Upp með hendur, niður með brækur ellegar ég slæ þig í rot, sagði bankaræninginn Svarti-Pétur í Bíólagi Stuðmanna. Fjáröflunarferð Péturs endaði í Húsafelli og bankinn endurheimti féð, segir í þessu lagi sem flestir þekkja. Þetta var nú allt í þykjustunni eins og sagt er og fékk farsælan endi, nema fyrir Svarta- Pétur. Bankarán eru ekki óþekkt fyrirbæri hér á Íslandi og sum þeirra hefur aldrei tekist að upplýsa. Ekki enn í það minnsta.
Árum saman voru bankarán nánast daglegt brauð í Danmörku. Árið 1992 voru framin þar 237 bankarán, sem sé eitt rán á dag alla þá daga ársins sem bankar í landinu voru opnir. Bankarán voru svo algeng að þau þóttu vart fréttnæm, nema um væri að ræða mikla fjármuni, eða vopnum hefði verið beitt. Fyrir nokkrum árum spurði danskt vikurit fólk á förnum vegi hvað því dytti fyrst í hug þegar orðið bankarán væri nefnt. Flestir svöruðu „ungur grímuklæddur maður sem hrópar upp með hendur – þetta er rán, stekkur svo yfir afgreiðsluborðið, neyðir gjaldkerann til að opna kassann og afhenda seðlana sem þar liggja“.
Bankarnir beittu ýmsum aðferðum til að koma í veg fyrir að óprúttnir náungar gætu hlaupið á brott með seðlabúntin. En þjófarnir kunnu líka sitt fag og tókst oft að sleppa með ránsfenginn. Stundum tókst lögreglunni að hafa hendur í hári þeirra en oft spurðist ekkert til peninganna sem rænt var og ekki heldur til þjófanna. Þótt þjófarnir næðust kannski um síðir tókst sjaldnast að endurheimta féð.
Ávísanir, hraðbankar og kort
Lengi vel var engin önnur leið til að taka út peninga en að fara í bankann á afgreiðslutíma virka daga, iðulega frá kl. 9.15 til 16.00, með bankabókina. Lokað á laugardögum og sunnudögum. Þeir sem ekki höfðu verið fyrirhyggjusamir og tekið út skotsilfur virka daga, gátu lent í vandræðum. Síðar komu ávísanir til sögunnar, þær auðvelduðu lífið. Svo komu hraðbankarnir.
Fyrsti hraðbankinn var opnaður í London í júní 1967. Hann var mjög frábrugðinn þeim hraðbönkum sem við þekkjum í dag. Traustir viðskiptavinir gátu fengið sérstakt kort sem einungis var hægt að nota í viðkomandi banka. Þegar nota átti kortið, setti eigandinn það í „vélina“ líkt og gert er í dag. Ekki var hægt að velja upphæð, hún var fyrirfram ákveðin af bankanum. Þegar skrifari þessa pistils bjó í London á áttunda áratug síðustu aldar var upphæðin 15 sterlingspund. Einungis var hægt að taka einu sinni út á kortið í hvert skipti því vélin skilaði ekki kortinu. Það fékk eigandinn sent í pósti nokkrum dögum síðar.
Á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar var þróunin ör. Fyrstu greiðslukortin (kreditkort) á Íslandi litu dagsins ljós árið 1980, svo komu debetkortin og ávísanir hurfu að mestu leyti. Hraðbankarnir spruttu upp, ef svo má að orði komast, og þar sáu fingralangir möguleika á skjótfegnum gróða. Engu skipti þótt hraðbankakassarnir, sem oft voru utandyra, væru níðþungir og rammlega festir og ættu að vera þannig að mjög erfitt væri að opna þá til að komast í seðlana. Árið 2016 var 16 sinnum reynt að ræna hraðbanka með aðstoð sprengiefnis eða þar sem öflug vinnutæki, t.d. vélskóflur, komu við sögu. Þetta heyrir líklega sögunni til, á síðasta ári var ekki eitt einasta tilvik af þessu tagi í Danmörku. Þjófarnir hafa líka ýmis konar „hjálpartæki“ eins og yfirlyklaborð og myndavélar. Þeir sem nota hraðbanka vita að þar er hvatt til að halda hendi yfir lyklaborðinu þannig aðrir geti ekki séð lykilorðið.
Mjög hefur dregið úr seðlanotkun
Breytt tækni (kortin, heimabankarnir og nú síðast símatæknin) hefur gert það að verkum að seðlanotkun hefur dregist verulega saman.
Stór hópur fólks gengur aldrei með reiðufé á sér og eftir að kórónaveiran fór að herja á heimsbyggðina hættu margar verslanir að taka við reiðufé. Þessar breytingar hafa þó ekki dregið úr áhuga óprúttinna á að krækja í peninga. Alls kyns svindl á netinu hefur stóraukist, margir hafa látið lokkast af alls kyns gylliboðum, um skjótfenginn gróða. Á tímabili voru ótrúlega margir erfingjar mikilla auðæfa, einkum í Afríku, í vandræðum með að geyma peningana eða koma þeim úr landi. Ríflegri umbun var lofað þeim sem tækju að sér að aðstoða erfingjann. En, sá greiðvikni þurfti hins vegar að veita ýmsar upplýsingar, kortanúmer og þess háttar, áður en hægt yrði að ganga frá hlutunum. Þetta er einungis eitt dæmi um hugmyndaflug svindlaranna. Málum af þessu tagi fjölgar sífellt en „gamaldags“ bankarán heyra nánast sögunni til, að minnsta kosti í okkar heimshluta.
Þau fimm stærstu
Danmörk var árum saman evrópumeistari í bankaránum, algjörlega í sérflokki. Danir voru ekki stoltir af þessum „meistaratitli“ en nú eru þeir dottnir niður í næst neðsta sætið sem þeir deila með fleiri þjóðum.
Hér á eftir er listi yfir fimm stærstu peningaþjófnaði í sögu Danmerkur.
Í apríl árið 2008 létu fimm eða sex menn til skarar skríða hjá peningaflutningafyrirtækinu Loomis í Glostrup, skammt frá Kaupmannahöfn. Þeim tókst að komast á brott með 62 milljónir danskra króna (1200 milljónir íslenskar). Upphæðin hefði getað orðið mun hærri hefðu ræningjarnir ekki misst marga kassa með seðlum í flýtinum. Þeir töfðu fyrir lögreglunni með því að koma fyrir einhverju sem líktist sprengjum og naglalykkjum, sem sprengja dekk. Fjórir menn hlutu dóma og þeir fengu sjö til tíu ára fangelsi. Einungis lítill hluti peninganna sem stolið var komu í leitirnar.
Í ágúst árið 2008 var framið vel undirbúið rán hjá peningaflutningafyrirtækinu Dansk Værdihåndtering í Brøndby fyrir vestan Kaupmannahöfn. Ræningjarnir höfðu stolið tíu sorpflutningabílum sem þeir lögðu þvers á umferðargötum og kveiktu í. Naglalykkjum höfðu þeir líka stráð á göturnar til að tefja fyrir lögreglunni. Lögreglan hafði veður af að eitthvað stæði til en eigi að síður tókst ræningjunum að komast á brott með 60 milljónir danskra króna (1130 milljónir íslenskar). Eftir löng og flókin réttarhöld árið 2010 voru 14 menn dæmdir í samtals 110 ára fangelsi. Af milljónunum 60 hafa til þessa einungis fundist 4.
Í nóvember árið 2000 stöðvuðu ræningjar peningaflutningabíl frá fyrirtækinu S&P Security, í Glostrup. Í bílnum var 41 milljón danskra króna (773 milljónir íslenskar) sem verið var að flytja úr verslunum danska Coop fyrirtækisins. Nokkrir menn voru dæmdir fyrir ránið en til þessa dags hefur hvorki fundist tangur né tetur af peningunum.
Í desember árið 2007 var litlum Toyota pallbíl ekið gegnum girðingu við peningageymslu Danske Bank í Brabrand við Árósa. Í bílnum voru þrír menn sem rændu mörgum peningatöskum úr flutningabíl við geymsluna. Ræningjarnir komust á brott með 27 milljónir danskra króna (509 milljónir íslenskar). Þeir náðust síðar en aðeins tókst að endurheimta 220 þúsund af milljónunum 27.
Í byrjun nóvember 1988 var lögreglumaður skotinn til bana við pósthúsið á Købmagergade í miðborg Kaupmannahafnar. Þar voru að verki ræningjar sem höfðu á brott með sér 13 milljónir danskra króna (245 milljónir íslenskar). Lögreglunni gekk illa að komast á slóð ræningjanna og það var ekki fyrr en í apríl árið eftir að fjórir menn voru handteknir og nokkru síðar þrír til viðbótar. Aldrei hefur tekist að upplýsa hver það var sem hleypti af skotinu sem varð lögreglumanninum að bana. Þrír menn voru dæmdir í tíu ára fangelsi, hinir fjórir fengu styttri dóma. Ræningjarnir voru félagar í hópi sem fékk nafnið Blekingegadebanden, eftir samnefndri götu á Amager þar sem hópurinn hafði aðsetur. Um þennan hóp, sem kom víða við í dönskum afbrotaheimi, hafa verið skrifaðar bækur og gerðir sjónvarpsþættir.
Það má geta þess að nú er unnið að gerð kvikmyndar um stærsta rán í sögu Danmerkur, Loomis ránið árið 2008. Það eru kvikmyndafyrirtækin Zentropa og Nordisk Film sem gera myndina sem hefur fengið nafnið „De lydløse“. Ætlunin er að hún verði frumsýnd á næsta ári.
Í lokin má nefna að margir Íslendingar kannast við kvikmyndirnar um Olsen Banden. Þar var ætíð lagt upp með nákvæma áætlun Egons Olsen (jeg har en plan) um skjótfenginn gróða. Þær fyrirætlanir gengu sjaldnast eftir, en myndirnar um félagana þrjá eru ekki byggðar á raunverulegum atburðum.