Frægastur danskra leikara

Hann fæddist í Kaupmannahöfn, lærði ballett og var atvinnudansari í 10 ár. Þrítugur að aldri lauk hann leikaranámi og er í dag frægastur allra danskra leikara. Heitir Mads Mikkelsen. Gleymska hafði einu sinni næstum orðið honum dýrkeypt.

Mads Mikkelsen Mynd: EPA
Auglýsing

Upp úr 10. nóvember árið 1965 átti Bente Christiansen von á sér. Hún bjó í Kaupmannahöfn, ásamt manni sínum Henning Mikkelsen og ársgömlum syni þeirra hjóna, Lars. Barnið sem Bente bar undir belti var ekkert að flýta sér í heiminn og það var ekki fyrr en 22. nóvember sem til tíðinda dró. Þá skaust hann í heiminn drengurinn sem síðar fékk nafnið Mads.

Þau Bente og Henning bjuggu á Norðurbrú og þar var yfirgnæfandi meirihluti íbúanna á þeim tíma láglaunafólk. Bente var sjúkraliði og vann á sjúkrahúsi og Henning var bankastarfsmaður sem drýgði tekjurnar með því að aka leigubíl og varð síðar deildarstjóri í banka. Hann lék sömuleiðis smáhlutverk í nokkrum kvikmyndum.

Auglýsing
Synirnir hafa síðar lýst foreldrunum sem dæmigerðu launafólki sem hafði í sig og á en ekki mikið umfram það framan af ævinni. Bræðurnir voru þeir einu í sínum bekkjarárgöngum sem fóru í nám, eftir að skólaskyldunni lauk. Þeir hafa báðir í viðtölum nefnt að foreldrarnir hafi sagt að þeir yrðu vonandi „almennilegar manneskjur“ en ekki lagt lífsreglurnar að öðru leyti. „Pabbi hafði gaman af leiklist, las oft fyrir okkur og kannski kveikti það einhvern neista,“ sagði Mads einhverju sinni í viðtali.

Lars

Lars Mikkelsen, eldri bróðir Mads. Mynd: EPA

Að loknu grunnskólaprófi fór Lars, eldri bróðirinn, í herinn og lauk stúdentsprófi að lokinni herskyldu. Hóf þá nám í líffræði en vann fyrir sér sem götulistamaður og látbragðsleikari. Hann varð afhuga líffræðinni en 27 ára gamall komst hann inn í Konunglega leiklistarskólann og útskrifaðist þaðan 31 árs, árið 1995. Lars er í hópi þekktustu leikara Dana. Hann hefur leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþáttaraða og hlotið fjölmargar viðurkenningar, meðal annars Emmy-verðlaun. Hann hefur sömuleiðis alltaf leikið talsvert á sviði og hlutverkin þar orðin rúmlega 40. „Þótt ég hafi á síðari árum einkum leikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum lít ég frekar á mig sem sviðsleikara.“

Mads

Þótt þeir bræður, Lars og Mads, feti nú sömu brautina var upphafið mjög ólíkt. Mads var frá unga aldri mjög áhugasamur um leikfimi og ætlaði sér að verða frjálsíþróttamaður. Ballettinn heillaði hann hinsvegar og hann þreytti inntökupróf við Ballettskólann í Gautaborg í Svíþjóð. Eftir að náminu þar lauk starfaði hann sem dansari um næstum 10 ára skeið, tók líka, á þessum árum, þátt í nokkrum söngleikjum. Árið 1992, þá orðinn 27 ára, ákvað Mads að snúa baki við ballettinum og læra til leikara, eins og það var iðulega kallað.

Pusher

Mads Mikkelsen  í kvikmyndinni Pusher.

Mads Mikkelsen lauk leikaranáminu árið 1996. „Þegar ég hafði nýlokið náminu bauð Nicolas Winding Refn mér hlutverk í kvikmyndinni Pusher (dílerinn, fíkniefnasalinn) sem hann var að undirbúa. Ég var miklu eldri en skólasystkin mín og bjóst ekki við að atvinnutilboðin kæmu í stríðum straumum, þannig að ég sló til. Leist líka vel á handritið, fjármagnið sem Nicolas hafði til umráða var mjög takmarkað, en ég hafði ekki áhyggjur af því.“

Þannig lýsir Mads Mikkelsen upphafi leikaraferilsins.

