Gríðarlegt magn af sóttnæmum úrgangi (e. medical waste) sem hefur myndast í baráttunni gegn heimsfaraldri COVID-19 síðastliðin tvö ár er ógn við heilsu og umhverfi fólks að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Notaðar bóluefnasprautur, sýnatökubúnaður og umbúðir af bóluefnum hafa hlaðist upp og myndað tugþúsundir tonna ruslafjöll af sóttnæmum úrgangi. Fyrirtæki sem sjá um förgun slíks úrgangs eiga í vandræðum með að sinna förgun sökum magns, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Þar kemur meðal annars fram að stór hluti af 87 þúsund tonnum af hlífðarfatnaði sem úthlutað var í gegnum Sameinuðu þjóðirnar frá mars 2020 og fram í nóvember á síðasta ári endar sem úrgangur. Auk þess er metið að 2.600 tonn af plastúrgangi myndist við 140 milljón sýnatökusett og að af átta milljörðum bóluefnaskammta sem dreift hefur verið á heimsvísu myndast 144 þúsund tonn af úrgangi í formi lyfjaglasa úr gleri, notuðum sprautum og öryggiskössum.
Þó svo að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telji það ekki nauðsynlegt að nota hanska við bólusetningar kemur fram í skýrslunni að það tíðkist víða, til að mynda í Bretlandi þar sem áætlað er að hver heilbrigðisstarfsmaður noti að meðaltali 50 pör af hönskum á viku sem enda í almennu rusli.
„Það skiptir höfuðmáli að útvega heilbrigðisstarfsfólki viðeigandi hlífðarbúnað. En það skiptir líka máli að tryggja að búnaðurinn sé notaður með öruggum hætti án þess að stofna umhverfinu í hættu,“ segir Michael Ryan, stjórnandi neyðaraðgerða hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir skýrsluna áminningu um að þrátt fyrir að heimsfaraldurinn sé ein mesta heilsufarsógn síðustu hundrað ára tengist hann mörgum öðrum áskorunum sem ríki heimsins standa frammi fyrir.
Eins og staðan er í dag eru 30 prósent heilbrigðisstofnana ekki í stakk búnar til að meðhöndla úrgang. Hvað þá þann viðbótarúrgang sem myndast hefur vegna heimsfaraldursins. Heilbrigðisstarfsfólk getu því verið berskjaldað fyrir nálastungum, brunasárum og örverum sem geta valdið sjúkdómum. Þá geta ruslahaugar þar sem úrgangur er brenndur og eftirliti er ábótavant ollið loft- og vatnsmengun í nánasta umhverfi.
Í skýrslunni eru ýmsar lausnir lagðar fram, til að mynda umhverfisvænni pakkningar og flutningsleiðir fyrir lækningavörur sem notaðar eru í baráttunni við COVID-19 og að notast sé við hlífðarfatnað úr endurunnum efnum. Þá er mælt með að sorpbrennslu á sóttnæmum úrgangi verði hætt.