Paul Mason, viðskiptaritstjóri Channel 4 News, hefur verið áberandi í umfjöllun sinni um þá sögulegu atburðarás sem hófst með efnahagskreppunni árið 2008. Áður en hann hóf störf á Channel 4 News var hann viðskiptaritstjóri fréttaskýringa þáttarins Newsnight á BBC. Í miðju Arabíska vorinu, skrifaði hann frægan pistil sem bar nafnið “Twenty reasons why it’s kicking off everywhere”.
Þar setti hann í samhengi þau fjölmörgu uppþot og mótmælahreyfingar sem spruttu upp um allan heim á þessum árum. Þessi pistill varð síðar að bókinni, “Why it’s kicking off everywhere” þar sem hann færði rök fyrir því að þessi atburðarás markaði byrjunina á falli hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.
Í viðtali við Kjarnann, sem Sigríður Tulinius tók, talar hann um að hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hafi verið einstök í sögu kapítalismans því að ólíkt fyrri efnahagsmódelum hafi hún ekki aukið lífsgæði heldur lækkað lífsgæði meirihluta fólks. Aftur á móti, segir hann að nýfrjálshyggjan hafi skapað stórkostlegar tækninýjungar sem hafi mikla möguleika sem verið er að halda niðri með núverandi efnahagsstjórnun. Í væntanlegri bók hans, “Postcapitalism – A Guide To Our Future”, færir hann rök fyrir því hvernig hægt sé að losa um þessar hömlur og nýta tækninýjungarnar til þess að skapa samfélag þar sem fólk þarf að vinna minna, þar sem ríkir meiri sátt í þjóðfélaginu, þar sem húsnæði og matur er ódýr og þar sem nýsköpun er verðlaunuð en ekki einokun líkt og undir núgildandi efnahagstjórnun.
https://vimeo.com/120955219