Það var snemma morguns mánudaginn 7. maí 1951 að fimmtán Douglas C-54 Skymaster-flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli með fyrsta hluta varnarliðsins, sem þar átti eftir að hafa aðsetur næstu 55 árin. Tveimur dögum áður hafði verið undirritaður varnarsamningur á milli Bandaríkjanna og Íslands. Í inngangsorðum samningsins er nefnt að Íslendingar geti ekki sjálfir varið land sitt sem stefni öryggi þess og nágrönnum í voða. Því hafi Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin að þau geri ráðstafanir til að látin verði í té aðstaða á Íslandi – til varnar landinu – og þar með einnig til varnar svæðinu sem Atlantshafssáttmálinn tiltekur.
Íslendingar voru og eru herlaus þjóð og vildu standa utan hverskonar hernaðar og stríðsátaka. Stjórnvöld töldu landinu þó best borgið í vestrænu varnarsamstarfi svo Ísland hafði verið stofnaðili að NATO tveimur árum áður. Hið unga lýðveldi var undir handarjaðri voldugs vinar í vestri sem hafði stutt dyggilega við og verið í forystu um að viðurkenna Ísland sem sjálfstætt ríki árið 1944. Ástæða þessa stuðnings var ekki eingöngu góðvild Bandaríkjamanna heldur vildu þeir tryggja yfirráð sín á Norður-Atlantshafi.
Ísland verði herlaust á friðartímum – sem erfitt var að standa við
Eftir seinni heimsstyrjöld hafði ríkt samstaða meðal allra flokka um að hér væri ekki erlendur her á friðartímum og Íslendingar hefðu úrslitavald um hvort þörf væri á herliði. Hlutleysisstefnan var enn við lýði, eins og sjá mátti þegar Ísland hafnaði því að verða eitt af stofnríkjum Sameinuðu þjóðanna 1945. Varð ekki ekki aðili þar fyrr en í nóvember 1946, en ári áður varð Ísland eitt af aðildarríkjum bæði Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þróun alþjóðamála og þörf á erlendri fjárhagsaðstoð hafði sín áhrif og Ísland varð síðan stofnaðili Atlantshafsbandalagsins 1949, þrátt fyrir herleysið. Þegar Kóreustríðið braust út árið 1950 hafði jarðvegurinn fyrir staðsetningu herliðs hér verið undirbúinn og farið var að ræða varnarþarfir Íslands á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.
Varnarsamningurinn er gerður þegar kalda stríðið er að skella á af fullum þunga. Áhyggjur margra Íslendinga beindust að því að með varnarsamstarfinu væru Íslendingar að verða háðir herveldinu Bandaríkjunum og setja nýfengið sjálfstæði í hættu. Þessar áhyggjur voru ekki alveg úr lausu lofti gripnar því Bandaríkin beittu margháttuðum aðgerðum til að rétta vinveittum ríkjum hjálparhönd. M.a. með Marshall-áætluninni, sem Ísland naut góðs af, þótt íslenskur efnahagur væri langt í frá í rústum eins og víða í Evrópu. Ísland hafði hagnast á stríðinu en glímdi við gjaldeyrisþurrð, mikla fábreytni í efnahagslífi og skort á innviðum og iðnvæðingu.
Íslendingum, sama hvar í flokki þeir stóðu, virðist hafa verið umhugað um að sem minnst færi fyrir bandaríska varnarliðinu. Í samningnum segir það vera háð samþykki íslensku ríkisstjórnarinnar hversu margir menn hafi setu á Íslandi og af hvaða þjóðerni þeir séu. Það orðalag bendir til að í upphafi hafi jafnvel verið litið til þess að liðsmenn annarra bandalagsríkja væru hluti varnarliðsins. Jafnframt hefur löngum verið talið að þessi fyrirvari hafi í eðli sínu byggt á kynþáttafordómum og verið til þess að tryggja að ekki kæmu hingað varnarliðsmenn sem væru dökkir á hörund. Má nærri geta að fyrirstaðan hafi því ekki eingöngu verið vegna hernaðarbrölts heldur vegna ótta við erlend áhrif á hina litlu berskjölduðu þjóð.