Þótt Pusher, sem gerist í undirheimum Kaupmannahafnar, hafi verið gerð fyrir lítið fé varð myndin mjög vinsæl og síðar gerði Nicolas Winding Refn tvær myndir til viðbótar, þær heita einfaldlega Pusher II og Pusher III. Mads Mikkelsen lék í tveimur fyrstu myndunum en ekki í þeirri þriðju.

Áhyggjur Mads Mikkelsen yfir takmörkuðum atvinnumöguleikum eftir að námi lauk reyndust áhyggjulausar. Pusher ruddi brautina og myndin varð líka stökkpallur leikstjórans Nicolas Winding Refn.

Tilboðin streymdu inn

Velgengni Pusher, og tilboðin sem fylgdu í kjölfarið og enn er ekki lát á, varð til þess að Mads Mikkelsen hefur nær eingöngu leikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum síðan hann lauk námi. Í viðtölum hefur hann sagt að sum þessara hlutverka hafi verið lítil, en fyrir mann sem er að hasla sér völl skipti það ekki máli. „Ef maður kann sitt koma stærri og veigameiri hlutverk með tímanum.“ Í pistli sem þessum er engin leið að telja upp öll þau hlutverk sem Mads Mikkelsen hefur leikið á ferlinum „sem byrjaði svo seint“ eins og hann sjálfur orðar það.

Blinkende lygter og Rejseholdet

Mads Mikkelsen í Blinkende Lygter.

Árið 2000 var kvikmyndin Blinkende lygter frumsýnd. Höfundur handrits og leikstjóri var Anders Thomas Jensen en hann er einn afkastamesti handritshöfundur í sögu danskra kvikmynda. Blinkende lygter, sem fjallar í gamansömum tón um fjóra smáglæpamenn, er ein vinsælasta kvikmynd sem gerð hefur verið í Danmörku. Þarna var Mads Mikkelsen í góðum félagsskap en aðrir helstu leikarar voru Søren Pilmark, Ulrich Thomsen, Iben Hjejle, Nikolai Lie Kaas og Sofie Gråbøl. Allt leikarar sem mikið hafa látið að sér kveða, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, og eru enn í fullu fjöri.

Á árunum 2000-2004 sýndi danska sjónvarpið, DR1, samtals 32 þætti um rannsóknardeild lögreglunnar. Þættirnir sem heita Rejseholdet nutu frá upphafi mikilla vinsælda og hafa margoft verið endursýndir í danska sjónvarpinu og þeir hafa líka notið vinsælda langt út fyrir danska landsteina. Þarna var valinn maður í hverju rúmi, auk Mads Mikkelsen margir leikarar sem hafa allar götur síðan verið áberandi í dönskum kvikmyndum, og sjónvarpsþáttum.

Casino Royale og nú Indiana Jones

Mads Mikkelsen sem skúrkurinn í Casino Royale.

Þótt Mads Mikkelsen hafi verið orðinn þekktur leikari í heimalandinu var það fyrst árið 2005 sem hann vakti fyrir alvöru athygli erlendra kvikmyndaleikstjóra. Þá var honum boðið lítið hlutverk í James Bond kvikmyndinni Casino Royale. Síðan hafa tilboðin streymt til hans. Í nóvember var tilkynnt að Mads Mikkelsen taki við hlutverki skúrksins Gellert Grindelwald í kvikmyndinni Fantastic Beasts 3, eftir að framleiðandinn rak Johnny Depp. Myndin er, eins og nafnið gefur til kynna, sú þriðja í röðinni en myndirnar eru byggðar á handriti J.K. Rowling, höfund bókanna um Harry Potter. Mads Mikkelsen hefur þó ekki gleymt upprunanum og leikið í fjölmörgum dönskum myndum, síðast aðalhlutverkið í kvikmyndinni Druk. Sú mynd fékk nýverið Óskarsverðlaunin sem besta erlenda myndin.

Nýjasta rósin í hnappagat Mads Mikkelsen er sú frétt að hann muni leika stórt hlutverk í nýrri Indiana Jones kvikmynd (þeirri fimmtu) en tökur á henni eiga að hefjast í sumar. Áætlaður frumsýningardagur er 22. júlí 2022.

Með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir frægðina

Danskir kvikmyndasérfræðingar eru á einu máli um að Mads Mikkelsen sé nú þekktasti leikari Dana. Í næstu tröppu fyrir neðan eru þeir Nikolaj Coster- Waldeau og Jesper Christensen sem báðir hafa gert það gott í fjölmörgum kvikmyndum.

Mads Mikkelsen. Mynd: EPA

Sérfræðingarnir segja að fyrir utan það að vera leikari í fremstu röð hafi Mads Mikkelsen orð á sér fyrir að vera auðveldur í samstarfi og laus við alla stjörnustæla. Það skipti alltaf miklu máli, líka í Hollywood.

Í viðtali við danska sjónvarpið fyrir nokkrum dögum sagðist Mads Mikkelsen vera þakklátur fyrir velgengni sína. „Ég hef verið mjög heppinn, fengið mörg tækifæri sem ég hef reynt að nýta. Ég hlakka mjög til að taka þátt í Indiana Jones myndinni, en segi ekki meira um það.“

Var heppinn að klúðra ekki öllu

Í viðtali, fyrir nokkrum dögum, við bandaríska tímaritið Vulture sagði Mads Mikkelsen frá því að minnstu hefði munað að hann hefði klúðrað hugsanlegum frama sínum, að minnsta kosti í erlendum kvikmyndum. Hann var þá í flugvél á leiðinni til Bandaríkjanna til að fara í prufu vegna Casino Royale. Hann var með handritið með sér og lagði það frá sér í sætið við hliðina.

Þegar hann fór frá borði gleymdi hann handritinu en uppgötvaði það ekki fyrr en hann var kominn út úr flugvélinni. Hann fékk ekki að fara aftur um borð. Í ljós kom að hreingerningafólk, sem rauk um borð um leið og farþegarnir voru farnir út, hafði hent handritinu í ruslið. „Ef einhver hefði áttað sig á hvað þetta var og komið því í fjölmiðla hefði tvennt gerst. Ég hefði getað gleymt því að fá hlutverk í erlendum kvikmyndum og sömuleiðis hefði verið búið að ljóstra öllu upp um söguþráðinn. Ég hef passað mig á að láta þetta ekki gerast aftur.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúninu
Arion hagnast um 6 milljarða á þremur mánuðum
Þrátt fyrir lága vexti og efnahagssamdrátt var hagnaður Arion banka á fyrsta fjórðungi þessa árs mun meiri en á sama tímabili í fyrra.
Kjarninn 5. maí 2021
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
„Þeirra er ævintýralega ósanngjarna lýðræðið sem við búum við“
Björn Leví segir að skipting sæta milli þingflokka sé mjög ójöfn. Auðveldasta lausnin til að leysa vandamálið sé að fjölga jöfnunarsætum – það sé ekki flókið né ósanngjarnt.
Kjarninn 5. maí 2021
Samkvæmt því sem segir í nafnlausum skoðanadálki Morgunblaðsins í dag „gæti orðið bið á því“ að blaðið sendi fulltrúa sinn á fund félaga í BÍ til þess að ræða umdeilda skoðanaauglýsingu Samherja sem beindist gegn fréttamanninum Helga Seljan.
Morgunblaðsmenn ekki spenntir fyrir því að ræða auglýsingu Samherja við félagsmenn BÍ
Í ritstjórnardálki í Morgunblaðinu segir að það „gæti orðið bið á því“ að yfirmenn blaðsins þekkist boð um að mæta á fund félaga í Blaðamannafélaginu til að ræða siðferðileg álitaefni í tengslum við birtingu umdeildrar auglýsingar frá Samherja á mbl.is.
Kjarninn 5. maí 2021
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Umræða um málefni innflytjenda gengur fram af þingmanni – Skömm að tala málið niður
Þingmaður Vinstri grænni segir að Íslendingar eigi að sýna þann þroska að geta sinnt útlendingamálum með almennilegum hætti og gera það sem best – „við sem rík þjóð“. Umræða Miðflokksmanna hafi gengið fram af henni í gær.
Kjarninn 5. maí 2021
Þriðjungur fyrstu ferðagjafarinnar fór til tíu fyrirtækja
Nú stendur til að endurnýja ferðagjöf stjórnvalda til að örva eftirspurn innanlands. Rúmur helmingur þeirra sem áttu rétt fyrstu ferðagjöfinni hafa nýtt hana. Á meðal þeirra sem fengu mest í sinn hlut voru eldsneytissalar og skyndibitakeðjur.
Kjarninn 5. maí 2021
Hluti þingliðs Miðflokksins á björtum og fallegum sumardegi fyrr á kjörtímabilinu.
Stillt upp á lista hjá Miðflokknum í öllum kjördæmum
Fimm manna uppstillingarnefndir munu setja saman framboðslista Miðflokksins í öllum kjördæmum landsins fyrir komandi kosningar, en ekki kosið í sæti á lista á félagsfundum. Fylgi flokksins hefur verið í nokkurri lægð að undanförnu.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar