Fimmtu þáttaraðarinnar af The Crown, sögulega dramanu um bresku konungsfjölskylduna, hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Nú þegar hún er loks komin í loftið á Netflix eru viðbrögðin blendin. Gagnrýnendur breskra fjölmiðla keppast raunar um að rífa þáttinn niður og mörgum finnst hreinlega komið nóg.
Það var viðbúið að sýningar á nýjustu seríunni myndu sæta gagnrýni. Eftir því sem þáttunum vindur fram færast atburðirnir sem túlkaðir eru í þeim nær okkur í tíma. Fimmta serían gerist á tíunda áratug síðustu aldar þannig að stór hluti þeirra einstaklinga sem eru til umfjöllunar sem fólk sem er enn á lífi og veit hvað er satt og hvað logið.
Áhorfendur muna líka margir hverjir vel eftir því tímabili í lífi konungsfjölskyldunnar sem er þættirnir beina sjónum að, árunum 1991 til 1997. Á þessum árum skildu Andrés prins og Sarah Ferguson, upp komst um langlíft framhjáhald Karls og Kamillu, Anna prinsessa skildi við eiginmann sinn og fann sér nýjan og konungsfjölskyldan, mögulega fyrir utan Díönu prinsessu, var ekki sérlega vinsæl.
Það að þættirnir séu að færast nær í tíma setur þá óneitanlega í annað samhengi. Þetta er ekki lengur eitthvað sem „gerðist í gamla daga“ heldur atburðir sem flestum sem höfðu aldur til að fylgjast með fjömiðlum á tíunda ártugnum eru enn í fersku minni, sérstaklega í Bretlandi.
Fyrrverandi forsætisráðherrar segja samtölin bull
Líkt og í fyrri seríum koma forsætisráðherrar Bretlands töluvert við sögu í þáttunum. Bæði John Major og Tony Blair, sem gegndu embættinu á tíunda áratugnum, hafa lýst frati á þessa nýjustu þáttaröð. Þeir segja einfaldlega að þeirra innkoma í þáttunum sé algjörlega skálduð. Engar heimildir séu til sem styðji túlkun og framsetningu höfunda þáttanna á því sem við kemur samskiptum stjórnmálaleiðtoganna og hátt settra meðlima konungsfjölskyldunnar.
Blair segir það „tóma steypu“ (e. complete and utter rubbish) sem kemur fram í þáttunum um samtöl hans við Karl Bretaprins, nú konung, um að sá síðarnefndi hafi á sínum tíma viljað koma móður sinni frá og taka við sjálfur.
Major er ekki síður ómyrkur í máli og sendi skrifstofa hans frá sér sérstaka tilkynningu í aðdraganda útgáfu fimmtu seríunnar, þegar ýmislegt hafði spurst út um efni þáttanna.
„Sir John hefur ekki átt samstarf af neinu tagi við The Crown og aldrei hefur verið haft samband við hann í því skyni að tryggja að rétt sé farið með staðreyndir í handriti þáttarins,“ segir meðal annars í tilkynningunni. Áréttað er að samtöl sem fóru fram á sínum tíma milli drottningar og forsætisráðherra eru leynileg og að Major muni aldrei upplýsa um neitt sem þeim fór á milli í einkasamtölum. „Engin af þeim samtölum sem sýnd eru í þáttunum byggja á raunverulegum atburðum. Þau eru ósköp einfaldlega skáldskapur.“
Meiðandi og illviljaður skáldskapur
Aðstandendur þáttanna, stjórnendur Netflix, hafa svarað þessari gagnrýni með því að benda á að aldrei hafi verið farið í grafgötur með það að þættirnir séu aðeins byggðir að hluta á sögulegum heimildum, en þeir séu ekki að öllu leyti sannleikanum samkvæmt. Telur Netflix enga ástæðu til að taka það sérstaklega fram, aðvara áhorfendur eða skýra nánar frá því hvað er satt og hvað skáldað.
Major reyndi beinlínis að koma í veg fyrir að sumt af því sem kemur fram í þáttunum færi í loftið. „Verði þær senur sem lýst hefur verið settar í loftið eru þær ekkert annað en meiðandi og illviljaður skáldskapur. Barmafylli af vitleysu [e. barrel-load of nonsense] sem áhorfendum er seld af engri annarri ástæðu en að skapa hámarks dramatísk áhrif,“ var haft eftir Major áður en þættirnir fóru í loftið.
Gerð krafa um skáldskaparviðvörun
Hin hörðu orð fyrrverandi forsætisráðherrans höfðu þó ekki áhrif, The Crown fór í loftið þrátt fyrir að meiningar um að þættirnir séu byggðir á sögulegum atburðum virðist æ þokukenndari.
Þetta er alls ekki í fyrsta sinn í sögu þáttanna, sem hófu göngu sína árið 2016, sem fundið er því að skilin milli skáldskapar og raunveruleika séu óljós. Í lok fjórðu seríu lagði Oliver Dowden, þá menningarmálaráðherra Bretlands, það til að þáttunum fylgdi einhvers konar viðvörun um að ekki skyldi rugla þeim skáldskap sem The Crown byggir á saman við sögulega atburði. „Ég óttast að kynslóðir áhorfenda sem lifðu ekki þessa atburði muni rugla saman skáldskap og staðreyndum,“ sagði Dowden.
Margir tóku undir gagnrýnina en Netflix gaf það skýrt út þá, og áréttaði nú við útgáfu fimmtu seríunnar, að þættirnir yrðu ekki merktir sérstaklega með viðvörun af neinu taki. Það liggi hins vegar ljóst fyrir að margt sé skáldað.
Óviðeigandi læknisheimsókn
Viðkvæmnin vegna útgáfu fimmtu seríunnar var mikil, enda ekki nema örfáar vikur síðan Elísabet önnur Englandsdrottning, manneskjan sem þættirnir byggja öðru fremur á, féll frá. Upphafsatriði fyrsta þáttar, þegar drottningin liggur á bekk hjá lækninum, hefur farið fyrir brjóstið á mörgum Bretum. Þykir það sérlega ónærgætið að hefja þættina á þessu atriði í ljósi andláts hennar.
Gagnrýnandi The Telegraph telur fimmtu seríuna ekki nema tveggja stjörnu virði og hefur ýmislegt við leikaraval og söguþráð að athuga. Dómur The Guardian hljóðar upp á jafnmargar stjörnur og vandar höfundum ekki kveðjurnar, telur að margir þættir hefðu átt betur heima í ruslinu. The Crown hafi einfaldlega aldrei átt minna erindi en nú. Annar skríbent hjá sama miðli telur að réttast væri að hefja hvern þátt á orðunum: „Eftirfarandi atburðir áttu sér aldrei stað í raun og veru.“
Litlaus samtöl og langdregnar senur einkenna fimmtu seríuna að mati gagnrýnenda. En helsta bitbeinið, bæði hjá gagnrýnendum og áhorfendum, er leikaravalið. Það segir sig sjálft að það er vandasamt að velja í hlutverk sem ganga út á að túlka fólk sem er raunverulega til, en er ekki skáldaðar söguhetjur. Sumt þykir vel valið en annað ekki.
Þriðja leikkonan í hlutverki drottningar
Hin reynslumikla Imelda Staunton er þriðja leikkonan til að túlka Elísabetu drottningu og hún fær víðast lof fyrir sína frammistöðu. Staunton hefur komið víða við á ferlinum og leikið í sjónvarpi, á svið og á hvíta tjaldinu, en margir muna eftir henni úr Harry Potter myndunum sem Dolores Umbridge. Hún þykir ná að fanga flókna tilveru þjóðhöfðingjans á erfiðum tímum í lífi fjölskyldunnar í The Crown. Þó hefur verið gagnrýnt að höfundar leggi helst til miklar byrðar á drottninguna, af söguþræðinum megi ætla að hin fjölmörgu feilspor meðlima konungsfjölskyldunnar séu mikið til á hennar ábyrgð, sem sé mögulega ekki að öllu leyti sanngjarnt.
En þótt skandalar og skilnaðir innan fjölskyldunnar hafi sett mark sitt á fjölskylduna í upphafi tíunda áratugarins þá upplifði drottningin ekki síður mikið áfall þegar eldsvoði braust út í Windsor-kastala. Nokkrum dögum eftir eldsvoðann, þann 24. nóvember 1992, fyrir nær sléttum 30 árum, hélt drottningin fræga ræðu þar sem hún lýsti árinu 1992 sem annus horribilis, hræðilegu ári. Töluverður munur er þó á þeirri ræðu sem Staunton fór með í þáttunum og ræðunni sem Elísabet hélt. Fyrir þá sem vilja sannreyna það má sjá myndband af drottningunni flytja ræðuna á sínum tíma.
Fyrrverandi konunglegur fréttaritari BBC, Jennie Bond, stillir textanum í ræðunum, þeirri sem flutt var á sínum tíma og þeirri sem Staunton fer með í þáttunum, upp í grein sem hún ritar í tilefni af fimmtu seríunni og sýnir að í raun er aðeins ein málsgrein úr upprunalegu ræðunni sem skilar sér í The Crown. Bond segir ekki heila brú í endursögn af þessari þekktustu ræðu í valdatíð Elísabetar og lýkur greininni á að segja að nú sé komið nóg, The Crown þurfi að taka endi.
Margt er á reiki um sannleiksgildi einkasamtala í þáttunum. Þótt ósætti og síðar skilnaður Karls og Díönu hafi að nokkru leyti verið fyrir opnum tjöldum þá verður að teljast líklegt að einkasamtöl þeirra tveggja séu að mestu leyti hugarfóstur höfunda, semsagt skálduð. Leikkonan sem fer með hlutverk Díönu heitir Elizabeth Debicki og er áströlsk.
Debicki er fædd árið 1990 og man því eflaust ekki mikið eftir þeim atburðum sem þættirnir fjalla um. Hún fær almennt fína dóma fyrir frammistöðu sína sem Díana prinsessa, þykir ná góðum tökum á hlutverkinu og vera sannfærandi sem súperstjarnan Díana sem gengur í gegnum skilnað við Karl. Sitt sýnist þó hverjum um handritið sem henni er fengið, en Díana sjálf er auðvitað ekki til frásagnar svo líklega verður aldrei til lykta leitt hvort nokkuð af því sem henni og Karli fer á milli er sannleikanum samkvæmt.
Of heitir leikarar?
Víkur þá sögunni að Karli, sem nú er orðinn konungur en var óhamingjusamlega giftur dáðustu prinsessu heims á þeim tíma sem þættirnir sýna. Í þáttunum á hann samtöl við þáverandi forsætisráðherra, John Major. Athugasemdir Major, eins og lýst var framar, snúa að sannleiksgildi samtalanna. En athugasemdir sem lesa má frá aðdáendum þáttanna til dæmis á samfélagsmiðlum hafa lítið með samtöl þeirra tveggja að gera.
Jonny Lee Miller túlkar John Major, sem var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1990 til 1997, en Dominic West fer með hlutverk Karls Bretaprins. Bæði hlutverkin eru burðarhlutverk í þessari seríu. Það sem er þó helst fundið að hjá þessu leikurum er þó ekki endilega slök frammistaða heldur eru þeir einfaldlega taldir taka viðfangsefnum sínum fram í huggulegheitum, enda hafa hvorki John Major eða prinsinn af Wales, sem nú er orðinn konungur, nokkru sinni verið taldir til mestu hjartaknúsara veraldar.
Frægðarsól Miller skein skært á tíunda áratugnum, um það leyti sem þættirnir í fimmtu seríunni eiga sér stað, þegar hann brilleraði í kvikmyndinni Trainspotting og var giftur stórstjörnunni Angelinu Jolie. Líklega hefur hann ekki grunað þá að örfáum áratugum síðar yrði hann beðinn að leika John Major.
Dominic West er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum The Wire. Pistlahöfundur Vogue segir West allt of heitan (e. entirely too hot) til að leika Karl, óöryggið sem gjarnan einkenni Karl í fasi einfaldlega vanti. Karl, í túlkun West sé öruggur með sig og hafi yfir sér „Kennedy-legan“ sjarma frekar en að ná að koma hinum ósátta og fremur vandræðalega prinsi — sem fær ekki að verða kóngur þá og fær ekki að eiga konuna sem hann þráir — til skila. Sagnfræðingar og aðrir sem annt er um að rétt sé farið með staðreyndir benda einnig á að klæðaburður West sé á köflum úr takti við það sem Karl hefði verið í, til dæmis hefði prinsinn aldrei látið sjá sig í fráhnepptri stuttermaskyrtu eins og í þáttunum. Skyrta, tvíhnepptur jakki og bindi eru málið, jafnvel í sumarfríi á snekkju.
Tugir milljóna vilja meira
Þrátt fyrir heilmikla gagnrýni, hvort sem sú rýni snýr að útliti leikara eða meintum skálduðum samtölum, þá eru þættirnir meðal mest áhorfða sjónvarpsefnis í veröldinni. Eftir að drottningin féll frá hófu áskrifendur Netflix að horfa á nýju á eldri þættina. Við lok fjórðu seríu upplýsti efnisveitan um að þættirnir hefðu náð inná 73 milljónir heimila út um heim allan frá upphafi. Ljóst er að sú tala hefur hækkað frá því þær tölur voru birtar, árið 2020.
The Crown nýtur mestra vinsælda á Íslandi og 87 öðrum löndum af öllu efni á Netflix um þessar mundir og samkvæmt áhorfsmælingum í Bretlandi horfði um 1,1 millljón á fyrsta þáttinn í seríunni daginn sem hann kom út. Þær tölur eiga þó aðeins við um þá sem horfðu í sjónvarpstæki, en nær ekki yfir tölvur og snjalltæki. Búist er við að frekari áhorfstölur verði birtar á næstu vikum, en ljóst er að þótt gagnrýnendur séu skeptískir á framhaldið, þá þykir hvorki krúnuþyrstum áhorfendum né stjórnendum Netflix komið nóg.
Sjötta og síðasta serían er nú þegar á teikniborðinu og því spáð að hún fari í loftið í nóvember 2023.