Mörgum hefur lengi þótt tæknirisar á borð við Google og Facebook hafa allt of mikil völd. Um þetta snýst einmitt ný löggjöf sem samþykkt var í Evrópusambandinu í síðustu viku, það er að segja um að takmarka þessi gríðarlegu völd og áhrif sem stórfyrirtækin hafa.
Núgildandi lög Evrópusambandsins í málaflokknum eru frá árinu 2000, það er að segja áður en Facebook varð til, áður en Steve Jobs fann upp iPhone og áður en stórverslanir á netinu á borð við Amazon voru settar á fót. Lögin voru því orðin mjör úrelt, enda var engin leið fyrir löggjafa þess tíma að sjá fyrir þá gríðarlegu þróun sem orðið hefur á síðastliðnum áratugum.
Samhliða þessari miklu þróun hafa áhyggjur af skaðlegum áhrifum algóriþma og samfélagsmiðla aukist, og ekki að ástæðulausu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á skaðleg áhrif viðskiptamódels stórfyrirtækjanna, sem snúa aðallega að því að reyna að halda notendum sínum sem lengst inni á miðlunum til þess að geta selt fleiri auglýsingar, og svo að því að fylgjast svo grannt með notkun þeirra svo hægt sé að miða auglýsingarnar, jú og öðru efni sem notendur hafa áhuga á, að réttu markhópunum til að selja meira og halda þeim lengur á miðlunum. Þetta hefur meðal annars verið fjallað um í heimildamyndinni The Social Dilemma, sem vakti mikla athygli, þar sem fjöldi fyrrverandi starsfsmanna stóru tæknifyrirtækjanna steig fram og sagði frá því hvernig fyrirtækin gerðu sér fullkomlega grein fyrir skaðlegum áhrifum sínum, og dreifðu jafnvel skaðlegu efni gagngert til þess að skapa sem mestan gróða.
Nýju löggjöfinni er ætlað að auka réttindi notenda tæknifyrirtækjanna og auka öryggi þeirra, en í samtali við DR segir Christel Schaldemose, þingmaður Evrópuþingsins, að aðalmarkmið nýju laganna að gera það sem er ólöglegt í raunheimum einnig ólöglegt á netinu.
Hætti að ýta skaðlegu efni að notendum sínum
Meðal ákvæða löggjafarinnar er krafa um að tæknifyrirtækin geri breytingu á algóriþmum sínum með það að markmiði að efni sem þykir skaðlegt lýðræðinu eða heilsu borgaranna verði ekki ýtt að notendum og að bannað verði að laga auglýsingar að börnum með notkun á persónuupplýsingum þeirra. Þá verða fyrirtækin jafnframt að gefa notendum innsýn í tilvísunarkerfi sín og rökstyðja ákvarðanir um að taka efni notenda af miðlunum. Fari tæknifyrirtækin ekki að reglunum mega þau eiga von á stórum sektum, sem verða ákveðnar í samræmi við veltu fyrirtækisins sem á í hlut.
Eins og stendur ákveða tæknifyrirtækin nokkurn veginn sjálf hvernig þau meta og meðhöndla skaðlegt efni á miðlum sínum, en það hefur þá aðallega verið samfélagslegur þrýstingur sem hefur haft áhrif á stærri stefnubreytingar í þeim efnum, svo sem eins og þegar samfélagsmiðlar tóku loks ákvörðun um að lyfta grettistaki í tengslum við falsfréttir og rangar upplýsingar um kórónuveirufaraldurinn næstum ári eftir að hann hófst.
Nú verða tæknifyrirtækin hins vegar öll sett undir sama hatt, hið minnsta í Evrópu. Tæknifyrirtækin hafa viðrað áhyggjur sínar af áhrifum löggjafarinnar, sem þau telja stranga, og má búast við einhverri mótspyrnu af þeirra hálfu. Margir verða því hins eflaust fegnir að tæknirisunum séu settar einhvers konar lagalegar skorður, og þó fyrr hefði verið.