Milljarðar úr ríkissjóði til tekjuhæstu hópanna vegna skattaafsláttar
Eðlisbreyting hefur orðið á stuðningi ríkisins við heimili með húsnæðislán á síðustu árum. Áður fór mest til tekjulægri og yngra fólks en með innleiðingu skattfrjálsrar nýtingu séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán 2014 færðist þorri stuðningsins til tekjuhæstu hópa samfélagsins. Á árinu 2020 fór næstum helmingur af skattaafslættinum sem veittur var fyrir slíka nýtingu, alls um 2,2 milljarðar króna, til ríkustu tíu prósentanna.
Á síðustu árum hefur beinn stuðningur ríkisins til heimila með húsnæðislán dregist verulega saman. Árið 2020 var hann fjórðungi minni en árið 2013.
Auk þess hefur eðli hans breyst. Fyrir níu árum var honum miðlað í gegnum vaxtabótakerfið og lenti að stærri hluta hjá tekjulægri heimilum og ungu fólki, enda vaxtabætur tekju- og eignatengdar.
Frá árinu 2014 hafa stjórnvöld frekar lagt áherslu á að veita stuðning til heimila með húsnæðislán með því að heimila þeim skattfrjálsa ráðstöfun á séreignarsparnaði inn á lánin. Þar eru engin tekju- eða eignarhámörk. Eina þakið á slíkri ráðstöfun er að einstaklingar mega mest nýta allt að 500 þúsund krónum á ári í að niðurgreiða húsnæðislánið sitt skattfrjálst með þessum hætti og hjón eða sambúðarfólk um 750 þúsund krónur. Því hærri sem tekjur eru, því meiri líkur eru á því að sú heimild verði fullnýtt.
Í nýju mánaðaryfirliti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem birt var í dag er umfangsmikil umfjöllun um húsnæðisstuðning ríkissjóðs sem byggir á sérkeyrslum sem fengnar eru úr skattagögnum.
Þar er staðfest það sem lengi hefur verið grunur um: að þorri þess stuðnings sem ríkir veitir í gegnum nýtingu séreignarsparnaðarleiðina lendir hjá tekjuhæstu hópum samfélagsins. Um helmingur af þeim fjármunum sem ríkissjóður veitti í beinan stuðning í gegnum leiðina á árinu 2020 lenti hjá þeim tíu prósent þjóðarinnar sem hafði hæstar tekjur.
Stuðningurinn dróst saman og færðist frá tekjulágum til tekjuhærri
Beinn stuðningur ríkisins til heimila með húsnæðislán var 9,1 milljarður króna á árinu 2013, eða 0,4 prósent af landsframleiðslu. Hann var allur veittur í gegnum vaxtabótakerfið. Árið síðar, 2014, var kynnt ný stuðningsleið fyrir íbúðarkaupendur undir hatti „Leiðréttingarinnar“ svokölluðu. Hún fól í sér að þeir sem söfnuðu séreignarsparnaði máttu nýta hann skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán sín.
Samanlagður beinn stuðningur við heimili með húsnæðislán það ár var 9,9 milljarðar króna, en hann skiptist nú milli vaxtabótakerfisins (7,8 milljarðar króna) og skattaívilnana vegna ráðstöfunar á séreignarsparnaði (2,1 milljarðar króna).
Síðan þá hefur hinn beini stuðningur dregist saman ár frá ári og 2020 var hann samtals 6,9 milljarðar króna. Það þýðir að stuðningurinn í heild hefur dregist saman um fjórðung frá 2013. Þar fyrir utan eru tveir þriðju hlutar hans nú veittir í formi skattafsláttar vegna nýtingu séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán. Sú upphæð sem miðlað er í gegnum vaxtabótakerfið hefur dregist saman um 75 prósent og var 2,3 milljarðar króna í hitteðfyrra.
Allar tölur sem hér er minnst á eru á föstu verðlagi ársins 2020.
Næstum helmingur til ríkasta hópsins
Til að finna út hvernig ríkisstuðningur í gegnum skattfrjálsa nýtingu séreignarsparnaðar skiptist milli tekjuhópa kallaði ASÍ eftir sérkeyrslu frá Hagstofu Íslands. Samkvæmt henni fór næstum helmingur, tæplega 2,2 milljarðar króna, af þeim stuðningi sem veittur var í gegnum skattfrjálsa notkun séreignarsparnaðar til þeirra tíu prósent sem höfðu hæstar tekjur. Sami hópur fékk tæplega þriðjung, 31,1 prósent, af öllum húsnæðisstuðningi ríkisins í sinn hlut á árinu 2020.
Alls 72 prósent þess skattaafsláttar sem veittur var vegna nýtingu á séreignarsparnaði, samtals um 3,3 milljarðar króna, lenti hjá þeim fimmtungi sem hafði mestar tekjur. Sami hópur fékk tæplega helming, 47,1 prósent, af öllum beinum húsnæðisstuðningi ríkisins á árinu 2020 þegar búið er að gera ráð fyrir vaxtabótagreiðslum líka. Um 85 prósent af skattaafslættinum, um fjórir milljarðar króna, fór til þeirra 30 prósent heimila sem voru með mestar tekjur og um 57 prósent alls húsnæðisstuðnings lenti þar.
Til samanburðar fékk sá helmingur sem var með lægstu tekjurnar samtals 134 milljónir króna í skattaafslátt vegna nýtingu séreignarsparnaðar til að greiða niður húsnæðislán. Ríkustu tíu prósent landsmanna fengu rúmlega tveimur milljörðum króna meira úr leiðinni á árinu 2020 en sá helmingur sem þénaði minnst.
Í umfjöllun ASÍ segir að fyrir tímabilið 2014 til 2020 í heild sinni námu vaxtabætur alls 29 milljörðum, þar af fóru 23 milljarðar til tekjulægstu 70 prósent einstaklinga. „Fyrir sama tímabil nam skattaívilnun vegna skattfrjálsrar ráðstöfunar 33 milljörðum, þar af fóru 28 milljarðar til þeirra tekjuhæstu 30 prósent einstaklinga.“
Lá fyrir frá upphafi hvar stuðningurinn myndi lenda
Það að tekjuhærri hópar samfélagsins eru mun líklegri til að spara í séreignarsparnað en tekjulægri hópar hefur lengi legið fyrir.
Lægstu laun of lág og bætur of lágar
Í morgun birti Efling nýjasta tölublað Kjarafrétta. Þar kom fram að heimili láglauna barnafjölskyldna nái ekki endum saman jafnvel þótt þau bæti við sig umtalsverðri aukavinnu. Laun þeirra duga ekki fyrir framfærslukostnaði samkvæmt mati stjórnvalda.
Í umfjöllun Kjarafrétta segir að fólk á lægstu laununum þurfi að vinna mikla aukavinnu og sætta sig mun lakari húsnæðiskost en almennt tíðkast til að eiga möguleika á að láta enda ná saman. Niðurstaða úttektar Eflingar er sú að lægstu laun séu of lág, af þeim sé tekinn alltof hár tekjuskattur og að barna- og húsnæðisbætur séu of lágar.
Í skýrslu sérfræðingahóps um höfuðstólslækkanir húsnæðislána, sem skilaði skýrslu til forsætisráðuneytis Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar síðla árs 2013, kom til að mynda fram að meðallaunatekjur fjölskyldna sem spöruðu í séreign og skulduðu í fasteign væri miklu hærri en meðallaunatekjur þeirra sem spara ekki. „Almennt eru tekjur þeirra sem spara í séreignalífeyrissparnaði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ stóð orðrétt í skýrslunni.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um nýtingu skattfrjálsa nýtingu séreignarsparnaðar til að borga niður húsnæðislán allt fá því að hún varð fyrst heimil árið 2014. Í umfjöllun hans um málið sem birtist í febrúar síðastliðnum kom farm að alls 79.747 einstaklingar hefðu nýtt sér skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán frá miðju ári 2014 og fram til janúar síðastliðins. Um er að ræða 38 prósent allra sem eru á vinnumarkaði, eða 21 prósent þjóðarinnar í heild.
Fólk í greiðsluerfiðleikum látið greiða skatt af nýtingunni
Í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur vegna kórónuveirufaraldursins, sem kynntur var 21. mars 2020, var ein af aðgerðunum sem kynnt var til leiks sú að landsmönnum gert kleift að taka út séreignasparnað til að takast á við skammtímafjárhagsvanda. Þeir sem nýttu sér þetta úrræði þurftu þó að greiða skatt af sparnaðinum þegar hann var tekinn út. Því var líka um tekjuskapandi aðgerð að ræða fyrir ríkissjóð.
Þegar aðgerðin var kynnt til leiks kom fram að ríkisstjórnin reiknaði með að teknir yrðu út tíu milljarðar króna af séreignarsparnaðinum. Um síðustu áramót höfðu landsmenn alls tekið út um 37 milljarða króna af séreignarsparnaði sínum síðan slíkar úttektir, en hægt var að sækja um nýtinguna út síðasta ár. Nýtingin hefur því verið næstum fjórföld umfram áætlanir.
Því má gera ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs vegna skattgreiðslna af nýtingu séreignarsparnaðar sem hluta af aðgerðapakka til að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldurs verði um 13,4 milljarðar króna.
Það er tíu milljörðum krónum meira en upphaflega var áætlað.
Ekki hefur verið birt neitt niðurbrot á þeim hópi sem hefur nýtt sér þetta úrræði en ætla má að þar sé, að minnsta kosti að hluta, um að ræða fólk sem hefur átt í greiðsluerfiðleikum vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19. Þeir sem fóru úr vel launuðum störfum á atvinnuleysisbætur eru líklegri til að tilheyra þessum hópi en aðrir, þar sem tekjuhærri hafa almennt verið líklegri til að spara séreign en tekjulægri.
Þessi hópur hefur alls ráðstafað 109,9 milljörðum krónum af séreignarsparnaði inn á húsnæðislánin sín frá árinu 2014. Í samantektinni sem Kjarninn hefur fengið afhenta kemur fram að hópurinn sem hefur nýtt sér úrræðið hafi alls fengið skattafslátt upp á samtals 26,8 milljarða króna fyrir að nýta séreignarsparnað sinn á þennan hátt.
Miðað við skiptingu á skattafslættinum á árinu 2020, samkvæmt samantekt ASÍ, má ætla að um 8,3 milljarðar króna af skattaafslættinum hafi farið til ríkustu tíu prósenta þjóðarinnar.
Til viðbótar gagnaðist hin hliðin af „Leiðréttingunni“, eingreiðsla úr ríkissjóði upp á 72,2 milljarða króna inn á verðtryggð húsnæðislán hóps landsmanna sem hafði verið með slík lán á árunum 2008 og 2009, ríkustu hópunum best. Meginþorri þeirrar greiðslu fór til tekjuhærri og eignarmeiri hópa samfélagsins.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði