Í síðasta mánuði var fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Júlíus Vífill Ingvarsson, dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti í Hæstarétti Íslands. Sú fjárhæð sem er talin vera ólögmætur ávinningur vegna þvættisins, þ.e. þeir skattar sem Júlíus Vífill átti að greiða og vextir af því fé, er áætluð á bilinu 49 til 57 milljónir króna.
Það sem er athyglisvert í máli Júlíusar Vífils er að hann er dæmdur fyrir svokallað sjálfþvætti, sem varð fyrst refsivert hérlendis í lok árs 2009. Fram að því mátti einfaldlega fremja peningaþvætti með ávinning af afbrotum annarra. Í sjálfþvættinu felst að það varð bannað að geyma eða flytja ávinning af brotum sem viðkomandi framdi.
Í máli Júlíusar var um að ræða ávinning sem var mjög gamall. Frumbrotið, sem í fólst að svíkjast undan því að greiða skatta, voru framin á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Við rannsókn málsins viðurkenndi Júlíus Vífill að hann hefði framið skattalagabrot með því að hafa ekki gefið upp til skatts tekjur sem honum hlotnuðust og geymdar voru á aflandsreikning. Júlíus Vífill hefur aldrei viljað upplýsa um hvenær umræddra tekna var aflað og því er ekki hægt að segja með vissu hver ávinningur hans af skattalagabrotunum hefur verið. Skattalagabrot fyrnast hins vegar á sex árum og því voru brot Júlíusar Vífils löngu fyrnd.
Prófmál sem hefur mikið fordæmisgildi
Ákæra héraðssaksóknara á hendur Júlíusi Vífli var því prófmál. Embættið vildi komast að því hvort að það gæti ákært einstaklinga fyrir að geyma eða flytja ávinning af fyrndu broti fyrir peningaþvætti. Svarið sem fékkst á öllum dómstigum hérlendis var skýrt: Já.
Lögmaður Júlíusar Vífils, Hörður Felix Harðarson, sagði við Viðskiptablaðið í vikunni að málinu verði líklega vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu. „Að okkar mati er hér á ferð stórt, fordæmisgefandi mál. Í því sambandi er vert að hafa í huga að fjöldi þeirra mála sem hafa fallið á tímafrestum í skattkerfinu síðastliðna áratugi er án nokkurs vafa umtalsverður. Af þessum dómi virðist ljóst að það sé hægt að taka þau mál upp, svo framarlega sem gögn séu enn til staðar og skattaðilinn hafi ekki orðið gjaldþrota, og ákæra fyrir peningaþvætti.“
Þetta þýðir einfaldlega, miðað við niðurstöðu íslenskra dómstóla, að það er til dæmis hægt að ákæra alla þá sem voru opinberaðir í Panamaskjölunum og grunaðir voru um fyrnd skattalagabrot fyrir peningaþvætti ef hægt er að sýna fram á að þeir hafi geymt eða flutt hagnað af þeim frá þeim tíma sem það varð refsivert að þvætta ávinning af eigin afbrotum, eða 30. desember 2009.
Var í Panamaskjölunum
Júlíus Vífill var einn þeirra stjórnmálamanna sem voru opinberaðir í Panamaskjölunum og greint var frá í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur var 3. apríl í 2016. Þar kom meðal annars fram að hann hefði í ársbyrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla var lögð á það við stofnun félagsins að nafn Júlíusar Vífils kæmi hvergi fram í tengslum við félagið, samkvæmt umfjölluninni.
Tveimur dögum áður en að Kastljósþátturinn var sýndur sendi Júlíus Vífill frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að tilgangurinn með stofnun aflandsfélagsins væri að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. „Allt sem við kemur þessum sjóði er í samræmi við íslensk lög og reglur, enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum.”
Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi 5. apríl 2016, tveimur dögum eftir að þátturinn var sýndur.
Sakaðir um að koma ættarauð undan
Systkini Júlíusar Vífils og erfingjar foreldra hans hafa sakað hann og bróður hans, Guðmund Ágúst Ingvarsson, um að komið ættarauð foreldra þeirra undan og geymt hann á aflandsreikningum. Það gerðu þau meðal annars í Kastljósþætti sem sýndur var í maí 2016. Meintur ættarauður eru sjóðir sem urðu til vegna starfsemi Ingvars Helgasonar hf., sem um árabil var eitt stærsta bílaumboð landsins.
Þessum ávirðingum hefur Júlíus Vífill ávallt hafnað með öllu. Í viðtali við Morgunblaðið í maí 2016 sagði hann þvert á móti að systkini hans hefðu dregið af sér tugi milljóna króna af bankareikningi móður þeirra og í yfirlýsingu sem Júlíus Vífill sendi frá sér sagði hann að ásakanir systkina sinna væru algjör ósannindi og ómerkileg illmælgi.
Þann 5. janúar 2017 kærði skattrannsóknarstjóri Júlíus Vífil til embætti héraðssaksóknara vegna meintra brota á skattalögum og vegna gruns um peningaþvætti. Við síðara brotinu gat legið allt að sex ára fangelsisdómur.
Í kærunni kom fram að Júlíus Vífill hafi átt fjármuni á erlendum bankareikningum að minnsta kosti frá árinu 2005. Frá árinu 2014 hafi þeir verið hjá svissneska bankanum Julius Bär í nafni aflandsfélags Júlíusar Vífils.
Ráðleggingar „svo þetta endi ekki allt í skatti“
Héraðssaksóknara barst hljóðupptaka frá embætti skattrannsóknarstjóra þann 27. mars 2017. Um svipað leyti var sama upptaka send á fjölmiðla.
Á upptökunni, sem er af fundi sem fór fram þremur dögum eftir birtingu Panamaskjalanna, mátti heyra Júlíus Vífill og lögmann hans, Sigurð G. Guðjónsson, ræða um þá fjármuni sem vistaðir voru í svissneska bankanum við ættingja Júlíusar Vífils, sem höfðu ásakað hann um að hafa komið ættarauð foreldra sinna undan og geymt á aflandsreikningum. Júlíus Vífill vildi að Sigurður G. Guðjónsson myndi verja sig í málinu sem héraðssaksóknari hefur rannsakað á hendur honum. Á það vildi héraðssaksóknari ekki fallast þar sem embættið vildi kalla Sigurð til skýrslutöku í málinu og það útilokaði ekki að Sigurður fái stöðu sakbornings í því. Ástæðan eru þær ráðleggingar sem Sigurður veitir á hljóðupptökunni, um hvernig sé hægt að komast hjá því að greiða fjármunina til systkina Júlíusar Vífils án þess að „þetta endi ekki allt í skatti“.
Þessi upptaka átti þátt í því að ákæra var gefin út á hendur Júlíusi Vífli og er ferlinu hér innanlands nú lokið með dómi Hæstaréttar í málinu.
Lestu meira:
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
6. janúar 2023Dómsmálaráðuneytið áfrýjar dómi í máli Hussein til Landsréttar
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars
-
22. desember 2022Íslenska ríkið greiðir Erlu Bolladóttur 32 milljóna miskabætur
-
16. desember 2022Einn Héraðsdómur verði með yfirstjórn í Reykjavík en átta starfsstöðvar um landið
-
15. desember 2022Færðu sig úr fullkominni kannabisframleiðslu í fiskútflutning
-
14. desember 2022Boney M og stolnu lögin
-
12. desember 2022Úrskurður kærunefndar í máli Hussein felldur úr gildi
-
6. desember 2022Ponzi-leikur eða fjárfesting til framtíðar?
-
30. nóvember 2022Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, gefur út bókina „Uppgjör bankamanns“