Söluferlið á hlutum í Íslandsbanka var ekki í samræmi við tilmæli Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), þar sem ekki var komið í veg fyrir hagsmunaárekstra söluráðgjafa. Einnig benda samtökin á að meta þurfi hæfi nýrra kaupenda og rekstraráætlanir þeirra, auk þess sem færa þurfi sterk rök fyrir því að setja skuli afslátt á söluvirði ríkiseigna. Þetta kemur fram í skýrslu samtakanna um einkavæðingu á fyrirtækjum í ríkiseigu sem birt var 2019.
Ráðherrafaðir, hrunmenn og söluráðgjafar
Líkt og Kjarninn hefur greint frá birti fjármálaráðuneytið listann yfir þá 209 aðila sem fengu að kaupa hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir rúmum tveimur vikum síðan með afslætti. Á þeim lista voru meðal annars hlutafélög í eigu Benedikts Sveinssonar, föður fjármalaráðherra og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, sem er með stöðu sakbornings í rannsókn á meintum mútubrotum, skattsvikum og peningaþvætti.
Einnig var þar að finna félög í eigu fjárfesta sem komu að bankarekstri hérlendis á árunum fyrir fjármálahrunið, þegar bankarnir urðu gjaldþrota og voru þjóðnýttir. Þeirra á meðal var fjárfestingarfélagið SKEL, en stjórnarformaður félagsins, Jón Ásgeir Jóhannesson, kom að félögum sem voru á meðal stærstu hluthafa Glitnis banka, forvera Íslandsbanka, þegar hann féll í október 2008. Eitt þeirra félaga, FL Group, heitir í dag Stoðir og er stýrt af Jóni Sigurðssyni. Hann var forstjóri FL Group fyrir bankahrun og sat sem varaformaður stjórnar Glitnis. Stoðir er einnig á meðal kaupenda í Íslandsbanka. Þá keyptu félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundsona, sem oftast eru kenndir við Bakkavör, einnig fyrir mörg hundruð milljónir króna í útboði 22. mars, en þeir voru stærstu eigendur Kaupþings áður en sá banki hrundi 2008. Lýður var dæmdur til fangelsisvistar eftir bankahrunið.
Félagið Lyf og Heilsa hf., sem keypti í lokaða útboðinu fyrir rúmum tveimur vikum, er í eigu Jóns Hilmars Karlssonar. Faðir hans, Karl Wernersson, átti áður félagið en seldi syni sínum það áður en hann varð gjaldþrota. Þrotabú Karls höfðaði í kjölfarið nokkur riftunarmál þar sem talið var að eignum hefði verið komið undan kröfuhöfum, meðal annars með því að eignum Karls væri komið yfir til Jóns Hilmars. Karl var aðaleigandi fjárfestingarfélagsins Milestone fyrir bankahrun, sem var um tíma á meðal stærstu eigenda Glitnis. Hann hefur setið í fangelsi fyrir alvarleg efnahagsbrot tengd hruninu.
Eignarhaldsfélagið Steinn ehf., sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja og Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans, keypti hlutabréf í lokaða útboðinu fyrir 296,3 milljónir króna. Þorsteinn hefur áður komið að bankarekstri en hann var stjórnarformaður Glitnis þegar sá banki fór í þrot haustið 2008. Hann er sem stendur með stöðu sakbornings í virkri lögreglurannsókn á meintum mútugreiðslum, peningaþvætti og skattasniðgöngu.
Vísir greindi svo frá því í gær að eigendur og starfsmenn umsjónaraðila útboðsins væru einnig á meðal kaupenda. Þeirra á meðal var Þorbjörg Stefánsdóttir, sem er helmingseigandi í Íslenskum verðbréfum, sem var einn af fimm fyrirtækjum sem kom að ráðgjöf um söluferlið. Þorbjörg er einnig eiginkona Jóhanns M. Ólafssonar, framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa.
Hvað er hæfur fjárfestir?
Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um áframhaldandi sölu á hlutum í Íslandsbanka var söluferlið útskýrt, en þar var lagt til að næsta skref í söluferlinu fæli í sér lokað útboð til „hæfra fjárfesta“. Þetta hugtak er skilgreint í ESB tilskipun sem innleidd hefur verið hér á landi, en samkvæmt henni geta einstaklingar sem eru búsettir hérlendis talist til hæfra fjárfesta ef þeir uppfylla tveimur af þremur eftirfarandi skilyrðum:
- Þeir hafi að minnsta kosti stundað viðskipti 40 sinnum á verðbréfamarkaði síðustu tólf mánuði, að meðaltali tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi
- Eignir þeirra í verðbréfum nemi meira en 500.000 evrum, eða um 69,8 milljónum króna
- Þeir hafi gegnt stöðu á fjármálamarkaði sem krefjist sérþekkingar á fjárfestingum í verðbréfum í að minnsta kosti eitt ár.
Til viðbótar við þetta teljast fjármála- og fjárfestingarfyrirtæki, auk ríkisstjórna, sveitarstjórna, seðlabanka og alþjóðastofnana til hæfra fjárfesta. Það er svo í höndum fjármálafyrirtækja að meta það hvort einstaklingar eða smærri fyrirtæki teljist til hæfra fjárfesta.
Ekki voru gerðar fleiri kröfur á fjárfestana sem fengu að taka þátt í lokuðu söluútboði. Hins vegar segir í greinargerðinni um bankasöluna að þeir myndu fá afslátt af kaupverði í hluta bankans vegna þess að þeir væru að kaupa stærri hlut í bankanum en aðrir, auk þess sem óvissa væri um nákvæma þróun hlutabréfaverðsins á vikunum eftir útboðið.
Þrátt fyrir þessi tilmæli fengu margir fjárfestar að kaupa minni hluti í Íslandsbanka á afslætti. Samkvæmt listanum sem birtur var á miðvikudaginn keyptu 22 einstaklingar og lögaðilar hlut í bankanum að andvirði 10 milljóna króna eða minna. Þetta er töluvert minna en meðalupphæð viðskipta sem eiga sér stað með hluti í bankann á opnum hlutabréfamarkaði í Kauphöllinni, en samkvæmt vef Keldunnar nam meðalvirði hverra viðskipta í bankanum 18,75 milljónum króna í gær.
Hæfismat og rekstraráætlun nauðsynleg
OECD gaf út leiðarvísi að einkavæðingu fyrirtækja í ríkiseigu árið 2019, sem hægt er að nálgast hér. Samtökin segja leiðarvísinn byggja á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum, auk áratuga reynslu um einkavæðingu innan aðildarríkja OECD og annarra þjóða.
Í leiðarvísinum stendur sérstaklega að huga verði að hæfi nýrra kaupenda fyrirtækjanna í einkavæðingunni og sjá til þess að engir ótilgreindir hagsmunaárekstrar lægju þar fyrir og að rekstraráætlun lægi fyrir hjá nýjum eigendum. Samkvæmt samtökunum er skortur á nægilega góðu hæfismati kaupenda varúðarmerki (e. red flag) sem gæti boðið upp á hættu um spillingu við einkavæðingu.
Söluráðgjafar ótengdir og afsláttur rökstuddur
Sömuleiðis nefna samtökin mikilvægi þess að engir hagsmunaárekstrar séu til staðar hjá söluráðgjafa í einkavæðingarferlinu. Hér sé mikilvægt að ráðgjafarnir séu hvorki tengdir né að vinna fyrir kaupendur í útboðinu og gæti einungis hagsmuna ríkisins.
Einnig segir í leiðarvísinum að ríkið hafi umboðsskyldu gagnvart borgurum um að selja ríkiseignir á markaðsvirði. Þó mætti selja þær á afslætti ef sérstakar ástæður eru fyrir því, líkt og hugsanlegar tækniframfarir vegna aukinnar erlendrar fjárfestingar eða önnur jákvæð ytri áhrif við að fá nýja eigendur. Þessar ástæður ættu þá að vera skýrt tilgreindar af stjórnvöldum til að koma í veg fyrir að salan verði álitin hygla einstökum kaupendum.
Uppfært 12. apríl: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar kom fram gömul skilgreining á hæfum fjárfestum. Skilgreiningin hefur verið uppfærð.