Valdasjúkur maður í Hvíta húsinu. Í frekjukasti.
Þetta er mynd sem oft var dregin upp af andstæðingum Donalds Trump á meðan hann sat á forsetastóli. Og nú er að koma í ljós að tilfinning þeirra var rétt. Trump var oft eins og naut í flagi. Grýtti hlutum. Heimtaði hluti sem engan veginn var hægt að verða við – af ýmsum ástæðum. Vildi ná sínu fram. Sama hvað.
Við erum ekki að tala um sakleysislega hluti á borð við hverjum hann mætti bjóða í afmælið sitt. Heldur grafalvarleg mál er snerta þjóðaröryggi. Öryggi sem Bandaríkjamönnum er tíðrætt og annt um.
Þingnefnd sem rannsakar árásina á þinghúsið í Washington 6. janúar í fyrra, sem kostaði sjö mannslíf, særði tugi og stefndi fjölda manns í lífshættu, hefur síðustu daga lagt sig fram við að kortleggja hver vissi hvað og hvenær í aðdraganda árásarinnar.
Stóra spurningin hefur alltaf verið hversu mikið Trump vissi. Vissi hann af hættunni sem steðjaði að fólkinu sem var við störf í þinghúsinu? Hvatti hann jafnvel til árásarinnar?
Og svörin eru farin að berast: Trump og hans ráðgjafar vissu að samkoman sem hann hélt við Hvíta húsið þennan örlagaríka dag væri líkleg til að kynda undir árás á sjálft þinghúsið.
Sjötta janúar 2021 safnaðist stór hópur manna fyrir framan Hvíta húsið og hlustaði dolfallinn á forseta sinn, Trump, ýta undir samsæriskenningar um að forsetakosningunum hefði verið „stolið“. Að sigur Joe Bidens í nóvember árið 2020 hefði verið svindl. Biden átti að taka við embættinu nokkrum dögum síðar og Trump var allt annað en sáttur. „Stöðvið stuldinn!“ varð slagorð mótmæla stuðningsmanna hans. Stuðningsmanna sem m.a. komu úr röðum þekktra sem óþekktra öfgahópa. Fólks sem hafði komið til Washington með það helsta markmið að freista þess að halda goði sínu áfram á valdastóli.
Eftir að hafa hlustað á Trump við Hvíta húsið stormaði mannsöfnuðurinn fylktu liði að þinghúsinu. Braust þar inn án mikillar fyrirhafnar. Stormaði um ganga þinghússins – inn í þingsalina. Settist í stól þingforseta. Lét öllum illum látum. Að minnsta kosti sex manns létu lífið í árás sem heimsbyggðin fylgdist skelfd með í beinni útsendingu í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Því innrásarliðið hafði ekkert að fela: Birti myndir. Myndskeið. Var „í beinni“. Stolt af árangri sínum í meintri baráttu sinni fyrir réttlæti.
Margir hafa borið vitni fyrir þingnefndinni sem fer nú ofan í saumana á því sem gerðist. En í gær má segja að fyrst hafi dregið rækilega til tíðinda. Þá kom Cassidy Hutchinson, fyrrverandi aðstoðarmaður starfsmannastjóra Hvíta hússins, fyrir nefndina. Og þótt Trump hafi verið trúandi til ýmissa hluta er ekki frá því að margir hafi tekið andköf við að heyra það sem hún hafði að segja.
Þrjú atriði standa upp úr í vitnisburði hennar:
Í bílnum
Þegar Trump fór inn í forsetabílinn eftir ræðu sína við Hvíta húsið (bíl sem kallaður er Skepnan) og var sagt að hann gæti ekki farið með skaranum að þinghúsinu, þá tapaði hann sér. Hann reyndi að grípa í stýri bílsins og þegar lífvörður hans reyndi að stöðva hann tók Trump hann kverkataki.
Þessi frásögn þykir staðfest í myndbandi sem þingnefndin birti á Twitter í gær. Hún sýnir mikið brölt í aftursæti „Skepnunnar“. Að Trump hafi látið eins og óhemja.
Helvítis öryggishliðin
Trump krafðist þess að fólk með vopn; byssur, hnífa og fleira, fengi að fara óhindrað í gegnum öryggishliðin í kringum samkomustaðinn við Hvíta húsið þar sem hann hélt ræðu sína. Tilgangurinn? Að tryggja að sem flestir hlýddu á hann og að fjölmiðlar næðu myndum af miklum mannfjölda. „Þeir eru ekki hér til að skaða mig,“ á Trump að hafa sagt um vopnaðan lýðinn. „Takið helvítis öryggishliðin burt. Hleypið fólkinu inn. Það getur farið fylktu liði héðan og að þinghúsinu.“
Hann á þetta skilið
Þegar starfsmenn Hvíta hússins óskuðu eftir því við starfsmannastjórann Mark Meadows að brugðist yrði við einu áberandi slagorði mótmælendanna við þinghúsið, „Hengjum Mike Pence“, á Meadows að hafa svarað: „[Trump] finnst Mike eiga þetta skilið. Hann telur þá ekki vera að gera neitt rangt.“
Samantekið: Forseti Bandaríkjanna reyndi að ná stjórn á forsetabílnum með valdi, var stöðvaður og veittist þá að þeim sem starfaði við að verja líf hans. Forsetinn vissi að mótmælendur bæru vopn og hvatti til þess að þeim yrði hleypt inn á aflokað svæði svo að hópurinn liti út fyrir að vera stærri og vígalegri. Og hann vildi ekki bregðast við söngli mótmælenda um að hengja bæri varaforseta hans. Því hann ætti það skilið.
„Ef forsetinn vissi að mótmælendur væru vopnaðir og hvatti þá engu að síður til að fara að þinghúsinu – þá er það alvarlegt mál,“ skrifaði Mick Mulvaney á Twitter í gær en hann gegndi embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins um hríð í tíð Trumps.
En þingnefndin vill ekki aðeins vita hvað gerðist daginn sem árásin var framin. Hún er að reyna að finna út hvað gerðist dagana, vikurnar og jafnvel mánuðina á undan.
Hutchinson rifjaði í vitnisburði sínum upp að skömmu eftir að Bill Barr, dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Trumps, hafði sagt í fréttaviðtali að hann teldi kosningasvindl ekki hafa átt sér stað í kosningunum í nóvember, hafi hún komið inn í matsal forsetans í Hvíta húsinu. Þar hafi þjónn verið að þrífa og hún hafi séð tómatsósu leka af veggjunum. „Forsetinn varð mjög reiður vegna viðtals dómsmálaráðherrans við AP-fréttastofuna og hafði grýtt hádegismatnum i vegginn,“ sagði Hutchinson.
Spurð hvort að þetta hafi verið í eina skiptið sem hún vissi að Trump hefði hagað sér með slíkum hætti sagði Hutchinson svo ekki vera. „Í nokkur skipti vissi ég af því að hann hefði hent diskum eða rifið í borðdúk svo að allt sem var á borðinu endaði á gólfinu.“
Cassidy Hutchinson er fyrst fyrrverandi aðstoðarmanna í Hvíta húsinu í tíð Trumps til að koma fyrir þingnefndina í beinni útsendingu fyrir alþjóð. Hún talaði rólega og lágt þegar hún svaraði spurningum nefndarmanna um hvað gekk á innan veggja forsetasetursins á þessum tíma. Hutchinson var ekki sjálf vitni að öllu því sem hún lýsti. Hún hafði heyrt sumt af því frá samstarfsfólki sínu.
Hutchinson segir að ringulreið hafi ríkt í Hvíta húsinu þann 6. janúar 2021. Helstu ráðgjafar Trumps hafi reynt hvað þeir gátu að koma í veg fyrir að hann myndi slást í för með stuðningsmönnum sínum að þinghúsinu. Allt fram á síðustu stundu, í sjálfum forsetabílnum á leið frá samkomunni líkt og að undan er rakið, reyndu þeir að stöðva þær fyrirætlanir hans.
Bæði ráðgjafar Trumps og fjölskylda, m.a. Ivanka dóttir hans, hvöttu hann til að róa stuðningsmenn sína. Hann lét það sem vind um eyru þjóta og réðst þess í stað með orðum á varaforseta sinn á samfélagsmiðlum. Lýðurinn greip það á lofti. Að endingu stóð Mike Pence, maðurinn sem átti að „hengja“ samkvæmt slagorði stuðningsmanna Trumps, aðeins um 12 metrum frá þeim sem ruddust inn í þinghúsið áður en honum tókst að koma sér í skjól.
Áhyggjur í aðdraganda
Meadows starfsmannastjóri hafði að sögn Hutchinson áhyggjur af því þegar á öðrum degi janúarmánaðar að samkoman sem boðað hafði verið til fyrir utan Hvíta húsið gæti farið úr böndunum. „Þetta gæti orðið mjög, mjög slæmt þann sjötta janúar,“ segir hún yfirmann sinn hafa þá sagt.
Aðgerðastjóri Hvíta hússins hafi svo varað bæði Trump og Meadows við því snemma dags þann sjötta að mannfjöldinn virtist tilbúinn til átaka – að stuðningsmenn Trumps væru sumir vopnaðir hnífum, spjótum og byssum. Klæddir brynjum. Veifandi flaggstöngum.
Hún segist hafa heyrt hann segja að hann vildi öryggishliðin burt. Og að hún hafi líka heyrt hann heimta að fá að fara með stuðningsmönnunum að þinghúsinu. Aðgerðastjórinn hafi varað hann við og sagt að með því yrðu þeir „ákærðir fyrir alla glæpi undir sólinni“.
Ráðherrar í ríkisstjórn Trumps hvísluðu sín á milli þeim möguleika að virkja 25. grein stjórnarskrárinnar um að víkja forseta frá völdum. Það hafi m.a. verið þess vegna, segir Hutchinson, sem forsetinn samþykkti að taka upp ávarp daginn eftir þar sem hann sagðist óska friðsamlegra valdaskipta.
Engin opinber nefndarfundur var á dagskrá þingnefndarinnar í þessari viku. En á mánudag greindi nefndin frá því að ný vitneskja hefði komið fram sem þyrfti að taka fyrir. Var það um að ræða upplýsingar sem nefndin hafði komist að í nokkum viðtölum sínum við Hutchinson.
Hutchinson er 26 ára gömul. Henni hefur verið hrósað fyrir þann kjark sem hún sýndi með því að segja frá því sem hún vissi. Sumir vilja meina, segir í fréttaskýringu New York Times, að hún hafi með hreinskilni sinni skrifað nafn sitt í sögubækurnar. Að vitnisburður hennar jafnist á við þá sem urðu til þess að Nixon sagði af sér embætti forseta árið 1973.
New York Times hefur heimildir fyrir því að skýrslutöku fyrir nefndinni hafi verið flýtt vegna þess að nefndarmenn óttuðust um öryggi Hutchinson. Þess vegna hafi það aðeins verið upplýst í gær, er hún mætti fyrir opinn fund nefndarinnar, að hún væri manneskjan með nýju upplýsingarnar.
Donald Trump brást ekki aðeins þeirri skyldu sinni að stilla til friðar heldur eru nú komnar fram upplýsingar um að hann hafi vísvitandi hvatt til ófriðarins.
Liz Cheney, þingmaður Repúblikanaflokksins og varaformaður þingnefndarinnar, greindi á nefndarfundinum í gær frá innihaldi nokkurra vitnisburða frá fólki sem hún nafngreindi ekki. Í þeim lýstu einstaklingar því að á þá hafi verið pressað að segja þeim sem voru að rannsaka árásina ekki frá því sem gerðist. Að þeir hefðu fengið þau skilaboð frá nánum stuðningsmönnum Trumps sem túlka mætti sem hótanir. „Gerðu rétt“ og „mundu að Trump er að hugsa til þín“ sem og fleira í þeim dúr.
Cheney sagði slíkt vissulega vekja spurningar um hvort Trump hafi reynt að spilla fyrir rannsókn yfirvalda. Hún segir að vitnisburður Hutchinson ætti að vera öðrum sem unnu fyrir forsetann hvatning til að segja allan sannleikann.
Hutchinson sagðist vera að gera skyldu sína með því að segja frá því sem gerðist á „myrkum degi“ í sögu Bandaríkjanna. Henni hafi orðið sérstaklega hverft við er forsetinn hafi ráðist enn og aftur á varaforseta sinn á Twitter þrátt fyrir að vita að æstur múgurinn væri að hrópa „hengjum hann!“
„Sem Bandaríkjamanni bauð mér við þessu,“ sagði hún. „Þetta var óþjóðræknislegt. Þetta var ekki bandarískt. Við horfðum á þinghúsið vera eyðilagt vegna lyga.“
Trump segir hana ljúga. Hann notaði eigin samfélagsmiðil til að útvarpa því. Sagði lífverðina eiga eftir að segja sína sögu. Hutchinson gaf eiðsvarinn vitnisburð. Það er hún sem hefur mestu að tapa.
Á þetta bendir Steve Vladeck, prófessor í lögfræði við Háskólann í Texas. „Ef hún er að ljúga gæti hún verið ákærð. Það er ekki hægt að segja það sama um þá sem eru að reyna að gera lítið úr vitnisburði hennar.“