Vilji íslenskra stjórnvalda stóð til þess að Íslendingar tækju að sér varnirnar, en frekar fljótt varð ljóst að varnarþarfirnar voru umfangsmeiri en svo að Íslendingar einir gætu leyst það verkefni. Eftir að vinstri stjórn tók við völdum árið 1956 fóru fram viðræður um endurskoðum varnarsamningsins á þá lund að bandarískt herlið hyrfi frá landinu. Þeim var hins vegar fljótlega hætt, að sögn stjórnvalda, vegna ótryggs ástands í heiminum. Þar komu til, auk átaka í Asíu, innrás Sovétmanna í Ungverjaland og Súez-deilan. Því fékk bandarískt varnarlið fasta viðveru næstu áratugi og þegar mest var dvöldu hér meira en 7000 manns, varnarliðsmenn og fjölskyldur þeirra.
Þrískipt afstaða Íslendinga
Íslensk þjóð hefur frá upphafi verið býsna klofin í afstöðu sinni gagnvart veru bandarísks herliðs á Íslandi og varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Til að skýra pólitískar línur í meginatriðum þá hafa Sjálfstæðis- Framsóknar- og Alþýðuflokkur eindregið stutt samstarfið og Samfylkingin sömuleiðis eftir að hún kom til. Vinstriflokkar eins og Sósíalistaflokkur, Alþýðubandalag og Vinstri græn hafa jafnan verið á móti. En þarna eru líka ýmis grá svæði. Framsóknarflokkurinn leiddi þannig í tvígang ríkisstjórn sem hafði að markmiði uppsögn varnarsamningsins og Alþýðubandalagið sat í ríkisstjórnum í þrígang sem gerðu ekki ráð fyrir að hrófla við varnarsamningnum. Andstöðu gætti því að einhverju marki í öllum flokkum, en minnst í Sjálfstæðisflokki og Alþýðuflokki.
Til að skilgreina almenna afstöðu Íslendinga til þessara mála má skipta henni í þrennt og fellur hún að einhverju leyti að þessum pólitísku línum – þó málið sé ögn flóknara.
Í fyrsta hópnum má telja þá sem studdu vestræna varnarsamvinnu en töldu að Íslendingar gerðu sitt með því að leggja til land undir varnarstarfsemina. Í þessum hópi gætti þess að litið væri á Bandaríkjamenn sem einskonar málaliða sem höfðu tekið að sér varnir landsins og að þeir ættu að sinna þeim og láta sem minnst fyrir sér fara að öðru leyti. Í öðrum hópnum má telja þá sem studdu samstarfið en vildu sjá Íslendinga leggja meira af mörkum svo þeir væru ekki eingöngu þiggjendur. Ísland ætti þannig t.d. að leggja sjálfstætt mat á varnarþörf og rökræða viðbúnaðarstig og umfang varnarviðbúnaðarins á efnislegum forsendum. Í þeim þriðja voru svo þeir sem voru á móti varnarsamstarfi, hvaða nafni sem það nefndist, hvort sem það var tvíhliða við Bandaríkin eða á vettvangi NATO.
Meðal slíkra herstöðvarandstæðinga var mjög algengt viðhorf að líta almennt niður á umræður um öryggis- og varnarmál, hæðast að tilraunum íslenskra stjórnvalda til að taka af alvöru þátt í slíku og afgreiða sem byssu- eða stríðsleiki. Fyrir vikið áttu fyrsti hópurinn og sá þriðji það sameiginlegt að hafa engan áhuga á uppbyggingu á þekkingu og getu innanlands til að greina ógnir og möguleg viðbrögð.
Efnahagslegur ábati yfirskyggði varnarmálin
Í upphafi, í orði kveðnu í það minnsta, var varnarsamningur með viðveru bandarísks herliðs réttlættur vegna þess ótrygga ástands sem ríkti í heiminum á sjötta áratugnum. Þegar fram í sótti varð hins vegar efnahagslegt mikilvægi varnarstöðvarinnar sífellt fyrirferðarmeira. Í fábrotnu efnahagslífi varð herstöðin og þau umsvif sem henni fylgdu fljótt mikilvæg stoð á landsvísu, en sérstaklega á Suðurnesjum þar sem þúsundir byggðu afkomu sína á varnarstöðinni. Varnarstöðin var í reynd eitt stærsta sveitarfélag Suðurnesja og umsvif varnarliðsins áttu ríkan þátt í uppbyggingu almannaþjónustu eins og veituþjónustu, á heitu og köldu vatni og frárennsli – og sorphirðu. Sorpbrennslan á Suðurnesjum er líklega ein síðasta slík framkvæmd sem Bandaríkin tóku verulegan þátt í hvað varðar kostnað.
Strax í upphafi skiptu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur með sér einkarétti á verktöku og annarri þjónustu við varnarliðið. Einkaréttarfyrirtækin gátu sett upp það verð sem þeim þóknaðist án nokkurrar samkeppni og varnarliðið var skuldbundið til að greiða. Ótrúlegt má telja að þetta fyrirkomulag hafi haldið velli allt fram til ársins 2001. Þegar á leið má segja að margir hafi í raun misst sjónar á raunverulegum tilgangi varnarsamstarfsins og farið að líta á það sem mjólkurkú í annars einhæfu efnahagslífi.
Þetta ástand litaði mjög afstöðu íslenskra stjórnmálamanna og þ.a.l. aðkomu stjórnvalda að varnarsamstarfinu. Umræða um öryggis- og varnarmál færðist enn frekar ofan í skotgrafirnar og hindraði nauðsynlega pólitíska umfjöllun og stefnumörkun þar sem byggt væri á mati á ógnum við öryggi – í stað hins efnahagslega ábata.
Brottför varnarliðsins frá Keflavík
Strategískt mikilvægi varnarstöðvarinnar var mest í upphafi. Varnarskuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart ríkjum Evrópu voru á þeim tíma orðin tóm ef ekki var hægt að flytja lið og vopn yfir Atlantshafið með skjótum hætti og millilendingar í Keflavík voru mikilvægar. Um miðjan sjötta áratuginn var t.d. rætt í alvöru um gerð varaflugvallar á Rangárvöllum. En með tilkomu langdrægra eldflauga um 1960 dró strax úr þessu mikilvægi.
Þegar Bandaríkjamenn vildu draga úr umsvifum hér strax árið 1961 og kalla sveit orrustuflugvéla til annarra verkefna lögðust Íslendingar gegn því. Bandaríkjamenn héldu þó áfram að knýja á um brottflutning sveitarinnar fram eftir sjöunda áratugnum en hættu því eftir að íslensk stjórnvöld hótuðu að segja upp varnarsamningnum.
Þegar kalda stríðið harðnaði á ný á níunda áratugnum kom enn að aukinni fjárfestingu og uppbyggingu varnarviðbúnaðar. Þá voru t.d. ratsjárstöðvar reistar á öllum landshornum og tengdar með ljósleiðara (sem vel að merkja hefur nýst íslensku samfélagi gríðarlega vel til tengingar).
Eftir lok kalda stríðsins var það mat Bandaríkjanna að ekki væri þörf fyrir sambærilegan varnarviðbúnað hér á landi og verið hafði fram að því. Áratugagamalt fyrirkomulag úthlutunar allrar þjónustu til pólitískt valinna fyrirtækja var þeim líka þyrnir í augum, enda var þeim ókleift að bjóða út nokkurt verk eða þjónustu á frjálsum markaði. Þeir sóttu því líka fast að Ísland tæki þátt í þeim mikla kostnaði sem fólst í rekstri þessarar stóru herstöðvar.
Og vissulega kallaði varnarþörf ekki lengur á mikinn viðbúnað í Keflavík. Þá hófst lokaþátturinn í þessari löngu sögu, þegar Ísland reyndi með öllum ráðum að halda í starfsemi varnarstöðvarinnar og forða of miklum samdrætti, á sama tíma og Bandaríkin reyndu að draga saman og spara. Orrustuþoturnar 16 urðu fljótt táknmynd togstreitu ríkjanna.
