2007 og Meðalárslaun í Danmörku 2010. Á sýningunni í Kunsten átti að vera búið að uppfæra launatölurnar, að öðru leyti yrði verkið eins.
Þurfti að fá peningana að láni hjá safninu
Samkvæmt upplýsingum sem Jens Haaning hafði aflað sér voru samanlögð meðalárslaun einstaklings í Danmörku og Austurríki 532.549 danskar krónar (10.5 milljónir íslenskar). Jens Haaning átti þessa peninga ekki í handraðanum og samdi við Kunsten um að fá peningana að láni og að þeim yrði skilað þegar sýningunni lyki. Um þetta atriði, eins og annað varðandi verkin á sýningunni, var skriflegur samningur.
Á síðustu stundu
Tveimur dögum áður en sýningin skyldi opnuð var safnstjóri Kunsten orðinn órólegur, verkið frá Jens Haaning var ekki komið til Álaborgar. Safnstjórinn hringdi í Jens sem sagði honum að hafa engar áhyggjur verkið kæmi á tilsettum tíma. „Það kemur sendibíll með þetta og svo er bara að skella þessu upp, ég kem ekki sjálfur“ sagði Jens Haaning.
Take the money and run
Kunsten hafði auglýst sýninguna Work it Out vel og vandlega. Allt safnið notað undir þessa stærstu sérsýningu í sögu þess. Um hádegisbil föstudaginn 24. september renndi sendiferðabíll í hlað, með tvö verk, safnstjórinn andaði léttar. Verkin voru drifin inn og umbúðirnar fjarlægðar í skyndi. Mikil var undrun starfsfólksins þegar innihaldið kom í ljós. Rammarnir voru þarna, með glerinu, en seðlarnir ekki. Viðstaddir göptu af undrun og samtímis varð ljóst af hverju listamaðurinn hafði ekki sent verkið fyrr en á síðustu stundu, þá yrði of seint að bregðast við. Í sama mund barst safninu tölvupóstur frá Jens Haaning. Þar skýrði hann frá því að peningarnir sem hann hefði fengið frá safninu væru hjá sér og að hann hefði skírt verkið, auðu rammana, uppá nýtt. Það héti nú „Take the money and run“. Safnstjórinn sagði að listamaðurinn myndi væntanlega skila peningunum enda ætti safnið þá.
Sýningin í Álaborg vakti mikla athygli og verk Jens Haaning varð til þess að mun fleiri sóttu sýninguna en reiknað var með, þrátt fyrir kórónaveiruna. Ætlunin var að sýningin yrði opin til áramóta, en var framlengd til 16. janúar sl.
Ætlar ekki að skila peningunum
Daginn eftir að sýningunni lauk lýsti Jens Haaning því yfir að hann ætlaði sér ekki að skila peningunum, þeir færu í heimilisbuddu hans sjálfs. Hann sagði jafnframt að það sem hann gerði hefði ekki verið í auglýsingaskyni. Hins vegar vildi hann vekja athygli á bágum kjörum danskra myndlistarmanna, sem væru til skammar.
Safnið stefnir listamanninum og vill fá peningana
Safnstjóri Kunsten lýsti því yfir, þegar fyrir lá að listamaðurinn ætlaði sér ekki að skila peningunum, að safnið hefði stefnt Jens Haaning fyrir rétt. Málið hefði ekki verið kært til lögreglu og safnstjórinn kvaðst vona að málið yrði leyst og Kunsten fengi peningana til baka.