Kvikmyndir sem byggðar eru á sönnum atburðum, eða eftir sögulegum gögnum um þá, eru misjafnar að gæðum. Sumar þeirra teljast til bestu kvikmynda sögunnar og margar áhugaverðar og góðar myndir afa komið fram á síðustu árum þar sem söguþráðurinn er byggður á sannri sögu.
Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur hefur séð merkilega margar bíómyndir og tók saman lista yfir tíu bestu sannsögulegu kvikmyndir sögunnar.
PIERREPOINT
Bretland, 2005.
Myndin um böðulinn Albert Pierrepoint fór ekki hátt á sínum tíma en er einstaklega góð. Hún segir frá manni sem tók a.m.k. 400 manns af lífi á árunum 1932 til 1956. Það má segja að hann hafi fæðst inn í starfið því að bæði faðir hans og föðurbróðir voru böðlar. Myndin er dæmigerð ævisaga sem segir frá hinum ýmsu málum sem komu upp og hvernig hann fullkomnaði þá list að hengja fólk á örfáum sekúndum. Hann þótti svo fær að hann var fenginn til að taka stríðsglæpamenn af lífi eftir seinni heimstyrjöldina. Hann starfaði einnig í Írlandi, á Gíbraltarhöfða og við Súez-skurðinn. Myndin sýnir líka hvernig afstaða Breta til dauðarefsinga breyttist á því tímabili sem hann starfaði. Á tímabili var hann talinn hetja. En þegar hann hengdi Ruth Ellis árið 1955, þá var hann orðinn skúrkur.
127 HOURS
Bretland/Bandaríkin, 2010.
Árið 2003 komst hellakönnuðurinn Aron Ralston í heimsfréttirnar þegar hann lenti í slysi í Utah-fylki. Hann var illa undirbúinn, án síma og hafði ekki látið neinn vita af sér. Hann hrasaði og festi hægri höndina undir hnullungi og sat þar fastur í rúmlega fimm daga (127 klukkutíma). Til að sleppa þurfti hann að aflima sig með bitlausum vasahníf. Sagan er ótrúleg en það er eiginlega jafn ótrúlegt að hægt sé að gera góða kvikmynd um þennan atburð. Aðalleikarinn James Franco er einn í mynd nánast allar 90 mínúturnar. Hann fer í gegnum allan tilfinningaskalann og gerir það óaðfinnanlega. Ralston var himinlifandi með útkomuna og sagði að myndin væri eins og heimildarmynd um atburðinn, svo nákvæm væri hún.
AGUIRRE, DER ZORN GOTTES
Vestur-Þýskaland, 1972.
Leikstjórinn Werner Herzog hefur yfirleitt farið ótroðnar slóðir og sagan um landvinningamanninn Lope de Aguirre er engin undantekning. Aguirre, sem uppi var um miðja 16. öld sagði sig úr lögum við spænsku krúnuna, lýsti sig konung Perú og hélt upp Orinoco fljótið í leit að gullborginni El Dorado. Lítið er vitað um afdrif ferðalanganna annað en að Aguirre var drepinn af spænskum hermönnum. Herzog fyllir í eyðurnar með innbyrðis deilum, hjaðningavígum, guðlasti, geðveiki, bardögum við indjána og sulti. Rétt eins og ferðin fræga reyndust tökur myndarinnar ákaflega erfiðar en myndin var öll tekin upp í frumskógum Perú. Frægar eru rimmur Herzog og aðalleikarans Klaus Kinski. Þeir rifust heiftarlega, Kinski hótaði að ganga heim og Herzog á að hafa hótað honum með byssu.
https://www.youtube.com/watch?v=eJDuicFyJPg
BERNIE
Bandaríkin, 2011.
Bernie er bráðfyndin mynd um morð sem átti sér stað í litlum bæ í Austur-Texas árið 1996. Þá myrti útfararstjórinn Bernhardt Tiede ekkjuna og milljónamæringinn Marjorie Nugent sem var 81 árs gömul. Málið var mjög óvenjulegt að því leyti að Bernie var svo vel liðinn í bænum að flytja þurfti réttarhöldin yfir honum yfir í annan bæ. Margir trúðu því ekki að hann væri fær um að drepa og öðrum fannst Nugent bara eiga það skilið að vera drepin. Myndin er svört kómedía sem er borin uppi af frábærum karakterum. Jack Black sem Bernie, Shirley MacLaine sem Nugent og Matthew McConaughey sem saksóknarinn. Árið 2014 var Tiede sleppt úr fangelsi gegn því loforði að hann flytti inn til leikstjóra myndarinnar, Richard Linklater.
https://www.youtube.com/watch?v=ihOpkH11Ik8
LE RETOUR DE MARTIN GUERRE
Frakkland, 1982.
Endurkoma Martin Guerre fjallar um undarlegt mál sem kom upp í franska smáþorpinu Artigat í Pýrenneafjöllunum um miðja 16. öld. Martin Guerre hvarf eftir að hafa stolið korni frá föður sínum en birtist svo aftur þremur árum síðar....eða hvað? Réttara sagt maður sem er líkur honum og þekkir fortíð hans. Sagnfræðingar hafa deilt um það hvort eiginkona Martins, Bertrande, hafi trúað honum. En þó er víst að sá Martin sem kom aftur var henni mun betri en sá sem hvarf. Hún bjó því með honum í nokkur ár eða þar til aðra bæjarbúa fór að gruna að ekki væri allt með felldu. Með aðalhlutverk fara Gerard Depardieu sem Martin og Nathalie Baye sem Bertrande. Þau eru bæði mjög sannfærandi í hlutverkum sínum í þessum falda demanti sem minnir þó um margt á sápuóperu.
https://www.youtube.com/watch?v=8IwSU5gqKtQ
DER UNTERGANG
Þýskaland, 2004.
Í Der Untergang fylgjumst við með seinustu 10 dögunum í lífi Adolfs Hitler þar sem hann hírðist í neðanjarðarbyrgi á meðan rauði herinn nálgaðist Berlín. Myndin er nokkurs konar sálfræðiverkefni, þ.e. hvernig ósigrandi fólk tekst á við ósigur. Bruno Ganz leikur þreyttan, bitran og gamlan Hitler sem virðist stundum algerlega veruleikafirrtur en stundum viss um örlög sín. Sjálfsmorð voru daglegt brauð í byrginu þar sem mörgum þótti dauðinn skárri örlög en að vera handsamaður af Sovétmönnum. Aðrir vildu ekki búa í heimi án nasisma, eins og Göbbels hjónin. Sagan af þeim er sérstaklega hrollvekjandi. Myndin er að miklu leyti byggð á æviminningum Traundl Junge, einum af riturum Hitlers en einnig er stuðst við aðrar heimildir. Junge er því nokkuð stór karakter í myndinni.
https://www.youtube.com/watch?v=Q9pl7IWPx5E
MONEYBALL
Bandaríkin, 2011.
Moneyball er ein af óvenjulegri íþróttamyndum sem til eru. Maður sér sáralítið af íþróttaiðkun í henni en þeim mun meira af því sem gerist á bakvið tjöldin. Myndin er gerð eftir bók metsöluhöfundarins Michael Lewis sem kom út árið 2003 og fjallar um Billy Beane framkvæmdastjóra hafnaboltaliðsins Oakland Athletics og aðstoðarmanns hans. Aðstoðarmaðurinn, Paul DePodesta, var reyndar ósáttur við gerð kvikmyndarinnar og því þurfti að búa til karakter í stað hans. Athletics er eitt af smærri liðunum í MLB deildinni og hafa því takmarkað fjármagn til umráða. Þeir félagar fundu því upp tölfræðikerfi til að finna besta verðmætið á leikmannamarkaðinum. Þó maður skilji lítið í hafnabolta er myndin bráðskemmtileg og svolítið eins og að fylgjast með mönnum bítta á hafnaboltaspjöldum.
https://www.youtube.com/watch?v=AiAHlZVgXjk
LA PASSION DE JEANNE D´ARC
Frakkland, 1928.
Söguna um Jóhönnu af Örk þekkja flestir en þessi kvimynd fjallar um réttarhöldin og aftöku dýrlingsins. Myndin er byggð á réttargögnum franska klerkadómstólsins sem var hliðhollur Englendingum í hundrað ára stríðinu. Danski stórleikstjórinn Carl Dreyer gerði myndina og þótti hún afar sérstök og þá sérstaklega kvikmyndatakan. Flest atriðin eru nærmyndir af andlitum Jóhönnu og klerkanna og þar sem myndin er þögul þurftu leikararnir að halda henni uppi með svipbrigðum. Reneé Jeanne Falconetti lék Jóhönnu í sínu eina stóra kvikmyndahlutverki og frammistaða hennar þykir hreint afrek. Framleiðendurnir töpuðu miklum fjárhæðum þar sem sviðsmyndin var svo dýr en Ástríða Jóhönnu af Örk er almennt talin ein af bestu kvikmyndum sögunnar.
https://www.youtube.com/watch?v=CQj_3AY-E1g
ALEXANDER NEVSKY
Sovétríkin, 1938.
Fyrsta hljóðmynd hins mikla Sergei Eisenstein fjallar um vörn prinsins og dýrlingsins Alexader Nevsky gegn innrás germanskra riddara á þrettándu öld. Riddararnir réðust inn í Pskov í miðaldaríkinu Novgorod sem nú er norð-vesturhluti Rússlands. Nevsky réðist gegn þeim á gegnfrosnu Pleibus stöðuvatninu og vann afgerandi sigur. Germönsku riddararnir réðust ekki aftur inn í Rússland. Myndin er mikilfengleg og þá sérstaklega bardagasenurnar sem hafa haft áhrif á seinni tíma kvikmyndagerðarmenn. Eins og flestar kvikmyndir Eisenstein þá er hún hreinn áróður, gerð á þeim tíma þegar Þýskaland Hitlers ógnaði mjög Sovétríkjunum. Þegar Hitler og Stalín mynduðu bandalag var hún tekin úr umferð en skellt jafnharðan í sýningar eftir að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin.
https://www.youtube.com/watch?v=pXr0m7SaGvs
ZULU
Bretland, 1964.
Zulu fjallar um orrustuna um Rorke´s Drift árið 1879. Í upphafi Zulu-stríðsins höfðu Bretar beðið niðurlægjandi ósigur við Isandlwana. Zulu menn létu kné fylgja kviði og réðust á lítið virki og spítala á landamærum bresku Suður Afríku og Zulu-lands. Einungis 150 Bretar voru í virkinu og margir af þeim særðir en Zulu-stríðsmennirnir voru um 4000. Á einhvern undraverðan hátt náðu Bretarnir aftur á móti að hrinda hverri árásaröldunni á fætur annarri. Myndin er auðvitað óður til þessa mikla afreks en ekki er gert lítið úr Zulu-mönnum. Myndin er hvorki upphafning né ádeila á nýlendustefnuna. Þetta er hrein spennumynd. Ungur leikari að nafni Michael Caine fékk sitt fyrsta stóra hlutverk sem liðsforingi og varð að stjörnu eftir það.
https://www.youtube.com/watch?v=1csr0dxalpI