Sterkustu rök Íslands fyrir því að ekki væri hægt að hætta viðveru flugsveitarinnar voru þau að þörf væri á að verja loftrými allra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Að baki lá á hinn bóginn sú staðreynd að færu þoturnar færi þyrlubjörgunarsveitin með fjórum þyrlum einnig. Íslendingar höfðu um áratugi notið gríðarlegs öryggis af þjónustu björgunarþyrlusveitarinnar og lengst af ekki átt neinar þyrlur með sambærilega getu. Þá myndi brottför þotanna og þyrlanna jafnframt þýða að umsvif á Keflavíkurflugvelli drægjust enn frekar saman, enda yrðu þá ekki forsendur fyrir margskonar stoðþjónustu sem þá var til staðar. Bandaríkjamenn töldu hins vegar – með gildum rökum – engin herfræðileg rök fyrir að halda hér úti sveit af orrustuþotum fyrir um 200 milljónir dollara á ári.
Varnarsigur náðist frá íslenskum sjónarhóli árið 1994 þegar kveðið var á um að á Íslandi yrðu á hverjum tíma að lágmarki fjórar orrustuþotur. Talsverð óvissa ríkti samt áfram um framtíð flugsveitarinnar, enda samkomulagið frá 1994 tímabundið.
Eftir árásirnar á tvíburaturnana 2001 breyttist hættumat Bandaríkjanna mjög og varð ljóst að Bandaríkin sjálf voru í meiri þörf fyrir loftvarnir en Ísland. Afstaða Íslands var hins vegar óbreytt, en rök fyrir henni urðu sífellt vandfundnari eftir því sem tíminn leið. Bandaríkjamenn tilkynntu brottför flughersins einhliða árið 2003 en íslensk stjórnvöld lögðu mikla áherslu á að hér yrðu áfram sýnilegar varnir, þ.e. orrustuþotur.
Árið 2004, tveimur árum áður en varnarstöðinni var lokað, fundaði Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra með bæði George Bush Bandaríkjaforseta og Colin Powell utanríkisráðherra. Eftir þá fundi kvaðst Davíð bjartsýnn á að varnarliðið yrði áfram hér á landi. Virtust íslensk stjórnvöld meta það svo að orð Bush forseta dygðu ein og sér. Þau dugðu um stund, en íslensk stjórnvöld vanmátu þá miklu hagsmuni og sterku rök sem voru fyrir því að draga saman í rekstrinum í Keflavík. Flotinn fór með yfirstjórn í Keflavík og var jákvæðari gagnvart Íslendingum en flugherinn, sem taldi meiri þörf fyrir þoturnar annars staðar en á Íslandi. Með áþekkum hætti var bandaríska utanríkisráðuneytið jákvæðara gagnvart Íslendingum en varnarmálaráðuneytið, sem horfði á málin út frá hreinum varnarþörfum.
Í samningaviðræðunum sem í hönd fóru ofmátu íslensk stjórnvöld því samningsstöðu sína og lýstu sig ekki til viðræðu um að mæta kröfum Bandaríkjamanna. Innan bandaríska stjórnkerfisins myndaðist þá samstaða um að eina leiðin væri sú að loka alfarið á Íslandi. Það kom mjög flatt upp á íslenska ráðamenn þegar Bandaríkjamenn tilkynntu einhliða um brottför varnarliðsins árið 2006. Slík var þá óvissan hjá íslenskum stjórnvöldum og sambandsleysið við Bandaríkin að þau voru lengi í óvissu um hvort varnarliðið yrði allt kallað heim. Varð ekki fullljóst fyrr en í lok sumars 2006 að Bandaríkjamenn myndu draga allt liðið frá Íslandi í lok september sama ár.
Leynisamningar – brot á landslögum og stjórnarskrá?
Meðferð stjórnvalda í öllum lýðræðisríkjum á öryggis- og varnarmálum er eðli máls samkvæmt oft sveipuð ákveðinni leynd. Meginstefnan er opinber, en margt er leynilegt og slíkt átti við um viðbúnaðinn hér á Íslandi – varnarsamninginn og varnarsamstarfið. Ein ástæðan var áreiðanlega ágreiningurinn um samstarfið og sú tilfinning stuðningsflokka þess að öðrum væri ekki treystandi fyrir upplýsingum. Þetta er t.d. talin ein skýring þess að utanríkisráðherra, sem er í reynd varnarmálaráðherra Íslands, hefur aldrei verið úr andstöðuflokki eins og VG eða forvera þess Alþýðubandalaginu.
