Árið 2003 voru samþykkt afar umdeild lög um aukin eftirlaun helstu ráðamanna þjóðarinnar, sem skyldu vera greidd beint úr ríkissjóði.
Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi þeirra sagði meðal annars að það væri „lýðræðisleg nauðsyn að svo sé búið að þessum embættum og störfum að það hvetji til þátttöku í stjórnmálum og að þeir sem verja meginhluta starfsævi sinnar til stjórnmálastarfa á opinberum vettvangi og gegna þar trúnaðar- og forustustörfum geti dregið sig í hlé og vikið fyrir yngra fólki án þess að hætta fjárhagslegri afkomu sinni.“
Lögin voru afnumin með lögum 25. apríl 2009 en alls 257 fyrrverandi þingmenn eða varaþingmenn og 46 fyrrverandi ráðherrar fengu þó greidd eftirlaun á grundvelli þeirra í fyrra. Samtals var kostnaður vegna þessa 875,9 milljónir króna. Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun Kjarnans um málið hér.
Hér eru tíu aðrir hlutir sem hægt hefði verið að gera fyrir það fé.
1. Borga laun allra ráðherra og aðstoðarmanna þeirra
Rekstur ríkisstjórnar Íslands, sem í felast launagreiðslur ráðherra og aðstoðarmanna þeirra, er áætlaður 715 milljónir króna á þessu samkvæmt fjárlögum. Það er um fimm prósent meiri kostnaður en áætlun vegna ársins 2021 gerir ráð fyrir, en þá átti reksturinn að kosta 681 milljónir króna.
Ráðherrum var fjölgað í tólf þegar stjórnarsamstarfið var endurnýjað og aðstoðarmennirnir sem nú má ráða geta orðið allt að 27. Reynsla síðustu ára sýnir að ríkisstjórnin fullnýtir vanalega heimild sína til að ráða aðstoðarmenn. Hægt væri að greiða allan ofangreindan kostnað við rekstur starfandi ríkisstjórnar á ári og eiga 161 milljónir króna eftir.
2. Tvöfalda framlög til fjölmiðla og eiga samt afgang
Í fyrra var ákveðið að þeir einkareknu fjölmiðlar sem sinna fréttaþjónustu og uppfylla ákveðin skilyrði gætu fengið hluta af rekstrarkostnaði sínum endurgreiddan. Þetta var gert til að reyna að mæta sífellt versnandi rekstrarumhverfi fjölmiðla sem hefur meðal annars leitt til þess að starfandi í geiranum fækkaði um 45 prósent milli áranna 2018 og 2022. Þetta fyrirkomulag var samþykkt til tveggja ára og rennur því út eftir yfirstandandi ár. Áætlað er að um 390 milljónir króna skiptist á milli allra fjölmiðla landsins sem sækja um endurgreiðslur í ár. Hægt væri að tvöfalda þann pott fyrir eftirlaunagreiðslur ráðherra og þingmanna og eiga samt um 96 milljónir króna eftir.
3. Greiða bændum árlegan styrk vegna þess að áburðarverð er hátt
Á milli umræðna um fjárlagafrumvarp ársins 2022 ákváðu þingmenn stjórnarflokkanna að ráðstafa 700 milljónum króna úr ríkissjóði til stuðnings bændum vegna hækkunar áburðarverðs í kjölfar heimsfaraldursins. Hægt væri að greiða alla þá upphæð og eiga 176 milljónir króna eftir fyrir árlegan kostnaðinn sem hlaust af því hafa hin umdeildu eftirlaunalög í gildi í sex ár.
4. Borga rekstrarkostnað allra stjórnmálaflokka
Þeir níu stjórnmálaflokkar sem fengu nægjanlegt fylgi í síðustu þingkosningum til að fá úthlutað fjármunum úr ríkissjóði fá samtals 728 milljónir króna til að skipta á milli sín á þessu ári. Það er saman upphæð og þeir fengu í fyrra og árið þar á undan. Flestir flokkanna skila myndalegum hagnaði á hverju ári og því ljóst að þessir peningar duga vel rúmlega fyrir almennum rekstrarkostnaði sem þeir telja að þeir þurfi að leggja út fyrir.
Hægt væri að borga fyrir tilveru þessara níu flokka á hverju ári fyrir eftirlaunapeninginn og eiga samt sem áður 148 milljónir króna eftir til annarra verka.
5. Tvöfalda listamannalaun
Fyrr i þessum mánuði var listamannalaunum úthlutað. Um er að ræða 1.600 mánaðarlaunum til þeirra sem starfa við hönnun, myndlist, skriftir, sviðslistir eða tónlist. Alls fengu 236 listamenn úthlutun en hver mánaðarlaun eru 490.920 krónur og er um verktakagreiðslur að ræða. Einungis brot af þeim sem sækja um launin fá þau og enn færri fá þau í heilt ár.
6. Greiða nánast allan kostnað ríkisins af almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu
Samkvæmt samkomulagi sem undirritað var árið 2012 milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skuldbatt ríkissjóður sig til að greiða 900 milljónir króna á ári til að efla almenningssamgöngur á svæðinu í áratug. Hægt væri að dekka 97,3 prósent þess kostnaðar með árlegum eftirlaunagreiðslum.
7. Niðurgreiða sálfræðiþjónustu
Í breytingartillögu við fjárlagafrumvarp ársins 2022 sem þingmenn stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd lögðu fram var kallað eftir 900 milljónum króna framlagi til að fjármagna þegar samþykkta þingsályktun um sálfræðiþjónustu. Að lokinni annari umræðu um fjárlög síðasta árs var samþykkt sérstakt 150 milljóna króna framlag sem ætlað var að fjármagna niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu í kjölfar samninga sem Sjúkratryggingar Íslands munu gera á árinu 2022. Hægt hefði verið að mæta fjármagna hina samþykktu þingsályktunartillögu nánast að öllu leyti með þeim fjármunum sem renna úr ríkissjóði til að fjármagna eftirlaun ráðherra og þingmanna.
8. Hækka frítekjumark atvinnutekna enn frekar
Á fjárlögum yfirstandandi árs var ákveðið að setja 540 milljónir króna í að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum úr 100 þúsund í 200 þúsund krónur. Aðgerðin gagnast reyndast aðeins 1.279 manns, að uppistöðu þeim ellilífeyrisþegum sem hafa mestar tekjur. Þessi upphæð er tæplega 62 prósent af því sem fer í að greiða ráðherrum og þingmönnum eftirlaun úr ríkissjóði samkvæmt eftirlaunalögunum sem voru í gildi 2003 til 2009.
9. Byggja nýjan þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir
Lengi hefur verið kallað eftir nýjum þjóðarleikvangi fyrir inniíþróttir á Íslandi þar sem fyrir liggur að Laugardalshöllin stenst ekki alþjóðlegar kröfur og gólfflötur hennar er ónýtur. Fyrir vikið neyddist til að mynda körfuboltalandslið Íslands nýverið til að spila heimaleik við Rússland þar frekar en hér. Ef íslenska handboltalandsliðið heldur áfram að gera góða hluti á EM í Ungverjalandi, sem nú stendur yfir, mun kórinn sem kallar á nýja höll án vafa stækka verulega. Kostnaður við nýjan þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir er áætlaður á bilinu 7,9 til 8,7 milljarðar króna samkvæmt skýrslu sem var birt árið 2020. Tíu milljónir króna verða settar í undirbúning á verkefninu í ár, eða tæplega 1/90 þess sem eftirlaun ráðherra og þingmanna eru á ári. Raunar má benda á að sá ráðherra sem þiggur hæstu eftirlaunin, fyrrverandi forsætisráðherrann Davíð Oddsson, fær hærri upphæð í eftirlaunagreiðslu á innan við hálfu ári en sett var í íþróttahöll árið 2022.
10. Meira en tvöfalda desemberuppbót atvinnulausra
Þann 8. desember í fyrra undirritaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, reglugerð um greiðslu desemberuppbótar til atvinnuleitenda. Óskert desemberuppbót var 92.229 krónur en hún stóð einungis þeim sem höfðu verið atvinnulausir í að minnsta kosti tíu mánuði, sem var minnihluti þeirra rúmlega tíu þúsund manns sem voru atvinnulausir í lok síðasta árs. Þeir sem höfðu verið án atvinnu í skemmri tíma skertust í samræmi við það niður að 23.057 krónur, sem var lágmarksuppbót. Auk þess var greidd lítil viðbót ef viðkomandi þiggjandi átti barn. Samkvæmt útreikningum greiningardeildar Kjarnans er kostnaðurinn við þessa aðgerð á milli 500 til 600 milljónir króna. Það væri því hægt að tvöfalda desemberuppbót atvinnuleitenda og eiga samt nokkur hundruð milljónir króna í afgang fyrir það fé sem fer í eftirlaunin.