Það er ekki hægt að segja að gleði, sóknarhugur og samlyndi einkenni tveggja daga flokksþing Danska þjóðarflokksins sem hófst í gær (18. september) og lýkur í dag. Eftir þingkosningarnar 2019 fór að bera á óánægju meðal flokksmanna og sú óánægja hefur farið vaxandi. Undanfarið hefur þeim farið fjölgandi sem telja breytingar á flokksforystunni forsendu þess að flokkurinn nái fyrri styrk á ný. Meðal verkefna ársþingsins er formannskosning. Frá stofnun flokksins hefur ekki verið mikil spenna í kringum þennan dagskrárlið, frá stofnun hafa einungis tveir setið á formannsstólnum, Pia Kjærsgaard og Kristian Thulesen Dahl.
Upphaflega klofningur úr Framfaraflokknum
Þau Pia Kjærsgaard og Kristian Thulesen Dahl eru ekki nýgræðingar í pólitík. Pia Kjærsgaard hefur átt sæti á danska þinginu, Folketinget, síðan 1984 og Kristian Thulesen Dahl frá árinu 1994. Þau voru bæði í Framfaraflokki Mogens Glistrup. Flokksformaðurinn sat um tíma í fangelsi vegna skattsvika og Pia Kjærsgaard gegndi þá formennsku í flokknum. Eftir að Mogens Glistrup hafði afplánað fangelsisdóminn og kominn aftur á kaf í stjórnmálin, tók að fjara undan Framfaraflokknum. Árið 1995 sögðu Pia Kjærsgaard, Kristian Thulesen Dahl, Peter Skaarup, og nokkrir til viðbótar, skilið við Framfaraflokkinn og stofnuðu nýjan flokk. Flokkurinn fékk nafnið Dansk folkeparti, skammstafað DF. Á íslensku nefndur Danski þjóðarflokkurinn.
Hægrisinnaður miðjuflokkur með þjóðleg gildi
Við stofnun DF var Pia Kjærsgaard einróma kjörinn formaður og Kristian Thulesen Dahl varaformaður. Flokkurinn bauð í fyrsta skipti fram til þings árið 1998, fékk þá 7.4% atkvæða og 13 þingmenn en samtals sitja 179 þingmenn á danska þinginu.
Nýr formaður og mikil fylgisaukning
Árið 2012 ákvað Pia Kjærsgaard að hætta formennsku í flokknum eftir 17 ár á formannsstólnum. Við formennskunni tók Kristian Thulesen Dahl. Að margra mati fylgdi honum ferskur blær, þótt hann væri langt í frá nýgræðingur í pólitíkinni. Formannsskiptin voru vel tímasett, þrjú ár til næstu kosninga og nýr formaður DF fékk þannig svigrúm til að skipuleggja flokksstarfið. Kannanir sýndu aukið fylgi við flokkinn, sú aukning var einkum rakin til formannsskiptanna.
Kosningasigur 2015, 37 þingmenn
Í þingkosningunum árið 2015 fékk Danski þjóðarflokkurinn 37 þingmenn, bætti við sig 15 frá kosningunum 2011. Flokkurinn var orðinn sá næst stærsti á danska þinginu. Flokkurinn hafði talað skýrt í málefnum innflytjenda og flóttamanna, vildi takmarka „strauminn til Danmerkur“. Sömuleiðis vildi flokkurinn standa vörð um, og bæta, hag aldraðra og öryrkja. Persónulegar vinsældir formannsins, Kristian Thulesen Dahl, skiptu sömuleiðis miklu máli.
Vildi hafa áhrif en ekki fara í stjórn
Í kjölfar kosninganna 2015 urðu stjórnarskipti. Flokkar úr „bláu blokkinni“ undir forystu Lars Løkke Rasmussen tók við völdum. Sú stjórn hafði 53 þingmenn og varð því algjörlega að reiða sig á stuðning DF til að koma málum gegnum þingið. DF var þannig í lykilstöðu en vildi hinsvegar ekki eiga beina aðild að ríkisstjórninni.
„Flokkurinn er ekki tilbúinn í stjórnarsetu“ sagði formaðurinn. Auk þess hefði flokkurinn meiri áhrif utan stjórnar. Margir undruðust þessa afstöðu og veltu fyrir sér hvort kjósendur myndu ekki á endanum snúa baki við flokknum. Kristian Thulesen Dahl gerði lítið úr slíkum vangaveltum, flokkurinn skyti sér aldrei undan ábyrgð og það vissu kjósendur flokksins. Hann reyndist ekki sannspár.
Rétt er að geta þess að Pia Kjærsgaard var kjörin forseti þingsins, eftir kosningarnar 2015 og gegndi því embætti út kjörtímabilið, til 2019.
Hrun og vangaveltur um nýjan formann
Úrslit þingkosninganna í júní 2019 voru reiðarslag fyrir DF. Flokkurinn tapaði 21 þingmanni, fékk 16. Ekki voru skýringar á þessu mikla fylgistapi augljósar en Kristian Thulesen Dahl virtist traustur í sessi. Stjórnmálaskýrendur töluðu þó um að fylgishrunið hlyti að kalla á breytingar í flokksforystunni, kannski væri sandurinn runninn úr stundaglasi Kristian Thulesen Dahl. Vandinn var hinsvegar sá að enginn augljós arftaki virtist í augsýn. Augu margra höfðu beinst að Morten Messerschmidt. Hann hafði ungur gengið til liðs við DF og var kosinn á þing árið 2005 en árið 2009 bauð hann sig fram til setu á Evrópuþinginu. Þar sat hann til ársins 2019. Fyrir kosningarnar 2019 ákvað Morten Messerschmidt að hætta á Evrópuþinginu og bjóða sig fram fyrir DF á Norður-Sjálandi. Hann hlaut góða kosningu og var jafnframt kjörinn varformaður DF. Setan á Evrópuþinginu átti hinsvegar eftir að draga dilk á eftir sér fyrir Morten Messerschmidt.
Dæmdur fyrir að misfara með fé úr sjóðum ESB
Þann 1. ágúst sl. var Morten Messerschmidt, í Bæjarrétti Lyngby (neðsta dómstigi) dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að misfara með fé úr sjóðum Evrópusambandsins. Ítarlega var fjallað um það mál í fréttaskýringu hér í Kjarnanum 8. ágúst sl.
Morten Messerschmidt áfrýjaði dómnum á staðnum en ekki er ljóst hvenær réttarhöld fyrir Landsrétti hefjast. Þessi staða gerir það að verkum að Morten Messerschmidt hefur orðið að leggja hugsanlega formannsdrauma í DF á hilluna, í bili að minnsta kosti.
Vaxandi ólga og krafa um breytingar
Undanfarið hafa þær raddir gerst æ háværari innan raða DF sem telja nauðsynlegt að stokka upp í forystu flokksins. Formannskjör fer fram á ársþingi flokksins, nema boðað sé til sérstaks aukaþings. Næstu þingkosningar í Danmörku fara fram eigi síðar en 4. júní árið 2023 og ef gera á breytingar á forystu DF, t.d. skipta um formann, þarf það að gerast sem fyrst. Kristian Thulesen Dahl hefur fyrir nokkru tilkynnt að hann gefi kost á sér til áframhaldandi formennsku. Ljóst er að margir flokksmenn styðja hann en þeir eru líka margir sem vilja skipta um karlinn í brúnni. Vandi þeirra sem vilja skipta formanninum út er sá að enginn augljós valkostur er í boði. Morten Messerschmidt, maðurinn sem margir hafa talið sjálfsagðan arftaka, hvenær sem það yrði, er nú úr leik í bili. Og enginn veit hve lengi.
Oft er gott sem gamlir kveða
Ekki er víst að margir flokksfélagar í DF þekki Hávamál og málsháttinn hér að ofan. Þótt þeir þekki hann ekki hafa þeir hinsvegar óafvitandi tekið sér hann í munn. Þeim röddum sem telja Piu Kjærsgaard, stofnanda DF, og formann fyrstu 17 árin, réttu manneskjuna til að rétta skútuna af, eins og einn úr þingflokknum komst að orði, hefur fjölgað undanfarna daga. Stuðningsmenn hennar benda á að hún njóti mikils álits meðal flokksmanna, þekki flokksstarfið betur en flestir og þurfi ekki að læra neitt í þeim efnum.
Pia Kjærsgaard skrifaði í færslu á Facebook um hádegisbil sl. föstudag að innanflokksátök væru það sem DF hefði síst þörf fyrir. Þess vegna vildi hún ekki bjóða sig fram til formanns gegn Kristian Thulesen Dahl.
Sló úr og í
Danskir stjórnmálaskýrendur hafa bent á að yfirlýsing Piu Kjærsgaard sé ekki stuðningsyfirlýsing við Kristian Thulesen Dahl enda lýsi hún ekki stuðningi við hann í færslunni. Hún segi einungis að hún vilji ekki berjast við hann um formannssætið. Yfirlýsingin sýni jafnframt að Pia Kjærsgaard sé síður en svo sátt við formanninn.
Í þann mund sem flokksþingið var að hefjast í gærmorgun spurði blaðamaður Ekstra Bladet Piu Kjærsgaard hvort hún hygðist fara fram gegn Kristian Thulesen Dahl. Hún neitaði því en þá spurði blaðamaðurinn hvort hún væri tilbúin til að setjast í formannsstólinn að loknum sveitarstjórnarkosningum eftir um það bil tvo mánuði.
Svarið var að mati viðstaddra tvírætt „tveir mánuðir eru langur tími í pólitík“.
Formaðurinn sjálfkjörinn, var einn í framboði
Þrátt fyrir margar óánægjuraddir var Kristian Thulesen Dahl endurkjörinn formaður DF, kosningin fór fram um miðjan dag í gær. Formaðurinn hvatti flokksmenn til að standa saman og slíðra óánægjusverðin. Hvatningarorð hans duga þó tæplega og ljóst að ólgan er enn til staðar. Framtíð hans á formannsstóli kann að ráðast af útkomu flokksins í sveitarstjórnarkosningunum eftir tvo mánuði. Fái DF slæma útkomu úr þeim kosningum munu óánægjuraddirnar verða háværari og í ljósi ummæla Piu Kjærsgaard við blaðamann Ekstra Bladet er ekki loku fyrir það skotið að hún eigi eftir að setjast aftur í formannsstól Danska þjóðarflokksins.