Þegar varnarsamningurinn var kynntur árið 1951 var gengið óformlega úr skugga um að formlegur þingmeirihluti væri fyrir samþykki á Alþingi. Samningurinn var undirritaður með leynd og þjóðinni tilkynnt um það sama dag og fyrstu varnarliðsmennirnir lentu á Keflavíkurflugvelli tveimur dögum síðar. Síðar kom í ljós að á bak við hinn frekar einfalda og skýra samning, þar sem fullt jafnræði var með ríkjunum, voru gerðir leynisamningar sem færðu Bandaríkjamönnum ríkari heimildir en þær sem tilteknar voru í samningnum.
Því hefur verið haldið fram að viðaukarnir hafi gengið gegn 21. grein stjórnarskrárinnar og íslenskum lögum. Einnig má rökstyðja að þeir hafi rýrt samningsstöðu Íslendinga þegar endursemja þurfti vegna brottfarar Varnarliðsins árið 2006. Með leyniviðaukunum sömdu íslensk stjórnvöld til dæmis um heimildir Bandaríkjamanna til að taka yfir stjórn almennrar flugstarfsemi, um að Íslendingar myndu ekki nýta sér forrétt til lögsögu nema í sérstökum tilvikum og að Bandaríkjamönnum væri ekki skylt að skilja við varnarsvæðin í sama ástandi og þeir tóku við þeim.
Það er athyglisvert að samkomulag um viðauka við varnarsamninginn sem gert var við Bandaríkjamenn árið 2006 vekur líka spurningar um samrýmanleika við íslensk lög og stjórnarskrá. Má þar nefna ákvæði um takmörkun á refsilögsögu íslenska ríkisins auk þess sem Bandaríkjamönnum er veitt vald til að taka yfir stjórn borgaralegrar flugstarfsemi þegar hernaðarlegar aðstæður krefjast þess. Er mat á því hvenær slíkt sé fyrir hendi alfarið Bandaríkjamanna, þrátt fyrir að um samning milli tveggja fullvalda ríkja sé að ræða.
Óljós markmið Íslendinga hafa skaðað varnarsamstarfið
Sú stefnulausa og óskýra afstaða Íslendinga til varnarsamstarfsins við Bandaríkin, sem fyrr var vikið að, hefur verið óheppileg. Ekki vegna þess að Íslendingar geti ekki komið sér saman um að hafa hér herlið og taka þátt í varnarbandalagi byggt á hervörnum – þar eru ólík sjónarmið fullkomlega eðlileg. Vandamálið er að þær forsendur sem afstaðan byggir á eru oftar enn ekki eitthvað annað en hugmyndafræðileg sjónarmið eða faglegur öryggisfræðilegur grunnur. Vegna þessa ástands töldu t.d. eindregnir stuðningsmenn varnarsamstarfsins sig í raun hafa einkarétt á umfjöllun og meðhöndlun málaflokksins – „óábyrgir“ vinstrimenn væru í raun ekki hæfir til þess. Hinir „óábyrgu“ vinstrimenn skiluðu svo lengst af auðu í efnislegri umræðu um varnarþarfir og öryggismál og hlógu umræður um slíkt út af borðinu.
Bandaríkjamenn hafa jafnan litið á Íslendinga sem tryggan bandamann en Íslendingar komu á stundum fram sem fordekrað ungmenni sem hefur búið of lengi í góðu yfirlæti í foreldrahúsum. Fjöldamörg dæmi eru um að íslensk stjórnvöld hafi spennt bogann til hins ítrasta í samningum við Bandaríkin og lengst af gekk það upp því hagsmunir Bandaríkjanna af tilvist varnarstöðvarinnar voru það miklir. Lengi var því gengið út frá því sem vísu að Bandaríkjamenn myndu taka ákvarðanir til hagsbóta fyrir Íslendinga á grunni einhverskonar sérstaks sambands, sem reyndist á endanum ímyndun. Öll ríki taka ákvarðanir á grundvelli hagsmuna og þar eru Bandaríkin sannarlega engin undantekning.
Allt þetta hefur valdið því að umræða og faglegt mat á öryggisfræðilegum forsendum sat lengi á hakanum. Það kom í veg fyrir að hér byggðist upp grunnur þekkingar fyrir pólitíska stefnumótun í öryggis- og varnarmálum Íslendinga. Með breyttri stöðu í kjölfar brottfarar varnarliðsins 2006 var Íslandi þó nauðugur sá kostur að taka til hendinni í innlendri stefnumörkun varnarmála og gagnvart Atlantshafsbandalaginu.
Strax árið 2007 var á vettvangi NATO samið um reglubundna loftrýmisgæslu. Við Bandaríkin var samið um yfirtöku reksturs Ratsjárstofnunar, samþykkt sérstök Varnarmálalög og með þeim sett á laggirnar sérstök Varnarmálastofnun. Hugmyndin að baki stofnun hennar var einmitt að gera umsýslu öryggis- og varnarmála faglegri og forða þeim frá því að verða pólitískt bitbein. Stofnunin varð þó skammlíf og var lögð niður í pólitískum hrossakaupum vinstri stjórnarinnar eftir bankahrunið að kröfu Vinstri grænna. Þar birtist enn sú afstaða íslenskra herstöðvaandstæðinga að líta niður á efnislega umræðu og faglega stefnumörkun á sviði öryggis- og varnarmála. Varnarmálastofnun var því í reynd fórnað fyrir stuðning VG við aðildarumsókn að ESB.
Hér er rétt að taka fram að samþykkt fyrstu þjóðaröryggisstefnunnar fyrir Ísland á Alþingi 2016 hefur haft veruleg áhrif til bóta í hinu pólitíska landslagi og veitt rými til mun faglegri nálgunar á öryggis- og varnarmál. Hvort það rými hefur verið nægilega vel nýtt er annað mál. Þjóðaröryggisstefnan hefur að auki gefið flokki eins og Vinstri grænum ákveðna flóttaleið frá yfirlýstri stefnu um „Ísland úr NATO“. Án þjóðaröryggisstefnunnar er vandséð hvernig VG hefði getað réttlætt að leiða ríkisstjórn sem styður í orði og á borði aðildina að NATO, aukin umsvif þess – og Bandaríkjanna sérstaklega – á Keflavíkurflugvelli.
Þarf að endurskoða varnarsamninginn?
Síðan varnarsamningurinn var undirritaður fyrir 70 árum hafa orðið miklar breytingar í heiminum sem kallað hafa á nýja nálgun í öryggis- og varnarmálum. Nú steðja að ógnir þar sem hefðbundnar hervarnir koma að takmörkuðu gagni, fjölþátta- og samfélagslegar ógnir sem varða umhverfi, efnahag, internet ofl. Að sama skapi er Ísland nú efnað nútímalegt ríki sem er gjörólíkt því unga og vanþróaða sem gekk til samninga við Bandaríkin á sínum tíma. Því kunna margir að spyrja hvort ekki sé kominn tími til að fram fari heildarendurskoðun á varnarsamningnum til að mæta þessum nýja raunveruleika.
Þarna þarf að hafa í huga að samhliða varnarsamningnum er Ísland í NATO og þar hefur mikil þróun átt sér stað í samræmi við áðurnefndar breytingar á öryggismálum. NATO er vissulega undir forystu Bandaríkjamanna, en hefur skýran stofnanalegan ramma – nokkuð sem ætíð er smáríkjum eins og Íslandi í hag. Þar er því rými og eftirspurn eftir rödd hins herlausa Íslands sem kemur nú að NATO samstarfinu með mun virkari hætti en áður þegar nánast alfarið var haldið í höndina á Bandaríkjunum. Auk þess sem ný skref hafa verið tekin í átt til nánara öryggismálasamstarfs Norðurlandanna og nú nýverið með þátttöku í samstarfi með Bretum.
Þegar Bandaríkjamenn lögðu niður starfsemi á Keflavíkurflugvelli árið 2006 var gert samkomulag í átta tölusettum liðum til að treysta sameiginlegar skuldbindingar landanna tveggja varðandi framkvæmd varnarsamningsins frá 1951. Samkomulagið lýtur einnig að fyrirkomulagi vegna varnarmannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi og atriðum sem rúmast innan ramma varnarmálasamstarfs ríkjanna. Samkvæmt svörum frá utanríkisráðuneytinu má almennt segja að útfærsla flestra þessara atriða hafi orðið eins að var stefnt. Þetta samkomulag var síðan uppfært árið 2016 í ljósi þeirra breytinga sem hafa átt sér stað og nefndar hafa verið.
Þó finna megi annmarka á hinum sjötíu ára gamla samningi, við tilurð hans og leyniviðbætur sem kunna að orka tvímælis, verður að hafa eitt í huga: Bandaríkjamenn gerðu varnarsamninginn í krafti laga um stríðsyfirlýsingu við Þýskaland sem gaf Bandaríkjaforseta mjög rúmar heimildir þingsins til þess sem þurfa þótti – þar á meðal til þess konar samnings við Ísland sem ólíklega fengist frá Bandaríkjaþingi í dag. Í hinum gamla samningi, með nauðsynlegum uppfærslum og viðbótum, kann því að felast ávinningur fyrir Ísland til lengri tíma litið.
Aukin viðvera Bandaríkjamanna – hvað getum við lært?
Vegna aukinna umsvifa Rússa á hafsvæðum norður og austur af Íslandi, m.a. aukinnar umferðar kafbáta, hafa Bandaríkjamenn talið ástæðu til að efla starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Þeir tóku nýverið í notkun nýja gerð kafbátaleitarvéla og hefur aðstaða á öryggissvæðinu sem þar var haldið eftir verið uppfærð til að þær geti athafnað sig. Undandanfarið hefur starfsemi Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli því aukist umtalsvert og má segja að þeir hafi þar í reynd nánast orðið fasta viðveru.
Hvort þar verði aukning á er ekki hægt að segja með vissu. Hins vegar er mikilvægt að Íslendingar læri af þeim mistökum sem gerð voru í samskiptum við Bandaríkjamenn eins og rakið hefur verið hér að framan. Ef þar hefði verið byggt á raunsæju innlendu áhættumati og einblínt á það sem máli skipti hefðu Íslendingar tryggt öryggishagsmuni sína mun betur. Með óraunhæfum kröfum máluðu Íslendingar sig út í horn og gáfu Bandaríkjamönnum, sem höfðu litlar áhyggjur af öryggi á N-Atlantshafi þá stundina, í raun kost á að láta sig hverfa á eigin forsendum án tillits til langtímahagsmuna Íslands.
Sá lærdómur sem draga má af sögunni er hversu mikilvægt er að treysta og efla hinn faglega grunn undir stefnumörkun í öryggis- og varnarmálum og koma fram í tvíhliða samstarfi af heilindum og setja fram afstöðu á efnislegum og faglegum forsendum. Hvað sem öðru líður er áframhaldandi verkefni stjórnvalda að vinna að uppbyggingu faglegrar þekkingar og umsýslu öryggis- og varnarmála innan íslenskrar stjórnsýslu. Þrátt fyrir að breytingar á framkvæmd þeirra í kjölfar hrunsins hafi byggt, eins og áður segir, á pólitískum hrossakaupum hefur hún virst nokkuð stöðug og farsæl með pólitíska ábyrgð í utanríkisráðuneytinu og framkvæmdina fyrst og fremst hjá Landhelgisgæslunni.
Það fyrirkomulag er þó ekki óumdeilt, eða endilega heppilegt, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, komst að orði í ræðu sinni 17. janúar 2008 er hún mælti fyrir nýjum varnarmálalögum á Alþingi:
„Af virðingu fyrir réttaröryggi borgaranna ber ekki að blanda saman borgaralegum verkefnum og störfum að landvörnum og er það sjónarmið viðurkennt hvarvetna í okkar heimshluta og þeim stjórnvöldum sem fara með löggæslu og innanríkismálefni eru ekki falin verkefni er lúta að gæslu ytra öryggis ríkja. Með skýrum aðskilnaði er lýðræðislegt eftirlit með þessari starfsemi auðveldað og nauðsynlegt gagnsæi tryggt í framkvæmd varnartengdra verkefna.“
Með þetta í huga má halda upp á 70 ára afmæli varnarsamningsins og að mestu farsælt varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna.