Árið 2014 fóru konurnar þrjár til Sýrlands. Þær áttu það sameiginlegt að vera í sambúð með mönnum sem fæddir voru utan Danmerkur. Konurnar eru allar danskir ríkisborgarar en ein þeirra með tvöfaldan ríkisborgararétt, danskan og austur-evrópskan. Þær höfðu allar snúist til íslamstrúar og tóku þá ákvörðun að flytja til Sýrlands ásamt eiginmönnum sínum og börnum. Ástæðurnar að baki þeirri ákvörðun voru, að þeirra sögn, að flýja frá fordómum í heimalandinu, Danmörku, og trúin á málstaðinn. Ein kvennanna sagðist margoft hafa orðið fyrir aðkasti eftir að hún fór að hylja líkama sinn og andlit, kölluð hettumávur, norn og fleira þaðan af verra.
Árið 2014 voru aðstæður í Sýrlandi allt aðrar en síðar varð og konurnar segjast allar hafa haldið, þegar þær tóku ákvörðun um flytja frá Danmörku, að íslamska ríkið (ISIS) yrði að veruleika.
Tugþúsundir í fangabúðum
Síðan íslamska ríkið var brotið á bak aftur 2018-2019 hafa tugþúsundir kvenna og barna hafst við í fangabúðum í Norðaustur- Sýrlandi. Eiginmenn kvennanna, feður barnanna, eru ýmist flúnir úr landi, í fangelsi eða hafa fallið í bardögum. Fangabúðirnar eru í umsjón Kúrda og þeir segja að fjöldinn sem þar dvelur sé miklu meiri en þeir ráði við. Alþjóðastofnanir segja ástandið algjörlega óviðunandi, það skorti lyf og matvæli. Tugir barna hafa látist í búðunum á þessu ári og samtökin Save the Children segja fjölda ríkja bregðst börnunum. Samkvæmt upplýsingum samtakanna er fólk af 58 þjóðernum í búðunum, sumir úr þessum hópi hafa dvalið þar í fjögur ár.
Vildu fara heim til Danmerkur
Í hópi þeirra sem dvalist hafa í fangabúðunum í Norðaustur-Sýrlandi eru að minnsta kosti sjö danskar konur og börn þeirra. Þrjár þessara kvenna eru danskir ríkisborgarar, fjórar hafa misst ríkisborgararéttinn. Kúrdarnir sem stjórna fangabúðum hafa fyrir nokkru síðan tilkynnt að þær konur sem hafi ríkisborgararétt í löndum utan Sýrlands, og séu ekki grunaðar um neitt misjafnt, eins og það er orðað, eigi rétt á því að fara til síns heimalands. Þetta á við um áðurnefndar þrjár danskar konur, og börn þeirra. Sem eru 14 talsins. Konurnar þrjár höfðu fyrir löngu látið vita af því að þær vildu snúa heim til Danmerkur, með börnin. Slíkt getur hins vegar ekki gerst si svona, til þess þarf samþykki stjórnvalda.
Vildu fá börnin en ekki mæðurnar
Snemma í mars síðastliðnum lýsti Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana því yfir að ekki kæmi til greina að konurnar kæmu til Danmerkur og „við viljum þvert á móti ganga langt til að tryggja að Dani sem farið hefur úr landi til að berjast fyrir málstað annarra (fremmedkriger) komi ekki inn fyrir landamæri Danmerkur“. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu danska forsætisráðherrans jókst þrýstingurinn á dönsk stjórnvöld og undir lok mars skipaði stjórnin starfshóp í samráði við fimm flokka á þinginu, Folketinget.
Starfshópnum var ætlað að rannsaka hvort mögulegt væri að fá börnin 14 til Danmerkur en mæðurnar yrðu eftir. Starfshópurinn vann hratt og vel, eins og til var ætlast og niðurstaða hans var sú að það eina rétta væri að fá konurnar þrjár og börnin til Danmerkur sem fyrst. Öryggi þeirra væri ekki tryggt í búðunum í Sýrlandi og mat dönsku leyniþjónustunnar (PET) væri að konurnar hefðu ekki tekið þátt í hernaði né fengið þjálfun í meðferð vopna. Þær gætu kannski reynt að hafa áhrif á skoðanir annarra varðandi trúmál en sú hætta væri þó hverfandi. Í lok maí tilkynnti danska ríkisstjórnin að unnið yrði að því að koma konunum og börnunum til Danmerkur.
Leynileg réttarhöld
Í júlímánuði síðastliðnum fór fram í Danmörku, með mikilli leynd, réttarhald. Þar voru konurnar þrjár úrskurðaðar í gæsluvarðhald, að þeim fjarstöddum (in absentia) fyrir að hafa farið til Sýrlands og starfað með og fyrir hryðjuverkasamtök. Konunum var gert ljóst að ef þær kæmu til Danmerkur yrðu þær handteknar, og settar í fangelsi. Óvíst væri að þær fengju að hafa börnin hjá sér í gæsluvarðhaldinu. Samkvæmt mati danska ríkislögmannsins mega konurnar búast við þriggja til fimm ára fangelsisdómi. Ein kvennanna er sjö barna móðir, önnur á fimm börn og sú þriðja tvö. Konurnar eru á aldrinum 32 til 37 ára.
Heimferðin
Undirbúningur heimflutnings kvennanna þriggja og barnanna tók langan tíma og var unninn í samvinnu við Þjóðverja en ætlunin var að 8 þýskar konur og 23 börn þeirra yrðu samferða Dönunum. Konurnar og börnin voru í al-Roj fangabúðunum og aðfaranótt sl. miðvikudags var lagt af stað þaðan í rútu frá kúrdísku svæðisstjórninni. Eftir stuttan stans í Qamishli, þar sem fulltrúar danskra og þýskra stjórnvalda komu um borð í rútuna var haldið áfram til flugvallarins í Rumeilan, sem er undir stjórn Bandaríkjamanna. Þar fór hópurinn um borð í bandaríska herflutningavél, sem flutti hópinn til herflugvallarins Ali Al Salem í Kúveit, um þúsund kílómetra leið. Þar beið flugvél frá tékkneska flugfélaginu Smartwings, en hana höfðu þýsk og dönsk stjórnvöld tekið á leigu. Frá Kúveit var flogið beina leið til Frankfurt (4 þúsund kílómetra). Þar fóru Þjóðverjarnir frá borði og síðan var ferðinni haldið áfram til síðasta áfangastaðar, Karup flugvallar á Jótlandi. Þar lenti vélin klukkan þrjú aðfaranótt sl. fimmtudags.
Handteknar á flugvellinum
Konurnar voru handteknar um leið og þær stigu frá borði. Börnin fengu ekki að fylgja þeim og eru í forsjá yfirvalda í samráði við danska ættingja. Ein kvennanna var leidd fyrir dómara í Esbjerg, önnur á Friðriksbergi og sú þriðja í Kolding. Þær voru allar úrskurðaðar í gæsluvarðhald, ein til 1. nóvember og tvær til 4. nóvember. Tvær þeirra áfrýjuðu úrskurði dómara til Landsréttar.
Verjendur kvennanna þriggja, sögðu að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hefði ekki komið á óvart en það væru vonbrigði að þær skyldu ekki fá að hafa börnin hjá sér.
Fjórar til viðbótar í fangabúðum
Fjórar konur, sem áður voru danskir ríkisborgarar, eru nú í fangabúðum í Sýrlandi ásamt fimm börnum þeirra. Danski dómsmálaráðherrann hefur lýst því yfir að konurnar fái ekki að koma til Danmerkur. Börnunum fimm standi það hinsvegar til boða, en samþykki mæðranna sé skilyrði fyrir að svo geti orðið. Mæðurnar hafa ekki samþykkt það